Ég hikaði aðeins þegar ég fékk í hendurnar nýjustu bók Jónínu Leósdóttur, Allt fínt ... en þú?, ekki af því ég efaðist um hæfileika Jónínu til að skrifa heldur vegna konunnar sem hékk á bókarkápunni með eitthvað sem líktist skelfingarsvip á andlitnu.
Í bókinni segir frá Nínu, heimavinnandi þýðanda sjónvarpsefnis, sem tekur inn á sig öll vandamál sem uppkoma í fjölskyldu- og vinahópnum en uppsker lítið þakklæti fyrir. Nína er tæplega fertug, gift prestinum Georg og saman eiga þau dæturnar Önnu og Agnesi Ýr. Anna er fimm ára og með downs heilkenni en eldri systirin hefur nýlokið stúdentsprófi og veit ekkert hvað hún vill í framhaldi af því. Yngri systir Nínu er leikkonan og dramadrottningin Sunna, sem er vön því að Nína taki að sér að bjarga málunum þegar eitthvað kemur upp á og sjá til þess að líf hennar gangi snurðulaust fyrir sig.
Sagan spannar sex mánuði. Hún hefst í júníbyrjun, móðir Nínu er nýlátin og sjötugur faðir hennar tilkynnir henni að hann hafi eignast tuttugu árum yngri vinkonu og það vekur ekki mikla lukku meðal dætra hans.
Nína segir söguna í fyrstu persónu, hún er fyndin og sjálfhæðin og það er erfitt annað en að láta sér líka við hana, kannski ekki síst vegna þess að persóna hennar er breysk og henni verður oft á í messunni. Í lok sögunnar er farið að líða að jólum og ýmislegt hefur gerst sem hefur fengið hana til að líta í eigin barm og endurskoða afstöðu sína til fjölskyldunnar , hjónabandsins – og lífsins.
Efnið er kunnuglegt og ég hef lesið ótal bækur þar sem þemað er svipað; miðaldra kona lendir í atburðarás sem fær hana til að hugsa líf sitt upp á nýtt, skemmtilega fram sett með slatta af húmor og íróníu... en þegar ég fór að hugsa málið þá er engin bókanna á íslensku, sem er ótrúlegt miðað við hvað þessi tegund bókmennta sést oft á erlendum metsölulistum. Sem stendur man ég aðeins eftir tveimur bókum sem hafa verið skrifaðar á íslensku í þessum anda, Dís eftir þær Birnu Önnu Björnsdóttur, Oddnýju Sturludóttur og Silju Hauksdóttur og svo Makalaus eftir Tobbu Marínós sem út kom í vor. Þær eiga hins vegar að höfða til yngri lesendahóps en þessi bók Jónínu.
Ég hafði gaman af lestri bókarinnar þó að sjálfsögðu sé hún ekki fullkomin, frekar en aðalpersónan. Systirin Sunna er t.d. óþarflega klisjukennd, rík , fordekruð og með þágufallssýki og það er erfitt að ímynda sér hvað bindur Nínu við eiginmanninn, mannleysuna Georg. Sem skemmtilestur um jólin, í fríinu eða bara til að slaka á og gleyma eigin vandamálum, er alveg óhætt að mæla með Allt fínt.. en þú?, takið bara kápuna af, fáið ykkur bókamerki og njótið lestursins.
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, desember 2010.