Beint í efni

Váboðar

Váboðar
Höfundur
Ófeigur Sigurðsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Smásögur

Um bókina

Váboðar eftir Ófeig Sigurðsson er safn ná- og fjarskyldra sagna af draumum og fyrirboðum, sérhæfðum rannsóknum og stórhuga áformum, öpum og máfum, skáldum og vísindamönnum, bókum og hnífum, dyntóttu landi og ráðvilltri þjóð. Þetta eru sögur þar sem misjafnlega venjulegt fólk glímir af veikum mætti við aðsteðjandi ógnir og óttann undir niðri.

Úr bókinni

Nokkrir einkennilegir draumar

II

Sólrún hét lítil stúlka í Hamrahverfinu í Grafarvogi sem var á leiðinni í skólann. Á gangbraut við skólalóðina ók bíll yfir hana svo hún lést, þó ekki samstundis, eins og þykir betra, heldur hálsbrotnaði hún og drukknaði í blóði sínu á meðan beðið var eftir sjúkrabíl.
   Vinkona Sólrúnar, Vigdís, sem bjó í sömu götu, vel gefin og skýr stúlka, var henni oft samferða í skólann og saknaði hennar mikið. Nokkru síðar dreymdi Vigdísi draum og sagði móður sinni frá honum. Hún þóttist stödd ásamt öðrum krökkum inni í herbergi að leika sér með Bratz sem voru í skemmtiferð á leið til lýtalæknis að láta stækka í sér augun. Sólrún hrindi dyrabjöllunni og fór Vigdís til dyra. En þegar Vigdís ætlaði að bjóða henni inni til þess að koma að leika sagðist Sólrún ekki mega vera að því, hún væri á leiðinni til hans Dóra til að sitja í bílnum með honum norður.
   Steindór Vilhelmsson vörubílsstjóri var nágranni þeirra vinkvenna og hélt þeim stundum hjá sér nauðugum um helgar. Nú hefur verið staðfest af lögreglunni að Vigdísi dreymdi þennan draum sömu nótt og Steindór ók fram af brú í morgunsólinni norður í Borgarfirði og endastakkst ofan í Norðurá. Þar fórst Steindór og varð engum harmdauði.
   Þetta sagði mér móðir Vigdísar, sannferðug og heiðarleg kona í Grafarvoginum.

IV

Í viðtölum mínum við berdreymið fólk kemur fram að algengt er að dreymt sé fyrir daglátum, það er um viðburði sem eru á næsta leiti, eitthvað sem gerist daginn eftir eða þá á næstu dögum. Oftsinnis eru þetta fyrirboðar, fylgjur komandi gesta, stundum viðvaranir um slys eða dauða. Stundum allsendis meinlaust, jafnvel eitthvað gott. Öðru hverju hendir það að mér er sagt frá draumum sem vísa svo langt sem 50 ár fram í tímann.
   Árið 2012 dreymdi Ingileif Guðmundardóttur, konu Jóns Steinssonar Bergsteinssonar í Sápugerðinni, þau voru þá ung hjón í blóma lífsins, draum þar sem skeggjaður maður með mikið enni og skásett augu kom til hennar, hann var í mórauðum ullarfötum og hafði réttskeið í hendi. Hún þóttist standa í eldhúsinu að rista furuhnetur til þess að gera pestó fyrir vikuna. Það er vandasamt verk að rista furuhnetur, sagði Ingileif, einnig í draumi. Það var að auki óvanalegt því hún notaði jafnan möndlur eða kasjúhnetur því þær voru mun ódýrari en ekki síðri. Draummaðurinn sagðist vera að koma ofan af hálendi og rétti henni annál fyrir árið 2062, bundinn inn í glært skinn. Þar voru allir merkilegir atburðir þess árs niður ritaðir. Ingileif tók við bókinni af þeim annarlega manni sem þegar leystist upp í grænan knött úr gufu og sogaðist upp um háfinn í eldhúsinu og þaut út um rúðuna.
   Bókin varð eftir á borðinu og lá langur, mjór, tvíeggja hnífur á henni. Hún velti því fyrir sér hvort það væri bréfahnífur eða hvort bókin væri óskorin. Síðan þóttist hún lesa í annálnum. Þar voru skráðar slysfarir, andlát og veðurfar, en einnig sitthvað um verslun og embættisglöp. Þar sá hún að barnabarn hennar, Sóley að nafni, enn ókomin í heiminn, yrði myrt af afa sínum 12ta nóvember 2062, þá barnshafandi eftir hann sjálfan. Henni varð svo mikið um að hún tók hnífinn og stakk honum á kaf í háls sér en hrökk þá upp af svefninum og kastaðist fram á gólf í örvinglan.
   Ingileif skrifaði allt hvað hún gat og mundi þegar um nóttina. Engum sýndi Ingileif þessi skrif sín, því hún óttaðist að hún yrði sett í myrkraholu á Bessastöðum. Þegar fram liðu stundir færðist ártalið sem hún óttaðist svo mjög nær og nær. Heimilislífið var þó í engu frábrugðið, að minnsta kosti hvað varðar þagnir og kúgun.
   Allt fór eins og stóð í annálnum fyrir árið 2062 og stytti Jón Steinsson maður hennar sér aldur ári síðar með því að reka rýting gegnum háls sér daginn sem dómur var upp kveðinn gegn honum.
   Þegar Ingileif lést í hárri elli, alein, blind og geðstirð af gigt árið 2117, var hús hennar nánast tóftir einar. Gestur Vilhjálmsson sýslumaður kom ríðandi og fór í gegnum pjönkur hennar sem allar voru í einni kistu. Þar á botninum fundust áðurnefnd skrif Ingileifar og báru þau yfirskriftina Dreymt fram til ársins 2062. Sýslumaður dáðist að rithendinni, gleymdi sér við lesturinn en lét svo senda eftir mér. Gestur spurði mig áður en þetta færi í ferli hvort þetta væri nokkuð fals. Ég gat fullvissað hann um að svo væri ekki. Þá bað hann mig vinsamlegast að hafa ekki hátt um þetta en ég gat ekki gefið honum það loforð og biðst ég forláts á því.

(s. 87 og s. 92-94)

 

 

Fleira eftir sama höfund

Öræfi

Lesa meira

Skáldsaga um Jón

Lesa meira

Heklugjá

Lesa meira

Skál fyrir skammdeginu

Lesa meira

Handlöngun

Lesa meira

Provence í endursýningu

Lesa meira

Tvítólaveizlan

Lesa meira

Biscayne Blvd

Lesa meira