Beint í efni

Steinunn Sigurðardóttir

Æviágrip

Steinunn Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 1950. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968 og BA prófi í sálarfræði og heimspeki frá University College í Dublin 1972.

Steinunn var fréttamaður útvarps og fréttaritari með hléum frá 1970-1982. Hún hefur einnig starfað sem blaðamaður og þáttagerðarmaður við útvarp og sjónvarp. Steinunn hefur dvalist um lengri og skemmri tíma í ýmsum Evrópulöndum, Bandaríkjunum og Japan.

Steinunn gaf út fyrstu bók sína, ljóðabókina Sífellur, 19 ára gömul og vakti hún strax athygli. Hún hefur gefið út skáldsögur, ljóð, smásögur, leikrit og bækur ævisögulegs eðlis.

Steinunn hlaut viðurkenningu rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins árið 1990 og Menningarverðlaun Visa Ísland 1995. Hún fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 1995 fyrir skáldsöguna Hjartastaður og árið 2023 fyrir Ból, hún hefur einnig hlotið tilnefningar fyrir nokkrar aðrar bækur. Hún hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2014, Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis árið 2016, fyrir Heiða – fjallabóndinn og Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar árið 2017. Steinunn hefur einnig fengið tilnefnigar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, árið 1988 fyrir Tímaþjófurinn og 1997 fyrir Hjartastaður.  

Bækur hennar hafa verið þýddar á önnur mál og frönsk kvikmynd byggð á skáldsögunni Tímaþjófurinn var frumsýnd árið 1999.

Steinunn var gerð að heiðursdoktor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, þann 23. maí 2022.