Í titli nýútkominnar ljóðabókar Steinunnar Sigurðardóttur sameinast tvö meginþemu verksins – ást og land eða ást á landi - í margbreytilegum skilningi þeirra orða. Steinunn hefur áður skrifað um ástina af sérlegri list, eins og skáldsaga hennar um ástarsorgina, Tímaþjófurinn, er til vitnis um.
Sjöunda ljóðabók Steinunnar skiptist í þrjá megin kafla en í þeim skiptast á ljóðabálkar og styttri ljóð. Það er einstaklega gefandi að sökkva sér ofan í ljóðabálka, þar gefst tækifæri til lengri frásagna eða fjölbreyttari vangaveltna sem lesandinn getur flett fram og aftur í og öðlast nýjar sýnir í hverju erindi. Í ljóðabálkunum í þessari bók er einmitt ýmist sögð saga eins og í þriðja hlutanum ‘Einu-sinni-var-landið’ þar sem nokkur ljóð um einsetumanninn írska eru tengd saman, eða ljóðmælandi veltir fyrir sér ákveðnu efni eins og í fyrsta ljóðinu ‘Upphafsljóð fyrir eilífa byrjendur’. Það ljóð er ekki bara upphafsljóð bókarinnar heldur fjallar það um upphaf – upphaf ástarinnar sem samkvæmt ljóðinu ber alltaf óhjákvæmilega með sér endalokin ‘og endirinn var vís, rétt hjá eða langt undan, / en umfram allt vís’. Þessi hugmynd um endinn langa einmitt þegar ástin kviknar er sérlega áhrifamikil:
Sorgbitin strax fyrir byrjun
í vissunni um að það yrði byrjun,
í vissunni um að byrjunin hættir
í vissunni um að endirinn yrði endalaus.
Ljóðið hefur því yfir sér melankólskan blæ, en einnig tilfinninguna fyrir því hvernig ástin var til áður en hún byrjaði, ‘við sem / söknuðum hvort annars áður en við hittumst’. Og í lokin má segja að sú hugmynd sé orðin hræðslunni við endalokin yfirsterkari.
elskaði þig, ófæddan mann, áður en ástin var fundin
upp
og orðin,
svo sem dauðinn.Dautt orð og ómerkt.
Síst af öllu það sem mundi skilja okkur sundur.
Dautt orð og ómerkt. Síst af öllu það sem mundi skilja okkur sundur. Í ljóðinu ‘Ást í nýju borginni’ er það svo borgin sem er staðgengill elskhugans – eða mannsins sem veit ekki að hann er elskaður – og tekur ástaratlotum vel. Í ‘Dagdraumaklasa’ eru draumar um ástina og tilfinning fyrir að dagdraumar geti ræst, eða séu um það bil að rætast og ekki síst sú hugmynd áberandi að nýtt upphaf, ný ást, sé möguleg – hægt sé að vekja hjartað af dvala. Þessi ljóð í fyrsta hlutanum tengjast fallega saman, efnislega, en einnig með því að orð úr síðustu erindum ljóðanna ganga aftur í upphafi þess næsta. Í kaflanum ‘Ljóð fyrir lengra komna’, er ástin enn undir, en írónían hefur hér bæst við, húmorinn og snerpan sem höfundurinn er löngum þekktur fyrir.
Í öðrum og þriðja hluta bókarinnar er það landið og náttúran sem verður að aðalumfjöllunarefni. Í öðrum hlutanum, ‘Framlengdur sumardans’, er það sumarveðrið, garðurinn, það nærtæka, börn að leik, litir í árstíðunum, sem er umfjöllunarefnið, en í þriðja hlutanum, ‘Einu-sinni-var-landinu’ er umfjöllunarefnið stórvaxnara í tíma, rúmi og meiningum – því þar ferðast írskur landnemi um land og tíma og horfir á hvernig farið hefur verið með náttúruna. Í þessum ljóðabálki er vissulega nokkuð rómantísk og ‘þjóðleg’ náttúrusýn (sem minnir jafnvel á Snorra Hjartarson og Jóhannes úr Kötlum), en sagan sem er sögð er hugvitsamlega gerð og erindið brýnt. Þar sjáum við ástina á landinu og ekki síður ótta við endalokin heldur en í ástarljóðunum í fyrri hlutanum. Það fer því vel á því að þessi ljóð, sem virðast ólík að efni við fyrstu sýn, fari saman í einu verki, Ástarljóðum af landi, svo úr verður samofin og áleitin heild.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2007