Æviágrip
Jónína Leósdóttir fæddist í Reykjavík þann 16. maí 1955. Hún er Vesturbæingur í húð og hár, sem barn og unglingur gekk hún í Landakotsskóla, Melaskóla og Hagaskóla, eftir að hafa hrökklast úr Kvennaskólanum vegna ofnæmis fyrir hör og öðrum efnum sem voru notuð í handavinnutímum í skólanum. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1974 fór Jónina til Bretlands og stundaði nám í listasögu og málvísindum við Essex háskóla veturinn 1975 – 1976. Hún lauk B.A. prófi í ensku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1984 og fjallaði lokaritgerð hennar um skáldkonuna Jane Austen. Þá hefur hún sótt námskeið um leikritaskrif á vegum Endurmenntunar H.Í. og Leikfélags Reykjavíkur.
Jónína starfaði sem blaðamaður og ritstjóri um árabil, hún var blaðamaður á Helgarpóstinum 1985 – 1988, ritstjóri vikublaðsins Pressunnar frá 1988 – 1990 og ritstjórnarfulltrúi á tímaritinu Nýju lífi frá 1990 – 2005. Fyrr starfaði Jónína við ferðamál, meðal annars á ferðaskrifstofunum Ferðamiðstöðinni og Úrvali og hjá Flugleiðum í London. Hún var starfsmaður þingflokks Bandalags jafnaðarmanna frá 1984 – 1985 og varaþingmaður bandalagsins frá 1983 – 1987. Jónína hefur helgað sig ritstörfum frá ársbyrjun 2006.
Fyrsta frumsamda verk Jónínu sem kom út á prenti er ævisaga Sigurðar H. Guðjónssonar, Guð almáttugur hjálpi þér, frá 1988, en áður hafði hún sent frá sér þýðingar og leikrit. Hún hefur skrifað bæði fyrir fullorðna og unglinga, skáldsögur, smásögur, leikrit, ævisögur, ljóð og pistla af ýmsu tagi. Jónína hefur hlotið viðurkenningar fyrir ritstörf sín, meðal annars í leikritasamkeppnum, Ljóðstaf Jóns úr Vör og Vorvinda IBBY fyrir unglingabækur sínar.
Frá höfundi
Að lifa og skrifa
Mitt fyrsta verk við upphaf hvers vinnudags er að kveikja á kerti. Það breytir engu hvort úti er myrkur eða morgunsól, hvort það er vetur, vor, sumar eða haust. Um leið og kertaloginn lognast út af, venjulega eftir um það bil fimm klukkustundir, kveiki ég síðan á nýju kerti. Og þegar ég er í miklum ham getur teygst svo úr setu minni við tölvuna að úr verði þriggja-kerta-dagar.
Ég þarf að sjálfsögðu ekki á kertinu að halda sem vinnuljósi og ég kveiki ekki á því til að skapa huggulega stemmningu í herberginu. Þótt flöktandi loginn sé fallegur er hann mér fyrst og fremst tákn og áminning.
Þegar ég kveiki ljósið tek ég mér stutta stund til íhugunar og það fyrsta sem ávallt kemur upp í hugann er þakklæti. Því þótt ég hafi vissulega fengið minn skammt af mótlæti hef ég margt að þakka fyrir og mér finnst mikilvægt að líta ekki á allt það jákvæða í lífinu sem sjálfsagða hluti. Ég er þakklát fyrir mína traustu vini og yndislegu fjölskyldu, fyrir teið í krúsinni minni og allt þar á milli.
Kertaljósið í vinnuherberginu er meðal annars tákn um þakklæti fyrir að ég skuli nú geta einbeitt mér alfarið að ritstörfum. Það er sannarlega ekki sjálfgefið. Einstæð móðir, eins og ég var í einn og hálfan áratug, getur ekki leyft sér þann lúxus að fórna fastri vinnu fyrir draum um að gerast rithöfundur. Að minnsta kosti ekki einstæð móðir sem vill sleppa við magasár og andvökunætur út af ógreiddum reikningum. Slík kona verður að láta sér nægja kvöldin, helgarnar, jólafrí, páskafrí og sumarleyfi til að skrifa – en á þeim sundurtætta vinnutíma togar reyndar ýmislegt annað í hana líka. Vinnustundirnar geta verið gegnsýrðar sektarkennd yfir því að vera ekki að sinna börnum og búi, fjölskyldu og vinum, hvíla sig og hlaða batteríin.
En ef þörfin fyrir að skrifa er gríðarleg skrifar konan nú samt. Og það er ekki tilviljun að ég nota orðið þörf en ekki löngun. Ef aðeins væri um löngun að ræða væri auðveldara að ýta þessu til hliðar. Ekki síst fyrir manneskju í skemmtilegri launavinnu, eins og þeirri sem ég var svo heppin að stunda alla tíð. Brennandi þörf bælir þú hins vegar ekki svo auðveldlega niður.
Ég byrjaði að skrifa bækur, leikrit og smásögur þótt ég væri í spennandi starfi sem blaðamaður. Ég þreifst hreinlega ekki án þess að skrifa líka „fyrir sjálfa mig”. Fyrsta bókin mín kom út 1988, þrjár til viðbótar litu dagsins ljós snemma á tíunda áratugnum og eftir það sneri ég mér um hríð að leikritum. Alltaf með annarri vinnu og alltaf með þann draum í maganum að geta einvörðungu sinnt skapandi skrifum.
Draumurinn rættist loks í ársbyrjun 2006 en þá var ég orðin fimmtíu og eins árs gömul.
Á þeim rúmu fimm árum sem nú eru liðin hafa komið út eftir mig fimm bækur og tvö leikrit eftir mig hafa verið flutt í útvarpinu. Þar að auki hefur mér hlotnast Ljóðstafur Jóns úr Vör og Vorvindaviðurkenning IBBY. Ég tel þetta þó ekki upp af tómu monti heldur fremur til að sýna að ég hef reynt að nýta tímann vel.
Kannski hefði ég ekki átt að bíða svona lengi. Kannski hefði ég bara átt að henda mér fram af brúninni, taka lán og sénsa. En það er ekki til neins að eyða tíma og orku í eftirsjá. Þegar ég kveiki á kertinu mínu á morgnana þakka ég fyrir að hafa fengið tækifæri til að vera rithöfundur í fullu starfi. Mér finnst ég óendanlega heppin. Hvað með það þótt ég hafi þurft að bíða eftir draumastarfinu fram á sextugsaldur? Sumir fá aldrei á lífsleiðinni að starfa við það sem hugur þeirra stendur til. Og sumir ná aldrei sextugsaldri.
Einhverjum finnst þetta eflaust væmið en í hvert sinn sem mér verður litið á vinnukertið mitt hríslast um mig þakklæti fyrir að fá að lifa ... og skrifa.
Jónína Leósdóttir, apríl 2011.
Um höfund
Sambönd, samskipti, sjálfsmynd – skáldsögur og önnur verk eftir Jónínu Leósdóttur
Fyrsta frumsamda verk Jónínu Leósdóttur kom út 1988, það var ævisaga Sigurðar H. Guðjónssonar Guð almáttugur hjálpi mér, en síðan hefur hún sent frá sér fjölda verka á hinum ýmsu sviðum bókmennta; skáldsögur bæði fyrir unglinga og fullorðna, aðra ævisögu og sjálfsævisögu, pistlabók og dagbók, fjölda leikrita, smásögur og ljóð. Jónína sneri sér ekki alfarið að ritstörfum fyrr en upp úr miðjum síðasta áratug en fram að því starfaði hún sem blaðamaður og síðar ritstjóri meðfram skrifum. Hún hefur meðal annars hlotið viðurkenningar og unnið til verðlauna fyrir fyrir leikrit sín, hlotið viðurkenningu frá IBBY á Íslandi fyrir unglingabækurnar Kossa og Ólífur og Svart og hvítt og hlotið Ljóðastaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið Miðbæjarmynd.
Í sjálfsævisögunni Við Jóhanna segir Jónína að bókaskrif hafi veitt sér meiri lífsfyllingu en flest annað og að hún hafi loksins fundið sína hillu þegar hún sneri sér að ritun skáldsagna (bls. 89). Í þessari yfirlitsgrein verður farið nánar í verk Jónínu með áherslu á skáldsögur og sjálfsævisöguna, sem er ekki einungis afar áhugaverður vitnisburður um líf hennar sjálfrar og Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrum forsætisráðherra og þingmanns, heldur einnig um tíðaranda og samfélag sem hefur þróast og fleytt fram svo um munar.
Sé litið til skáldsagna Jónínu má sjá að ákveðin umfjöllunarefni eru henni sérlega hugleikin og greina má rauðan þráð í verkum hennar. Þau sem hér verður fjallað um snúast öll á einn eða annan hátt um sambönd og samskipti, hvernig þau móta tilveru okkar og hafa áhrif á okkur, ýmist góð eða slæm. Sögusvið í skáldsögum Jónínu er nútíminn, á Íslandi með nokkrum undantekningum og í Reykjavík að mestu. Aðalpersónurnar eru konur, á öllum aldri og í ýmsum hlutverkum, sem takast á við aðstæður og atburði sem upp koma í lífi þeirra; atburði sem setja í mörgum tilfellum tilveru þeirra á annan endann og sem reynist oft vandasamt fyrir þær að ráða fram úr.
Sjálfsmynd í mótun
Í unglingabókum Jónínu er áherslan fremur öðru á sjálfsmyndina og hvernig hún mótar sambönd aðalpersónanna við annað fólk. Í Sundur og saman frá 1993 er sagt frá Birnu sem flytur til Reykjavíkur utan af landi þegar foreldrar hennar skilja. Hún byrjar í menntaskóla þar sem hún þekkir engan og þarf að standa á eigin fótum en einnig þarf hún að skilgreina upp á nýtt hvernig hún lítur á foreldra sína og samband sitt við þau. Með skilnaðinum breytist allt innan fjölskyldunnar á sama tíma og Birna er að stíga sín fyrstu skref í heimi fullorðinna, upplifa fyrstu óendurgoldnu ástina og átta sig á ýmsum erfiðleikum sem fólk getur staðið frammi fyrir. Í Upp á líf og dauða sem kom út árið 2011 finnur aðalpersónan Hrönn sorglegt ljóð eftir einn af bekkjarfélögum sínum sem henni finnst benda til þess að ljóðskáldið sé þunglynt og muni jafnvel skaða sig á einhvern hátt. Hrönn fær bestu vinkonu sína og þegar fram líða stundir einnig tvíburabróður sinn með sér í lið að finna skáldið en til þess þurfa þau að leggja sig fram um að kynnast betur krökkunum sem koma til greina. Hrönn glímir á sama tíma við sjálfa sig þegar hún reynir að átta sig á því hver hún er sjálf, ekki bara sem tvíburi og systir bróður síns heldur sem einstaklingur. Í báðum sögunum er fjallað um alvarleg vandamál sem unglingar geta staðið frammi fyrir, meðal annars lystarstol í Sundur og saman og sjálfsvígshættu og þunglyndi í Upp á líf og dauða.
Þríleikurinn Kossar og ólífur, Svart og hvítt og Ég og þú komu út á árunum 2007-2009 og segir frá unglingsstúlku sem áttar sig smám saman á því að hún er samkynhneigð. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jónína fjallar um samkynhneigða unglingsstúlku en áður hafði hún sent frá sér leikritið Leyndarmál (1997) sem samið var fyrir Leikfélag Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Í þríleiknum er aðalpersónan Anna í forgrunni, hún er að klára grunnskólann í heimabæ sínum í upphafi þríleiksins og stefnir á menntaskóla með haustinu. Pabbi Önnu er enskur og foreldrar hennar gefa henni ferð til Bretlands í afmælisgjöf, Anna hefur þau grunuð um að vilja stía sér og kærastanum Stjána í sundur og er ekki alls kostar sátt, en fer samt sem áður utan þegar skólinn klárast. Hún hefur verið ráðin í sumarvinnu á gistiheimili sem frændfólk hennar rekur og ætlar auk þess að setja sig í samband við enska pennavinkonu sína. Kata vinkona hennar ætlar að heimsækja hana og sumarið leggst ágætlega í hana þrátt fyrir allt. Í Brighton þar sem sagan gerist að mestu lendir Anna í ýmsum aðstæðum sem hún er aldeilis ókunnug. Hún þarf að standa á eigin fótum og bera ábyrgð á sér sjálf, vinna fyrir uppihaldi sínu og kynnist fólki sem er mjög ólíkt fólkinu heima á Vík. Lesandinn fær að fylgjast með Önnu þroskast og öðlast aukið sjálfstraust, auk þess sem hún verður fyrir lífsreynslu sem leiðir til þess að hún fer að velta því fyrir sér hvort hún elski Stjána í raun eða hvort hún geti mögulega verið ástfangin af stelpu.
Anna heldur heim að sumri loknu en í næstu bók, Svart og hvítt, hefur hún nám í menntaskóla í Reykjavík og heldur áfram að reyna að átta sig á tilfinningum sínum. Anna ákveður að fara aftur til Brighton sumarið eftir, í þetta sinn með Kötu vinkonu sinni, og nú kynnist Anna stelpu sem vekur hjá henni sterkar tilfinningar, gjörólíkar tilfinningunum sem hún bar til Stjána. Þrátt fyrir að vera ekki alveg viss ákveður hún að láta tækifærið til að kynnast þessari stelpu ekki renna sér úr greipum. Þær kynnast í lok sumars en Anna er staðráðin í að halda sambandi við hana og sjá hvað setur. Í þriðju bókinni Ég & þú ákveður fjölskylda Önnu að fara til Bretlands yfir jólin, henni til mikillar gleði. Hún og Sylvía, stelpan sem hún kynnist undir lok sumarsins, hafa verið í stöðugu sambandi og nú hefur Anna alveg gert upp hug sinn hvað hún vill. Hún er ástfangin af stelpu og er fullkomlega örugg og sátt. Það eina sem hvílir á henni er að hún þarf að koma út úr skápnum gagnvart fjölskyldu sinni en það reynist henni ekki eins erfitt og hún átti von á.
Kata, vinkona Önnu, hefur mikið vægi sem aukapersóna í sögunni. Í fyrstu bókinni heimsækir hún Önnu til Brighton og kynnist þá indverskum strák, Deepak, sem hún verður yfir sig ástfangin af. Foreldrar Deepaks hafa hins vegar lofað hann indverskri stúlku og líst ekkert á Kötu sem tengdadóttur. Samband þeirra þróast í Svart og hvítt og Kata gerir allt sem hún getur til að koma í veg fyrir að Deepak þurfi að hlýða foreldrum sínum. Margt gengur á sem reynir á ástina, foreldrar hans berjast gegn sambandinu og skötuhjúin búa að auki í sitt hvoru landinu sem gerir þeim erfiðara fyrir. Anna tekur virkan þátt í tilfinningalífi vinkonu sinnar og ást Kötu og Deepaks myndar ákveðið mótvægi við ringulreiðina sem Anna upplifir í eigin tilfinningum. Lesendur fá þannig í þessum þríleik að kynnast ýmsum hliðum ástarinnar en ýmislegt getur staðið í vegi fyrir því að sambönd gangi upp, fjölskylda og landafræði geta haft mikil áhrif en einnig óöryggi elskenda og tilfinningarót.
Samskipti og sambönd
Sambönd eru einnig í forgrunni í skáldsögum Jónínu fyrir fullorðna, hjónabandið er áberandi umfjöllunarefni en einnig samskipti og samskiptaleysi innan fjölskyldna. Í Allt fínt… en þú? (2010) og Bara ef... (2014) er sagt frá konum sem eiga það sameiginlegt að hafa tekið að sér að bjarga heiminum, eða að minnsta kosti einhverjum hluta hans, á kostnað sálarlífs og oft samskipta við fjölskyldu og vini. Þessar konur eru hálfgerðir píslarvættir og stundum ganga þær algerlega fram af sjálfum sér og lesandanum í takmarkalausri fórnfýsi sinni. Þessi lýsing á kannski einkum og sérstaklega við aðalpersónu Allt fínt… en þú?, hana Nínu, sem fórnar geðheilsunni í tilraun til að passa að öllum öðrum líði vel og enginn sé í fýlu.
Hin kvíðafulla og meðvirka Nína starfar sem sjónvarpsþýðandi, er prestfrú og tveggja barna móðir. Eiginmaður hennar, séra Georg, hefur nýlega verið staðinn að framhjáhaldi sem Nína sjálf tók ekkert eftir fyrr en maki viðhaldsins setti sig í samband við hana. Eldri dóttirin, Agnes Ýr, er nýútskrifaður stúdent og í mikilli uppreisn gegn foreldrum sínum og yngri dóttirin, Anna, er að byrja í grunnskóla. Það leggst sérlega þungt á Nínu vegna þess að Anna er með Downs heilkenni og Nína er viss um að henni muni líða illa í skólanum. Nína sjálf er mjög upptekin af hugsunum sínum sem snúast ekki bara um áhyggjur af öllum í fjölskyldunni heldur einnig um það hversu skítt hún hafi það í samanburði við aðra, sérstaklega systur sína. Sagan hefst þar sem móðir Nínu er nýlátin en dauðsfallið ber óvænt að og hefur mjög mikil áhrif á Nínu og systur hennar. Faðir þeirra er strax tekinn saman við aðra konu og bæði Nína og systir hennar eru mjög ósáttar, systirin þó áberandi meira en Nína og gengur svo langt að slíta öllum samskiptum við föður sinn. Nína tekur að sér að reyna að sætta fjölskylduna og leggst það ofan á öll vandamálin sem hún glímir við heimafyrir og í samskiptum við eiginmanninn og eldri dótturina. Á endanum brestur allt hjá Nínu sem fer eiginlega yfirum en þrátt fyrir allt lærir hún ekkert. Hún getur engan vegin sleppt tökunum og jafnvel þó allt endi næstum með ósköpum heldur hún ótrauð áfram að fórna sér um leið og færi gefst. Allt sem gengur á í lífi Nínu gerir að verkum að frásögnin verður hálfpartinn tragíkómisk, það er á köflum svo yfirgengilegt og Nína svo upptekin af vandamálunum að þau verða helmingi stærri fyrir vikið. Hún er hins vegar afskaplega orðheppin og hittir naglann á höfuðið þegar hún talar um sjálfa sig og áhyggjurnar, sem gerir frásögnin hennar frekar sjálfhæðna og fyndna.
Bara ef… segir frá tveimur samböndum, annars vegar þeirra Möggu og Ragnars, hjóna um sextugt sem hafa verið saman í marga áratugi og eiga saman þrjú börn, og hins vegar Eyglóar dóttur þeirra og sambýlismanns hennar Örvars. Á sextugsafmæli Ragga ákveður Magga að halda „surprise“ partí fyrir hann en akkúrat það kvöld hefur hann ákveðið að fara fram á skilnað. Allt fer úr böndunum í veislunni vegna þessarar óvæntu yfirlýsingar Ragnars og hann flýr í sumarbústað þeirra hjóna. Brestir koma í hjónaband Möggu og Ragnars, og Eygló tekur að sér að reyna að miðla málum milli foreldra sinna (gegn vilja þeirra beggja). Líf Eyglóar og samband þeirra Örvars er líka fremur flókið þar sem hann á þrjú börn úr fyrra hjónabandi og fyrri eiginkona hans er ennþá óþarflega stór hluti af lífi hans. Eygló neyðist (eða neyðir sjálfa sig öllu heldur) til að búa við þetta óheilbrigða fjölskyldulíf til að geta verið með Örvari en á erfitt með að tengjast börnum hans og þráir að eignast barn sjálf.
Magga og Ragnar átta sig á því eftir áratuga hjónaband hvernig er að standa á eigin fótum óháð hinum aðilanum en Magga hefur alla tíð tekið að sér að sjá til þess að Ragnar, sem er latur nautnaseggur að eðlisfari, lifi heilbrigðu lífi á meðan Ragnar sér fyrir heimilinu með háum tekjum af tannlæknastofu sinni. Samband Eyglóar og Örvars líður hins vegar fyrir óuppgerða fortíð sem hvorugu þeirra tekst að komast almennilega yfir. Þegar Eygló segir Örvari frá því að hún sé ólétt fer samband þeirra í eina allsherjar flækju sem þeim reynist erfitt að leysa úr þar sem þau geta varla talað saman fyrir leyndarmálum úr fortíðinni. Í lokin virðast Magga og Ragnar hins vegar ná að yfirstíga gjána sem hafði myndast á milli þeirra, þau tala saman og gera upp málin að mestu og ákveða að taka göllum makans með kostunum.
Í báðum þessum skáldsögum er fjallað um flókin sambönd sem litast af fortíðinni og bældar tilfinningar sem hafa miklu meiri áhrif en þau þyrftu að hafa ef aðalpersónurnar gerðu bara eitthvað í þeim. Þetta umfjöllunarefni má sjá víðar í verkum Jónínu, meðal annars í skáldsögunni Þríleikur (1994) þar sem sagt er frá ævi og ástum þriggja systra sem allar lifa mjög ólíku lífi en ganga allar í gegnum sambönd sem hafa misgóð áhrif á þær og í leikritinu Sælustundir (1996) þar sem er fjallað um fjögur pör sem fara saman á líkamsræktarnámskeið. Á meðan pörin rækta líkamann kemur ýmislegt upp á yfirborðið í samböndum þeirra og tilfinningar losna úr læðingi sem áður höfðu verið bældar niður.
Konan í blokkinni er nýjasta skáldsaga Jónínu og kom út árið 2015. Sagan er sakamálasaga þar sem aðalpersónurnar eru Steinunn og Edda sem eru nágrannakonur í blokk í Vesturbænum. Edda er nýfarin á eftirlaun og henni leiðist, henni finnst hún ósýnileg og finnst fólk taka sífellt minna mark á sér eftir því sem hún eldist. Hún reynir að finna sér eitthvað að gera og börnin hennar hafa áhyggjur af því að hún fari sér að voða eða komi sér í vandræði. Um jólin berst henni óvænt bréf frá syni gamallar þýskrar pennavinkonu. Pennavinkonan er horfin og sonurinn heldur að hún sé á Íslandi, hann biður Eddu að hjálpa sér að finna hana því hann er hræddur um að eitthvað hafi komið fyrir hana. Edda tekur fegin verkefninu og finnur fljótlega konu sem er gestur á Hótel Sögu og sem heldur því fram að hún sé pennavinkonan. Eitthvað er þó bogið við konuna og reyndar við soninn í Þýskalandi líka og Edda gerir allt sem hún getur til að komast til botns í málinu. Á sama tíma veltir hún því fyrir sér hvað hafi orðið af Steinunni sem býr á efri hæðinni því hún hefur ekki sést í langan tíma. Einhver hefur ofsótt Steinunni að undanförnu og Edda fer að hafa áhyggjur en sama tíma og hún eltist við þýsku pennavinkonuna vaknar Steinunn bundin og kefluð í niðamyrki. Hún veit ekki hvar hún er, hver heldur henni fanginni eða hvers vegna. Steinunn veltir því fyrir sér í prísundinni hver geti mögulega viljað henni svona illt og fer yfir líf sitt undanfarnar vikur og mánuði í huganum til að reyna að komast að niðurstöðu. Smám saman fær hún örlitla innsýn í málið en er þó langt frá því að skilja hvað er á seyði.
Sjónarhorn sögunnar skiptist á milli Steinunnar og Eddu og fær lesandinn að fylgjast með þeim þar sem þær leysa hvor úr sinni ráðgátunni, Steinunn í nánast algerri kyrrstöðu en Edda á þeytingi út um allan bæ til að reyna að finna upplýsingar um pennavinkonuna. Saga þeirra tveggja fléttast svo saman í einu allsherjar lokauppgjöri þar sem tvísýnt er um útkomuna. Steinunn og Edda eiga fátt sameiginlegt annað en heimilisfangið en þó má segja að hluti af vanda beggja felist í því að hvorki sé hlustað á þær né tekið mark á áhyggjum þeirra. Börn Eddu koma fram við hana eins og hún sé barn og gera lítið úr áhyggjum hennar af pennavinkonunni og áður en hún vaknar í prísundinni fær Steinunn litla hjálp þegar hún leitar til lögreglunnar vegna eltihrellisins sem situr um hana. Viðhorfið sem þær mæta á stóran hlut í vandanum sem þær standa frammi fyrir og skiptir sköpum í máli Steinunnar sem verður að reyna að bjarga sér sjálf úr lífshættulegum aðstæðum.
Sjálfsævisagan – ástin og lífið
Áður en sjálfsævisagan Við Jóhanna kom út hafði Jónína sent frá sér tvær bækur þar sem hún fjallaði um líf sitt og hugsanir, annars vegar greinasafnið Talað út um lífið og tilveruna (2007) sem byggir að hluta á ritstjórnarpistlum úr Nýju Lífi og fjallar um ýmsar hliðar lífsins og tilverunar út frá hennar eigin reynslu. Hins vegar kom árið 2012 bókin Léttir: hugleiðingar harmonikkukonu. Léttir er skrifuð í dagbókarstíl og í henni segir Jónína frá glímu sinni við aukakílóin þegar hún ákveður eftir að heilsufarsvandamál setja strik í reikninginn hjá henni að nú sé tíminn til að snúa þróuninni við. Ekki er um að ræða eiginlega megrunarbók heldur eins konar samantekt á hugrenningum og tilfinningum höfundar þar sem hún segir frá greinaskrifum og rannsóknum sem hún les ásamt því að lýsa daglegu lífi og vandamálum sem hún stendur frammi fyrir á meðan á ferlinu stendur.
Við Jóhanna (2013) segir frá sambandi Jónínu og eiginkonu hennar Jóhönnu Sigurðardóttur og í upphafi frásagnarinnar kemur fram að Jóhanna hafi átt frumkvæðið að því að þær segðu sögu sína. Hún hafi stungið upp á því daginn sem þær gengu í hjónaband til að svara ákalli um að þær leggðu réttindabaráttu samkynhneigðra lið. Þær hafi verið gagnrýndar fyrir að láta ekki til sín taka með afgerandi hætti fram að þessu og kannski gæti saga þeirra hjálpað einhverjum. Í framhaldi þessarar kynningar segir Jónína sögu þeirra tveggja frá sínu sjónarhorni, hvernig þær kynntust og Jónína uppgötvaði óvænt að hún bæri tilfinningar til konu, í gegnum skilnaði beggja og feluleik með sambandið þangað til þær fóru að búa saman og opinberuðu samband sitt smám saman fyrir umheiminum. Þó að sagan sé fyrst og fremst ástarsaga og sagan af sambandi þeirra tveggja veitir hún einnig mikilvæga innsýn í daglegt líf á síðustu áratugum 20. aldarinnar á Íslandi og hvernig var fyrir samkynhneigða manneskju að reyna að fylgja tilfinningum sínum og lifa eðlilegu lífi. Í upphafi sambandsins neyðast þær þannig til að halda öllu leyndu, meðal annars til að gera ekki út af við feril Jóhönnu í stjórnmálum og jafnvel eiga á hættu að missa forræðið yfir börnum sínum, en í lokin er Jónína orðin maki forsætisráðherra af sama kyni og fer í heimsóknir, á ráðstefnur og kvöldverði í því hlutverki, allt fyrir opnum tjöldum.
Frásögnin af lífi Jónínu og ástarsambandinu er mjög opinská og persónuleg, sagt er frá erfiðum atvikum og augnablikum í sambandinu og miklum tilfinningahita, bæði ástum og sorgum og hvernig samfélagsástand, ríkjandi viðhorf og pólitík höfðu áhrif á samverustundir þeirra og fjölskyldulíf. Jónína lýsir því einnig hvernig er þegar einkalíf manns verður allt í einu opinbert og á allra vitorði og hvernig er að vera maki stjórnmálamanns og veitir þannig annarskonar innsýn í árin eftir bankahrunið þegar Jóhanna sat á forsætisráðherrastól.
Að lokum
Verk Jónínu byggja á veruleika sem margar konur þekkja eða kannast við, í sögunum eru oft hversdagslegar vísanir í reynslu og upplifanir nútímakonu eins og má sjá í hugrenningum Eyglóar um þungunina í Bara ef eða Eddu í Konan í blokkinni um það að eldast. Þessar kvenpersónur eru nútímakonur sem endurspegla samfélagið sem þær lifa í þó að vandamál þeirra kunni í sumum tilvikum að virka ýkt á köflum eða yfirgengileg. Í unglingabókum Jónínu er tóninn nokkuð mildari en persónur glíma við vandamál sem er mikilvægt að ræða á opinskáan hátt. Í gegnum flest verkanna má svo lesa undirliggjandi skilaboð til lesenda: Hreinskilni í samskiptum er eina vitið og vertu þér sjálfri trú. Það er lykillinn að lífshamingjunni og því fyrr sem þú áttar þig á því, því betra.
María Bjarkadóttir, nóvember 2016
Greinar
Viðtöl
Kristín Elfa Guðnadóttir: „Unglingabók um viðkvæmt efni“
Skólavarðan 2011, 11. árg., 3. tbl. bls. 26.
Um einstök verk
Umfjallanir sem birst hafa á bókmenntavefnum má finna undir liðnum „Umfjallanir“ hér til hliðar.
Allt fínt... en þú?
Ásta Gísladóttir: „Nútímastúlkurnar Nína og Úlfhildur“ (ritdómur)
Spássían 2010, 1. árg., vetur, bls. 50.
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir: „Skvísubók fyrir fullþroska dömur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Eddubækurnar
Guðrún Steinþórsdóttir. "Ég myndi helst vilja fá tvær bækur um Eddu á ári alveg lágmark" : um vinsældir Eddubóka Jónínu Leósdóttur
Tímarit Máls og menningar. 82. árg., 4.tbl. 2021 bls. 78-93
Svart og hvítt
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir: „Svart og hvítt - og allt þar á milli“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Óvelkomni maðurinn
Úlfhildur Dagsdóttir: „Huggulegur blóðþorsti“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Upp á líf og dauða
Helga Birgisdóttir: „Ljóð á mjólkurfernum og minnismiðum“ (ritdómur)
Spássían 2011, 2. árg., vetur, bls. 34-5.
María Bjarkadóttir: „Upp á líf og dauða“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Við Jóhanna
Björn Bjarnason: „Stjórnarskiptin 2009: rýnt í þrjár ráðherrabækur“
Þjóðmál 2013, 9. árg., 4. tbl. bls. 78-93.
Guðni Th. Jóhannesson: „Raupað úr ráðuneytum: stjórnmál, sjónarhorn, minni, tilgangur“ (ritdómur)
Saga 2014, 52. árg., 1. tbl. bls. 153-68.
Verðlaun
2009 – Vorvindar – viðurkenning IBBY á Íslandi: Fyrir skrif fyrir unglinga
2008 – Ljóðstafur Jóns úr Vör: „Miðbæjarmynd“
2007 – Smásagnasamkeppni Nýs lífs, 1. verðlaun: „Leiðarlok“
2006 – Sakamál á svið, leikritasamkeppni Borgarleikhússins, valið í sex verka úrslitakeppni: Engu að tapa
1997 – Leikritasamkeppni Leikfélags Reykjavíkur, 3. verðlaun: Sælustundir
1995 – Leikritasamkeppni Sjálfsbjargar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, 2. verðlaun: Að vera eða vera ekki
Tilnefningar
2017 – Blóðdropinn, íslensku glæpasagnaverðlaunin: Konan í blokkinni
2006 – Gríman, íslensku leiklistarverðlaunin: Hér er kominn maður (sem útvarpsverk ársins)
Voðaverk í vesturbænum
Lesa meiraHver ræðst á dreng á grunnskólaaldri og skilur hann eftir illa meiddan í hjólageymslu fjölbýlishúss við Tómasarhaga? Svoleiðis ráðgátu er augljóslega ekki hægt að treysta lögreglunni einni til að leysa og hin nýstofnaða Vesturbæjarvakt, með Eddu í broddi fylkingar, tekur málið upp á sína arma.Þvingun
Lesa meiraMaður finnst myrtur í sumarbústað við Laugarvatn og sú sem kemur að honum er Magga, dóttir Adams sálfræðings og Soffíu rannsóknarlögreglukonu. Mál fara að flækjast þegar í ljós kemur að einn skjólstæðingur Adams hefur fengið hótunarbréf sem tengist þessu morði og fyrr en varir er Adam enn á ný kominn hálfnauðugur í hlutverk aðstoðarmanns sinnar eldhressu, lakkrísbryðjandi fyrrverandi eiginkonu. Í ofanálag ágerist heilabilun móður hans sífellt og leyndarmálið um Jenný leitar upp á yfirborðið.Varnarlaus
Lesa meiraAdam er rétt mættur í vinnuna á sálfræðistofunni Sáló þegar barni er rænt úr afgreiðslunni.Launsátur
Lesa meiraAndlitslausa konan
Lesa meiraAndlitslausa konan er fimmta bók Jónínu um Eddu á Birkimelnum, glímu hennar við flókin sakamál og samskiptin við fjölskylduna sem stundum eru síst einfaldari.Barnið sem hrópaði í hljóði
Lesa meiraÓvelkomni maðurinn
Lesa meiraStúlkan sem enginn saknaði
Lesa meiraKonan í blokkinni
Lesa meira