Beint í efni

Bítlaávarpið

Bítlaávarpið
Höfundur
Einar Már Guðmundsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Það rísa draugar upp úr skrifborðsskúffu höfundar. Sagnaheimur sem löngu er orðinn að goðsögn lifnar við aftur, eða a.m.k. gengur aftur. Í Bítlaávarpinu birtast nefnilega persónur og sögusvið sem þekkt eru úr trílógíu Einars Más Guðmundssonar sem hófst með Riddurum hringstigans. Það er svolítið skrítið að verða vitni að þessum reimleikum, sjá sögupersónur snúa aftur til að segja okkur fleiri sögur af Hverfinu, Herberti skólstjóra, Hvíta skólanum, Jóhanni, Óla og öllum hinum. Fyrir þennan lesanda voru þetta margfaldir reimleikar því þegar ég las fyrstu bækurnar um þetta fólk bjó ég enn í "Hverfinu" og gekk enn í "Hvíta skólann", þótt "Herbert" væri kominn á eftirlaun.

En sem sagt, það bætast við fleiri sögur við undirleik Bítlanna og Rolling Stones og heimasmíðaðra hljómsveita. Jóhann hefur elst að því leyti að stelpur eru orðnar að áhugamáli, en barnslega sýnin er nær óbreytt frá fyrri bókum. Hljómsveitardraumum og stelpuáhuga er skemmtilega lýst, með tilfinningu fyrir smáatriðum og húmor sem aldrei gerir lítið úr viðfangsefninu. Goðsögulegur blær liggur yfir "Hverfinu" að vanda, og stöðugt er gefið til kynna að hér séu á ferð atburðir sem sumir hverjir séu löngu orðnir að goðsögn með því að nota orðalag á borð við "sumir segja ...".

Það ná ekki allar persónurnar nógu sterkum svip í huga lesandans, strákarnir eiga til að renna saman í móðu prakkarastrika og uppátækja, sem skiptir þó kannski ekki höfuðmáli, því það er stíllinn og sögurnar sem halda þessu uppi.

Efasemdirnar vakna hins vegar þegar maður skoðar þetta sem sjálfstæða skáldsögu. Hún rennur ljúflega og áreynslulaust, en það er eins og það vanti sterkari þráð til að binda sögurnar saman. Atburðirnir í lokin nægja ekki alveg að glæða sögurnar dýpri merkingu, ná ekki að lita þær dekkri tónum, því sögurnar eru helst til blæbrigðalitlar. Þær virka miklu frekar sem einhvers konar addendum við tríólógíuna, apókrífískar sögur sem ekki var pláss fyrir þar; aukalög eða uppklapp fyrir aðdáendur.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2004