Æviágrip
Einar Már Guðmundsson er fæddur í Reykjavík 18. september 1954. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1975 og B.A. prófi í bókmenntum og sagnfræði frá Háskóla Íslands 1979. Hann bjó í Kaupmannahöfn í sex ár og stundaði framhaldsnám í bókmenntafræði við Kaupmannahafnarháskóla.
Fyrsta bók Einars Más, ljóðabókin Er nokkur í kórónafötum hér inni, kom út árið 1980. Árið 1985 fékk hann fyrstu verðlaun í bókmenntasamkeppni Almenna bókafélagsins fyrir skáldsöguna Riddarar hringstigans. Síðan hefur Einar Már sent frá sér fjölda verka og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín. Bækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og skáldsagan Englar alheimsins fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1995. Samnefnd kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar var frumsýnd í Reykjavík á nýjársdag árið 2000. Einar Már fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015 fyrir Hundadaga auk þess sem aðrar bækur hans hafa fengið tilnefningar til þeirra.
Mynd af höfundi: Hörður Ásbjörnsson.
Frá höfundi
Pistill frá Einari Má
Ég: Óli hefurðu tekið eftir því hvað dúfurnar eru með litla hausa? Heldurðu að þær séu ekki með neina heila?
Óli: Nei, þær eru með vængi. Til hvers ættu þær að vera með heila?
Ég: Meinarðu að það sé betra að vera með vængi en heila?
Óli: Ég held að það væri best að vera með vængi á heilanum.
…
Þetta samtal tveggja drengja er að finna í annarri skáldsögu minni, Vængjasláttur í þakrennum. Hún kom út árið 1983. Ég veit ekki hvort ég hugsaði svo nákvæmlega út í það þá, en með árunum hefur þetta orðið markmið, að skoða töfrana í veruleikanum og veruleikann í töfrunum.
Það má heldur ekki hugsa of mikið út í málin. Því segi ég eins og stjórnleysingjar: Vertu raunsær – og framkvæmdu hið ómögulega.
En samt segi ég: Skáldskapurinn er leit að innri merkingu í hinum ytra heimi og ytri merkingu í hinum innra heimi.
Allt snýst þetta um tengsl, samband, ást. All you need is love.
Allt býr í skáldskapnum, en samt er hann ekkert sérstakt, ekkert eitt afmarkað fyrirbæri.
Þess vegna haldast ljóðið og sagan í hendur.
Ég hef horfið á vit barnæskunnar og sögunnar eða reynt að átta mig á hringiðunni sem hvert augnablik færir okkur.
Samt get ég ekki sagt að ég leiti söguefnanna, þau koma til mín, banka að dyrum og þar með er eltingaleikurinn hafinn; að hárreita hugann, að koma sér fyrir í örmum hins liðna: þetta er ferðalag með rútu sem heitir saga.
Leiðin liggur út í óvissuna, en þar byrja hlutirnir að fá merkingu.
Ég er fæddur í Reykjavík, á tímum breytinga sem hafa kennt mér að horfa í ýmsar áttir. Nýi tíminn var að fæðast en sá gamli ekki dáinn. Fjölmiðlaheimurinn ekki til, frelsi frekar mikið. Ótal börn. Mikið líf.
Þetta mannlíf rataði aldrei í sögubækur. Því hef ég áhuga á sögu sem ekki er álitin saga.
En nú er ég heltekinn af sögunni, sögunni sem ekki var sögð í sögunni sem okkur var sögð.
Meira get ég ekki sagt í bili en kveð með litlu ljóðabroti.
Úr Hómer í Reykjavík
Eitt regnþungt síðdegi,
á skipi úr víðförlum draumi,
kom sagnaþulurinn Hómer til Reykjavíkur.
Hann gekk frá hafnarbakkanum
og tók leigubíl sem ók með hann
eftir regngráum götum
þar sem dapurleg hús liðu hjá.
Við gatnamót sneri sagnaþulurinn Hómer
sér að bílstjóranum og sagði:
"Hvernig er hægt að ímynda sér
að hér í þessu regngráa
tilbreytingarleysi búi söguþjóð?"
"Það er einmitt ástæðan," svaraði bílstjórinn,
"aldrei langar mann jafn mikið
að heyra góða sögu og þegar droparnir
lemja rúðurnar."
Einar Már Guðmundsson, 2000.
Um höfund
Hér má finna tvær greinar um verk Einars Más Guðmundssonar. Sú fyrri er eftir Þröst Helgason, 2000. Þar á eftir kemur grein Þorgeirs Tryggvasonar sem spannar árin 2000-2022.
Um verk Einars Más Guðmundssonar
I
... það sem skynsemishyggjan lítur á sem tvö andstæð
skaut sér skáldskapurinn sem eina heild,
ævintýrið og veruleikinn eru undir sama hatti.
Þannig kemst Einar Már Guðmundsson að orði í bók sinni Launsynir orðanna (1998) sem inniheldur greinar og þankabrot um skáldskap. Innsæið og innblásturinn eru Einari mikilvæg meðul í sagnalistinni. Hann er sennilega einn af fáum íslenskum rithöfundum af sinni kynslóð (og yngri) sem myndu ekki sverja af sér allar rómantískar hugmyndir um innblástur og önnur snillingselement. Enda hvernig gæti hann það þegar hann segir hluti eins og þessa: „Líklega byggist sköpunarkrafturinn fremur á innsýn í leyndardóma en þekkingu á náttúrulögmálum.“ Það eru leyndardómar á bak við skáldskapinn að mati Einars, einhver galdur á sér stað sem við þekkjum ekki til hlýtar, og þurfum kannski ekki að þekkja, það nægir okkur að vita að „sagnalist á ... upptök sín í sálu mannsins,“ eins og Einar tekur til orða. (1)
Við lestur á verkum Einars hafa gagnrýnendur jafnan verið uppteknir af samræðum á borð við þær sem birtast í setningunni hér að ofan á milli anda og efnis, ævintýrs og veruleika. Og það er mikilvægt að líta á þetta sem samræður andstæðna (hugtaka, hugmynda) en ekki átök vegna þess að textar Einars gerast á mörkunum þar sem andstæðurnar leysast upp sem slíkar, ganga hvor upp í aðra. Eða eins og Einar hefur sagt sjálfur þá „rata merkimiðar oft á vitlausa vöru. Hvað þýðir til dæmis hugtak einsog ævintýralegt raunsæi? Að til sé raunsæi án ævintýra? Að ævintýrin séu eitthvað sem bætt er við veruleikann? Að hvorki veruleikinn né ævintýrið geti verið hvort tveggja í senn?“ (2) Nei, ævintýrið og veruleikinn eru undir sama hatti í skáldskapnum.
II
Þessi pena afbygging á (rökrænni) andstæðuhugsun setur Einar í póstmódernískt samhengi. Í glænýrri grein hefur því raunar verið haldið fram að fyrstu ljóðabækur Einars (sem voru jafnframt fyrstu bækur hans og komu út árin 1980 og 1981) marki upphaf þess ástands á Íslandi. (3)
Bækurnar endurspegla síðkapítalískan samtíma sinn en eru jafnframt hörð gagnrýni á hann, neysluna, sjálfhverfnina, innihaldsleysið. Upplausnarástand póstmódernismans birtist meðal annars í vísunum í óstöðug tákn fjöldamenningarinnar og því hvernig Einar staðsetur sig á mörkum miðju og jaðars í bókmenntasögunni. Í ljóðabókunum má þannig finna vísanir í forngríska hefð, Shakespeare og æruverðugar nútímabókmenntir jafnt sem Hollywoodmyndir, popp, rokk og pönk. Og þar sem öllu ægir saman virðist hvað grafa undan öðru. Fátt stendur eftir og hugurinn framkallar einungis myndir sem aldrei voru teknar, eins og segir í ljóðinu "in memoriam" (4)
Við getum haldið áfram að lesa Einar inn í (brotinn) ramma póstmódernismans í næstu bókum hans, skáldsögunum þremur sem skutu honum upp á stjörnuhimin íslenskra bókmennta á fyrri hluta níunda áratugarins. Í þeim heldur áðurnefnt uppbrot á hinni dúalísku (rétt)hugsun áfram og þar má finna eins konar tilvitnanir í bókmenntaarfinn eða endurvinnslu á honum. (5) Samtíminn er enn umfjöllunarefnið. Einnig borgarmenningin, þó á annan hátt eða út frá öðrum sjónarhóli. Bækurnar kanna hvernig barnið skynjar borgina, lifir í henni og leikur sér. Borgin var vinsælt umfjöllunarefni íslenskra skáldsagnahöfunda fyrr á öldinni þegar þjóðin hópaðist til borgarinnar úr sveitunum í von um betra líf. Þessar sögur lýstu paradísarmissi og föllnum englum. Borgin var skoðuð með glýju sveitasælunnar í augunum, hún var lastabæli sem togaði þjóðina frá uppruna sínum, úr heiðríkju dalanna inn í sorta borgarglaumsins þar sem hefðbundnum gildum var snúið á haus. Í þríleik Einars Más má segja að tekist sé á við afleiðingar þessara vaxtarverkja borgarinnar. Að vissu leyti má sjá samsvörun í þeim og vaxtarverkjum drengjanna sem eru aðalsöguhetjur bókanna.
Fyrsta bókin heitir Riddarar hringstigans (1982). Sagan er sögð frá sjónarhóli sex ára drengs, Jóhanns Péturssonar, og fjallar um ævintýri og prakkarastrik hans í úthverfi Reykjavíkurborgar einhvern tíma á sjöunda áratugnum. En hún fjallar kannski ekki síður um vandann að vera til, að vera lítill drengur í þeim grákalda, lífvana heimi sem Einar hafði einnig lýst í ljóðum sínum. Þetta er andlaus heimur steinsteypu og malbiks og þótt barnslegt ímyndunaraflið gæði hann oft brosi og hlýju hefur hann vinninginn að lokum. Þannig vígjast drengirnir til veruleikans er einn þeirra, einn riddaranna, hrapar úr hringstiga miðaldakastalans – sem er í raun fokhelt steinhús – og lætur lífið.
Önnur skáldsagan, Vængjasláttur í þakrennum (1983), fjallar sömuleiðis öðrum þræði um árekstur tveggja heima, hins lífsfrjóa og skapandi heims barnsins og hins dauðkalda heims steinsteypunnar. Hér takast á sköpun og tortíming. Í upphafi sögu eru reistir dúfnakofar í hverfinu. Í augum drengjanna er þetta heilt þorp af vængjuðu lífi sem veitir þeim nánast ótakmarkað frelsi til leiks og starfa. En í lok sögu er þessi dýrðarheimur rifinn til grunna enda náttúran – í líki dúfnaskíts – farin að gerast of nærgöngul við malbikið, að mati húsmæðra hverfisins. Í síðasta kafla bókarinnar verður syndaflóð sem hreinsar götur hverfisins af lífi.
Í þriðju sögunni, Eftirmáli regndropanna (1986), er svo dregin upp mynd af andlausum og þyrrkingslegum heimi fullorðinna í hverfinu. Í henni er sjónarhornið annað en í tveimur fyrri bókunum. Jóhann Pétursson er hvergi nærri og við kynnumst lífinu í hverfinu í gegnum nokkrar kunnuglegar persónur af eldri kynslóðinni úr fyrri bókunum. Við fylgjum þeim í gegnum tilbreytingaleysi daganna. Atburðir verða fáir; hverfið hefur glatað leik drengjanna. Það er aðeins regnið sem lemur á íbúunum bókina á enda, húsum þeirra og malbiki.
Það er harður veruleiki að vaxa úr grasi. Eins og ljóðabækurnar má lesa þessar sögur sem gagnrýni á hina síðkapítalísku borgarmenningu. Hér er lífsanda og ímyndunarkrafti barnshugans stefnt gegn doðanum sem einkennir firrt borgar(a)lífið.
III
Frásagnarháttur og stíll í þessum þremur skáldsögum er all ólíkur og má kannski segja að Einar hafi verið leitandi hvað það varðar. Hröð, knöpp og dramatísk frásögn fyrstu bókarinnar, sem endurspeglaði vel framkvæmdagleði og leik æskunnar, vék þannig fyrir táknsæi í annarri bókinni. Í þeirri þriðju hverfist frásögnin um myndhlaðinn stílinn, sagan hverfur inn í tungumálið, ef svo má segja. Þessar tilraunir með frásagnaraðferð halda áfram í næstu bók Einars, smásagnasafninu Leitinni að dýragarðinum (1988). Þar verður stíllinn jarðbundnari, hlutlægari og hófsamari á allan hátt. Myndmálið er ekki eins gáskafullt og frásögnin þyngri þó að þematísk úrvinnsla einkennist oft af leik og húmor. Bókin hlaut misjafna dóma. Raunar hefur verið talað um hana og skáldsöguna sem fylgdi í kjölfarið, Rauða daga (1990), sem hálfgert antiklimax í höfundarverki Einars. Frásagnarháttur Rauðra daga er raunsær og hraður en gagnrýnendur sögðust margir sakna hins myndræna stíls þríleiksins. Sagan fjallar um unga sveitastúlku að norðan, Ragnhildi, sem kemur til borgarinnar á síðari hluta sjöunda áratugarins í leit að nýju lífi. Meginumfjöllunarefnið er 68-uppreisnin og samskipti Ragnhildar við hóp róttæklinga. Finna má þematískan samhljóm með Rauðum dögum og ljóðabókunum þremur (það er vinstriróttæknina), sem Einar gaf út í upphafi ferilsins, en talsvert skortir á að hún hafi sama slagkraft og þær. Hið sama á við um ljóðabókina, Klett í hafi (1991), sem Einar gaf út í samvinnu við myndlistarmanninn Þorlák Kristinsson (Tolla). Miðað við fárviðrið sem geysaði í fyrstu bókunum er lygna í henni.
Summuna af þessum tilraunum Einars Más má sjá í þeirri bók sem hefur borið hróður hans hvað lengst, Englum alheimsins (1993), en hún hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1995 og hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál. Summa er kannski ekki rétta orðið, sennilega er réttara að segja að í Englum alheimsins takist Einari einna best upp í tilraunum sínum til að finna samhljóm forms og efnis. Aftur er umfjöllunarefnið árekstur tveggja heima en nú eru það ekki heimur barnsins og fullorðinna heldur hinna brjáluðu og hinna óbrjáluðu. Meginþemað orðar sagan best sjálf: „[V]ið sem erum lagðir inn á hæli og vistaðir á stofnunum, við eigum engin svör þegar okkar hugmyndir eru ekki í samræmi við raunveruleikann, því í okkar heimi hafa aðrir rétt fyrir sér og þekkja muninn á réttu og röngu.“ (6)
Sögumaður Engla alheimsins hefur nokkra sérstöðu þar sem hann er ekki í tölu lifenda. Páll Ólafsson rekur ævi sína allt frá því að honum er þröngvað út í heiminn gegn vilja sínum þar til hann yfirgefur hann aftur af fúsum og frjálsum vilja fjörutíu árum síðar. Páll fæðist sama dag og Ísland gengur í NATO, þegar „heimurinn varð allt í einu einsog smækkuð mynd af geðsjúkum manni, vitfirrtur og klofinn í tvennt; heimsmyndin krónísk ranghugmynd,“ (s. 23) en það verða einmitt örlög hans sjálfs að lenda í klóm geðveikinnar. Sagan lýsir hvernig geðklofi gerir smátt og smátt vart við sig hjá Páli og tekur að endingu öll völd í sálarlífi hans. Honum er komið fyrir á Kleppi. Þar er hann sprautaður niður og er það upphafið að endalokum hans. Eðli hans er bælt, það er rekið öfugt niður í sálardjúpin og svo er honum hleypt út. Hann verður „einn af þessum ósýnilegu þóðfélagsþegnum sem líða með vindinum í gegnum Austurstrætið“ (s. 206). En þótt myrkrið sé horfið úr sál hans er lífslöngunin slokknuð.
Frásagnarháttur sögunnar markast af óvenjulegri stöðu sögumanns. Rödd að handan (í fyrstu persónu eintölu þátíð) segir okkur sögu af því hvernig er að lifa í öðrum heimi í okkar heimi. Í raun er rödd sögumanns tvöföld vegna þess að iðulega skiptir sagan um sjónarhorn með því að láta Pál í lifanda lífi segja söguna (einnig í fyrstu persónu eintölu, en nútíð). Samspil og skörun þessarra tveggja (og reyndar mörgu) radda – sú fyrri gædd heilbrigðri skynsemi en hin(ar) brjáluð(-aðar) – klýfur textann og endurspeglar þannig formlega umfjöllunarefni sitt. (7) Með eilítilli einföldun má lýsa texta sögunnar sem geðklofnum. Flökt hans milli raunsæislegrar (röklegrar) frásagnar og ljóðrænnar (óröklegrar) undirstrikar þennan klofning en sumar klausur textans gætu talist hrein ljóð.
Túlka má söguna sem gagnrýni á samfélag sem útilokar brjálæðið, en það væri einfaldur og takmarkaður lestur. Það er engan veginn hægt að horfa fram hjá samfélagslegum lestri en, eins og bent hefur verið á, þá er sagan þversagnakennd – eða margradda – í umfjöllun sinni um geðveiki, og gerir þannig miklar kröfur til lesandans. Tíðar breytingar á sjónarhorni sýna mjög ólíkar hliðar á geðveiki sem gerir það að verkum að lesandinn fær tilfinningu fyrir ósamrýmanlegum viðhorfum samfélagsins til hennar. (8)
Þessi flókni formgerðarlegi vefur liggur undir niðri í sögunni og truflar ekki framvindu hennar. Gríðarlegar vinsældir bókarinnar liggja vafalaust í því hversu vel þessi flókni vefur er fléttaður inn í söguna og í sannfærandi en jafnframt húmorískri umfjöllun um líf og stöðu geðveiks manns.
IV
Í Englum alheimsins má vissulega lesa all róttækt uppbrot á tvíhyggju skynsemishyggjunnar, sem minnst var á í byrjun greinar, uppbrot á viðteknum andstæðum á borð við veruleika og ímyndun, lífi og dauða, viti og óviti. Að því leyti erum við aftur komin að hinni póstmódernísku skírskotun Einars Más. (9) Í næstu skáldsögu sinni tekur Einar svo aftur upp borgarminnið. Í Fótsporum á himnum (1997) segir sögumaður, sem er samtímamaður, sögu afa síns og ömmu, barna þeirra og vina sem byggðu Reykjavík í byrjun aldarinnar. Sagan hefst á mynd úr æsku ömmunnar þar sem hún verður vitni að sveitarflutningi fátæks fólks á nítjándu öld en lýkur einhvern tíma á fimmta áratug tuttugustu aldar þar sem hún heimtir til sín soninn Ragnar úr borgarastyrjöldinni á Spáni nokkurn veginn heilan á húfi. Um leið og Fótspor á himnum er fjölskyldusaga er ætlun Einars Más að segja sögu þjóðar sem kom hálfmeðvitundarlaus inn í nýja öld, nýjan og framandi heim. Þetta er saga um flutninginn úr sveit í borg en hún andæfir þeirri einföldu mynd sem dregin var upp af honum í verkum eldri höfunda.
Eitthvað við þessa sögu gerir hana afar íslenska. Kannski bara nesjamennskan sem auðugt og kynlegt persónusafnið endurspeglar. Eða skírskotunin í mannlýsingar og frásagnarbrögð Íslendingasagna. Sagt er frá á knappan hátt, sviðssetningar eru einfaldar, komist er beint að efninu. Hliðskipun er ríkjandi og setningar eru stuttar og einfaldar. Um Signýju nokkra á Oddsstöðum segir til dæmis aðeins þetta í sögunni: „Hún fór einförum og sagði aldrei fleira en hún þurfti.“ Orðalag á borð við þetta er líka dæmigert: „Ingibjörg móðir hans grét en bræður hans mæltu fátt.“ Eða: „Voru þá margir sárir í báðum liðum.“ Orðum er ekki eytt á það sem ekki skiptir máli, það sem ekki þykir nógu sérstakt og stórt: „Með aldrinum breytist fólk í sagnfræðinga og hreinsar burt atvik einsog orma úr fiski“, segir sögumaður. Það eru viðburðirnir sem skipta máli, hnittnu tilsvörin á örlagastundunum, það er ekki dvalið við hvunndaginn, hið smáa. Þetta er stóratburðasaga, stundum eins og stiklað sé á stóru með ljóðrænum milliköflum. Öðru hverju vill brenna við að hin epíska framvinda (samfella) rofni. Frásögnin verður hálfgert stakkató þegar verst lætur sem minnir nokkuð á kvikmyndir Friðriks Þórs Friðrikssonar sem Einar Már hefur skrifað handrit að og einkennast af þessum sama frásagnarhætti klippingarinnar, það er Börn náttúrunnar, Bíódagar og Englar alheimsins. Staða sögumanns er hins vegar allt önnur en í Íslendingasögum. Hér dylst hann ekki á bak við efnið heldur er sínálægur, lætur til dæmis vita hvernig sögu hann er að segja og greinir frá heimildum sínum eða heimildaleysi. Innskot hans eru fjölmörg. Oft leggur hann út af sögunni og er augljóst með hverjum hann hefur samúð: „. . . en þetta voru aðeins hugarórar vannærðra stráka sem reknir voru áfram með harðri hendi, voru aldrei kallaðir annað en skussar og trassar, stöðugt minntir á hvaðan þeir komu og hverjir þeir voru.“
V
Eins og sjá má á þessari samantekt er auðvelt að finna samhengi í höfundarverki Einars Más. Nokkur þemu koma endurtekið fyrir í verkum hans, svo sem borgin og róttæknin en hugsunin sem liggur alltaf undirniðri er uppbrotið, afbygging hins viðtekna, ruglun hins ríkjandi. Í nýjustu ljóðabók Einars, Í auga óreiðunnar (1995), verður reyndar ekki annað séð en að hið ríkjandi sé rugl (eða í rugli). Þessi bók er nokkurs konar uppgjör við samtímann og fortíðina sem við óhjákvæmilega höfum í farteskinu. Fall múrsins hefur skapað ringulreið og fæstir vita hvar þeir standa: „Veröldin ráfar alein um gangana / og villist á milli hæða.“ (10)
Fyrir áratug eða svo lentu fræðimenn í nokkrum skilgreiningarvanda með verk Einars Más og fleiri höfunda af hans kynslóð. Töldu sumir að sagan eða hin íslenska frásagnarhefð hefði endurfæðst í verkum hans. Aðrir sögðu að sagan hefði aldrei horfið úr íslenskri sagnaritun og sáu skapandi endurmat á módernismanum í verkum Einars. (11) Eins og hér hefur komið fram hafa verk Einars, og þá einkum sagnagerðin, einkennst af leit, leit að frásagnarhætti, sjónarhorni, orðum, merkingu. Þessi leit er lýsandi fyrir hið póstmóderníska ástand sem Einar hefur að nokkru leyti verið tengdur við hér. Hægt er að segja að stefnuleysi einkenni þetta ástand. Einnig má segja að við séum stödd í millibilinu, á mörkunum þar sem hefbundnar andstæður og hefðbundin form leysast upp. Þótt ekkert skuli fullyrt – enda fullyrðingar varhugaverðar á tímum sem þessum – þá virðist einhver slík skilgreining eiga ágætlega við um verk Einars Más.
Þröstur Helgason, 2000.
Tilvísanir
(1) Launsynir Orðanna, Bjartur, Reykjavík 1998.
(2) „Hin raunsæja ímyndun“, Tímarit Máls og menningar, 2, 1990, s. 99.
(3) Jón Yngvi Jóhannsson, „Upphaf íslensks póstmódernisma. Um fyrstu ljóðabækur Einars Más Guðmundssonar“, Kynlegir kvistir. Tíndir til heiðurs Dagnýju Kristjánsdóttur fimmtugri, Ritstjóri: Soffía Auður Birgisdóttir, Uglur og ormar, s. 125-142.
(4) Einar Már Guðmundsson: Ljóð, Mál og menning, Reykjavík 1996, s. 127.
(5) Sbr. Þröst Helgason, „Vitið í óvitinu. Um Engla alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson“, Andvari 1995, s. 86-88; einnig Guðna Elísson, „Heimurinn sem krónísk ranghugmynd“ Átök undurs og raunsæis í verkum Einars Más Guðmundssonar“, Skírnir 171 (vor 1997), s. 166-167.
(6) Einar Már Guðmundsson, Englar alheimsins, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1993, s. 10.
(7) Sjá nánar um hinn tvöfalda sögumann: Elenore M. Guðmundsson, „Á leiðinni út úr heiminum til að komast inn í hann aftur. Hinn tvöfaldi sögumaður í Englum alheimsins,“ Skírnir 171 (vor 1997), s. 79-91.
(8) Guðni Elísson, sama, s. 190-196.
(9) Þröstur Helgason, sama, s. 86-92.
(10) Einar Már Guðmundsson: Í auga óreiðunnar, Mál og menning, Reykjavík 1995.
(11) Sjá eftirfarandi: Halldór Guðmundsson, „Sagan Blífur. Sitthvað um frásagnarbókmenntir síðustu ára“, Tímarit Máls og menningar, 3, 1991, s. 49-56; Gísli Sigurðsson, „Frá formi til frásagnar. Munnmenntir, bókmenntasaga og íslenskur sagnaskáldskapur 1980-1990“, Tímarit Máls og menningar, 1, 1992, s. 69-78; Ástráður Eysteinsson, „Um formgerð og frásögn. Önnur sýn á skáldsagnagerð síðasta áratugar“, Tímarit Máls og menningar, 2, 1992, s. 39-45.
___________________________
Eins og hann er klæddur – um skáldskap Einars Más Guðmundssonar frá aldamótum
Ég fer hratt yfir sögu og sleppi öllu kjaftæði, um morgunsólina sem er að rísa og regnið sem bylur á þökunum og allt þetta leiðindabull í bókum.
Ég ætla heldur ekki að rekja neinar ættir eða gera veður út af einhverjum vandamálum aftur í rassgati.
Ég segi bara einsog dátinn í Eldfærunum: Hér gerist ekkert fyrr en ég mæti á staðinn. (Bítlaávarpið 9)
Einar Már Guðmundsson fer aldrei í launkofa með það hvað samspil höfundar, sögumanns og söguefnis skiptir miklu máli í bókum hans. Bæði virðist hann hugsa mikið um þessa stöðu sjálfur, en jafnframt vill höfundurinn leggja spilin á borðið fyrir lesandann, svo hann geti tekið þátt í að velta fyrir sér reglunum í þeim leik sem honum er boðið að taka þátt í.
Frá og með Englum alheimsins (1987) hefur skáldskapur Einars í óbundnu máli leynt og ljóst byggt á „sögulegu“ efni, ýmist (oft mjög lauslega) úr fjölskyldusögu hans, minningum eða (hin síðari ár) skriflegum heimildum úr fjarlægri fortíð. Sjálfur birtist hann sem persóna í Rimlum hugans (2007) og margar sagnanna í Kannski er pósturinn svangur (2001) virðast einnig bein skrásetning raunverulegra atvika úr lífi höfundar, þó þar bregði líka fyrir fólki sem á sér sennilega ekki tilveru utan bóka Einars Más. Ýmislegt af því sem sögumenn Einars hafa um erindi sitt og aðferðafræði að segja virðist ekki síður eiga við um þann sem stýrir pennanum að baki þeirra.
Allt þetta fer fram fyrir opnum tjöldum, er hluti af skáldskapnum og gefur honum á köflum heimspekilegan svip. Gerir lesandan meðvitaðan um þátttöku sína í sköpuninni í stað þess að verða viljalaus viðtakandi í öruggum höndum hins ómótstæðilega sögumanns.
Í yfirlitsgrein Bókmenntavefsins um skáldskap Einars fram að aldamótum segir Þröstur Helgason verk hans í óbundnu máli hafa „einkennst af leit, leit að frásagnarhætti, sjónarhorni, orðum, merkingu.“ Það má taka undir það, og jafnframt velta fyrir sér hvort á næstu áratugum sjáum við afrakstur þessarar leitar. Skáldsögurnar falla mjög í svipað mót hvað varðar efnisskipan og að miklu leyti frásagnarhátt og stíl. Það er síðan forvitnilegt að sjá hvernig aðferðir Einars hafa ólík áhrif eftir því hvers kyns söguefnið er. Og alltaf augljóst að höfundurinn sjálfur deilir þeirri forvitni með lesendum sínum.
Saga fiskættarinnar
Þar sem grein Þrastar sleppir er Fótspor á himnum (1997) nýjasta útgefna bók Einars. Á næstu árum bætast við tvær bækur, Draumar á jörðu (2000) og Nafnlausir vegir (2002), sem mynda samfelldan sagnabálk með Fótsporunum. Jafnvel mætti segja að þarna sé komin ein löng skáldsaga, um 650 blaðsíðna ættarsaga sem spannar ríflega þrjár kynslóðir á hinum miklu umbrotatímum tuttugustu aldarinnar, frá millistríðsárum til eftirstríðstímans. Bálkurinn allur hefur síðan lausleg tengsl við Engla alheimsins, þar sem sögumaður bálksins er leigubílsstjórasonurinn Rabbi, sem nærtækast er að líta á sem bróður Páls, söguhetju og sögumanns Englanna, þó önnur efnistengsl séu lítil. Kannski ekki ósvipað samband og milli The Hobbit og þríleiksins Lord of the Rings, þó að flestu öðru leyti séu Einar Már og Tolkien harla fjarskyldir höfundar.
Þó einhverjir þræðir teygi sig aftar í fortíðina og aðeins sjáist í næsta ættlegg er hér fyrst og fremst rakin saga hjónanna Guðnýjar og Ólafs og barna þeirra. Börnin eru tíu, átta synir og tvær dætur. Þau njóta mismikillar athygli sögumanns, en auk þeirra er ótölulegur fjöldi aukapersóna nefndur til sögunnar, og oftar en ekki sögð deili á þeim með nafngreindum foreldrum, mökum og vinum, sem gefur sagnaheiminum Íslendingasögulegt yfirbragð.
Fyrir utan þau hugrenningatengsl er nærtækast að hugsa um þríleikinn sem nútímalegt og „borgarmiðað“ tilbrigði við hið stóra þema um hnignun sveitanna og endalok sakleysisins við búferlaflutninga og uppflosnun.
Tilbrigðið felst ekki síst í þeim óvænta snúningi að vegna heimilisaðstæðna Guðnýjar og Ólafs, og ekki síst ofdrykkju húsbóndans, eru börnin send til vistar á ýmsum bæjum sunnanlands og upplifa þar svo sannarlega misjafnt atlæti sem mótar þau mjög. Samviskulaus prestur þrælkar hinn stórvaxna Ragnar en svíkst um að kenna honum að lesa, meðan ljúfir kotungar taka á móti Sigrúnu systur hans og tekst með mildi að lækna hana af heimþránni.
Þetta er saga mikilla persónulegra örlaga, þó „fiskættin“, eins og Guðný kallar afkomendur sína. sé fólk úr lægstu deild samfélagsins og gangi misvel að vinna sig þaðan upp. Ragnar, sem má einna helst teljast aðalpersóna fyrsta bindis, gerist einarður kommúnisti og fer ásamt með sínum nánasta vini til Spánar til að leggja baráttunni gegn fasismanum lið.
Í öðru bindinu eru örlög hinnar berklaveiku Sigrúnar miðlæg, ásamt með sögu Ólafs, föður sögumannsins. Í Nafnlausum vegum fær braggabúinn og baráttukonan Helga, barnsmóðir Ragnars stóran sess, en einnig vellauðugi náttúrulækningamaðurinn Ívar, auk þess sem þriðja kynslóðin verður meira áberandi.
Áður reifað söguefni heldur engu að síður stöðugt áfram að skjóta upp kollinum og minna á sig. Lausbeislaður frásagnarháttur þríleiksins gefur tilfinningu fyrir því að vera vitni að upprifjun á sameiginlegum minninga- og sagnasjóði. Ein saga kallar á að önnur dregin fram og sögð sem hliðstæða eða andstæða, burtséð frá því hvort hún hefur áður verið rakin. Sögumaður og heimildarmenn hans spá í persónuleika fólksins út frá þeim sögum sem af þeim fara, velta fyrir sér rökvísi ákvarðana og samhengi örlaga. Þannig verður þríleikurinn miklu fremur eins og brotakennd víðmynd af lífi stórfjölskyldu í stærra samhengi þjóðfélagsbreytinga og umróts tuttugustu aldarinnar en dramatísk örlagasaga sem leiðir frá einu atviki til annars að einhverskonar niðurstöðu eða lausn.
Framanaf eru einstaka kaflar sviðsettir sem viðtöl Rabba við ættingja sína, eða hann rifjar upp samtöl um fortíðina sem hann hefur orðið vitni að. Smám saman festist rödd Rabba í sessi sem alvitur sögumannsrödd, án þess að lausatökin og hringsólið hverfi sem grunnaðferð verksins.
Á heimaslóðum
„Þetta verður ekki trílógía því þessum sagnaflokki er ekki lokið,“ sagði Einar Már í viðtali við útkomu Nafnlausra vega. Ekki hefur það bókstaflega gengið eftir, en það er innangengt eftir einhverjum refilstigum og undirgöngum milli nánast allra verka hans. Persónur flæða á milli þeirra, heilu þorpin verða til sem vettvangur atburða á ólíkum tímum, og læðast jafnvel inn í frásagnir sem verða að öðru leyti að teljast ramm-sannsögulegar.
Einkum er það þó frásagnarhátturinn sem bindur höfundaverkið saman. Hinn lausbeislaði, endurtekningarsami sögumaður, sem túlkar og hugleiðir efni sitt jafnóðum heldur áfram ríkja yfir síðari bókum, hvort sem Rabbi hefur orðið eða einhver annar. Eða jafnvel Rabbi undir öðru nafni.
Þetta sést skýrt í næstu skáldsögu eftir þríleikinn. Þar hverfur Einar aftur í annan af sínum fyrri sagnaheimum og gefur kunnuglegum sögumanni, Jóhanni Péturssyni úr Riddurum hringstigans (1982), orðið.
Vofa gengur laus um götur heimsins, vofa Bítlanna.
Það er engu líkara en veröldin búi sig undir brjálað trommusóló.(Bítlaávarpið 7)
En þó tónlist bítlatímans ómi í þessari frásögn af unglingsárum, árekstrum og þroska þá stendur Bítlaávarpið (2004) varla undir því nafni. Þó ekki væri nema fyrir það að erkifjandvinirnir í Rolling Stones taka eiginlega meira pláss í textanum, auk minni spámanna.
Að innihaldi til er Bítlaávarpið um flest nokkuð dæmigerð unglingabók, rökrétt framhald bernskusagnananna í Riddurunum. Full af prakkarastrikum, hverfaríg, ástarævintýrum, sjoppuhnupli og glímu við skólayfirvöld og foreldra sem eiga sínar eigin sorgir, og höndla illa jafn íbygginn og órólegan anda og Jóhann Pétursson, sem engan veginn rekst í fjölskyldulífi eða unir sér undir handarjaðri Herberts skólastjóra og „frjálslyndrar“ skólastefnu hans.
Það er hinn hugleiðandi en athuguli tónn sögumannsins sem hefur Bítlaávarpið upp fyrir hið dæmigerða og margreifaða söguefni:
Við höfðum engar reglur nema skólareglurnar og það hvarflaði ekki að okkur að fara eftir þeim. Í þeim stóð heldur ekkert af viti, bara hvað við máttum og máttum ekki og auðvitað máttum við ekki neitt. (53)
Hið yfirvegaða en jafnframt furðulostna og opineyga sakleysi Jóhanns sem persónu vefst fyrir foreldrum hans og kennurum, en heillar lesendur. Sömu eiginleikar gera honum kleift að greina frá harmrænum sögulokunum án þess að tilfinningasemi nái þar neinni fótfestu. Móðir hans er mögulega látin, hin elskaða Helga í næsta húsi flutt burt. Sagan fjarar út, og tilfinningin er, eins og svo mörgum sagna Einars Más, að henni sé ekki lokið, þó Jóhann hafi enn sem komið ekki kvatt sér frekara hljóðs.
Rimlar hugans (2007) endar á hinn bóginn á skýran og eindreginn hátt. Eða réttara sagt: sögunni lýkur þar sem hún hefst, á því að Einar Þór og Eva lýsa yfir trausti á höfundinum Einari Má til að segja sögu þeirra, tala máli þeirra.
Þú ert að lesa Rimla hugans – ástarsögu, nýjustu skáldsögu Einars Más Guðmundsonar. Einsog í öllum skáldsögum mínum sæki ég efnivið minn í raunveruleikann. Ég byggi á atburðum. (Rimlar hugans, 157)
Þó Rimlar hugans hafi mögulega, eins og Einar Már staðhæfir hér, sama viðhorf til sambands skáldskapar og raunveruleika og aðrar bækur hans, þá er hún að öðru leyti nokkuð sér á parti meðal verka hans á þessu tímabili. Sú eina þeirra þar sem fleiri en ein rödd tekur til máls, og sú eina þar sem ein þeirra sem segir frá er kvenkyns.
Hér vindur ólíkum söguþráðum fram. Í einum þeirra segir Einar Már frá glímu sinni við alkóhólisma, um bataferli undir handleiðslu SÁÁ og reynslu hans af hugmyndafræði AA-samtakanna. Í öðrum þræði fylgjumst við með bréfasamskiptum tveggja fíkla, Einars Þórs og Evu. Einar Már hefur kynnst Einari Þór í gegnum baráttu sína við fíknina, en þegar sagan gerist situr sá síðarnefndi á Litla-Hrauni og bíður dóms fyrir fíkniefnamisferli. Í bréfum sínum rifja Einar Þór og Eva upp fortíð sína, og þroska og styrkja um leið samband sitt og undirbúa framtíð sína.
Þó margt í Rimlum hugans hafi sterkt sannsöguyfirbragð er Einar Þór mjög „Einarsmáslegur“ karakter. Ekki alveg fjarskyldur Jóhanni Péturssyni eins og hann birtist lesendum í Bítlaávarpinu. Svolítið utanveltu en ekki vitlaus þó hann þrífist illa í skóla, sérkennilegur, en fær umbun fyrir það sem trúður, fyrst í skólanum en svo á landsvísu, með kvikmyndahlutverki og athygli í Stundinni okkar. Síðar verður Einar Þór mjög sannfærandi pönkari í haturssambandi við samfélag og fjölskyldu, og um tíma umsvifamikill fíkniefnasali.
Eva ratar líka í óreglu á unglingsárum, en lesandinn fær sterklega á tilfinninguna að bjartari tímar séu framundan hjá þeim báðum og börnum Evu sem Einar Þór hefur gengið í föðurstað. Það er heitur og sannur tónn, djúp einlægni, í ástarbréfunum og samstaða höfundar með persónum sínum er sterk og smitandi.
Sterk textatengsl eru milli Rimla hugans og ljóðabókarinnar Ég stytti mér leið framhjá dauðanum (2006). Fíkn og fíknimeðferð eru meðal helstu yrkisefna Einars Más í ljóðabókinni, auk þess sem þar er að finna ljóðið „Ástarstjarna yfir Litla-Hrauni“ sem kemur við sögu í skáldsögunni. Ljóðabókin tengist fleiri verkum Einars Más; „Lögreglustöðin í Osló sumarið 1978“ lýsir atviki sem gengur aftur í Passamyndum nokkrum árum síðar. Nostalgísk upprifjun birtist hér og hvar í bókinni, en þar er einnig að finna hástemmd og einlæg ástarljóð sem minna bæði á stemminguna í bréfum Einars Þórs og Evu í Rimlum hugans, og á ástarsambandið sem kviknar og þroskast í Passamyndum:
Ég man þann dag
þú varst fögur einsog sólin,
heit og tær sem glóðin,
fylgdir mér um sólbrún stræti,
geislaðir …(„Tregagleði“)
Í bókinni er líka að finna tilraunir með rím, stuðla og endurtekningar sem minna helst á viðlög í söngtextum, ekki síst í mögnuðu ljóði, „Guðspeki handa unglingum“, þar sem viðkvæðið er „allt er svo gamalt í ísskápnum, ekkert nýtt undir sólinni“:
Þá var kærleikur, kökur
og kátína,
en nú heyrist ekki neitt
nema blúsinn í blokkunum,
jarmið í flokkunum
og ópin sem síga úr börkunum …
Já, allt er svo gamalt í ísskápnum
ekkert nýtt undir sólinni.
Nýjasta ljóðabók Einars Más, Til þeirra sem málið varðar, kom út 2019, og er lágstemmdari bók. Galsinn og tilfinningahitinn víkur fyrir íhygli, kyrrð og efa, sem minnir kannski meira á sögumenn skáldsagnanna sem velta hlutum fyrir sér í sífellu og efast varfærnislega um hvað sé fast í hendi af sögu, staðreyndum, minningum og veruleika:
Nú stend ég uppi á hæðinni
og horfi til himins.
Himininn horfir á móti.
Ég get auðvitað ekki sannað það
en ég sé enga ástæðu til að véfengja
það sem ég segi sjálfur.
Himininn er á sínum stað
og ég svo sem líka.(„XX“)
Tangavík og nágrenni
Ég fer alltaf út í einhverja útúrdúra, en þannig eru sögur, þær gerast mikið til fyrir utan sjálfar sig. Ef þú ert að segja frá einhverju einu þá ertu í rauninni að segja frá einhverju öðru. (Rimlar hugans 217)
Einar Már tók virkan þátt í uppgjöri bankahrunsins með greinaskrifum og ræðuhöldum. Tvö greinasöfn hans, Hvíta bókin (2009) og Bankastræti núll (2011) geyma viðbrögð hans og hugleiðingar um orsakir, gerendur og viðbrögð við hruninu og öllu því óréttlæti og spillingu sem skyndilega varð sýnileg, eða kannski öllu fremur skyndilega leyfilegt umfjöllunarefni.
Það er mikill og tæpitungulaus hiti í þessum textum, sem eru kannski frekar mikilvægir sem merkur minnisvarði um ástand þjóðarsálarinnar á umbrotatímum, en skörp greining eða áreiðanleg heimild um atburðarás, orsakir og afleiðingar. Og skáldið tengir, eins og honum er tamt, sinn sérstaka söguheim inn í umræðuna um málefni dagsins:
Sveinn og Guðríður voru sárafátæk við komuna til Tangavíkur. Alla muni og fatnað urðu þau að skilja eftir. Í umsókn um styrk handa þeim segir prestur að þau hafi eina gamla kú að láni. Hann sótti sjóinn en lítið fiskaðist. Eitrið úr gosstöðvunum lagðist á fiskimiðin. Hver vertíð á fætur annarri brást. (Bankastræti núll 120)
Þarna bólar á söguefni sem Einar Már átti eftir að taka aftur upp árið 2021, og næsta skáldsaga hans, Íslenskir kóngar (2012), hefur Tangavík að sögusviði, líkt og þessi örsaga af Sveini og Guðríði, þó sögutíminn sé þar annar.
Það má kalla Íslenska kónga „eftirhrunsskáldsögu“, tilraun til að skoða rætur íslenska auðmannsins og bakland hans í athafnalífi og stjórnmálum. Til þess skapar Einar Tangavík, þorp á suðurströnd Íslands, sem í Íslenskum kóngum verður nokkurskonar sanmefnari fyrir íslensk sjávarþorp, stútfullt af skrautlegum karakterum í öllum stéttum, meira og minna innbyrðis skyldum, og langflestir tengdir ættinni sem öllu ræður; konungsættinni Knudsen.
Það sagði sína sögu um Tangavík, og stöðu Tangavíkur, að hvergi á landinu voru nasistar jafn sterkir og hvergi á landinu voru fleiri kommúnistar.
Hvergi á landinu fórust fleiri skip og hvergi á landinu var dansað meira. hvergi á landinu var grátið meira og hvergi á landinu var hlegið meira. Hvergi á landinu var meiri sorg og hvergi á landinu var meiri gleði. (Íslenskir kóngar 108)
Tangavík er samnefnari íslenskra þorpa og höfðingjaættin, Knudsenarnir, sver sig í ætt við önnur íslensk höfðingjaslekti, með ættföðurinn Ástvald sem brýst til ríkidæmis með elju, frekju og heppni, allskyns listræna ættlera og sérkennilega svikahrappa. Og svo að lokum nútímaafsprengið sem leggur allt í rúst:
Margir segja að Ástvaldur Knudsen myndi snúa sér við í gröfinni ef hann sæi hvernig komið er fyrir Tangavík í höndum Jónatans Knudsen, því Jónatan og fylgisveinar hans hafa selt allar eigur Tangavíkur, tæmt sparisjóði, veðsett verðmæti og sóað í gæluverkefni og reynt að halda öllu gangandi með glærusýningum. (Íslenskir kóngar 29)
Það er mikil frásagnar- og sköpunarkæti í Íslenskum kóngum, sem höfundur gerir ekki alvarlegar tilraunir til að hemja. Að svo miklu leyti sem hún er rannsókn á rótum hrunsins þá er það fyrst og fremst í krafti þess að „ef þú ert að segja frá einhverju einu ertu í rauninni að segja frá einhverju öðru“, eins og segir í Rimlum hugans. Bókin er full af taumleysi, útúrdúrum og ævintýrum, auk þess sem hinir framliðnu ganga inn og út úr raunveruleika sögunnar án áreynslu:
Ástvaldur rótaði snjónum úr berginu með vettlingnum. Kuldinn læsti sig í hendurnar, andlitið skrámaðist og þrekið þvarr. Hann hékk á fingurgómunum og gat varla fótað sig. Svo féll hann í öngvit. Þá kom amma hans, hún Jakobína sem átti tólf börn, átta stráka og fjórar stelpur. Hún var dáin fyrir tveimur árum og tók í hönd hans og leiddi hann upp þann hluta bjargsins sem enginn hafði áður klifið. (Íslenskir kóngar 25)
Þessi aðferð úr smiðju töfraraunsæisins, samspil lifandi og dauðra, verður jafnvel enn meira áberandi í nýjustu skáldsögu Einars, sem einnig hefur Tangavík að aðalsögusviði, og einn Knudsenanna sem lykilheimildarmann.
Það má reyndar halda því fram að Skáldleg afbrotafræði (2021) eigi ekki síður skilið merkimiðann „eftirhrunsskáldsaga“ en Íslenskir kóngar. Sögutíminn er „íslenska glæpaöldin“ í upphafi nítjándu aldar. Los kemst á þjóðlífið eftir móðuharðindi, hugmyndafræði upplýsingarinnar skilar sér í mildari refsingum og endurómur frönsku byltingarinnar skilar sér alla leið norður til Íslands. Allt þetta á sinn þátt í að grafa undan myndugleika yfirvalda og valdefla alþýðuna, þá ekki síst ófrómari hluta hennar:
Þessir afbrotamenn, margir nafnkunnir menn, frægir í sínum sýslum og víðar, þessir frumstæðu uppreisnarmenn eða hvað menn vilja kalla þá, eru stundum sagðir upphafsmenn skipulagðrar þjóðfélagsbaráttu og baráttu fyrir réttlæti en þeir eru líka sagðir skyldir götugengjum nútímans, glæpahópum og stjórnleysingjum. Þetta getur allt vel farið saman enda margt mótsagnakennt í sögunni og lífinu. (Skáldleg afbrotafræði 42)
Snertifletir Tangavíkur við landakort raunveruleikans skýrist í Skáldlegri afbrotafræði. Það gerist einkum með því að meginþráður bókarinnar, tilefni hennar, er aðdragandi og bakgrunnur ránsferðar á bæ ríks bónda í nágrenninu, sem í bókinni heitir Holt, en er nokkuð augljóslega byggt á hinu fræga Kambsráni. Ein aðalpersóna bókarinnar, Sigrún Karlsdóttir, sem kölluð er Sigga sægarpur og á sér fyrirmynd í Þuríði „formanni“ Einarsdóttur. Þar með er Tangavík orðin augljóslega, og næstum örugglega viljandi, tengd Eyrarbakka, án þess að Einar Már vilji binda sig of hörðum fjötrum við sögulegar staðreyndir og raunverulegt, sögulegt fólk.
Fjölmargar persónur eru nefndar til sögunnar, bæði ránsmennirnir og aðrir þorpsbúar. Fyrir miðju situr Óli blindi, illa liðinn tómthúsmaður sem enginn vill hafa með sér til sjós, og niðursetningurinn Jóna sem er komið fyrir hjá Óla til að þjónusta hann, og Óli níðist á kynferðislega. Óli verður einn helsti hvatamaður aðfararinnar að Holti til að ná fé Egils bónda, en Skáldlegri afbrotafræði lýkur þar sem þær hugmyndir eru að færast á ráðagerðar- og framkvæmdaplan. Framhald er boðað.
Reyndar hefur ýmislegt verið sagt frá ráninu og öðru sem gæti orðið meginefni annars bindis. Frásagnaraðferð Einars Más í Skáldlegri afbrotafræði minnir um margt á þríleikinn frá 1997–2002. Sögumaður fer ekki í grafgötur með hvað muni gerast síðar í sögunni, sem réttlætir og skýrir af hverju hann segir frá því sem fangar huga hans, auk þess sem hann gerir grein fyrir heimildum sínum og hugleiðir merkingu og samhengi alls sem er til frásagnar. Þó hér sé sagt frá frægu glæpamáli eru efnistökin nánast hrein andstaða við hefð glæpasögunnar, þar sem öllu skiptir að lesandann renni aldrei í grun hvað gerist næst.
Segja má að Skáldleg afbrotafræði brúi bilið milli hins víðari skáldsagnaheims Einars og hinnar sögulegu skáldsögu hans, Hundadaga (2015). Einnig þar erum við mikið til stödd á Suðurlandi, einnig þar erum við að skoða sögulega viðburði á mótum átjándu og nítjándu aldar. Að mörgu öðru leyti eru Hundadagar einstakir í höfundaverki Einars Más Guðmundssonar.
Þó sögumaðurinn sé af svipuðu tagi og í öðrum skáldsögum hans; hugleiðandi, örlítið bernskur og ósýnt um að rekja atburði í tímaröð eða skýra rökvísi framvindunnar, lætur Einar Már heimildirnar að mestu ráða för, vel umfram það sem þær fá að gera í Skáldlegri afbrotafræði.
Hundadagar er skáldleg endursögn ævisagna nokkurra nafnkunnra einstaklinga: aðallega séra Jóns Steingrímssonar „eldklerks“ (1728–1791) og Jørgen Jørgensen „hundadagakonungs“ (1780–1841) en einnig Finns Magnússonar leyndarskjalavarðar (1781–1847) og Guðrúnar Johnsen „hundadagadrottningar“ (1789–18??).
Þungamiðjan er vissulega á þeim tveim hinum fyrrnefndu, og lengi vel er engu líkara en helsta fyrirmynd Einars séu hliðstæðuævisögur grísk-rómverska sagnaritarans Plútarkosar, þar sem hann stillir frægðarmönnum grískrar og rómerskrar fortíðar upp hverjum gegn öðrum og metur afrek, mannkosti og siðferðisstyrk þeirra.
Ekki reynast endilega margir áhugaverðir snertifletir milli hins heittrúaða en skapstóra prests og hins fífldjarfa, víðförula, taumlausa og illa breyska danska úrsmiðssonar. Bæði lífshlaupin þó skilmerkilega rakin.
Óneitanlega leikur viðburðarík og ólíkindaleg saga Jörundar betur í höndum Einars en lífsbarátta eldklerksins, sem finnur það sjálfur og dvelur mun meira við hana. Það er enginn óravegur milli ævintýra Jörundar um víða veröld, og sérstaklega á Íslandi og óstýrlátustu persónanna sem hann skapaði sjálfur fyrr á ferli sínum:
Það er greinilegt af lýsingum á æsku Jörgens Jörgensen a hann var það sem nú á dögum kallast ofvirkur. Hann undi sér ekki við nám þó að námshæfileikar væru ágætir, raunar mjög góðir. Núna væri hann settur á rítalín eða einhver róandi lyf, alveg einsog fleiri söguhetjur okkar og margir sem látið hafa að sér kveða í heiminum. (Hundadagar 55)
Milli þessara tveggja sögulegu skáldsagna sendi Einar Már frá sér aðra bók sem lesa má sem tengingu milli ólíkra sviða í höfundarverkinu. Passamyndir (2017) er í káputexta sögð tilheyra sagnaheimi þríleiksins og Engla alheimsins og hefur augljós tengsl við hann. Sögumaðurinn gæti verið sá sami, hann á bróðurinn Pál, sem er „svona eins og Syd Barrett“ (20), „málar og skrifar og trommar. Hann er klár en hann er oft erfiður“ (21).
En ólíkt þessum bókum er sögumaðurinn eindregin aðalpersóna í Passamyndum. Hann heitir Haraldur (en ekki Rabbi), ungur maður með skáldadrauma, með rómantískar hugmyndir um Evrópuflakk sem hann hyggst hrinda í framkvæmd í félagi við vini sína og kunningja með uppgripavinnu í Noregi, heimalands átrúnaðargoðsins Knud Hamsun, og síðan áhyggulausu ráfi suður um lönd, jafnvel alla leið til Sikileyjar á slóðir Vefarans frá Kasmír. Það gengur að mörgu leyti upp, en með þeirri ófyrirséðu vendingu að Haraldur verður ástfanginn snemma bókar og öll plön verða að taka mið af þeirri nýju stöðu.
Þó Passamyndir séu að forminu til skáldsaga er erfitt að ímynda sér annað en uppistöður efnisins séu endurminningar. Einhverjar aukapersónurnar eru ágætlega þekkjanlegar úr raunveruleikanum, þeirra sennilega augljósust kvikmyndagerðarkonan og aktívistinn Rúna sem sögumaður heimsækir í Róm og getur varla verið önnur en Róska.
Lesandi staldrar líka við atvik á lögreglustöðinni í Osló þar sem vinirnir Haraldur og Jonni fara til að fá atvinnuleyfi, en verða vitni að hryssingslegri framkomu í garð Pakistana sem þar er í sömu erindagjörðum. Sama atvik er uppistaðan í ljóði í Ég stytti mér leið framhjá dauðanum, eins og áður hefur komið fram, og hefur þar eindregna mynd minningar.
Það er heldur ekki laust við að Haraldur sé meðvitaður um hverskonar höfundur Einar Már ætti eftir að verða:
Ég ætla að segja frá einu atviki, einhverju sem gerðist, en er strax farinn að tala um eitthvað annað, þannig segi ég sögur. Ég veit hvert ég ætla en ég rata ekki þangað. (Passamyndir 23)
Þegar ég byrja að segja frá einhverju einu þá dettur mér eitthvað annað í hug. Ég vildi í rauninni segja miklu meira og miklu fleiri sögur en ég geri en þá kæmist sagan sem ég er að segja ekki fyrir og myndi drukkna í öðrum sögum. (55)
[…] enda leit ég á sjálfan mig sem lærisvein ljóðskálda sem töluðu bara við sjálf sig eða engan og vindinn, en sögðu samt heilmikið um heiminn. Ég vissi samt að ég myndi skrifa sögur. (192)
En þó það sé sannsögubragur á Passamyndum er þaðan innangengt í „skáldlegri“ hluta höfundaverksins lika. Haraldur og Jonni eru nemendur Arnfinns Knudsen, kennarans sem var kveikjan að bókinni um ætt hans og tök hennar á Tangavík, Íslenskum kóngum. Þeir félagar höfðu sjálfir orðið svo frægir að vera á vertíð í því skáldlega plássi. Og á einum stað skýtur upp kollinum hinn dularfulli doktor Róbert, sem sést líka í sögum í Kannski er pósturinn svangur.
Þannig er hinn skáldaði heimur Einars Más, sem hann hefur byggt upp í gegnum sitt stóra höfundarverk, merkilega heildstæð veröld. Full af undrum en líka skarplegum rannsóknum raunheimana. Fyrir utan hina mörgu snertipunkta og öll leynigöngin milli Tangavíkur, Eyrarbakka, Holtahverfisins, Vogana, Tasmaníu og Taormína, er það aðferð sögumannsins, sýn höfundarins, sem bindur þetta allt saman saman, með lausum en merkilega traustum böndum og hnútum.
Þið verðið að fyrirgefa mér en ég er að hugsa svo margt og fer því að segja alls konar sögur, alls konar skrítnar sögur. (Passamyndir 23)
Þorgeir Tryggvason, mars 2022
Greinar
Almenn umfjöllun
Joseph C. Allard: „Einar Már Guðmundsson (1954- )“
Icelandic Writers. Dictionary of Literary Biography, vol. 293, ritstj. Patrick J. Stevens, Detroit, Gale 2004, s. 48-54
Guðmundur Andri Thorsson, Páll Valsson: „Lífsgleðin á grunnplaninu“ Viðtal við Einar Má Guðmundsson
Teningur, 3. árg., 3. tbl. 1987, s. 42-47
Guðni Elísson: „Heimurinn sem krónísk ranghugmynd. Átök undurs og raunsæis í verkum Einars Más Guðmundssonar“
Skírnir, 171. árg., vor 1997, s. 165-196
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: „Þegar vöknaði í púðrinu: íslensk skáld kveða sig frá sósíalisma“
Þjóðmál 2009, 5. árg., 4. tbl. bls. 72-80.
Harriet Jossfolk: „Det globala i det lokala: ett samtal med Einar Guðmundsson“
Horisont, 49. árg., 1. tbl. 2001, s. 49-51
Hrefna Haraldsdóttir, Viðar Garðarsson: Skáldatími. Einar Már Guðmundsson
Reykjavík : Hugsjón, 1998 [myndband]
Illugi Jökulsson: Með vængi á heilanum
Viðtal við Einar Má Guðmundsson. Reykjavík : Garpur, 1995 [myndband]
Jón Ingvi Jóhannsson: „Upphaf íslensks póstmódernisma. Um fyrstu ljóðabækur Einars Más Guðmundssonar“
Í Soffía Auður Birgisdóttir (ritstj.): Kynlegir kvistir tíndir til heiðurs Dagnýju Kristjánsdóttur fimmtugri. Reykjavík : Uglur og ormar, 1999, s. 125-142
Jónas Maxwell Moody: „The Author of Revolution“ (viðtal)
Iceland review 2008, 46. árg., 4. tbl. bls. 32-3.
Kjartan Árnason: „Ung, græn- og yrkja ljóð! Um ljóðagerð ungra skálda á síðasta áratug“
Mímir, 24. og 25. árg., 1. tbl. 1986, s. 6-14
Silja Aðalsteinsdóttir: „Ósýnilegi barþjónninn segir frá“
Viðtal við Einar Má Guðmundsson
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 2. tbl. 1995, s. 9-33
Silja Aðalsteinsdóttir (umsjón): Ritþing 4. nóvember 2000
Reykjavík: Menningarmiðstöðin Gerðuberg, 2000
Skafti Þ. Halldórsson: „Vægðarlaus aðför veruleikans.“ Yfirlistgrein um feril Einars Más í tilefni fimmtugsafmælis skáldsins.
Lesbók Morgunblaðsins, 23. október 2004
Thomas Thurah: „At give de tavse stemme.“ Viðtal
Í Historien er ikke slut. Samtaler med 36 Eruropæiske forfattere. Köbenhavn, Gyldendal, 2000, s. 178-186
Um einstök verk
Bankastræti núll
Björn Bjarnason: „Þjóðfélagsgagnrýni Einars Más“ (ritdómur)
Þjóðmál 2011, 7. árg., 2. tbl. bls. 95-6.
Bítlaávarpið
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Reimleikar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Skafti Þ. Halldórsson: „Öndergrándið er akademía“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 1. tbl. 2005, s. 103-106
Draumar á jörðu
Hallberg Hallmundsson: „Draumar á jörðu“
Í World Literature Today, 2002, s. 196
Eftirmáli regndropanna
Alan Crozier: „Regndropparnas epilög“
Gardar, ársrit 22 1991, s. 49
Ástráður Eysteinsson: „Syndaflóð sagnaheims“
Skírnir, 161. árg., vor 1987, s. 178-189
Vésteinn Ólason: „Eftirmáli regndropanna“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 3. tbl. 1987, s. 382-384
Sigríður Albertsdóttir: „Töfraraunsæi í íslenskum samtímaskáldsögum“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg., 1. tbl. 2000, s. 81-100
Englar alheimsins
Elenore M. Guðmundsson: „Á leiðinni út úr heiminum til að komast inn í hann aftur. Hinn tvöfaldi sögumaður í Englum alheimsins“
Skírnir, 171. árg., vor 1997, s. 78-91
Friedhelm Rathjen: „Violinen der Welt, verstimmt“
Tintenkurs Nordwest. Scheeßel: Edition ReJoyce, 2006, s. 157-159
Helga Hlaðgerður Lúthersdóttir: „Fra sindets mørke: en afdød sindsyg mands memoirer / From the dark corners of the mind: reminiscences of a dead and mentally ill man“
Nordisk litteratur, 1995, s. 32-34
Lise Hvaarregaard: „Sagatræk í Einar Már Guðmundssons Universets engle“
The Fantastic in Old Norse / Icelandic Literature. Sagas and the British Isles. Durham: The Centre for Medieval and Renaissance Studies, Durham University, 2006, s. 407-416
Per Lagerholm: „Einar Már Guðmundsson, Universums änglar“
Gardar, 27, 1996, s. 69-70
Silja Aðalsteinsdóttir: „Verdenslitteraturen glöder af galskab / World literature is bursting with insanity“
Nordisk litteratur, 1995, s. 3-7
Páll Valsson: „Orrustan geisar í heitu höfði okkar“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 2. tbl. 1995, s. 106-111
Þröstur Helgason: „Vitið í óvitinu. Um Engla alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson“
Andvari, 120. árg., 1995, s. 86-92
Englar alheimsins (kvikmynd)
Richard Middleton: „One Flew Over Reykjavik“ Viðtal
Iceland Review, 38. árg., 1. tbl. 2000, s. 26-31
Ég stytti mér leið framhjá dauðanum
Kári Páll Óskarsson: „Ölvið ykkur – á skáldskap eða dyggðum“
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 4. tbl. 2007, s. 109-113
Þorgerður E. Sigurðardóttir: „Hvar er eilífðin?“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Fótspor á himnum
Hermann Stefánsson: „Í fótspor englanna“
Tímarit Máls og menningar, 59. árg., 2. tbl. 1998, s. 142-145
Hundadagar
Einar Már Jónsson: „Örlögsímu“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 77. árg., 4. tbl. 2016, s. 136-139
Ingvi Þór Kormáksson: „Í heimsreisu með Jörundi“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Hvíta bókin
Benedikt Jóhannesson: „Í skugga hrunsins“
Skírnir 2009, 183. árg., haust, bls. 509-20.
Björn Bjarnason: „Fjórar bækur um hrun“ (ritdómar)
Þjóðmál 2009, 5. árg., 3. tbl. bls. 76-86.
„Óbærileg veröld frjálshyggjunnar“
Vísbending 2009, 27. árg., 32. tbl. bls. 4.
Stefán Karlsson: „Hlutverk ríkisvaldsins í ritum um efnahagshrunið“
Glíman 2010, 7. tbl. bls. 201-18.
Henrik Wivel: „Landsforræderi: en hvidbok af Einar Már Guðmundsson“ (ritdómur)
Nordisk tidskrift för vetenskap, konst och industri 2010, 86. árg., 1. tbl. bls. 77-80.
Leitin að dýragarðinum
Páll Valsson: „Leitin að stílgaldrinum“
Tímarit Máls og menningar, 50. árg., 3. tbl. 1989, s. 397-400
Rauðir dagar
Robert Zola Christensen: „Röda dagar“
Gardar, ársrit 24, 1993, s. 45-46
Skafti Þ. Halldórsson: „Rauðir dagar“
Tímarit Máls og menningar, 52. árg., 1. tbl. 1991, s. 109-112
Riddarar hringstigans
Vésteinn Ólason: „Stigamaður“
Tímarit Máls og menningar, 44. árg., 2. tbl. 1983, s. 221-225
Rimlar hugans
Böðvar Guðmundsson: „Að synda saman í land“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 3. tbl. bls. 135-6.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Rimlar hugans. Ástarsaga“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Róbinson Krúsó snýr aftur
Helgi Grímsson: „Sendisveinninn og Róbinson Krúsó“
Tímarit Máls og menningar, 43. árg., 5. tbl. 1982, s. 606-617
Sendisveinninn er einmana
Helgi Grímsson: „Sendisveinninn og Róbinson Krúsó“
Tímarit Máls og menningar, 43. árg., 5. tbl. 1982, s. 606-617
Vængjasláttur í þakrennum
Finn Barlby: „Den flyvende garage; om Einar Már Guðmundssons fiktive univers, især i Vingeslag i tagrenden“
Nordica, bindi 8 1991. Odense: Odense Universitetsforlag, s. 69-80
Guðni Elísson: „Hefðin og hæfileiki Einars Más Guðmundssonar: Vængjasláttur í þakrennum og bókmenntasamhengið“
Í Ástráður Eysteinsson (ritstj.): Heimur skáldsögunnar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2001, s. 157-169
Vésteinn Ólason: „Pegasus blakar vængjum í Reykvískum þakrennum“
Tímarit Máls og menningar, 45. árg., 5. tbl. 1984, s. 590-593
Myndbönd:
Illugi Jökulsson: Með vængi á heilanum
Viðtal við Einar Má Guðmundsson. Reykjavík : Garpur, 1995
Hrefna Haraldsdóttir, Viðar Garðarsson: Skáldatími. Einar Már Guðmundsson
Reykjavík : Hugsjón, 1998
Brot úr greinum
Úr „Heimurinn sem krónísk ranghugmynd“
Í skáldverkum sínum leitast Einar við að lýsa samfélaginu í listrænu ljósi sem á lítið skylt við umhverfislýsingar í Reykjavíkursögum þeirrar rithöfundakynslóðar sem kemst til vegs og virðingar á árunum 1950 – 70. Auk þess eru skáldverk hans kröftugt svar við þeim rithöfundum eftirstríðsáranna, s.s. Ólafi Jóhanni Sigurðssyni og Indriða G. Þorsteinssyni, sem drógu upp skarpar andstæður milli töfra sveitalífsins og þeirrar einangrunar og firringar sem borgarmenning átti að hafa í för með sér.
Endurskoðun Einars á samfélagsgildum sveitamenningarinnar veldur því að hann hafnar hefðbundnum andstæðum tilgangsríkrar tilvistar og merkingarsnauðs lífs. Í stað Jónasar Hallgrímssonar, fjallsins, dalsins, náttúrunnar og sjálfmenntaðra sveitamanna, teflir hann fram Bítlunum, blokkum, byggingarsvæðum og rökurum svo nokkur dæmi séu nefnd. Frásagnarandinn breytist þó lítið, því hið nýja er alltaf að hluta hefðbundið í meðförum Einars og þannig tekst honum að brúa bilið milli gamals og nýs tíma. Hann skapar heim þar sem skottur og mórar flytja í bæinn líkt og íslenskur almúgi, án þess þó að glata sínum þjóðlegu eiginleikum.
Reykjavíkurmyndir Einars Más Guðmundssonar eru því jafn langt frá raunsæislegum veruleika og rómantískar sveitalífslýsingar, enda viðurkennir hann sjálfur að bækur hans eigi ekki að vera „þjóðfélagslýsing um það ’hvernig var að lifa á tímum viðreisnarstjórnar’“. Ef fjarlægðin gerir fjöllin blá og sveitina sæta, skapar Einar sams konar hughrif í lýsingu á veruleika sem stendur borgarbúum mun nær. Hann vekur með lesendum sínum ljúfsáran söknuð til tíma sem flestum er enn í fersku minni og skapar þannig skáldlega fjarlægð á nánustu fortíð Íslendinga í nútímasamfélagi. Hann sýnir að galdur og fantasía geta eins þrifist á steinsteyptum svæðum borgarinnar, sem upp til dala.
(s. 166)
Sjá Guðni Elísson: „Heimurinn sem krónísk ranghugmynd“. Átök undurs og raunsæis í verkum Einars Más Guðmundssonar“
Úr „Upphaf íslensks póstmódernisma“
Ef undirritaður fengi það verkefni að útbúa tilvitnanabók úr íslenskri nútímaljóðlist er ekki nokkur vafi á því hvernig fyrsta síða þeirrar bókar myndi líta út: Titillinn og tileinkunin á fyrsta ljóðinu í fyrstu ljóðabók Einars Más Guðmundssonar yrðu fyrstu ljóðlínurnar:
flassbakk um framtíðina
shantih shantih shantih
shake it up shake it up
t.s. eliot/david bowie
Þetta er póstmódernismi. Í þessum þremur ljóðlínum og titlinum má sjá samankomin mörg einkenni þess póstmódernisma sem Einar Már stundar í bókum sínum. Hér tekst að koma fyrir í fjórum ljóðlínum vísum í módernismann, poppmenningu nútímans, kvikmyndamenningu og útópíska framtíðarsýn byltingarsinnaðrar æsku sem Einar Már tilheyrði sjálfur nokkrum árum áður en ljóðabækurnar komu út. Í titlinum er þversögn, flassbakk er einlægt endurlit, þá eru rifjaðir upp liðnir atburðir. Hér er hins vegar flassbakkað um framtíðina, rétt eins og hún sé liðin og samtíminn sé einhvers konar pósttími/tímaleysi. Hér má ef til vill sjá svipaða tímaskynjun og [Fredrick] Jameson eignar samtímanum, ef við skynjum tímann sem sífellda nútíð, hætta orð eins og þátíð og framtíð að hafa merkingu, og þá má allt eins flassbakka um framtíðina.
Einkunnarorð eru líklega um það bil jafngömul bókmenntum Vesturlanda og er óhætt að tala um þau sem sérstaka hefð. Þau gefa tóninn fyrir það sem á eftir kemur, og eru einnig aðferð til að tengja texta við aðra texta sem eru þekktir og búa yfir kennivaldi. Í þessu tilfelli er þetta hins vegar ekki svo einfalt, því einkunnarorðin senda frá sér a.m.k. tvíbent skilaboð, þau gefa upp tvenns konar viðmið fyrir lesandann, Bowie og Eliot, sem skiljast þó ekki nema í samhengi. Í þessari ljóðabók heyra þeir saman, og þá er væntanlega von á öllu.
[.../...]
Ein helsta nýjungin í ljóðabókum Einars Más er fólgin í nýstárlegri beitingu tungumálsins, eins og þessar fyrstu línur gefa raunar fyrirheit um. Ljóðmál hans er gagnólíkt því sem módernistarnir íslensku tíðkuðu, og þótt talmálið sé eitt aðaleinkenni þess er það langt frá því að líkjast því hversdagsmáli sem nýraunsæju skáldin ortu sín pólitísku ljóð á. Í titli og tileinkun fyrsta ljóðsins í Sendisveinninn er einmana má greina nokkrar uppsprettur þessa nýstárlega ljóðmáls. Þótt Eliot sé þar settur í samhengi sem ýmsum aðdáendum hans fyndist óviðeigandi er langt frá því að Einar sé ósnortinn af módernískri ljóðagerð. Raunar er ekki úr vegi að tala um ljóðmál hans sem niðurstöðu af módernismanum og þeim hræringum sem snerust gegn honum í nýraunsæinu. Með hæfilegri einföldun má segja að hann fylli form módernistanna með götumáli, slangri og grófyrðum og tilvísunum í jafnt rokktexta, pólitíska orðræðu og klassískar bókmenntir. Hann beitir myndmáli og vísunum eins og módernistarnir gerðu í ríkum mæli, en nýraunsæið hvarf frá að miklu leyti. Vísanirnar eru hins vegar í aðra hluti en atómskáldin tíðkuðu og myndmálið er býsna ólíkt líka.
(s. 128-130)
Sjá Jón Yngvi Jóhannsson: „Upphaf íslensks póstmódernisma. Um fyrstu ljóðabækur Einars Más Guðmundssonar“
Úr „Orrustan geisar í heitu höfði okkar“
Formlega þætti er [...] aldrei hægt að slíta úr tengslum við efni sögu og hér er mikilvægt að gera strax grein fyrir því að þessi saga [Englar alheimsins] er táknleg í eðli sínu, allegórísk. Þótt grunnur hennar sé persónusaga þá skírskotar hún í margar áttir og verður bæði fjölskyldu- og þjóðarsaga, auk þess sem hún hefur að sjálfsögðu ennþá víðari skírskotanir. Saga þessara áratuga á Íslandi kallast með sérstæðum hætti á við þá veröld sem nú blasir við, um leið og hún endurspeglar heimssöguna. Þessir eiginleikar sögunnar þurfa ekki að koma lesendum Einars Más á óvart, þvert á móti má kalla það eitt af hans greinilegustu höfundareinkennum hversu meðvitað hann leitast sífellt við að fanga hið stóra í hinu smáa, hið alþjóðlega í hinu staðbundna. Þetta táknlega eðli endurspeglast í byggingu sögunnar, hún er klofin í marga smáa kafla og brot, rétt eins og vitund sögumanns. Og þessi klofningur áréttast í sjálfum stílnum: Einar skiptir af miklu öryggi milli epísks og ljóðræns stíls, þar sem ljóðrænar myndir miðla sturluninni á talsvert annan hátt en rökleg og epísk frásögn sögumanns; þær dýpka tilfinningu lesanda fyrir henni.
(s. 107)
Sjá Páll Valsson: „Orrustan geisar í heitu höfði okkar“
Verðlaun
2015 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Hundadagar
2012 – Norræn bókmenntaverðlaun sænsku akademíunnar
2010 – Viðurkenning úr minningarsjóði Carl Scharnberg
2002 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
2002 – Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu: fyrir framlag til íslenskra bókmennta
1999 – Karen Blixen Medaljen, heiðursverðlaun veitt af Det Danske Akademi
1999 – Giuseppe Acerbi bókmenntaverðlaunin. Veitt í bænum Castel Goffredo á Ítalíu
1995 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Englar alheimsins
1994 – Menningarverðlaun VISA Ísland
1994 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum : Englar alheimsins
1988 – Bjartsýnisverðlaun Bröstes
1982 – Fyrstu verðlaun í bókmenntasamkeppni Almenna bókafélagsins: Riddarar hringstigans
Tilnefningar
2007 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Rimlar hugans
2004 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Bítlaávarpið
2000 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Draumar á jörðu
1997 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Fótspor á himnum
1991 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Klettur í hafi
Því dæmist rétt vera
Lesa meiraÍ Tangavík ríða hættulegar hugmyndir húsum, hugmyndir um réttlæti og jöfnuð. Á laun ráðgera menn að losa hina ríku við auðinn sem íþyngir þeim en þegar látið er til skarar skríða er yfirvöldum ekki skemmt. Glæpir ógna gildum samfélagsins og mikið liggur við að bæla niður mótþróa og uppreisnarhug; finna hina seku, dæma hart og refsa grimmilega.. .Skáldleg afbrotafræði
Lesa meiraTil þeirra er málið varðar
Lesa meiraHöfuðljóð
Lesa meiraIslandske konger
Lesa meiraPassamyndir
Lesa meiraHundadagar
Lesa meiraOn the Point of Erupting: Selected Poems
Lesa meiraNavnleysir vegir
Lesa meira
Vinarþel ókunnugra
Lesa meiraSteinsteypugarðurinn
Lesa meira