Beint í efni

Týndur

Týndur
Höfundur
Ragnheiður Gestsdóttir
Útgefandi
Björt
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Lögreglan í Reykjavík lýsir eftir Einari Starra Ólafssyni, sjö ára. Einar Starri er 125 sentimetrar á hæð, grannvaxinn, bláeygur, með stuttklippt, dökkskollitað hár. Hann er klæddur í bláa úlpu, gráar buxur og svört gúmmístígvél. Hans hefur verið saknað síðan um klukkan fjögur í gær þegar hann fór frá Dragaskóla og gekk heim á leið, til austurs eftir Norðurdragi. Þau sem gætu hafa orðið hans vör eru beðin um að hafa samband við lögregluna. Hvernig getur sjö ára barn horfið sporlaust á leiðinni heim úr skóla? Einhver hlýtur að vita hvað af honum varð. En hverjir segja satt og hverjir ljúga? Lögreglukonan Hanna María þarf á öllu sínu innsæi og reynslu að halda til að greina þar á milli. Tíminn er naumur, það er komið haust og næturnar orðnar kaldar.

Úr bókinni

  Við stöndum báðar upp til að fara, en þegar Guðrún er búin að taka í hurðarhúninn til að opna snýr hún sér allt í einu að mér. 

  - Það var svolítið skrýtið ... sko, í fyrra, þá söng ég mikið með krökkunum. Mér finnst það svo gaman og það hristir hópinn saman, fyrir nú utan hvað þau læra mikið af nýjum orðum og svona ...

  Ég bíð þolinmóð.

  - Ég var að kenna þeim Guttavísur. Þú veist: Gutti, Gutti, Gutti, Gutti, Gutti komdu heim ...

  Hún sönglar lágt og ég skil af hverju henni finnst gaman að syngja. Röddin er skær og falleg. Ég hlæ aðeins við.

  - Ég man nú aðallega eftir þessu úr ostaauglýsingu!

  - Já, einmitt! - Lagið er svo skemmtilegt, en ég hafði ekki hugsað út í að textinn er kannski ... ja, dálítið gamaldags. Sko, það er talað um að réttast væri að flengja ræfilinn ... maður er kannski ekki að tala mikið um svoleiðis við börn nú til dags!

  Ég kinka kolli. Fæ ofurlitla ónotatilfinningu. 

  - Ég tók eftir því að Einar litli fór að skæla. Og hann gerði það annars aldrei, hann var ekkert að gráta upphátt eða láta yfirleitt mikið í sér heyra. Hann var bara svolítið lítill í sér. Ég spurði hann hvað væri að og hann sagði: það má ekki flengja Gutta. Og tárin bara runnu, sko. Ég sagði við hann að þetta væri bara gömul vísa og enginn ætlaði að meiða neinn. Þetta hefði verið í gamla daga, en ekki núna. Hann virtist ekki alveg skilja, en róaðist samt þegar ég endurtók að enginn ætlaði að flengja Gutta ... Sko, ég býst satt að segja ekki við því að smákrakkar í dag skilji orðið!

  - En þú heldur að hann hafi gert það? Af eigin reynslu, jafnvel?

  - Það hvarflaði að mér, já. En ég hitti mömmu hans nokkrum sinnum og ég gat satt að segja ekki ímyndað mér að hún gæti gert flugu mein. Það gat verið að hann hefði komist í uppnám út af einhverri bók sem hefði verið lesin fyrir hann eða kannski séð mynd í sjónvarpinu eða eitthvað, þau geta lifað sig svo rosalega inn í svoleiðis á þessum aldri ...

  - Takk fyrir þetta, segi ég og kveð. Þegar ég geng út úr skólabyggingunni í átt að bílnum mínum finnst mér að þessi samtöl hafi ýtt mér talsvert áfram í viðleitninni til að skilja betur líf litla drengsins með stóru augun ... en hvort sá skilningu hjálpar okkur eitthvað að finna hann er svo allt annað mál.

Það er skrýtin lykt í bílnum Svona gömul lykt og dálítið skítug. Teppið er heitt og þungt og það er erfitt að anda þegar það er yfir hausnum en núna þarf ég ekki að hafa það alveg yfir mér lengur. Ég ligg í sætinu og þarf ekki að vera með belti eða sitja á sessu. Það er líka skrýtið. Samt er betra að liggja af því að ég sofna alltaf aftur og aftur. Ég sofna ekki bara þegar það er dimmt úti heldur líka stundum þegar það er bjart. Hann talar ekki neitt  við mig en ég heyri að hann talar stundum voða lágt við sjálfan sig. Ég heyri ekkert hvað hann er að segja, það er svo lágt og dimmt næstum því eins og hljóðið í bílnum. Ég er ekkert svangur núna. Maginn minn er alveg fullur eftir að borða samloku og drekka kókómjólk og líka eplasafa. Hann keypti fullt af mat í búðinni, það er stór poki frammí hjá houm. Það er gott að hafa svona mikinn mat af því við verðum lengi í bílnum. Hann sagði það. Mjög lengi.

(s.73-73)

Fleira eftir sama höfund

Fortellerstein

Lesa meira

Ef væri ég söngvari

Lesa meira

Leikur í talvi

Lesa meira

Ekki lengur Lilli

Lesa meira

Valdi og Vaskur

Lesa meira

Leikur á borði

Lesa meira

Gegnum glervegginn

Lesa meira

Myndin í speglinum

Lesa meira

Sværdbæreren (hljóðbók)

Lesa meira