Beint í efni

Andlit

Andlit
Höfundur
Bjarni Bjarnason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Jón Yngvi Jóhannsson

Bjarni Bjarnason er kynlegur kvistur í íslenskum bókmenntum. Hann hóf feril sinn á því að gefa sjálfur út ljóðabækur, skáldsögu og prósa og virtist una sér ágætlega á jaðrinum. Verk hans voru sum mikil að vöxtum og ekki alltaf árennileg, enda náðu þau athygli fárra. Árið 1996 gaf Ormstunga svo út skáldsögu Bjarna Endurkoma Maríu og þar með var Bjarna kippt inn í miðju bókmenntalífsins þar sem hann hefur verið síðan og orðstír hans vaxið með hverri nýrri bók. Samt er hann hálfgerður huldumaður.

Í nýjustu bók Bjarna sem heitir Andlit kynnumst við þessum huldumanni, uppruna hans og leið til skáldskaparins. Andlit er uppvaxtarsaga og það er engin dul dregin á að það er líf höfundarins sjálfs sem þar er lýst. Aðferðin er kannski ekkert ósvipuð aðferð Gunnars Gunnarssonar í Fjallkirkjunni, í hlutverki Ugga Greipssonar er þá Gullbrandur Högnason, sem reyndar á kattarkyns alnafna í sögunni.

Saga Gullbrands hefst í Skerjafirði þar sem hann býr með foreldrum sínum í niðurníddu húsi. Ástandið á heimilinu er ekki sem best og Gullbrandur skrópar í skóla næstum daglega en eyðir þess í stað dögunum á flakki um bæinn, reynir stundum fyrir sér sem blaðasali með litlum árangri þó. Eftir skilnað foreldranna flytur hann með föður sínum til Færeyja þar sem faðirinn kemst upp á kant við stranga áfengislöggjöf eyjaskeggja, þaðan liggur leiðin á Eyrarbakka og loks til Svíþjóðar. Þegar drengurinn loks gefst upp á sambýlinu við föður sinn flyst hann til afa síns á Íslandi, þá til ömmu sinnar og loks um stutt skeið til móður sinnar. Eftir það, snemma á unglingsaldri, er hann á eigin vegum, og kannski síst verr staddur en áður. Á öllum þessum stöðum er Gullbrandur hálf utangátta, hann eignast ekki vini, nema helst í fullorðnum, hann tollir ekki í skóla og enginn virðist í raun skipta sér mikið af því hvað verður um hann. Eftir þennan uppvöxt tekur við líf á eigin vegum, sjómennska og stefnulaust flakk út í heim. Það er ekki fyrr en Gullbrandur kemur til Reykjavíkur og hefur þar umfangsmikið sjálfsnám í lestrarsal Landsbókasafnsins og kemst í kynni við aðrar skáldaspírur að lesandinn fær á tilfinninguna að hann komist í tengsl við annað fólk. Þar finnur hann samfélag sem er honum að skapi og þar sem hann blómstrar.

Það sem vekur óhjákvæmilega áhuga og aðdáun við lestur þessarar sögu er að sögumaður skuli hafa orðið að manni og það meira að segja listamanni eftir allar þær hörmungar sem yfir hann dynja í æsku. Þetta er saga af átakanlega vanræktum dreng sem tekst, með því að treysta á sjálfan sig og drauma sína, að ala sjálfan sig upp.

Eitt það sérkennilegasta við Andlit sem sjálfsævisögu eða skáldævisögu er að sögumaður lýsir aldrei tilfinningum sínum. Þetta er ekki játningabók þótt vísað sé til Játninga Ágústínusar nokkrum sinnum í bókinni. Það er næstum sama hvað á dynur, skilnaður foreldra, dauði ástvina, sífelld búferlaskipti þar sem ættingjar senda hann á milli sín landanna á milli, öllu tekur Gullbrandur með sama jafnaðargeði að því er virðist. Hann vorkennir sjálfum sér aldrei en lýsir atburðum næstum eins og hann hafi verið áhorfandi að þeim. Sagan minnir þess vegna á stundum á uppvaxtarsögu af því tagi sem maður þekkir svo vel úr íslenskum bókmenntum síðustu áratuga þar sem léttleiki og húmor eru í fyrirrúmi. Munurinn er bara sá að hér er ekki verið að lýsa dæmigerðum uppvexti með tilheyrandi búningadrama sem gerir okkur kleift að endurlifa horfna tíma. Lesandinn fær aldrei nema óljósan grun um sársaukann sem undir býr. Forsíða bókarinnar er kannski býsna glúrin túlkun á bókinni. Þar er mynd af gerfinefi með tilheyrandi skeggi og gleraugum - skopleg gríma, í bókinni sjálfri er þessi gríma aldrei tekin ofan og maður fær á tilfinninguna að sársaukinn sem undir býr sé ástæðan.

Andlit er skáldævisaga og að forminu til býsna hefðbundin, nema að einu leyti. Við fáum aldrei að vita hvort fer fyrir Gullbrandi eins og höfundi hans, hvort hann stígur fram í sviðsljósið og hættir að vera neðanjarðarskáld. Þetta er svolítið merkileg og kannski þversagnakennd niðurstaða. Gullbrandi er neitað um þann sigur sem höfundurinn sjálfur vann. Það er óneitanlega svolítill keimur af nostalgíu yfir þessari niðurstöðu, rómantísk minning um "samfélag hinna lágstemmdu drauma" þar sem neðanjarðarskáld og "hugsanleg skáld" búa enn ósnortin af hávaða velgengninnar.

Jón Yngvi Jóhannsson, desember 2003