Beint í efni

Því dæmist rétt vera

Því dæmist rétt vera
Höfundur
Einar Már Guðmundsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Því dæmist rétt vera er saga um glæp og refsingu í litlu sjávarþorpi fyrir tvö hundruð árum. En það skyldi þó ekki vera að sá hjari veraldar sé í raun réttri nafli alheimsins?

Í Tangavík ríða hættulegar hugmyndir húsum, hugmyndir um réttlæti og jöfnuð. Á laun ráðgera menn að losa hina ríku við auðinn sem íþyngir þeim en þegar látið er til skarar skríða er yfirvöldum ekki skemmt. Glæpir ógna gildum samfélagsins og mikið liggur við að bæla niður mótþróa og uppreisnarhug; finna hina seku, dæma hart og refsa grimmilega.

Hér eru þræðir úr seinustu sögu Einars, Skáldlegri afbrotafræði, spunnir áfram í ýmsar áttir, skáldskapur og sagnfræði togast á um satt og logið, rétt og rangt.

Úr bókinni

Ef þetta væri bíómynd væru upphafstitlarnir löngu komnir eða þeir kæmu kannski hér, en svo er ekki því að hér er ekkert upphaf og enginn endir, enda vitum við allt sem gerðist, þekkjum alla glæpina og allar refsingarnar. Upphafstitlarnir gætu því verið komnir og farnir eða bara á leiðinni.
   En málið er ekki bara hvað gerðist heldur hvernig og hvers vegna, því að auðvitað er upphaf og auðvitað er endir en sumar sögur eru endalausar og alltaf að gerast með einum eða öðrum hætti, eins og síendurtekið stef úr ævagömlum sögum.
   Það vissu til dæmis allir að Sigrúnu Karlsdóttur, henni Siggu sægarpi, fylgdi draugur og ekki bara henni heldur allri fjölskyldu hennar, Friðriki bróður hennar, sem var dáinn, og systur hennar sem lét lítið fyrir sér fara.
   Systirin hét Ragnhildur og læddist með veggjum, öfugt við Siggu sægarp, enda kom þeim systrum ekkert sérstaklega vel saman. Ragnhildur átti son sem síðar giftist konu ránsmannsins Steinars Jónssonar, Kristrúnu Ástu Haraldsdóttur, seinni konunni hans, en hann þurfti að gefa skriflegt leyfi til þess úr fangelsinu.
   Steinar veitti leyfið góðfúslega. Þá reiknaði hann ekki með að því að sleppa þaðan, úr fangelsinu, sjálfu Stokkhúsinu, en þegar hann slapp þaðan var Kristrún dáin.
   Draugurinn var drengur, hann hét Eiríkur Traustason. Karl Einarsson, faðir Sigrúnar, vísaði honum á brott þegar hann leitaði skjóls undan kulda og vosbúð, og hlaut Karl því nafnið Drauga-Karl, og leit varla glaðan dag eftir það. Svo þungt lagðist þetta allt á huga hans.
   Eiríkur Traustason varð aftur á móti einn þekktasti draugur landsins, alveg landsfrægur, að minnsta kosti sunnanlands, en það nægði Tangvíkingum. Allt sem gerðist sunnanlands, það gerðist á landinu, það gerðist í heiminum, og það var heimurinn.
   Menn þurftu ekki að vita neitt annað. Menn eignuðu sér flottustu bókmenntirnar, frjósömustu jarðirnar og villtustu sjávarplássin, stærstu bátana, fínustu skipin, bestu búðirnar, fegurstu konurnar, duglegustu mennina og auðvitað afbrotamenn í sérflokki.
   Lengi var talið að Tangavík yrði höfuðborg landsins, og því voru Tangvíkingar afar móðgaðir út í Reykjavík og enn finnst fólk í Tangavík sem lítur svo á að Reykjavík sé ekki höfuðborg landsins.
   Þetta gerðist á tímum elda og öskufalls og Eiríkur Traustason var á flótta undan Skaptáreldum, búinn að missa foreldra sína, einn og umkomulaus í heiminum, einsog svo margir aðrir.
   Við höfum áður gert grein fyrir þeim málum en Eiríkur fannst dauður í fjörunni, í Víkurósnum, og gekk aftur og ofsótti meðlimi fjölskyldunnar hennar Siggu sægarps í nokkra ættliði, sumir sögðu sjö ættliði, aðrir í níu. Í Víkurósnum hafði faðir Júlíu Knudsen, mömmu Knudsenbræðra, glímt við franska drauginn en þar voru margir draugar og í Tangavík var talað um þá einsog hverja aðra íbúa á staðnum.
   Eiríkur Traustason var að minnsta kosti enn á sveimi tvöhundruð árum síðar en þá öllu meinlausari en í upphafi og þá voru flestir búnir að gleyma hvað hann hét í raunveruleikanum, í sínu lifanda lífi, en búið að gefa honum alls kyns drauganöfn einsog Víkurósmóri eða bara Móri.

(s. 27-29)

Fleira eftir sama höfund

Beatles-manifesti

Lesa meira

Fútúrisminn : bylting í listum og svo öfugt

Lesa meira

Hundakexið

Lesa meira

Draumar á jörðu

Lesa meira

Drømme på jorden

Lesa meira

Fotspår på himlen

Lesa meira

Fótspor á himnum

Lesa meira

Fótspor á himnum

Lesa meira

Frankensteins kup

Lesa meira