Beint í efni

Ávítaratáknið og Tröllafell

Ávítaratáknið og Tröllafell
Höfundur
Lene Kaaberböl
Útgefandi
Jentas
Staður
Seltjarnarnes
Ár
2005
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Ávítaratáknið og Tröllafell
Höfundur
Katherine Langrish
Útgefandi
Stílbrot
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ég ætla að byrja þessa umfjöllun á því að vísa til annarrar - nánar tiltekið umfjöllunar minnar um bækurnar Úlfabróður og Silfurvæng. Þar vísaði ég til vangaveltna um möguleg áhrif Harry Potter bókanna á læsi og bókaútgáfu. Hvernig sem það mál er í pottinn búið er ljóst að undanfarin ár hafa verið mikil gósentíð fantasíuunnenda. Fantasíur í formi bókmennta og kvikmynda eru nú orðnar sjálfsagt mál og þeir sem kunna slíkt að meta fitna eins og púkinn á fjósbitanum af allskonar ævintýralegum sögum um dreka og galdrafólk af ýmsu tagi, auk hinna og annarra (ó)vætta sem sverja sig í ætt þjóðsagna.

Hér ætla ég að fjalla um tvær þýddar fantasíubækur fyrir börn og unglinga, Ávítaratáknið (Jentas, 2005) eftir Lene Kaaberbøl og Tröllafell (Stílbrot, 2005) eftir Katherine Langrish. Báðar eru þær með nokkru norrænu yfirbragði, þó aðeins önnur þeirra sé norræn; höfundur Ávítarabókanna er dönsk, en Tröllakonan er hinsvegar afskaplega ensk, þó sögur hennar byggi á skandinavískum þjóðsagnaarfi. Lene Kaaberbøl er sjálf mikill unnandi fantasíusagna og því lá beint við að skrifa slíkar. Líkt og hér á landi er ekki mikil hefð fyrir fantasíum meðal Dana, en það kom ekki í veg fyrir að bækurnar yrðu afar vinsælar og hafa nú verið þýddar á önnur norræn mál og ensku. Bækurnar eru fjórar talsins, sú fyrsta kom út á dönsku árið 2000 og sú síðasta árið 2003. Tvær þeirra hafa verið þýddar á íslensku, Dóttir ávítarans, sem kom út í fyrra og svo sú sem hér er til umfjöllunar, Ávítaratáknið. Ég hafði ekki lesið fyrri bókina, en ákvað að láta á það reyna hvort bókin ‘virkaði’ þannig, og í stuttu máli sagt gerði hún það fyllilega. Sagan er kraftmikil og kynngimögnuð og bara ansi frumleg fannst mér, en þar segir frá ávítarafjölskyldunni sem hefur flúið heimili sitt eftir atburði fyrri bókarinnar og er sest að uppi í hálöndum. Sögusviðið er hinn óljósi tími fantasíunnar, einhverntíma fyrr á tímum. Ávítarinn nýtur mikillar virðingar, en hann er kona sem hefur vald yfir samvisku manna. Með raddbeitingu og mögnuðu augnaráði getur hún fengið seka til að játa sekt sína. Dóttir hennar, Dína, hefur erft hæfileikann og er í þjálfun hjá móður sinni. Sagan hefst á því að þær mæðgur frétta af frekari hörmungum sem óvinur þeirra úr fyrri bókinni kallar yfir fólkið. Sá hefur ekki gefist upp á ofsóknum gegn ávítaranum og reynir að leiða hana í gildru, undir fölsku nafni manns úr nágrannaættbálki. Þó ávítarinn falli ekki sjálf í gildruna valda flækjur ýmsar því að dóttirin er fönguð af fulltrúa aðalóvinarins, en hann neyðir hana til að misnota krafta sína til að ná sér niður á þjónustufólki sínu.

Eins og áður sagði er sagan bæði dramatísk og frumleg, og það vakti sérstaka ánægju hjá mér hvað persónur eru vel útfærðar, bæði móðirin sjálf og börn hennar, en sonurinn Davín kemur einnig mikið við sögu, hann er orðinn unglingur og er all upptekinn af því að leika karlmann. Þrátt fyrir að hér sé mikið af hefðbundnum þáttum fantasíunnar er útfærslan á þeim frumleg og sterk og bókin í alla staði áhugaverð - svo áhugaverð að ég ætla strax að lesa þá fyrri og bíð spennt eftir næstu tveimur.

Eins og áður sagði notar Katherine Langrish skandinavískar þjóðsögur í fantasíu sinni um Tröllafell. Langrish fékk áhuga á skrifum eftir að hafa unnið á bókasafni við það að segja sögur. Tröllafell er hennar fyrsta bók, en hún er þegar búin að skrifa framhald, Tröllamilluna. Sagan segir frá ungum dreng, Peer Úlfssyni, sem missir föður sinn og er tekinn í fóstur af frændum sínum. Ekki þó af góðgirni, því frændurnir er bæði nískir og illskeyttir og ætla að gefa piltinn tröllahjónum í brúðkaupsgjöf. Sagan er öllu ærslafyllri en hin dramatíska Ávítaratáknið, þó vissulega sé hún líka með alvarlegum undirtónum. Sögusviðið er fyrri tíð, jafnvel víkingatíminn, því fjölskyldufaðir einn í dalnum tekur sig upp og fer í víking, með þeim afleiðingum að tröll og frændur Peers sækja illa að fjölskyldu hans, meðan Peer vingast við dótturina Hildi. Meðal annars hafa þeir bræður hug á fleiri brúðkaupsgjöfum! Tröllin eru ekki þau sem eru Íslendingum kunn, bergrisar og nátttröll, heldur eru þetta ‘lukkutröll’ svokölluð, fremur ófríð og úfin og með hala, en í mannlegri stærð. Inn í málið blandast svo draumar frændanna um fjársjóð tröllanna og fleiri verur og (ó)vættir ýmiskonar, meðal annars búálfur eða húsandi og einskonar vatnanorn sem veldur heilmiklum usla.

Ráðagóðu krakkarnir tveir sem eru aðalsöguhetjurnar eru nokkuð vel útfærðir og þjóðsagnaverurnar eru fyndnar og sniðugar, en einhvernveginn tekst ekki nægilega vel að skapa dulúð og kraft. Sagan er þó skemmtileg aflestrar en nokkuð hefðbundin og kannski ekki svo átakamikil, svona þegar á heildina er litið.

Og enn get ég ekki annað en hugsað með mér hvað ég hefði notið þess að eiga allar þessar ævintýrabækur að þegar ég var barn og unglingur...

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2005