Um bókina
Kona er myrt á heimili sínu og á skrifborði í íbúðinni finnst miði með símanúmeri Konráðs, fyrrverandi lögreglumanns.
Þegar málið er kannað kemur í ljós að nokkru áður hafði konan sett sig í samband við hann og beðið hann að finna fyrir sig barnið sem hún fæddi fyrir næstum hálfri öld og lét strax frá sér. Nú er Konráð miður sín yfir að hafa neitað bón hennar og einsetur sér að bæta fyrir það.
Tregasteinn er óvægin saga um skömm og örvæntingu, ákafa eftirsjá og langvarandi bergmál illra verka.
Arnaldur Indriðason hefur lengi verið helsti glæpasagnahöfundur landsins og skáldsögur hans eru orðnar tuttugu og þrjár talsins. Þær hafa verið þýddar á um fjörutíu tungumál og selst í yfir fjórtán milljónum eintaka.
Úr Tregasteini
Konráð horfði í kringum sig á gamla skemmtistaðnum og brátt tóku minningarnar að raðast upp ein af annarri. Hann mundi eftir hráslagalegu umhverfinu utan við staðinn á bak við Fríkirkjuna og endalausum biðröðum í vitlausum veðrum og pollum á planinu við innganginn. Túberuðu hári stífu eins og kandíflossi og hræðilega stuttum pilsum sem komu beint frá tískustrætunum í London. Hvítum háhæluðum stígvélum sem náðu upp á hné. Hann mundi eftir misjafnlega hreinu hári sem náði niður á herðar og skeggi af öllum stærðum og gerðum, eins og frjálsar ástir byrjuðu allar í skegginu. Hann mundi eftir ölvuninni. Flaskan gekk á milli í röðinni og það var sungið, stundum á fallegu sumarkvöldi, stundum í brunagaddi vetrarins þegar planið breyttist í skautasvell og snjórinn safnaðist utan á fötin. Það átti vel við staðinn sem var gamalt íshús í götu sem lá upp frá Tjörninni, þangað sem ísklumparnir voru sóttir. Því hafði á endanum verið breytt í vinsælasta skemmtistað landsins sem var kallaður Glaumbær.
Markmiðið var að drekka eins mikið og hægt var áður en farið var inn vegna þess að áfengið kostaði sitt innandyra. Skynsamlegustu kaupin á barnum fyrir lokun voru síðan nokkrir grænir Chartreuse sem tryggðu mest alkahólmagn fyrir minnstan pening. Konráð mundi eftir næstum óbærilegu hitakófinu þegar inn var komið og það leið aldrei á löngu áður en maður rakst á kunnuglegt andlit. Fólk var á stöðugri hreyfingu með dynjandi tónlistina í eyrum sér á milli hæðanna og milli salanna og milli baranna. Staðurinn var á þremur hæðum og þrískiptur og hverjum hluta skipt upp í litla sali og herbergi með endalausum gangvegum á milli. Í salnum niðri var dansgólfið og þar spilaði vinsælasta hljómsveit landsins hverju sinni. Á efstu hæðinni var salur fyrir diskótek og þar kviknaði eldurinn sem brenndi Glaumbæ til kaldra kola skömmu fyrir jól árið 1971. Staðurinn var aldrei opnaður aftur og þar með hvarf, hraðar en auga á festi, skemmtanamiðstöð hippakynslóðarinnar í landinu. Ballið var búið.
(91-92)