Æviágrip
Bjarni Bjarnason fæddist í Reykjavík þann 9. nóvember 1965. Hann bjó víða erlendis í æsku en hefur birt ljóð í blöðum og tímaritum á Íslandi frá unglingsaldri. Bjarni skrifaði leikrit um tvítugt sem flutt var af áhugaleikhópi. Í upphafi ársins 1989 kom út fyrsta bók Bjarna, ljóðabókin Upphafið, og síðar sama ár birtist á prenti bókin Ótal kraftaverk sem inniheldur prósaljóð. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri ljóðabækur, smásögur og skáldsögur auk þess sem hann hefur skrifað safn einþáttunga sem ber nafnið Dagurinn í dag.
Önnur skáldsaga Bjarna, Endurkoma Maríu, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1996 og tveimur árum síðar hlaut hann Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir skáldsöguna Borgin bak við orðin. Hann hefur hlotið verðlaun í smásagnakeppni Ríkisútvarpsins og skáldsaga hans, Mannætukonan og maður hennar vann til Bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness árið 2001. Bjarni var frumkvöðull að stofnun bókmenntatímaritsins Andblæs sem kom fyrst út 1994, en það hefur að geyma efni eftir unga höfunda.
Frá höfundi
Fyrsta birtingin
Þegar ég var fimmtán ára, eða sumarið eftir að ég kom að utan fluttur frá öllum foreldrum, réð ég mig sem vinnumann í sveit. Þetta var falleg jörð við Laugarvatn sem núna hefur verið étin upp af sumarbústaðaeigendum og ég kunni vel við fámálgan bóndann. Þó var sá galli á vistinni að húsfreyjan á bænum var eitthvað vansæl í sveitinni, sem og tíu ára sonur hennar af fyrra hjónabandi, en yngri sonurinn, sem var sonur bóndans undi sér vel. Eldri sonurinn hafði fátt annað að skemmta sér við en að atast í vinnumanninum, en ég lét það sem minnst á mig fá. Þegar ég kom í kaffi var aldrei annað en hálf hart bakkelsi á boðstólum, og búið að hirða það af borðunum áður en ég var almennilega sestur. Heiti maturinn var ekki saga til næsta bæjar, oft saltað hrossakjöt af jálki sem sagðar voru dapurlegar sögur af, en kom fyrir að bakkelsið var látið nægja einnig í hádeginu og á kvöldin. Ég hafði ekki manndóm í mér til að kvarta yfir þessu og sagði yfirleitt ekki orð, og leiddi þras kerlingarinnar hjá mér.
En svo var það dag einn að ég kom inn í kaffi og hafði lagt gömlu dráttarvélinni í brekkunni ofan við bæinn, að dró til tíðinda. Ég var ekki fyrr sestur en skrapatólið rúllaði yfir hlaðið og fór geyst niður túnið. Ég hafði ekki gert ráð fyrir að handbremsan gæti verið biluð. Traktorinn stöðvaðist í þúfnakargi neðar í haganum og hefði mátt ætla að þar með væri málið úr sögunni. En þá tók bóndakonan sig til og ásakaði mig um að hafa ætlað að drepa ungabarnið, sem var á fyrsta ári. Hélt því fram að barnið hefði getað verið að leika sér á bæjarhlaðinu, sem hefði reyndar verið vítavert kæruleysi því alltaf gat bíll rennt í hlað með tilheyrandi hundafylkingu. Ég hafði aldrei séð þessa litlu prinsessu eina á ferð enda var hún þess ekki megnug að standa í lappirnar. En nú átti ég sem sagt að hafa ætlað mér ekki minna en að taka líf hennar þar sem hún spígsporaði á bæjarhlaðinu og láta það líta út sem slys. Bóndakonan tilkynnti að hún gengi ekki um beina fyrir svona ódáma og varð lítið um góðgæti í þeim kaffitíma.
Um kvöldið ákvað ég að vinna einn dag enn og undirbúa brottför mína um kvöldið. Skrifaði í dagbókina eitthvað á þá leið að fyrst ég gerði ekkert annað en að kvelja synina á bænum og reyna að drepa kornabörn væri ég tæplega til gagns. Bætti við að ég gæti heldur ekki hugsað mér að mæta sjálfdauða ruslavagnshrossinu aftur á eldhúsborðinu. Ákvað að drífa mig til Reykjavíkur og fara að vinna einhversstaðar sem ég fengi þó að éta. Mætti næsta degi af mínu vanalega æðruleysi, en um hádegisbil gerðist það óvænt að bóndinn kallaði mig á sinn fund og vildi rölta upp í haga. Við höfðum ekki stundað spjall og göngutúra fram að því, en ég virti þennan harðduglega og kurteisa mann og slóst í för með honum. Hann segir ekki orð fyrr en allt í einu að hann vindur sér að mér:
„Strákarnir munu ekki atast meira í þér Bjarni minn, ég er búinn að tala við þá.“
Ég hafði ekki kvartað við neinn út af strákunum. Eftir nokkra umhugsun bætir hann við:
„Maður verður að borða almennilega til að geta unnið af krafti. Það verður nóg af góðum mat á boðstólum í sumar.“
Við virtum fyrir okkur fjallahringinn eins og girðingu sem þyrfti að gera við þar til hann lýsti yfir í staðreyndatóni:
„Auðvitað vitum við öll að þetta var bara óhapp með traktorinn í gær. Ég hefði átt að vara þig við að handbremsan er ónýt.“
Hann tvísteig andartak en leit svo á mig og botnaði:
„Ertu nokkuð á förum í kvöld?“
Einhver hafði grafið upp dagbókina mína og barið sig í gegnum hrafnasparkið í henni. Yfir mig skall holskefla og ég tók andköf. Á sama tíma virtist þetta svo undur sjálfsagt, vegna þess hvað hann afhjúpaði sig af mikilli einlægni. Sökum þessarar einlægni efaðist ég um að hann hefði sjálfur kíkt í dagbókina. Bæði var hann ekki sú manngerð sem hefði nennt að hanga yfir illa skrifaðri dagbók vinnumannsins, og svo sá ég ekki að hann hefði haft tíma til þess um morguninn enda búverkin fleiri en svo að hann kæmist yfir þau þótt hann ynni allan sólarhringinn. Húsfreyjan hefur sagt honum hvað ég var að hugsa.
Það var hálf vandræðalegt að fara inn í mat eftir að vera orðinn svona andlega berstrípaður. En aldrei þessu vant var húsfreyjan ekki með neinar aðdróttanir. Maturinn var ljúffengur. Mér var ekki gefið til kynna að ég væri að slæpast þó ég væri ekki úti að vinna í matartímanum. Konan var ekki beinlínis að bjóða mér meira er ég hafði klárað af disknum, en ýtti þó lambakjötsfatinu til mín svo lítið bar á. Það sem eftir lifði sumars var fæðið hið besta og frúin hin alúðlegasta. Ætli ég megi ekki bara vera nokkuð sáttur við þessi fyrstu viðbrögð við skrifum mínum?
Bjarni Bjarnason, 2001.
Um höfund
Undralönd ímyndunaraflsins: Um hugverk Bjarna Bjarnasonar
„Í upphafi var ímyndunaraflið..“
Fyrsta útgefna rit Bjarna Bjarnasonar er ljóðabókin Upphafið sem kom út árið 1989. Bókin geymir 36 ljóð þar sem fyrst er tæpt á viðfangsefnum sem Bjarni á eftir að vinna enn frekar úr í síðari verkum sínum. Fyrri hluti bókarinnar nefnist Ljósmál og setur höfundur fram skemmtilegar hugdettur um lífið, ástina, samskipti, skáldskap, orð, tungumál, trú og guð. Bjarni bregður á leik með snjöllum orðaleikjum en tekst einnig á við áleitnari spurningar um tilverurétt mannsins og hvað tilvist hans í heiminum táknar. Í síðari hluta bókarinnar, sem ber nafnið Upphafið, eru þessar pælingar Bjarna meira áberandi, tónninn þyngist og leitin að einhvers konar tilgangi verður ráðandi. Byrjunarlínur „Upphafsins“ eru táknrænar fyrir þann heim sem Bjarni bregður upp í verkum sínum og gefur fyrirheit um fantasíuna sem er áberandi í helstu skáldverkum hans.
sko í upphafi
í upphafi varef það var eitthvað upphaf
þá var það frumlegt nei sko í upphafi var ímyndunaraflið..
í upphafi var ímyndunaraflið undir áhrifum frá..
undir áhrifum frá nei sko
Hér setur Bjarni fram vitund sem veltir fyrir sér upphafi tilverunnar og hvaða frumlegi sköpunarkraftur býr henni að baki. Forsenda þess að þrauka af í þessum heimi er frjó beiting ímyndunarafls og alltaf glittir í æðri mátt eða annan heim sem þó gefur engin svör, aðeins möguleika. Ljóðmælandi kemst ekki að neinni heilsteyptri niðurstöðu en heldur leit sinni áfram.
Heimsmynd prósabókarinnar Ótal kraftaverk (1989) er heldur drungalegri og veltir höfundur þar umbúðarlaust upp pælingum um ófullkomleik mannsins og ytri veruleikanum sem hann hefur skapað sér. Guð fær það einnig óþvegið enda skapaði hann manninn í sinni mynd og er því meingallaður í hégómleik sínum. Höfundur bölsótast út í lífsgæðakapphlaupið og þær stöðluðu myndir sem nútíminn hefur fangað hinn vestræna heim í og veltir fyrir sér hversu fljótt maðurinn verður þræll viðja vanans og þægilegs hugsanaleysis. Þótt Bjarni greini nútímann með þessum hætti þá fellur hann ekki í gryfju svo margra fyrirrennara hans á íslenskum ritvelli að sjá einhverja ímyndaða lausn í horfinni moldarmenningu. Greining Bjarna snýst miklu fremur um eðli mannsins og hvort þær hvatir sem knýja hann áfram muni ekki ávallt tortíma honum áður en yfir lýkur.
Í ljóðabókinni Urðafjólu (1990) ber mun minna á þessum heimsósóma og svo er einnig um smásagnasafnið Í Óralandi (1990). Ljóðin fjalla mörg hver um ástina, hvernig hún bætir upp galla mannsins og heldur áfram að lifa í einhverri óskilgreindri mynd og kennd. Í sínu máttugusta formi skapar hún líf og gefur jafnvel dauðanum langt nef. Smásögurnar í Í Óralandi eru fjölbreyttar að efnisvali og þótt undirtónninn sé alvarlegur þá eru sögurnar skrifaðar af kímni og á höfundur auðvelt með að gera grín að eigin hátíðleik og endalausri leit sinni að algildum svörum við spurningum lífsins. Sögurnar bera glögg merki hugmyndaauðgi, frumleika og sterks vilja til sköpunar. Í „Messíasarefninu“ veltir hann fyrir sér hversu erfitt það er fyrir spámenn nútímans að standast freistni nútíma þjóðfélags og hvað slíkur veruleiki gerir við saklaus góðmenni sem vilja heiminum vel. Þetta þema skýtur aftur upp kollinum í annarri skáldsögu Bjarna, Endurkomu Maríu (1996), en þar gera illar hvatir mannsins sjálfa Maríu mey endurborna brottræka úr syndugum heimi sínum. Í „Þorpinu“ gerir Bjarni snjalla greiningu á dæmigerðu smáþorpi þar sem einungis er pláss fyrir ákveðnar staðalmyndir og frávik því dæmd til að mistakast. Hér felur ástin ekki í sér von heldur dauða.
Þær persónur sem Bjarni leggur hvað mest púður í eiga það sameiginlegt að vera síleitandi að einhverjum sannleik sem gæti fyllt tómið innra með þeim. Aðalsöguhetjurnar eru flakkarar sem eiga hvergi höfði sínu að halla og eru á skjön við umhverfið. Skynjun þeirra og lífsviðhorf gera þær að utangarðsmönnum sem veita ferskt andsvar við venjubundnum hugmyndum um veruleikann og gegnumlýsa hann í leiðinni. Í fyrstu skáldasögu Bjarna, Til minningar um dauðann (1992), kannar Sonur skuggans ýmsar hliðar mannlífsins á rápi sínu frá einum samastað yfir í annan. Hann beitir þögninni sem vopni og lætur þannig óðamála persónur afhjúpa sig hverja á fætur annarri. Sonur skuggans lifir í sínum afmarkaða hugsunarheimi sem einungis lesendur hafa aðgang að en fjölbreyttar persónur bókarinnar veita innsýn inn í ólík lífsviðhorf svo úr verður mikil óreglupæling um eðli og tilgang þessarar jarðvistar.
Dagurinn í dag (1993) er safn einþáttunga þar sem hnyttnar samræður eru færðar í framandi umhverfi. Í einþáttungunum fæst Bjarni m.a. við firringu nútímafólks, grimmd lífsins og samskiptaleysi þess. Með þessum klóku sviðssetningum neyðir höfundur mannskepnuna til að koma upp um eigin veilur með því að setja hana í óvænt samhengi. Ári eftir að einþáttungar Bjarna koma út safnar höfundur saman helstu útgefnu ritum sínum í bókinni Vísland. Hann gerir nokkrar breytingar á sumum verkanna auk þess sem hann birtir nýtt efni og ritgerðir. Bókin er mikil að vöxtum og gefur gott yfirlit yfir helstu hugðarefni höfundar á mótunarárum hans. Í þessum fyrstu verkum sínum greinir Bjarni hugsanir mannsins og það skoðanakerfi sem hann hefur komið sér upp í aldanna rás. Bækurnar eru stútfullar af vísunum í heimspeki, sögu, trúarbrögð og menningarheiminn eins og vestrænar þjóðir skynja hann. Ólíkar vitundir mannsins skeggræða við æðri máttarvöld þar sem tekist er á um hvor þeirra beri ábyrgð á sköpunarverkinu. Maðurinn gerir ótal tilraunir til að greina sig frá meingallaðri veröld en niðurstaða höfundar virðist vera sú að hann sé sjálfur upphaf og endir alls sem hann getur skynjað.
Sama ár og safnritið Vísland kom út hóf Bjarni, ásamt fleirum, útgáfu tímaritsins Andblær sem hefur komið út nær óslitið síðan. Bjarni skrifar sjálfur stofnyfirlýsingu félagsskaparins og leggur þar áherslu á hlutverk „draumabókmennta“. Hann segir drauma vera upprunalegasta táknkerfið og líkir þeim við fæðingardeild hugans. Bjarni fylgir þessum orðum eftir í framlagi sínu til tímaritsins og draumahugtakið, eins og höfundur skilgreinir það, lifir sterkt í síðari skáldsögum hans og þá sérstaklega í Borginni bak við orðin (1998) og Næturverði kyrrðarinnar (1999).
Konungsríki Immanúels Merkúríusar
Bjarni Bjarnason notar áhrifamátt fantasíunnar mjög meðvitað í verkum sínum. Hann býr til heim sem brýtur upp venjubundna veruleikaskynjun og sýnir hversdagslegar athafnir í nýju ljósi. Þennan nýja heim notar hann til að spegla raunheiminn í svo að kostir og gallar verði kunnir. Bjarni notar fantasíuna einnig sem tæki til könnunar á dulvitund og er þá kominn nærri draumabókmenntunum en drauma hefur hann kallað „raunsæjar lýsingar á hinni algjöru fantasíu“ (Andblær 1994: 4). Í ritgerðinni „Innri og ytri veruleiki“ sem Bjarni birtir í Víslandi gerir hann togstreituna milli innri og ytri veruleika að umtalsefni en þessi togstreita er ástæðan fyrir því að margar sögupersóna Bjarna eiga erfitt með að finna ró í raunheiminum:
Svo blint trúa menn á hinn ytri samkomulagsveruleika að þeir eiga til að líta svo á að þeirra innri heimur lúti sömu lögmálum og hann. Út á við kemst enginn upp með óheft andríki og taumlausan viljastyrk, slík viðleitni er alltaf brotin á bak aftur, og viðkomandi verður að taka tilllit til lýðræðislegra stjórnarhátta, sem þýðir að hann verður að semja og bíða. Þetta sljóvgar hinn innri veruleika margra sem láta reka á reiðanum í hálf ómeðvitaðri trú um að hið innra með þeim ríki einnig tímafrekt lýðræði. En í rauninni er ekkert hið innra með mönnum sem bannar óheft andríki og taumlausuan viljastyrk. (477)
Það er þetta óhefta andríki sem einkennir heim skáldsagnanna Borgin bak við orðin og Næturvörður kyrrðarinnar. Aðalsöguhetja bókanna er prinsinn Immanúel Merkúríus. Þrátt fyrir að vera konungborinn er hann gerður brottrækur vegna vanhelgunnar á aldagömlum venjum. Hann flakkar því einn um ónefnda stórborg og brauðfæðir sig með því að segja almenningi sögur úr dal föður síns. Sögurnar hverfast mikið um systur Immanúels sem var fórnað til þess að ráðamenn konungs gætu fundið hið upprunalega tungumál mitt í dimmri og djúpri þögn.
Þögnin leikur veigamikið hlutverk í verkum Bjarna og í ritgerðinni „Vísland“ leitast hann við að skýra meðvitund mannsins út frá einveru og kyrrð: „Meðvitund er það sem þú finnur eftir að hafa verið lengi einn með sjálfum þér, í svarta myrkri og grafarþögn“ (484). Slík urðu einmitt örlög systur Immanúels í Borginni bak við orðin því dauði hennar átti að færa fólki fyrstu tungu heims:
Faðir minn segir að tungumálið sé landslag sálarinnar og fyrsta landið hafi týnst þegar fyrsta tungumálið glataðist. En sé barn, af eðla blóði borið, látið við fæðingu inn í hina upprunalegu þögn muni það er fram líður mæla á fyrstu tungu heimsins, tungu guðs (21).
Immanúel á erfitt með að sætta sig við fórn systur sinnar og brýtur því meðvitað launhelganir konungsríkisins sem leiðir til brottreksturs hans.
Meðan Immanúel er saklaust barn verða umskiptin milli lífsins í borginni og lífsins í konungsríkinu eðlileg. Fólkið sem hlýðir á sögurnar telur þær hins vegar vera frjóan skáldskap og þannig verður sannleikur og trú ungs drengs að eins konar sirkusatriði. Eftir því sem Immanúel þrífst lengur í borginni því sýktari verður hann af áhrifum hennar. Við þetta myndast mikil togstreita milli þessara tveggja heima sem hann upplifir sig í. Flestir í kringum hann ráðleggja honum að sætta sig við að konungsríkið er hans eigin hugarburður og smám saman lætur hann undan fjöldanum og verður fórnarlamb kvenkyns bókaútgefanda sem forfærir hann, selur til kynsystra sinna og reynir að gera sögurnar hans að féþúfu. Hann verður því þvert á eigin áætlanir að eins konar borgaralegum róbóta.
Immanúel kann þessu nýja lífi ekki illa í fyrstu. Hann er friðill sem fær greitt fyrir að þóknast konum kynferðislega og segja þeim fallegar sögur í leiðinni. Hann er orðinn tannhjól í gangvirki borgaralegs samfélags og því háður tíma, skyldum og duttlungum annarra í fyrsta skipti á ævinni. Eina tenging hans við fortíðina er gömul tötrakona og dóttir hennar, Súsanna, sem báðar trúa því að konungsríki Immanúels sé raunverulegt. Immanúel og Súsanna verða elskendur og þrífst hún á að heyra sögurnar sem litla systir Immanúels hvíslar að honum og gerir sitt til að líkja eftir útliti persónanna sem þar búa. Immanúel heldur friðilstarfi sínu leyndu fyrir henni og þegar Súsanna kemst loks að sannleikanum, yfirgefur hún hann. Í kjölfarið leitar Immanúel uppruna síns en kemst að því að konungsríkið er jafn rotið og veruleikinn sem hann þreifst í.
Það er hægt að lesa margt úr sögunum um konungsríki Immanúels Merkúríusar. Í bókunum er gnótt tákna og vísana sem samt er ekki nauðsynlegt að rekja til að átta sig á aðstæðum og njóta þess sem ríkulegur textinn hefur upp á að bjóða. Bjarni veltir fyrir sér stöðu mannsins í nútímanum og hver framtíð hans muni vera, hann veltir fyrir sér mátti orða, tungumáls, samskipta og skáldskapar og tengslum drauma og veruleika, sannleika og lygi. Fantasían er áreynslulaus í meðförum Bjarna og verða skiptingar milli tveggja ólíkara heima eðlilegar svo maður finnur vart fyrir því þegar ljóðrænan tekur yfir og gerir ævintýraheiminn að sjálfsögðu framhaldi af lífinu eins og lesandinn þekkir það. Þótt heimarnir tveir séu ólíkir og myndi að vissu leyti sláandi andstæður, þá er eitt sem bindur þá saman og það er sú staðreynd að maðurinn drottnar yfir þeim báðum. Þess vegna verður konungsríkið aldrei hinn fullkomni spegill mannlífsins. Báðir heimarnir eru rotnir, hver á sinn hátt.
Óheft hugarflug
Bjarni Bjarnason getur ekki talist skrifa samkvæmt hefðum ákveðinnar bókmenntategundar þótt hann noti fantasíuna oft til að sýna raunheiminn í öðru ljósi. Verk hans eru á mörgum sviðum og oft fer nokkrum sögum samtímis. Í þessum útúrdúrum bregður hann á leik, teygir á söguþræðinum og notar til þess ólík stílbrögð. Sagan um Immanúel er því allt í senn ævintýri, fantasía, ástarsaga og spennusaga. Hann notar vísanir í goðsögur og leikur sér með fléttur sem helst hafa verið kenndar við reyfara. Þessi blanda ólíkra greina ratar einnig inn í skáldsögurnar Endurkoma Maríu (1996) og sérstaklega nýjustu skáldsögu hans Mannætukonan og maður hennar (2001).
Í Endurkomu Maríu segir sirkúsmaðurinn Mikael frá samneyti sínu við stúlkuna Maríu. María er óvenjuleg stúlka og margt í fari hennar bendir til að hún sé María mey endurborin. Efasemdaraddir í þjóðfélaginu neyða skötuhjúin á flótta og má lesa út úr bókinni einfaldan boðskap þess efnis að hið góða og hreina geti aldrei þrifist í þeim sauruga heimi sem maðurinn hefur komið sér upp. Sagan er uppfull af Biblíuvísunum þar sem höfundur mátar algengar kenningar kirkjunnar við raunveruleikann og í henni dúkka einnig upp kunnugleg þemu sem einkenna höfundarverk Bjarna. Mikael og María eru flakkarar eins og Sonur skuggans, Immanúel og Hugi Hugason í Mannætukonunni. Ástæðan fyrir flakki þeirra er ólík en öll eiga þau það sameiginlegt að leita einhvers sem á að gefa lífi þeirra meiri fyllingu. Persónunum mistekst ætlunarverk sitt, þær láta umhverfisþætti hafa áhrif á eigin breytni og standa einar uppi við bókarlok. Fullkomleikinn, í formi Maríu, gengur Mikaeli úr greipum, ævintýraheimur Immanúels Merkúríusar hrynur og þeir sem hann unni mest hverfa honum sýn og áköf leit Huga Hugasonar að forboðinni ást skilaði honum engu nema álitshnekki. Örlög þeirra eru þó ekki endilega tragísk því leit þeirra var eftirsókn eftir vindi. Í eigingirni sinni reyndi Mikael að koma höndum yfir og lifa með krafti sem honum var ekki einum ætlað að njóta. Innviðir konungsríkis Immanúels reyndust fúnir vegna breyskleika þeirra sem byggðu hann og var því dæmt til glötunar. Hugi Hugason varð fórnarlamb eigin hégómagirndar í vonlausri leit sinni að ást sem ekki var endurgoldin. Við lok verkanna ríkir andrúmsloft hreinsunar og tregablandinnar sáttar, persónurnar eru reynslunni ríkari og tilbúnar að hverfa aftur í heim eigin hugsana. Niðurstaðan verður því sú að maðurinn er engan veginn illa staddur einn með hugsunum sínum. Það eru miklu frekar sjúklegar gjörðir hans í samneyti við aðra menn sem kalla óhamingju yfir hann.
Mannætukonan og maður hennar ber einnig glögg merki þessara hugðarefna Bjarna en hann gengur lengra í leik sínum með ólíkar bókmenntategundir. Reyfarakenndar upphafslínur eru fljótlega leystar upp í gáskafullan leik og gerir höfundur stólpagrín að þekktum einkennum bæði sakamálasagna og ástarsagna. Útkoman er sérkennileg blanda sem er spennandi, fyndin, falleg og sorgleg. Í sögunni fullvinnur Bjarni „famme fatal“ karakterinn Helenu Náttsól en hann hafði áður daðrað við slíka persónugerð í Judith úr Endurkomu Maríu og móðir Immanúels úr Borginni bak við orðin og Næturverði kyrrðarinnar. Annað einkenni á hliðarpersónum Bjarna er hversu einhliða þær eru. Í flestum sagna hans er bæði annálað góðmenni og rakið illmenni sem aðalpersónan mátar sig við á rölti sínu milli áfangastaða. Slík persónusköpun minnir óneitanlega á ævintýri nema Bjarni veitir lesendum sínum ekki jafn greiðan aðgang að einföldum leiðarlokum þar sem sátt ríkir í sögunni á ný.
Hugverk Bjarna Bjarnasonar krefjast mikils af lesendunum og þurfa þeir að taka virkan þátt í sköpuninni til að njóta þeirra undralanda sem ímyndunaraflið hefur upp á að bjóða. Bækurnar reyna mikið á hugarflug viðtakenda og ekki síður á þanþol tungumálsins sem stundum virðist vera við það að bresta. Höfundur veltir fyrir sér stórum grundvallarspurningum um tilvist okkar og með hjálp fantasíunnar speglar hann ólíka heima sem varpa ljósi á kosti og galla hver annars. Verkin eru þó laus við umvöndunartón, markmiðið virðist miklu fremur vera að skapa og leyfa hugarfluginu að starfa fjarri kvöðum raunheimsins.
© Bjarki Valtýsson, 2002
Greinar
Almenn umfjöllun
Magnús Gestsson: „Bjarni Bjarnason segir frá“ (viðtal)
Andblær, 8. árg., (sumar), 1998, s. 30-43.
Sigurjón Árni Eyjólfsson: „„Ég er líf, sem vill lifa, umvafinn lífi sem vill lifa“ : trúarstef í bókum Bjarna Bjarnasonar. Fyrri hluti“
Tímarit Máls og menningar 2009, 70. árg., 3. tbl., bls. 107-125.
Sigurjón Árni Eyjólfsson: „„Ég er líf, sem vill lifa, umvafinn lífi sem vill lifa“ : trúarstef í bókum Bjarna Bjarnasonar. Síðari hluti“
Tímarit Máls og menningar 2009, 70. árg., 4. tbl., bls. 101-108.
Soffía Auður Birgisdóttir: „Utan og innan garðs: Um ritverk Bjarna Bjarnasonar“
Andvari 2013, 138; bls. 157-164.
Um einstök verk
Andlit
Guðmundur Andri Thorsson: „„Tilgangur. Komdu. Himinn.“ : hugleiðingar kringum þrjár sjálfsævisögur 2003“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 3. tbl. 2004, s. 51-59
Mannorð
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall: Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómur)
Stína 2011, 6. árg., 3. tbl., s. 124-129.
Verðlaun
2001 - Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness: Mannætukonan og maður hennar
1998 - Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar: Borgin bak við orðin
Tilnefningar
1996 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Endurkoma Maríu
Dúnstúlkan í þokunni
Lesa meiraMinningarorð prestsins um Jón Mikaelsson voru svo dýrðleg og upphafin að Jói litli taldi víst að hann talaði um einhvern annan en föður sinn í helvíti.Læknishúsið
Lesa meiraThe Reputation
Lesa meiraHálfsnert stúlka
Lesa meiraNakti vonbiðillinn
Lesa meiraMannorð
Lesa meiraLeitin að Audrey Hepburn
Lesa meiraDraugahöndin
Lesa meiraThe Return of the Divine Mary
Lesa meira