Beint í efni

Einar Már Guðmundsson

Æviágrip

Einar Már Guðmundsson er fæddur í Reykjavík 18. september 1954. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1975 og B.A. prófi í bókmenntum og sagnfræði frá Háskóla Íslands 1979. Hann bjó í Kaupmannahöfn í sex ár og stundaði framhaldsnám í bókmenntafræði við Kaupmannahafnarháskóla.

Fyrsta bók Einars Más, ljóðabókin Er nokkur í kórónafötum hér inni, kom út árið 1980. Árið 1985 fékk hann fyrstu verðlaun í bókmenntasamkeppni Almenna bókafélagsins fyrir skáldsöguna Riddarar hringstigans. Síðan hefur Einar Már sent frá sér fjölda verka og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín. Bækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og skáldsagan Englar alheimsins fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1995. Samnefnd kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar var frumsýnd í Reykjavík á nýjársdag árið 2000. Einar Már fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015 fyrir Hundadaga auk þess sem aðrar bækur hans hafa fengið tilnefningar til þeirra.

Mynd af höfundi: Hörður Ásbjörnsson.