Beint í efni

Biobörn

Biobörn
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Jæja. Ég verð eiginlega að játa það að ég var ekki í sérlega góðu skapi þegar ég byrjaði að lesa bók Yrsu Sigurðardóttur, Biobörn. Eiginlega var ég bara í mjög vondu skapi og ef ég hefði verið myndasögupersóna hefði verið teiknað svart ský yfir höfðinu á mér, og úr því hefði komið elding. Ég veit alveg að það eru ekki ábyrg vinnubrögð hjá gagnrýnanda að lesa bók þegar hún er illa upp lögð, en ég hafði góðar vonir um að bók Yrsu myndi einmitt verða til að hressa mig við – og það reyndist alveg rétt! Fljótlega var ég farin að gráta úr hlátri og varð að taka hlé á lestrinum til að þvo maskarann framanúr mér.

Sagan, sem vann til Íslensku barnabókaverðlaunanna í ár, segir frá því að vegna mistaka skólaritara lenda trassarnir Anna Lísa og Raggi í hópi ofurgreindra barna sem boðið er til frumkvöðlanámskeiðs á vegum líftækni fyrirtækisins Biobörn. Þegar þangað er komið sjá trassarnir strax að eitthvað er ekki eins og það á að vera, og standa sig svo vel í því að bæta gráu ofan á svart með því að setja allt í upplausn – og finna út úr ýmsum grunsamlegum atburðum í leiðinni. Í lið með þeim slást tvö ofurgreind börn, Magga, sem er með hæstu greindarvísitölu allra barnanna, og Arnar, sem er bæði klár og blindur. Raggi er aðalprakkarinn, en fljótlega er hann búinn að setja allt á hvolf, ýmist óvart eða viljandi, bara með því að vera sífellt að forvitnast og hnýsast. Í fyrstu eru hin lítt hrifin (alveg eins og ég var fremur pirruð á fiktinu í honum til að byrja með), en fljótlega taka þau þátt í rannsóknarleikjum Ragga af fullum krafti (og ég byrjaði að gráta úr hlátri). Einna kómískastar voru senurnar með kanínuna Hoppara, sem lendir í ýmsum ævintýrum með krökkunum, og á eigin vegum. Einnig voru kúkabrandararnir góðir, en þeir eru á fræðimáli fullorðinna kallaðir gróteska. Gott dæmi um það er þegar Raggi sullar í lífsýnunum og svo náttúrulega í lokaatriðinu sem ekki má segja frá.

Sem fyrr er stíll Yrsu hæfilega kæruleysislegur og bráðskemmtilegur, atburðarásin er hæfilega ótrúverðug; sagan minnti mig svolítið á það sem kallað er b-myndir í Hollywood, en það eru kvikmyndir sem eru ekkert of mikið að hafa áhyggjur af að efni þeirra sé of raunsætt og trúverðugt. Þannig er allur andi léttur og sprækur og minnti mig eiginlega svolítið á plottið í bók Sigrúnar Eldjárn, Týndu augun, sem einnig er ansi ævintýralegt á köflum. Ég er ánægð með þetta hjá þeim, það er afskaplega takmarkaða ánægju að hafa af of miklum trúverðugleika og raunsæi til lengdar. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að í sögunni sé tekið á athyglisverðum málum, en umræðan um líftækni er vinsælt efni bókmennta og kvikmynda um þessar mundir, enda nærtækt fyrirbæri á tímum þegar hröð tækniþróun virðist ætla að gerbreyta tilveru mannkyns, heilsufari og samfélagsgerð. Yrsa gerir sér þetta að skemmtilegum leik, með þó sterkum undirtóni, ef miðað er við fréttaflutning af möguleikum á genabreytingum á fósturstigi.

Í heildina séð verð ég því bara að segja að Biobörn er hreinn gleðigjafi, og ætti ekki síður að geta glatt foreldra en börn þeirra.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2003