Beint í efni

Blýengillinn

Blýengillinn
Höfundur
Óskar Árni Óskarsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Smáprósar
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Sá fjöldi ljóðabóka, sem kemur út núna fyrir jólin, endurspeglar þá fjölbreytni sem einkennir ljóðformið á okkar tímum. Svo virðist sem öll viðfangsefni - há og lág, stór og smá, merkileg og ómerkileg, persónuleg og ópersónuleg -  geti rúmast í ljóðinu og að hvert skáld mæti forminu á sínum forsendum. Sum ljóð lúta reglubundinni byggingu, elta jafnvel bragarhátt sem við tengjum við fyrri tíma, á meðan önnur eru smáprósar. Sum ljóð reyna að kljúfa atómið, skírskota til samtímans og samfélagslegra atburða, á meðan önnur takast á við víðáttur náttúrunnar eða landslag mannhugans. Sum ljóð láta sig varða hversdagsleg málefni og virðist þeim ekkert óviðkomandi -  pulsur með öllu, skiptimiðar í strætó, eða ættum við frekar að segja bakaðar baunir og klemmur á þvottasnúrum, verða að yrkisefni í þessum ljóðum.

Ljóð Óskars Árna Óskarssonar smellpassa ef til vill ekki við einhvern einn af þessum flokkum en nálgast helst þann síðastnefnda. Ljóð hans einkennast af hversdagslegri jarðtengingu og kómískri sýn á lífið sem byggir oftar en ekki á sjálfshæðni ljóðmælanda en getur þó einnig snúist upp í tragikómík. Til dæmis þegar töfraraunsæið, sem sveipar hvunndagslegt yrkisefnið ljóðrænum töfrum, reynist byggja á minnistapi eða öðru fráviki frá því sem mætti kallast „eðlilegt“ mannlegt ástand.

Þessa þætti má finna í nýjustu ljóðabók hans Blýenglinum sem út kom á dögunum. Í fyrstu virðist ljóðið „Gleraugnasafnið“ hverfast um hversdagslegan hlut sem býður upp á ævintýralega gátt – gleraugu frá ólíkum tímabilum í lífi ljóðmælanda gera honum kleift að ferðast í tíma – en lokalínurnar gefa til kynna að alvarlegri og drungalegri hlið hversdagsleikans hvíli undir. Það sama má segja um ljóðið „Gömul skólasystir“ þar sem ljóðmælandi þekkir ekki lengur konuna sem hann hefur verið giftur í þrjátíu ár. Vistrýni og heimspekilegar vangaveltur koma einnig fyrir í fyrri hluta bókarinnar sem ber titilinn „með“ og vísar til þess að ljóðin í þessum hluta eru sett saman á nokkuð hefðbundin hátt með orðum, en Blýengillinn hefur undirtitillinn ljóð með og án orða.  Þau eru þannig í andstæðu við ljóðin í seinni hluta bókarinnar, „án“, þar sem skáldið notar ýmis tákn og stafi á ritvélinni sinni til að skapa ljóðamyndir í ætt við framúrstefnuleg konkretljóð. Ljóðin í fyrri hluta bókarinnar hafa ekki birst lesendum áður en sum myndljóðanna birtust í tímaritinu Bjartur og Frú Emilía árið 1997.

Óskar Árni hefur einnig getið sér gott orð fyrir þýðingar og smáprósa og árið 2010 hlaut hann íslensku þýðingarverðlaunin fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Kaffihús tregans. Árið 2008 hlaut hann tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir stórmerkilega minningabók sína Skuggamyndir á ferðalagi. Þar raðar höfundur saman ljósmyndum og textabrotum svo úr verður áhrifarík og ljóðræn ættarsaga. Óskar Árni er kannski ekki ástsælasta skáld þjóðarinnar en hann á sér traustan lesendahóp. Sá hópur inniheldur til að mynda tengdaföður minn, safnarann sem þið fáið að kynnast hér á eftir og bókavörðinn á Bókhlöðunni sem stillti ljóðabók hans Ráð við hversdagslegum uppákomum í „starfsfólk mælir með hilluna“ um daginn. Ég efast ekki um að það eru fleiri sem eiga það sameiginlegt með þessum hópi að grípa í bækur skáldsins aftur og aftur.

Innan á bókarkápu Blýengilsins kemur fram að Óskar Árni hefur oft verið nefndur meistari hvunndagsins í íslenskum bókmenntum. En eins og mörg ljóðanna í Blýenglinum sýna eru það útúrdúrarnir í hvunndeginum sem fanga helst athygli skáldsins og skapa um leið sérstöðu þess og höfundareinkenni. Útúrdúrarnir birtast í áður nefndum frávikum frá hinu venjubunda en geta einnig verið í formi léttvægs misskilnings, misminnis eða seinheppni sem skapar tilefni til þess að brjóta upp hið vanalega, skoða það frá nýju sjónarhorni og í leiðinni að kíkja aðeins undir yfirborð hlutanna.

„Ljóðaþjónustan“ er dæmi um slíkt ljóð og er þar að auki tileinkað Geirlaugi heitnum Magnússyni, skáldi og þýðanda, sem hafði mikil áhrif á kynslóð íslenskra skálda. Ljóðið byggir á misskilningi ljóðmælanda sem sér bíl koma akandi framhjá sér merktan ljóðaþjónustunni og fer samstundis að ímynda sér þjónustu sem býður upp á heimsendingu á ljóðum. Þegar ljóðmælandi ákveður að kanna þjónustuna betur og hringir í símanúmerið, sem auglýst var á bílnum, uppgötvar hann sér til vonbrigða að um er að ræða nokkuð hefðbundna lóðaþjónustu.

Að lokum langar mig að tileinka eitt eftirminnilegasta ljóð bókarinnar „Maðurinn sem safnaði engu“ safnaranum í mínu lífi sem er við það að fylla hvern krók og kima tilveru okkar af bókum „sem hafa áhugaverðar bókakápur“, leirmunum, húsgögnum úr Góða hirðinum, að ekki sé minnst á öll ónýtu listaverkin sem þarfnast aðeins örlítilla lagfæringa:

Bóndi nokkur í Meðallandinu safnaði engu um langt árabil. Bókstaflega engu. Á gamalsaldri og í samráði við börn sín ákvað hann að ánafna Þjóðminjasafninu þetta einstæða safn eftir sinn dag. Þegar hann var spurður að því hvar safnið væri til húsa svaraði hann hvergi. Og þegar velmetinn mannfræðingur, sem fenginn var af þjóðminjaverði til að kanna gildi safnsins, benti bóndanum á að hann væri haldinn alvarlegum ranghugmyndum og að safnið væri aðeins til í huga hans, svaraði hann engu.

Ljóðin í Blýenglinum eru mörg hver einföld en hugmyndarík, kjarnyrt en frjó og sniðug, og sýna skáldið Óskar Árna í essinu sínu.

Vera Knútsdóttir, október 2015