Beint í efni

Vetrargulrætur

Vetrargulrætur
Höfundur
Ragna Sigurðardóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Smásögur

 

Um bókina

Fimm knýjandi sögur sem fara með lesandann í tímaferðalag frá samtíma aftur á átjándu öld.

Í úthverfi Reykjavíkur týnir kona barni og glímir við afleiðingar þess; ungur málari grípur til örþrifaráða þegar kærasta hans sekkur í þunglyndi; myndlistarkona finnur sína leið þrátt fyrir þöggun; og flóttakona frá Þýskalandi tekst á við sköpunar-kraft sinn í nýju umhverfi. Í fimmtu og síðustu sögunni, um ungling sem á sér einn draum heit-astan, birtist kjarni sagnanna fimm: Þvert á tíma og rúm eiga persónurnar það sameiginlegt að rækta drauma sína og skapa eigið líf.

Úr Vetrargulrótum

Þegar ég loks byrjaði aftur að mála, þegar aldur krakkanna gaf mér meira svigrúm, skissaði ég abstrakt eins og ég hafði gert áður en við fluttum heim. Ferningsform, línur og liti.
  Í Frakklandi hafði ég gleypt í mig skrif um abstraktið. Ég þýddi greinar í tímaritum og las upphátt fyrir Finn á meðan hann stóð við trönurnar. Ég las bók Kandinskys um hið andlega í listinni með Gústu á brjóstinu. Mér fannst þessvegna sjálfsagt að halda áfram þar sem frá var horfið, þótt strangflatarstefnan hefði ekki náð fótfestu hérlendis á þessum tíma. Ég málaði form og liti, ferninga og línur og þegar ég lagðist á koddann sá ég fyrir mér litasamsetningar. Finnur sýndi öllu sem ég gerði áhuga. Um tíma fannst mér eins og við værum jafningjar á ný.
  Síðan einhvern morguninn vaknaði ég á undan öllum öðrum, en með mynd í höfðinu og hún var ekki abstrakt. Það var sýn á milli húsa, augnablik sem hafði gripið mig, kuldablár flóinn, rauðmálað þak, hvít girðing. Ég flýtti mér niður í eldhús og dró þetta upp eins og það var í huga mér og seinna um daginn fór ég með krakkana út og gerði vinnuskissur. Ég byrjaði að mála um kvöldið og í fyrsta skipti síðan í París gleymdi ég öllu öðru við trönurnar. Mér hafði ekki liðið svona síðan áður en Gústa fæddist. Eftir þetta reyndi ég um tíma að halda áfram að mála strangflatarverk en hitt togaði sífellt meira í mig og á endanum sinnti ég því eingöngu. Ég málaði af ákafa og þess vegna voru oft málverk eftir mig í eldhúsinu. Þau voru ekki til sýnis, heldur stóðu á hillu bak við hurðina inni á ganginn til að þorna.

(133-134)

 

Fleira eftir sama höfund

Bónusstelpan

Lesa meira

Lauch oder Aprikose

Lesa meira

Daði : Ódysseifur

Lesa meira

Stefnumót

Lesa meira

27 Rooms

Lesa meira

Fallegri en flugeldar

Lesa meira

27 herbergi

Lesa meira