Ég fór að sjá þessa líka fínu hrollvekju í gær, Resident Evil: Apocalypse, og gladdist sérlega yfir stórum þætti kvenhetja þar, en mér hefur alltaf fundist hrollvekjan vera eitthvað svona meira fyrir okkur konur og aldrei skilið hversvegna fólk álítur þetta vera strákaleik. Hvort þær eru sammála mér um þetta, þær Þórdís Björnsdóttir og Kristín Eiríksdóttir, veit ég ekki, en hvað sem því líður þá er hrollvekjan undirliggjandi þráður, eða þema, í nýjum bókum þeirra beggja.
Mér liggur við að segja ljóðabókum, því þótt bók Kristínar, Kjötbærinn (Bjartur, 2004), sé einskonar prósasafn, næstumþvísaga, að sögn að danskri fyrirmynd, þá er verkið mjög skylt prósaljóðum. Reyndar datt mér í hug prósar í fyrstu bókum Margrétar Lóu Jónsdóttur þegar ég las Kjötbæinn, en einnig varð mér hugsað til Kristínar Ómarsdóttur, bæði smásagna hennar og ljóða. Reyndar minntu ljóð Þórdísar mig líka á Kristínu Ómarsdóttur og nú veit ég ekki hvort þetta er bara vegna þess að ég er með Kristínu á heilanum eða hvort svo vel sé komið að hún sé farin að hafa áhrif á nýja kynslóð ljóðskálda.
Bók Þórdísar, Ást og appelsínur (útg. höfundar, 2004), er í formi hefðbundnari ljóðabók en Kristínar Eiríksdóttur. Eins og áður sagði er þemað hrollvekjan, dauði og blóð, með dágóðu ívafi erótíkur. Þannig séð eru ljóðin öll mjög holdleg, eða líkamleg, og það er óhætt að segja að þótt þau séu misjöfn að gæðum þá tekst Þórdísi að kalla fram heildartilfinningu þessa líkamleika í bókinni. Þarsem flest ljóðin fjalla um samskipti ljóðmælanda við elskhuga sinn mætti segja á vissan hátt að hér séu ástarljóð á ferð, enda ber titillinn þess vitni. Þannig lýsa ljóðin ýmiskonar ofbeldi og ástúð sem elskendurnir úthella hvort yfir annað og birtist í ýmsum skemmtilegum og fallegum myndum. Eftirminnilegt er ljóðið um þegar ljóðmælandi fylgist með elskhuganum klæða sig upp sem kona og óskar að hann verði alltaf konan sín og sömuleiðis er mynd úr lokaljóðinu falleg, en þar sameinast hinn líkamlegi hryllingur, þarsem elskendurnir vaða stöðugt inn í líkama hvors annars, og ástúðin – og dauðinn. Ljóðið hefst á því að ljóðmælandi lýsir því hvernig hún talaði oft um að ráðast á elskhugann, en bara í gríni, nema svo hendir hún honum fram af svölunum. Í millistefi lýsir hún því hvernig hann var bestur í heimi og þegar hann var sofnaður synti hún inní hann eins og fiskur, "alveg uppí heila/og fylgdist þar með öllu/sem þig dreymdi".
Kötu, sögumann/ljóðmælanda Kjötbæjarins dreymir illa. Til að reyna að sporna við þessu hefur kærastinn hennar, Kalvin, tekið niður öll þungarokksplakötin og þótt hún viti að þetta hafi engin áhrif á draumana þá er hún fegin því hún var orðin hundleið "á öllum innyflunum, blóðinu, útglenntu konunum og táknmyndum dauðans" (13). Þó er hugur hennar fanginn af kjöti, nánar tiltekið auglýsingu frá Kjötbænum: "Kjötbærinn óskar eftir eldsálum" (10). Prósarnir lýsa síðan brotum úr lífi þessa unga fólks, Kata er föl af inniveru og upptekin af jakuxum, en snemma í bókinni er prósi sem lýsir henni á baki jakuxa sem reikar um slétturnar í leit að hjörð.
Ekki er ljóst hvort þetta er draumur, eða hvort draumurinn sé kannski auglýsingin, enda skiptir það ekki öllu máli, því hér er ekki verið að búa til raunsæa frásögn. Það kemur þó ekki í veg fyrir að ákveðinn raunsæisblær, næstum ofurraunsær, sé yfir sumum prósunum, sérstaklega þarsem lýst er daglegu lífi og umhverfi, en slík augnablik togast svo skemmtilega á við lýsingar sem eiga fátt skylt við raunveruleikann, nema þá megi túlka sem vaxandi geðsýki ljóðmælanda. Í stuttu máli sagt vex fantasían eftir því sem á líður og skilin milli hins raunsæislega heims og ''draumaheimsins'' minnka. Þegar Kata leggur loks af stað að finna Kjötbæinn gengur hún framhjá blúndukjólabúð fyrir litlar stelpur sem er í raun ólögleg vopnasala. Kjötbærinn sjálfur er úr kjöti: "stoðirnar úr beinum veggir úr rjóðu kjöti. Frá húsinu vætla blóðlækir" (34). Bókin er myndskreytt af höfundi og spila myndirnar skemmtilega við textann og auka á það andrúmsloft innilokunar og óhugnaðar sem einkennir verkið. Hér eru ekki endilega nein meistarverk á ferðinni, en í báðum tilfellum er auðfinnanlegur einhver ferskleiki sem birtist í myndmáli og nálgunarleiðum á kunnugleg fyrirbæri, hér er eitthvað nýtt, eitthvað skemmtilegt.
Úlfhildur Dagsdóttir, október 2004