Beint í efni

Kristín Eiríksdóttir

Æviágrip

Kristín Eiríksdóttir fæddist árið 1981 í Reykjavík. Hún lauk B.A. prófi frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2005.

Fyrsta ljóðabók Kristínar, Kjötbærinn, kom út árið 2004. Áður höfðu ljóð hennar birst í tímaritum og dagblöðum. Á eftir fylgdu svo ljóðabækurnar Húðlit Auðnin árið 2006 og Annarskonar sæla árið 2008. Árið 2010 kom út smásagnasafnið Doris deyr og haustið 2012 sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, Hvítfeld – fjölskyldusaga. Fleiri skáldsögur fylgdu svo í kjölfarið. Hún hefur einnig samið leikrit, þar á meðal Karma fyrir fugla ásamt Kari Ósk Grétudóttur, sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu árið 2013 og Hystory sem sett var upp í Borgarleikhúsinu árið 2015.

Kristín hefur lagt stund á þýðingar, en árið 2010 kom út í hennar þýðingu bókin Hundshaus eftir danska rithöfundinn Morten Ramsland.

Auk þess að sinna ritstörfum hefur Kristín tekið þátt í samsýningum og sett upp gjörninga í samstarfi við Ingibjörgu Magnadóttur, bæði hér heima og erlendis. Sögur hennar og ljóð hafa verið þýdd á önnur mál, m.a. á dönsku, þýsku og ensku. Kristín hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir ljóðabókina KOK árið 2014, og Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna og Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt sem kom út árið 2017. Bókin Tól sem kom út 2022 var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs (2024)