Beint í efni

Barnaræninginn

Barnaræninginn
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Í bókinni Draumaþjófurinn sem kom út í fyrra fengu lesendur að kynnast átökum í heimi hafnarrotta og því hvernig foringjanum Skögultönn var steypt af stóli í Hafnarlandi ásamt sínum helsta stuðningsmanni, grimmu tilraunarottunni Ljúfi. Dóttir Skögultannar, Eyrnastór Aðalbarn Gullfalleg Rottudís eða Eyrdís eins og hún ákvað að láta frekar kalla sig, átti ásamt vinum sínum sem hún kynntist í ævintýralegri för sinni um borgina, stóran þátt í því að koma Skögultönn frá völdum. Eyrdís og vinir hennar komu á nýju skipulagi í Hafnarlandi og sendu Skögultönn og Ljúf í útlegð til Matarfjallsins þar sem Eyrdís var viss um að þau myndu ekki komast upp með neitt múður.

Barnaræninginn er framhald af Draumaþjófnum og nú er Eyrdís tekin við sem foringi Hafnarlands. Eftir fall Skögultannar leikur allt í lyndi fyrst um sinn en smám saman fara ýmis vandamál að skjóta upp kollinum sem Eyrdís þarf að leysa og taka afstöðu til. Þó að stéttaskiptingin sem ríkti í Hafnarlandi á meðan Skögultönn var við völd hafi verið afnumin verður fljótt ljóst að það er ekki endilega auðvelt að stjórna heilu landi af rottum, því þó að allir eigi að vera jafnir í nýja skipulaginu eru málin oft mun flóknari en ung og óreynd rotta getur séð fyrir. Á sama tíma og Eyrdís þarf að takast á við sífellt háværari óánægjuraddir í Hafnarlandi berast fregnir af því að barnaræningi gangi laus í Matarfjallinu, sem rænir rottuungum og þvingar foreldra þeirra til að hlýða sér ella hljóti börnin verra af.

Eyrdís er ekki lengi að leggja saman tvo og tvo, lýsingarnar á barnaræningjanum eru afar kunnuglegar. Það kemur enginn annar til greina en Ljúfur og það þýðir að mamma hennar er viðriðin málið. Þar sem það var Eyrdís sjálf sem sendi þau Skögultönn og Ljúf í útlegð finnst henni hún bera alla sök á því hvernig málum er komið fyrir rottum Matarfjallsins. Hún ákveður að senda björgunarsveit þeim til aðstoðar en sjálf þarf hún að vera heima til að stýra Hafnarlandi áður en allt fer í bál og brand. Henni verður þó fljótt ljóst að hún getur ekki setið heima og leggur af stað ásamt bátarottuunganum Sandi, sem bjargaðist úr klóm Ljúfs í fyrri bókinni. Háskaför um borgina leiðir þau Eyrdísi og Sand á slóðir ýmissa mis vinveittra rotta áður en þau koma að Matarfjallinu, en þar standa málin jafnvel enn verr en Eyrdísi grunaði.

Líkt og í fyrri bókinni er sagan sögð alfarið frá sjónarhorni rottanna og skiptist sögumaður á að fylgja björgunarsveitinni, sem samanstendur af helstu ráðgjafarrottum Eyrdísar og nokkrum bardagarottum, og svo Eyrdísi og Sandi. Hvor hópur um sig lendir í ýmsum hættum og átökum, ekki bara við aðrar rottur heldur líka við mannfólk og ýmis önnur rándýr. Reyndar eru þau skipti sem rottur og menn rekast saman sérlega athyglisverð því þau eru nokkuð raunsæisleg og minna á heiminn utan bókarinnar. Leiðin í Matarfjallið liggur um holræsin og þegar skellur á stormur leita rotturnar skjóls á yfirborðinu. Þær villast inn í líkamsræktarstöð þar sem allt fer á annan endann þegar sést til þeirra í heita pottinum:

   Manneskjurnar opnuðu augun.
   Það sem blasti við þeim var svo ótrúlegt að þær virtust þurfa dálítinn tíma til að átta sig á því að þarna hékk lítil rotta á halanum á annarri rottu, hálf ofan í vatninu. Og við hlið þeirrar með halann stóðu fjórar aðrar rottur. Ein með sólgleraugu, ein með klút um hálsinn og tvær í vestum. Og allar voru þær rennandi blautar.
   Rotturnar störðu til baka, handvissar um að manneskjurnar myndu gera árás.
   Í augnablik var allt kyrrt.
   Svo öskruðu manneskjurnar.
   “AAAAAHHHHH!”
   Þá öskruðu rotturnar:
    “AAAAHHHHHH!”

(70-71)

Manneskjurnar kalla á slökkvilið og lögreglu til að fá hjálp við að losna við rotturnar, sem má alveg ímynda sér að sé eitthvað sem gæti raunverulega gerst ef yrði vart við rottur í líkamsræktarstöð. Hið sama er uppi á teningnum þegar Eyrdís og Sandur rekast á mannfólk í nýbyggingu þar sem þau leita skjóls undan sama illviðri, mennirnir bregðast ókvæða við og reyna að hrekja þau á brott.

Sagan er æsispennandi, eltingarleikurinn um holræsin þar sem Eyrdís og Sandur eru á flótta undan ógnvænlegum villirottum og átök rottubjörgunarsveitarinnar við mannfólk einkennast af hasar og naumum undankomum. Einhverjum kann að þykja rottur fráhrindandi dýr til að fjalla um í barnabók og þær myndu sennilega seint teljast meðal þeirra vinsælustu í því samhengi en það eru einmitt rotturnar, lýsingar á þeim og samfélagi þeirra, sem gera söguna athyglisverða. Rottusamfélagið samanstendur af ýmsum tegundum rotta, sem lifa við ólíkar aðstæður á ólíkum stöðum. Í hvert sinn sem ný tegund af rottum er kynnt til sögunnar rifjast upp fyrir manni að einhvern tímann hafi maður jú heyrt um þessa rottutegund en einhvern veginn kemur fjölbreytileikinn engu að síður á óvart.

Hafnarrottur, bátarottur, tilraunarottur, veitingahúsarottur og villirottur hafa öll sín einkenni og sérkenni en þó að rotturnar séu að vissu leyti manngerðar í sögunni, það er að segja fái mannlega eiginleika, eru þær engu að síður ennþá dýr sem ráða stundum ekki við dýrslegt eðli sitt. Þetta samspil mannlegra eiginleika og eiginleika dýrs er vel útfært í sögunni og minnir lesandann reglulega á að hér eru ekki á ferðinni einhver krúttleg og knúsuleg dýr heldur villtar rottur, þó þær séu líka vinalegar hver við aðra og eigi fjölskyldur líkt og manneskjur. Dýrslegt eðli rottanna kemur í ljós á áberandi hátt þegar Eyrdís fæst við foringja villirottanna, sem vill éta hana og komast yfir Hafnarland:

   Villirottan stóra fann lyktina af Eyrdísi sterkar en nokkru sinni. Þetta var besta lykt sem hann hafði fundið. Hún minnti hann á hamingjusamari tíma, betri tíð með mat í maga. Hann langaði að sökkva sér í þessa lykt. Sökkva tönnunum á kaf í þennan feld. Hann dró andann áfergjulega í gegnum nefið og hrollur fór um allar Hafnarlandsrotturnar á meðan Villirotturnar hlógu illgirnislega. (181)

Það er ýmislegt í heimi rottanna, samfélagi þeirra og hugmyndum sem má þekkja aftur úr okkar eigin heimi og sjónarhorn rottanna gefur áhugaverða sýn á ýmsa hluti. Í lok Draumaþjófsins var Eyrdís sannfærð um að hægt væri að skapa mun betra samfélag en það sem ríkti með því að steypa illum leiðtogum og afnema stéttaskiptinguna, sem hafði meðal annars falist í því að sumar rottur öfluðu matar en máttu ekki éta hann á meðan aðrar rottur höfðu eingöngu það hlutverk að éta og láta þjóna sér. Þess í stað áttu allir að vera jafnir, afla sér matar sjálfir og máttu eiga það sem þeir öfluðu sér. Fyrirmyndin sem Eyrdís hafði að nýju samfélagi var Matarfjallið, þar sem góðviljaður leiðtogi stjórnaði og allir lifðu saman í sátt.

Hins vegar er nóg til af mat í Matarfjallinu og lífið því að mörgu leyti auðveldara fyrir rotturnar þar en í Hafnarlandi þar sem er bæði minna um mat og erfiðara að ná í hann. Nýtt skipulag Hafnarlandi leiðir þannig af sér ný vandamál. Hvað eiga þeir til dæmis að gera sem eru gamlir og veikir og geta ekki lengur leitað að æti? Eða þeir sem gegna mikilvægum störfum í annarra þágu og hafa ekki tíma til að verða sér úti um mat? Að sama skapi verður ljóst að þó að nóg sé til fyrir alla í Matarfjallinu er auðvelt fyrir grimmar og illa innrættar rottur að taka völdin þar og gera rotturnar sem fyrir eru að þrælum sínum.

Eins og sjá má er ýmsum áleitnum spurningum um samfélag, samvinnu og samkennd varpað fram í gegnum rotturnar og samfélag þeirra, sem er svo aftur hægt að tengja við samfélag okkar mannanna og hvernig það virkar. Undir lok sögunnar er sett fram ný lausn á því hvernig hægt er að gera samfélagið í Hafnarlandi sem réttlátast fyrir alla, en eins og við er að búast fylgir böggull skammrifi og gefið er í skyn í blálokin að fleiri vandamál gætu verið í uppsiglingu í framhaldinu.

Barnaræninginn er athyglisverð og skemmtileg bók, sem einkennist eins og fyrri verk Gunnars Helgasonar af mikilli frásagnargleði. Hér tekst að vekja áhuga á og skapa samkennd með dýrum sem flestum stendur stuggur af, án þess að gera þær væmnar eða klisjukenndar. Sagan er auk þess áhugaverð speglun á samfélagi mannanna, þar sem er skoðað hvernig samfélög virka í ólíkum kringumstæðum og hvernig gjörðir hafa afleiðingar. 


María Bjarkadóttir, desember 2020