Beint í efni

Af jöklasorgum og öðrum

Af jöklasorgum og öðrum
Höfundur
Steinunn Sigurðardóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Þórunn Hrefna

Ból er fjórtánda skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur og nýlega hlaut hún fyrir hana Íslensku bókmenntaverðlaunin. Það er í annað sinn sem Steinunn fær  verðlaunin, síðast fyrir Hjartastað (1995).

 

Ofan á alla aðra eyðileggingu og dauða ævinnar get ég ekki látið það yfir mig ganga að athvarfið mitt á jörðinni, helsti minningarstaðurinn um Ásu sérstaklega, og svo pabba og mömmu, fari að eilífu undir tíu metra af fljótandi grjóti. Ég get ekki annað en safnast með staðnum til míns nánasta yndisfólks, núna loksins. Og verið sárfegin. (154)

Aðalsöguhetja Bóls er LínLín, sem heitir Líneik Hjálmsdóttir fullu nafni, kona um sextugt. Hjartasorgirnar sem hún ber eru mun þyngri en blý, enda hefur hún ákveðið að deyja og leggur upp í sína hinstu ferð að sumardvalarstað fjölskyldunnar. Þar gýs og hraun stefnir í átt að Sælubóli, yndisstaðnum mikla. LínLín  hyggst fylgja bólinu sínu og finnst hún engu hafa að tapa.

Á leiðinni rifjar hún upp líf sitt – æsku, ástir, veikindi og sáran missi. Og síðast en ekki síst reynir hún að komast til botns í fjölskylduleyndarmálunum, sem eru bæði mörg og stór. Það hefur verið köttur í bóli bjarnar í hjónabandi foreldra hennar og Líneik vill ná að skilja þau mál til hlítar.

Tími á þrotum

Sagan hefst á draumi um „Ásu mína“ sem er horfin.

Ég vaknaði á votum kodda. Hélt fyrst ég hefði fengið blóðnasir. En þetta voru þá mín sjaldgæfu tár sem fátt annað en draumar gátu framkallað. Svefntárin. (5)

Að halda að tár séu blóðnasir gefur til kynna að gráturinn hafi verið ofsafenginn og tilefni til hans ærið.  Enda kemur það upp úr dúrnum.

Einkadóttirin Ása er dáin og hana syrgir LínLín sárt. Hugurinn leitar ennfremur til foreldranna, sem bæði eru látin, og stóru ástarinnar í lífi hennar, sem hafnaði henni. Eins og þetta sé nú ekki ærin ástæða til þess að vera ekki alveg upp á sitt besta, þá hefur LínLín nýlega lokið krabbameinsmeðferð og er ekki söm eftir.

Það er táknrænt að tíminn stöðvast í upphafi sögu. Klukka ömmu hennar hættir að slá og LínLín ætlar ekki að trekkja hana upp, enda lítur hún þannig á að hennar tími sé á þrotum.

Allt er til reiðu, skipulagt í þaula, ferðin hefst að ganga ellefu um kvöld, á hásumri.

Foreldrar Líneikar hafa kennt henni að „lesa landið“ og þess nýtur hún á leið í þessa hinstu ferð:

Þau fundu endalaust nýja vinkla á gamalkunnugri hlíð, smáfossum, og því sem stærra var, fjöll og jökull. Birtan var ein af sérgreinum þeirra, þau sáu landið síbreytilegt, alltaf í nýju ljósi, og heilluðust meiraðsegja af alls konar þoku. Dalalæðu, þokuslæðingi, lágþokublettum. Hvað hefðu þessar elskur sagt um kvöldlandið og undrabirtuna á minni leið? (22)

„Hvellbjartir dagar og kvöld“

Ástin á Íslandi er einn af mikilvægustu þráðum sögunnar. Djúp tengslin við þetta land mótsagna, þar sem við búum okkur ból þótt við eigum á hættu að missa það aftur, „þar sem hvert fell og hver hóll er til alls vís“ (22)

Eina byggða bólið sem mun fara undir hraun í þessari lotu er Sæluból. Staðurinn sem Líneik er mikilvægastur, einkum eftir allan þann missi sem hún hefur mátt þola. „Minn sælustaður og fólksins míns“ (92).  Hún hverfur fram og aftur í tíma og minningarnar frá staðnum eru margar og dýrmætar. „[H]vellbjartir dagar og kvöld liðu í brasi, hlátri, náttúrudýrkun, gæðafæði og almennum yndislegheitum.“ (56)

Hún er innileg ástin á íslenskri náttúru sem logar og skín í þessu verki, eins og í fleiri verkum Steinunnar Sigurðardóttir, með ótrúlega fallegum lýsingum. Sérlega næm tilfinning fyrir landslagi er enda samofin öllu höfundarverki hennar. Hin síðari ár fær óttinn við yfirvofandi hamfarir af mannavöldum æ meira pláss. Í upphafi ferðarinnar austur að Sælubóli fylgist LínLín með Snæfellsjökli í baksýnisspeglinum:

Eftir fáeina áratugi, kannski ekki einu sinni mannsaldur, verður þessi hvíta ljóskeila slokknuð og skuggagrjótið mun ríkja. Og manneskjurnar sem þá fæðast, eftir þá stuttu stund, munu aldrei kynnast birtuhöfðingjanum nema af afspurn. Jafnvel söknuðurinn eftir honum verður frá þeim tekinn. (11)

Betra er að hafa elskað og misst, en að hafa aldrei elskað, segir spekin. Og undir lok sögunnar, þegar hún er komin á áfangastað, staldrar hún við og dáist að landinu:

[D]áist að blómayndinu hans pabba, klettafrú, hvönn, ljónslappa, gullbrá, skoða útsýnisdýrðina yfir Sólarlagsskóginn sem trónir uppi í vestri eins og fyrirheitið land, til hliðar við jökulinn minn heittelskaða. Það sem eftir er af honum. Jöklasorgin grípur mig, jafnvel núna grípur hún mig. Að það skuli geta gerst að við tortímum heimsins hvíta himnaljósi. Hversu óhugsandi að heimajökullinn minn, okkar pabba, mömmu, Ásu, muni aðeins lifa mig um hundrað ár eða svo, fara stöðugt hrakandi, tærast upp eins og sjúklingur með berkla, með krabbamein. (177)

Landið er syrgt eins og fólkið sem hún elskar.

Leikurinn í textanum

Líklega gæti sæmilega athugull lesandi borið kennsl á stíl Steinunnar Sigurðardóttur utan úr geimnum, þekkt hennar texta úr öllum heimsins textum, svo sérstakur er hann og fágaður, í honum hæfilegur skammtur af skensi og smá stælum, kaldhæðni, kímni og orðaleikjum.

Mikið er til að mynda leikið með nöfn í Bóli, Skúli besti vinur LínLín er skólabróðir hennar frá í gagnfræðaskóla og því oft nefndur Skúlabróðir. Sjálf heitir hún Líneik en er sjaldan kölluð það, heldur LínLín (LitlAðal og Elskan Litla af foreldrum sínum). Pabbinn er Hjallapabbi og Eyjólfur fjölskylduvinur Pabbeyjó. Þetta eru vinarhót, krúttnöfn, nöfn gefin af ást. Því er táknrænt að barnsfaðir LínLín, eiginmaðurinn sem hún bjó með til fjölda ára, ber ekkert nafn, en maðurinn sem endurgalt ekki ást hennar er alltaf kallaður Hansi minn og yfirleitt með hástöfum. „Hansi MINN“ – eins og hin elskaða dóttir er „Ása mín“.

HÁSTAFIRNIR eiga líka sinn stað í þessu verki, þegar sögupersónum er mikið niðri fyrir, eins og í fleiri verkum Steinunnar.

Hinn mikli missir

Ása, dóttirin sem lést nítján ára, bætti upp fyrir annan missi í lífi LínLín. Sá sem hún elskaði (Hansi MINN) endurgalt ekki ást hennar og Brjánsi, kær vinur sem elskaði hana, dó einnig nítján ára:

Sumarið sem líf Brjánsa ljúflings brann upp í loga geðveikinnar, sumarið sem mitt líf brann upp á báli ofurástar og vonbrigða, sumarið þegar lífi okkar Brjánsa lauk.
   Lífsvélin mín fór reyndar að hökta aftur þegar Ása fæddist. Stöðvaðist svo þegar hún dó. Þá hefði ég auðvitað átt að stytta mér aldur. En ég gerði það ekki. Svo leið tíminn, og með tímanum tók því ekki lengur að taka í taumana. (142)

LínLín tekur æði djúpt í árinni þegar hún segir að líf sitt hafi brunnið á báli, að því hafi lokið áður en það hófst – að hún hafi beinlínis farist af „ofurást og vonbrigðum“. Sjálf hugsar hún um Guðnýju skáldkonu frá Klömbrum, sem sagt er um í kirkjubókum að hafi dáið af harmi, en þessi örlög minna óneitanlega einnig á örlög þekktustu skáldsagnapersónu Steinunnar Sigurðardóttur.

Fyrri verkum sendur fingurkoss

Tengsl Bóls við fyrri bækur Steinunnar eru augljós. Fyrst mætti nefna að Ból er vitaskuld „vegasaga“ líkt og Hjartastaður (2005) Báðar söguhetjurnar, LínLín og Harpa Eir leggja land undir fót til þess að komast í skjól. LínLín segir á einum stað að Sæluból sé hennar „raison d‘être“ og Harpa segir að í firðinum búi sálin í henni. Ferðalag þeirra beggja verður líka fyrst og fremst innra ferðalag sem leiðir til uppgjörs og síðan ákveðins skilnings.

En það eru einkum Tímaþjófurinn (1986) og Ástin fiskanna (1993) sem minna í sífellu á sig í Bóli. Það er engu líkara en að Steinunn sé vísvitandi að senda þessum dýrmætu perlum úr höfundarverki sínu fingurkoss – það er jú stutt síðan konan átti stórt höfundarafmæli.

Stóru þemun eru hér öll til staðar. Þráin eftir manninum sem var elskaður en elskaði ekki á móti. Í Bóli er það Hansi, í Tímaþjófinum Anton, Ástinni fiskanna Hans Örlygsson. Þrátt fyrir marga augljósa kvenkosti, þá fá þessar konur ekki manninn sem þær elska.

Söguhetjan er dekurbarn vel stæðra foreldra, gagnmenntuð tungumálamanneskja, sem hefur smekk fyrir ljóðum, fallegri náttúru og fallegum hlutum. Þetta á við þær þrjár, Samöntu, Öldu og LínLín.

Söguhetjan er smekkkona sem sankar að sér fallegum hlutum og hún hefur efni á þeim. Alda er alin upp við allskyns munað, antík í ættarhúsi og tekur því sem sjálfsögðum hlut. Samanta skammast sín fyrir að hafa spandérað í gilda silfurkeðju sem kostaði mánaðarlaun verkamanns, en LínLín umfaðmar hlutadýrkunina og tekur henni sem nauðsyn við þá iðju að búa sér ból. Hún skammast sín ekki fyrir að bindast hlutum og gera þeim hátt undir höfði, enda tengjast þeim ómetanlegar minningar. Indverska borðið, körfustóllinn með páfuglabakinu, knallrauð portúgölsk keramíkskál, kringlótti hamraði silfurbakkinn, hjartarpúðinn haustlitaði. Og þegar hún hefur búið sér ból við sjóinn, eftir krabbamein og margfaldan missi, þá verður heimsins fínasti og dýrasti tepottur henni svo mikilvægur að hún kallar hann „lífsförunautinn“.

„Það verður ekki gaman hjá mér“

Söguhetjurnar þrjár eyða a.m.k. hluta ævinnar með mönnum sem þær elska ekki: Hinn suðandi Símon í Tímaþjófi, Erlingur í Ástinni fiskanna, sem fyrst og fremst er „viðfelldinn maður“ og í Bóli er barnsfaðir og eiginmaður svo lítið elskaður að hann er kallaður geðlurða á einum stað og „hinn daufgerði faðir sem seint varð við húmor kenndur“ á öðrum (59).

Alda, Samanta og LínLín eiga það líka sameiginlegt að þeim þykir ekkert sérstaklega gaman að vera til. Samöntu grunar að „sjálfsmorðum mundi fjölga ískyggilega ef menn hentu reiður á því hvað það er sjaldan gaman“ (26). Alda óskar þess að hún hafi dáið en ekki Alma systir, „Af því henni þótti nefnilega svolítið sem mér þótti ekki. Henni þótti gaman“ (179). LínLín segir í bréfinu sem hún skrifar eftir að hún áttar sig á því að Hansi endurgeldur ekki ást hennar: „Það verður ekki gaman hjá mér, kannski ekki leiðinlegt heldur, það verður einfaldlega ekki neitt neitt“ (149).

Alda hefur mikið misst, líkt og LínLín. Foreldra sína og í sögunni missir hún bæði elskhuga og einkasystur í dauðann. Fyrir utan missinn stóra – sem er að fá ekki að njóta ástarinnar. Alda ferst að lokum, Samanta situr föst með manni sem hún elskar ekki. LínLín hefur ákveðið að hverfa undir hraun, því hún er svo yfirkomin af sorg.

Hægt er að tengja fleiri bækur Steinunnar Sigurðardóttur þessum umfjöllunarefnum. Ofurástin sem aldrei fékkst endurgoldin markar líf foreldranna í Sólskinshesti (2005) og þar af leiðandi börnin þeirra.

Samastaður og hjartastaður

Sæluból tengir LínLín við þau sem hún hefur elskað og misst. Að eiga í ofanálag að missa það undir hraun er meira en hún getur afborið.

Að eiga sér samastað, sinn hjartastað í tilverunni. Að vera í skjóli eða hafa ból til að hvílast við í fegurð íslenskrar náttúru. Þetta er mikilvægt sögupersónum Steinunnar Sigurðardóttur. Samanta býr í kastala erlendis þegar hún hittir Hans Örlygsson, en er haldin heimþrá og langar í Skaftafell að hvíla sig í rjóðri: „Mig langaði að sjá hvernig sindraði á birkilauf við læk í hnúkaþey og sólskini, og jökull yfir og allt um hring, svo víðáttumikill að hann er eiginlega margir jöklar og heitir ýmsum nöfnum“ (13).

Alda kúrir í pabbabóli í Skjólunum, finnur ekki samastað í manninum sem hún elskar og gerir sér í hugarlund að það sé beðið eftir henni þar sem hún á frátekinn stað í kirkjugarðinum. Samanta kemst í bjálkakofa á vegum Hans Örlygssonar, en bara í draumi. LínLín er ofurseld þörfinni fyrir að láta Sælubólið taka utan um sig, orna sér þar við minningar og náttúru – og hún vill hverfa þar og sameinast náttúrunni og fólkinu sínu í dauðanum.

Það er kannski misvinsælt að segja of mikið frá leyndarmálum bóka í umfjöllun um þær. Hér hefur verið þagað að mestu um fjölskylduleyndarmálin stóru – og kannski er heldur ekki við hæfi að greina frá því hvort LínLín nær sínum samastað með Sælubóli undir hrauni eða hvort guðleg forsjón finnur henni annan stað. Það er þó engum vafa undirorpið að Ból hefur rækilega fundið sinn samastað í höfundarverki Steinunnar Sigurðardóttur og glitrar þar og skín með skærustu stjörnunum.
 

Þórunn Hrefna, febrúar 2024