Beint í efni

Undirferli: yfirheyrsla

Undirferli: yfirheyrsla
Höfundur
Oddný Eir Ævarsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Íris er framúrskarandi veirufræðingur sem stundar rannsóknir við Rannsóknarstofuna Surtsey í Vestmannaeyjum. Þar rannsakar hún áhrif umhverfis á óþekkta veiru sem fannst í hinni ungu og óbyggðu Surtsey.

Þegar Smári, æskuvinur hennar og æskuást, er ráðinn aðstoðarmaður hennar á tilraunastofunni verður yfirmaðurinn Aron, fyrrverandi eiginmaður Írisar, órólegur og loft verður læviblandið. Smári hefur í fórum sínum óvenjulegt mælitæki, eins konar lygamæli, sem hann er að þróa til þess að mæla heilindi og manngildi.

Hann fær að gera tilraunir með tækið á tilraunastofunni og þegar veiran hættir að bæra á sér af óútskýranlegum ástæðum, kvikna hugmyndir um að tæki Smára sé um að kenna.

Úr Undirferli

11. Yfirgangur

#SMÁRI:

Það er stundum sagt að einstaklingar sem sýna ítrekaðan yfirgang séu sjarmerandi á yfirborðinu. Ég hef aldrei skilið þann frasa. Hvað er yfirborðslegur sjarmi? Er ekki sjarmi eitthvað sem hrífur mann? Skjátlast manni um það sem raunverulega hrífur? Já, stórt er spurt á Lögreglustöðinni í Eyjum. En þið viljið ekki svara því eða hvað?

Ég held kannski að við getum ruglað saman okkar eigin hrifningu og þrá hins eftir hrifningu. Sá yfirgangssami þráir svo heitt þessa hrifningu að hann verður oft aðlaðandi í öfgafullum tilraunum sínum. Hann veit ekki að hrifningin hlýst af snertingu, þegar ein þrá hittir aðra. Hann er iðulega farinn framhjá stað snertingarinnar, hann er farinn yfir mörkin og inn fyrir möguleikann á gagnkvæmri snertingu. Hann getur yfirhöfuð ekki skilið gagnkvæm tengsl, hann getur ekki hugsað um sjálfan sig á sama tíma og hann hugsar um aðra. Hann hugsar bara annað hvort um sig eða um aðra en vantar tilfinninguna fyrir tengingu. Líklega er það vegna þess að hann hefur sjálfur ekki upplifað eiginleg tengsl. Það hefur verið farið yfir mörk hans og hann hefur lært að til þess að nálgast aðra eða fá eitthvað út úr öðrum þurfi hann að sækja það með góðu eða illu og vaða yfir mörkin ef þess þarf.

Mér virðist að fyrir þessum manni sé það upp á líf og dauða að ná að fylla upp í tómið. Ef hann fellur ítrekað á prófinu gefst hann gjarnan upp, nennir ekki að reyna að læra. Hann styttir sér leið. I þeirri trú að hann ætli bara að gera það einu sinni enn, rétt á meðan hann nær að tengjast og svo ætli hann að halda áfram að læra að tengjast á heiðarlegan og varanlegan hátt. Stysta leiðin er að blekkja aðra. Að þykjast vera heill og hrífandi. Hylja sköddun sína. Og þeir sem lenda í samskiptunum láta yfirleitt blekkjast, því þessi þrá eftir tengingu er svo örvæntingarfull og kraftmikil. Já, blekkingarsjónarspílið er jafnvel sorglega glæsilegt og fallegt. Maður getur ruglað saman hrífandi einstaklingi og þeim sem þráir að hrífa en er í sjálfu sér ekki hrífandi. Hefur þetta einhverja merkingu fyrir þér sem löggæsluaðila?

Ha? Er komið hádegi?

(41-2)

 

 

Fleira eftir sama höfund

Opnun kryppunnar

Lesa meira

Heim til míns hjarta: ilmskýrsla um árstíð á hæli

Lesa meira

Fæðingarborgin: bréfabók

Lesa meira

Álfrún. Milli alda

Lesa meira

Jarðnáðir

Lesa meira

Tierra de amor y ruinas

Lesa meira

Virsmas: ornitologams ir archeologams

Lesa meira

Land van liefde en ruïnes

Lesa meira

Prostori

Lesa meira