Beint í efni

Jónína Leósdóttir

Æviágrip

Jónína Leósdóttir fæddist í Reykjavík þann 16. maí 1955. Hún er Vesturbæingur í húð og hár, sem barn og unglingur gekk hún í Landakotsskóla, Melaskóla og Hagaskóla, eftir að hafa hrökklast úr Kvennaskólanum vegna ofnæmis fyrir hör og öðrum efnum sem voru notuð í handavinnutímum í skólanum. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1974 fór Jónina til Bretlands og stundaði nám í listasögu og málvísindum við Essex háskóla veturinn 1975 – 1976. Hún lauk B.A. prófi í ensku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1984 og fjallaði lokaritgerð hennar um skáldkonuna Jane Austen. Þá hefur hún sótt námskeið um leikritaskrif á vegum Endurmenntunar H.Í. og Leikfélags Reykjavíkur.

Jónína starfaði sem blaðamaður og ritstjóri um árabil, hún var blaðamaður á Helgarpóstinum 1985 – 1988, ritstjóri vikublaðsins Pressunnar frá 1988 – 1990 og ritstjórnarfulltrúi á tímaritinu Nýju lífi frá 1990 – 2005. Fyrr starfaði Jónína við ferðamál, meðal annars á ferðaskrifstofunum Ferðamiðstöðinni og Úrvali og hjá Flugleiðum í London. Hún var starfsmaður þingflokks Bandalags jafnaðarmanna frá 1984 – 1985 og varaþingmaður bandalagsins frá 1983 – 1987. Jónína hefur helgað sig ritstörfum frá ársbyrjun 2006.

Fyrsta frumsamda verk Jónínu sem kom út á prenti er ævisaga Sigurðar H. Guðjónssonar, Guð almáttugur hjálpi þér, frá 1988, en áður hafði hún sent frá sér þýðingar og leikrit. Hún hefur skrifað bæði fyrir fullorðna og unglinga, skáldsögur, smásögur, leikrit, ævisögur, ljóð og pistla af ýmsu tagi. Jónína hefur hlotið viðurkenningar fyrir ritstörf sín, meðal annars í leikritasamkeppnum, Ljóðstaf Jóns úr Vör og Vorvinda IBBY fyrir unglingabækur sínar.