Æviágrip
Óskar Árni Óskarsson fæddist í Reykjavík 3. október 1950. Hann ólst upp í Þingholtunum og gekk í Miðbæjarskólann. Hann stundaði nám í Samvinnuskólanum á Bifröst 1969 – 1971. Hann sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Handklæði í gluggakistunni, árið 1986. Samhliða ritstörfum hefur hann lengi starfað sem bókavörður.
Óskar Árni hefur einkum fengist við ljóðagerð og ljóðaþýðingar og meðal annars sent frá sér þrjár bækur með japönskum hækuþýðingum. Hann ritstýrði og gaf út bókmenntatímaritið Ský sem kom út á árunum 1990 – 1994. Ljóð eftir Óskar Árna hafa birst í fjölmörgum tímaritum og sýnisbókum, íslenskum sem erlendum.
Óskar Árni er giftur og á fjórar dætur. Hann býr í Reykjavík.
Forlag: Bjartur.
Frá höfundi
Frá Óskari Árna Óskarssyni
Þennan vetur var Bókamarkaðurinn haldinn í nýlegri viðbyggingu við Iðnskólann. Ég man enn hvað það var kalt að ganga upp Skólavörðustíginn á támjóum bítlaskónum og í blúnduskyrtu undir þunnum rykfrakkanum. Þetta var í febrúar, slydduhríð og snjór á götunum. Ég hlýt að hafa átt einhverja aura aldrei þessu vant, sennilega unnið á eyrinni við uppskipun í jólafríinu. Árið var sextíuogfimm eða sex.
Á bókamarkaðnum var borð merkt Ljóð. Staflar af óinnbundnum (og óuppskornum) ljóðabókum blöstu við mér. Sumar í dálítið óvenjulegu broti og báru nöfn eins og Nóttin á herðum okkar, Hlutabréf í sólarlaginu eða Malbikuð hjörtu. Gott ef þarna voru ekki líka staflar af frekar nýlegum Birtingsheftum og tímaritinu Helgafelli sem Ragnar í Smára gaf út. Og mig minnir að bækur Thors Vilhjálmssonar Maðurinn er alltaf einn og Andlit í spegli dropans hafi togað eitthvað í mig. Trúlega keypti ég nokkrar bækur á þessum bókamarkaði þó að ég muni ekki hverjar þær voru. Einhvernveginn þannig byrjaði þetta.
Órólegar ljóðlínur og textar sem vógu salt milli ljóðs og sögu opnuðu fyrir mér nýjan heim orða og tákna. Og ferðum mínum upp tröppurnar á Borgarbókasafninu í Þingholtsstræti fjölgaði. Götur borgarinnar fylltust smám saman af skáldskap. Fúið grindverk og lítill moldarstígur í Grjótaþorpinu (hann er þar enn) laugaðist goðsögulegri birtu eftir að ég las Í Unuhúsi eftir Þórberg Þórðarson. Ásta Sigurðardóttir kastaði flöktandi skuggamyndum inn í dimm húsasundin. Einmanalegt skóhljóð atómskáldanna bergmálaði um Hávallagötur borgarinnar. Byltingarskáldið Dagur kveikti í sólinni.
Það var eitthvað sem kallaði á að myndirnar sem streymdu í gegnum hugann á þessum tíma væru settar á blað. Bókstafirnir fóru að raða sér saman í orð. Og ljóð fæddist, stóð að vísu varla í lappirnar, en ég hafði fundið minn farveg – og svo, mörgum árum seinna, fór að berast ein og ein ávísun í póstinum.
Og starfið er ekki slæmt. Að vakna á morgnana og þurfa ekki að mæta á neinn sérstakan stað til að stimpla sig inn af því maður er alltaf í vinnunni: í göngutúrunum, í Hafnarfjarðarstrætó, á kaffihúsinu, í bókabúðinni, í heimsókn hjá frænku. Svo þegar búið er að hella upp á morgunkaffið kveikir maður á tölvunni, enn er myrkur úti og maður byrjar að hamra á lyklaborðið... en þá hringir síminn og þú hrekkur við. Það er þá bara Pegasus gamli. Orðin sem þú pantaðir í nótt eru tilbúin, það má sækja þau fyrir klukkan tíu. Þetta ætlar að verða skínandi dagur. En það getur líka hent að pöntunin sé öll meira eða minna vitlaust afgreidd, nútíð í staðinn fyrir þátíð, litarorðin öll í ruglingi, saggi kominn í nafnorðin og þegar þú ætlar að grípa til kvöldroðans kemur í ljós að hann hefur orðið eftir á brúsapalli norður í Skagafirði.
En hvernig sem hlutirnir ganga nú fyrir sig verður ekki aftur snúið. Þú gerir kannski smáhlé, skreppur út til að sækja þér sólstaf, gangstéttarhellu eða ský – og heldur svo áfram.
Óskar Árni Óskarsson, 2002.
Um höfund
Óskar Árni Óskarsson, ljóð með og án orða
Sumarið 2000 tók ég þátt í málþingi um ljóðið í bænum Son í Noregi. Þema þingsins var eyjur í ljóðum, þar á meðal hugmyndin um ljóðið sem eyju í sjálfu sér og allt það. Norsararnir voru agalega áhyggjufullir vegna stöðu ljóðsins í landi þeirra, ljóð væru minna og minna lesin, færri og færri eintök keypt af hverri útgefinni bók. Svo hugmyndinni um ljóðið sem eyju var fylgt eftir með spurningum um einangrun þeirrar eyju; ljóðið væri einskonar fljótandi hógvær eyja mitt í veröld skemmtanaiðnaðar, hávaða og ofgnóttar. Einn ræðumanna sagði sögu um talandi páfagauk sem væri eina lifandi veran sem talaði tungumál útrýmdrar þjóðar, og vildi hann meina að ljóðið væri þetta týnda tungumál – eða var ljóðið páfagaukurinn sjálfur, endalaust endurtakandi orð sem enginn skilur? Ég bara man ekki hvort var. Í öllum föllum átti ég erfitt með að taka þátt í þeirra norsku svartsýni, mér fannst sagan um páfagaukinn bæði fyndin og dásamleg, og líkaði þessi geggjaða hugmynd um ljóðið sem páfagauk sem endurtekur, óafvitandi og án þess að skilja nokkuð sjálfur, glatað tungumál horfinnar þjóðar. Auk þess fór umræðan um ljóðið sem hógværa eyju mitt í skarkala heimsins í taugarnar á mér, og mér fannst með því verið að hefja ljóðið upp á stall, draga það út og einangra það frekar, í stað þess að fleygja því heilshugar út í strauminn og lofa því að fóta sig þar – sem það getur svo vel.
Mér leiddist sumsé þetta tal um ljóð í kreppu, enda hafði ég þá þegar gengið í gegnum slíkt, þegar ljóðið var skyndilega fordæmt sem staðnað, dautt, sjálfhverft og sérvitringslegt, þvaðrandi við sjálft sig á gleymdu máli sem enginn skilur og síst af öllu það sjálft. Eftir að hafa haft af þessu nokkrar áhyggjur – og ég hafði áhyggjur því mér er annt um ljóðið – þá komst ég að þeirri niðurstöðu að kreppan er frekar í móttökunum, í hinum allt of þröngu skilgreiningum sem þessir andmælendur ljóðsins velja sér. Í breskri grein í veftímaritinu Prospect um bresk nútímaljóð er því sama haldið fram, en þar ræðir greinarhöfundurinn Ruth Padell einmitt einangraða stöðu ljóðsins og undrar sig á henni. Ljóðið, segir hún, er við hestaheilsu og ekkert að því, það hefur haldið áfram sína leið, þroskast og breyst með tímanum, en lesendur hinsvegar eru orðnir afvanir því að lesa ljóð, ljóð eru ekki partur af daglegu umhverfi og lesmáli eins og þau voru áður og því er allur almenningur einfaldlega orðinn ólæs á ljóð. Það sem þarf að gera, að hennar mati, er að auka umræðuna um ljóð, auka vægi ljóða í fjölmiðlum, hjálpa fólki við að greiða úr gleymdu tungumáli ljóðsins, og gera það þannig aftur að hluta af okkar daglega veruleika.
Það var myndlistamaðurinn og rithöfundurinn Hallgrímur Helgason sem kom af stað umræðu um kreppu ljóðsins í grein í fyrsta hefti tímaritsnefnunnar Fjölnis árið 1997. Lýsti Hallgrímur þar stöðu ljóðsins, að hún væri slæm og þar væri líklega formleysi um að kenna, hið frjálsa form byði ekki upp á nógu mikil átök við tungumálið og því féllu þau mínímalísku ljóð, sem hann tefldi fram sem dæmi, eins og fiðrildavængir á hausti. Ljóðin væru orðin einsleit og daufleg, úr tengslum við nokkuð nema innhverfu skáldsins sjálfs.
Á fundi um stöðu íslenskra nútímabókmennta sem haldinn var vorið 1999 talaði Guðmundur Andri Thorsson um stöðu ljóðsins sem hann áleit, líkt og Hallgrímur, vonda, meðal annars vegna fyrrnefndrar sjálfhverfni og tengslaleysis við umhverfi og daglegt líf. Og virtist í raun sem Guðmundur Andri væri þarna að tala fyrir endurkomu tækifærisljóðsins.
Ástæðan fyrir því að ég rifja upp þessa fremur máttvana umræðu, hér í grein um höfundarverk Óskars Árna Óskarssonar er einmitt sú að Hallgrímur tók hann sérstaklega sem dæmi um það sem miður færi í íslenskum skáldskap. Í greininni, sem ber nafnið „Ljóðið er halt og gengur með hæku“, er spjótum sérstaklega beint gegn því formi sem Óskar Árni hefur sinnt mjög, bæði sem skáld og þýðandi: hinni japönsku hæku. Umræða þessi vakti nokkra athygli, og því ástæða til að velta fyrir sér nútímaljóðinu eins og það birtist í hækum og hækuþýðingum Óskars Árna.
Japanska hækan er hefðbundið form sem á rætur sínar að rekja langt aftur í aldir en hefur alltaf náð að endurnýjast inn í nýja tíma – og nýja heima, því hækan hefur haft mikil áhrif á vestræna ljóðlist, sérstaklega á tuttugustu öld. Í inngangi sínum að þýðingum á hækum Matsuo Bashô segir Óskar Árni: „Japanska hækan er náttúruljóð, andartaksmynd, snöggrissuð ... Hún býr ekki yfir eiginlegu myndmáli eða myndlíkingum eins og við eigum að venjast í vestrænni ljóðlist.“ Þessar andartaksmyndir geta verið kómískar eins og í 136. hækunni í Skugganum í tebollanum eftir Kobayashi Issa sem hljóðar svo í þýðingu Óskars Árna:
froskur!
nú brá þér,
skuggi sælleða dularfullar eins og í hæku 147:
haustkul –
nótt eftir nótt
moldarskraf ánamaðka
Í fyrri hækunni gerir skáldið grín að sjálfu sér, myndin er sannarlega snöggrissuð, því lesandinn skynjar hversu óvænt froskurinn hoppar inn á hana. Sú síðari er margræðari og ber jafnvel í sér ógn, það er farið að hausta og ánamaðkarnir skrafa í moldinni, en ánamaðkarnir vísa að sjálfsögðu einnig til þess sem er grafið, eða greftrað. Því ber myndin í sér tvöfalda vísun í dauðann, hina hefðbundnu haustmynd og myndina af iðandi ánamöðkum. Og svo er hún auðvitað bara líka kyrrlát náttúrumynd, loftið er að kólna og ofaní moldinni eru ánamaðkarnir farnir að finna fyrir breyttu loftslagi – kannski hafa þeir komið á fundi?
Samkvæmt bragfræðum er form hækunnar mjög hefðbundið og skiptist þannig að í fyrstu línu eiga að vera 5 atkvæði, 7 í næstu og svo aftur 5 í þeirri þriðju. Í skýringum segist Óskar Árni ekki hafa valið þá leið að halda sig við bragformið heldur stefnt frekar að því að „koma til skila hugblæ hækunnar“. Enda er greinilegt af hans eigin hækum og þeim hækum sem hann þýðir eftir bandaríska hækusmiði að þar er valin svipuð leið og gefst einkar vel. Íslendingar kynntust hækum í þýðingum Helga Hálfdánarsonar, Japönsk ljóð frá liðnum öldum (1976), en nokkrum árum áður, árið 1968 birti Einar Ólafur Sveinsson nokkrar frumsamdar hækur í Ljóðum. Síðan þá hafa fá íslensk skáld gefið sig að þessu formi að ráði, fyrr en Óskar Árni. Hækur hans eru fjölbreyttar líkt og hækur þeirra japönsku meistara sem hann þýðir og bera þess merki að skáldið nýtur sín í þessu knappa og látlausa formi og tekst vel að heimfæra það upp á vestrænan samtíma. Óskar Árni sýnir framá að hækan er hvorki einhliða né sjálfhverf, heldur tær og tímalaus eins og fjöllin, en „Úr svip fjallanna/er ómögulegt að lesa/hvaða öld er“, segir í Myrkrinu kringum ljósastaurana frá 1999.
Fyrsta bók Óskars Árna Óskarssonar, Handklæði í gluggakistunni, er fremur hefðbundin ljóðabók, þarsem skiptast á ljóð og stuttir prósar. Prósarnir eru minningabrot og á það form eftir að verða annað leiðarstef í bókum skáldsins, með hækunni. Kaflinn ber heitið „Bergstaðastrætið – úr glötuðu handriti bernskunnar“ og lýsir, eins og titillinn gefur til kynna, nokkrum minningabrotum, nágranninn dettur úr stiga, drengurinn í baði í gufumettuðu þvottahúsi, skriðið inn um glugga á draugahjalli.
Í annari ljóðabók hans, Einnar stjörnu nótt (1989), eru ljóð sem bera merki hækunnar, eins og til dæmis „Litbrigði fyrir munnhörpu og strengi“, en eitt erindi þess hljóðar svo: „Á blágötuhorni/í haustrigningunni/dapur“. Þriðja ljóðabók Óskars Árna er síðan helguð hækunni, eða tilbrigðum við hana, enTindátar
Háaloftanna (1990) er í þremur hlutum, sá fyrsti og lengsti er einskonar hækubálkur um tindáta og hefst svo: „stundum/er eins og háaloftið/sé krökkt af örsmáum/hugsunum“. Síðan er lýst tilveru tindátanna á háaloftinu, rifjuð upp saga þeirra og brugðið upp myndum: „gegnum tómt gullfiskabúrið/með hallarrústinni á botninum/horfa þeir undrandi hvor á annan“ og „sagðar í hálfum hljóðum/furðusögur um dáta/af holdi og blóði“. Og stundum er eins og dátar þessir séu af holdi og blóði, því inn á milli birtast myndir úr raunverulegu stríði sem fléttast listilega inn í minningar tindátanna. Aftan á bókinni er vitnað í ævintýri H.C. Andersen um tindátann sem vildi fara í stríð og hefur greinilega verið áhrifavaldur bálksins, enda flettir vindsveipur ævintýrum H.C. Andersens í einni hækunni.
Í Norðurleið heldur Óskar Árni áfram að einbeita sér að hækunni, ýmist í bálkum eins og „Norðurleið“ eða sem ólíkum smámyndum eins og í kaflanum „Hækur“. Á norðurleið birtist skáldinu „kirkjugarðshliðið/hnýtt aftur/með svörtu hálsbindi“ og „hrossafluga á rúðunni“ þegar hann lítur „upp úr Issa/í Haganesvík –“. Þannig kallast mörg ljóða Óskars á við þýðingar hans og gera þær að einskonar stefi í hans eigin skáldskap. Í hæku 21 í „Hækur“ er „blindbylur -/ sötra teið,/ófært til Tókýó“ og í Ljós til að mála nóttina (1996) eru austurlenskar vísanir, að þessu sinni til Kína, en eitt ljóðið heitir „Til Lí Pó“ og annað „Hönd sem hverfur og fiðrildi lýsir orustu“:
Myrkrið svo svart
að þegar ég rétti fram
höndina hverfur húnen birtist á ný
með síðskeggjað fiðrildi
sem fer að lýsa
frægri orustu í Kína
fyrir þúsund árumgunnfánar blakta
blóðroðin sól
brynjur og vagnar
verpast molduþað glampar
á vængi
Andstæðan milli fiðrildisins og orustunnar virðist kannski nokkuð hefðbundin en tekur á sig nýja mynd með lokalínunum, en þar virðist fiðrildið skyndilega vera þátttakandi í orustunni. Í prósaljóðinu „Sólheimasafn, 4. 4. 1994“ í Veginum til Hólmavíkur (1997) finnur ljóðmælandi „fortvitnilega bók, Hugleiðingar um iðjuleysi eftir japanska fornspekinginn Kenko.“ Hann fær hana lánaða og hverfur út í myrkrið, líkt og hann gerir síðar í sömu bók, í ljóði nr. 10 í kaflanum „Þrjár lóur á Landakotstúni: Borgarmyndir“, en þar skýst ljóðmælandi upp í strætisvagninn fyrir utan Bústaðakirkju „með tvö þúsund japönsk ljóð í frakkavasanum“, sem hann hefur líkast til nælt sér í á bókasafninu:
Janúarmyrkrið grúfir sig yfir Bústaðahverfið. Brunafrost og kafsnjór. Nýbúið að ryðja göngustíginn sem liggur um hverfið og það stirnir á hjarnið. Stígurinn liggur í gegnum hálfgerðan leynigarð, allstóran almenningsgarð með einmanalegum bekkjum og litlum barnaleikvelli, umlukinn háum trjám og frosnum gluggum kvöldsins. Aftansöngur að hefjast í Bústaðakirkju og bókasafnið í kjallara kirkjunnar um það bil að loka. Farið að hvessa og glamra í norðurljósunum þegar ég skýst upp í strætisvagninn með tvö þúsund japönsk ljóð í frakkavasanum. (Vegurinn til Hólmavíkur, s. 32)
Á þennan hátt leikur Óskar Árni sér með sannverðugleika ljóðmælanda í prósaljóðum sínum og hækum og fellir hann iðulega saman við sjálfan sig – en lesandi skyldi varast að taka þá samlíkingu of bókstaflega því þrátt fyrir að margir prósanna birtist sem minningabrot, þá er það ekki einhlýtt. Það væri til dæmis varasamt að taka prósaljóðið „Kvöld á Umferðamiðstöðinni“ (Myrkrið kringum ljósastaurana) sem ævisögulega heimild, en þar er ljóðmælandi áreittur af dökkeygri afgreiðslustúlku sem otar að honum Tímariti Máls og menningar og spyr hvort hann hafi ekki gleymt bleikum varalit þarna kvöldið áður. Ljóðmælandi gefst upp á rútunni og tekur leigubíl og sér Tímarit Máls og menningar liggja í farþegasætinu við hlið bílstýrunnar. Í einu af þessum hæglátlega óhugnanlegu póstmódernísku andartökum dauðlangar ljóðmælandann að benda henni á að hann eigi smásögu í ritinu, og þegar hann kemur heim sér hann votta fyrir fölbleikum varalit á vörum sínum. Þannig er tíminn felldur saman utanum ókennilegan varalit sem kallast á við örið í hnakka krúnurakaðrar bílstýrunnar og tengist á einhvern furðulegan hátt Tímariti Máls og menningar.
Það var klukkutími þangað til rútan færi svo ég ákvað að panta mér kótelettur með brúnuðum kartöflum. Dökkeyga stúlkan við kassann spurði hvort ég hefði ekki átt leið hérna um í gærkvöldi og gleymt bleikum varalit. Hæðnistónninn í röddinni leyndi sér ekki, en ég bara brosti og sagði að það væri nú frekar ólíklegt. Hún horfði vantrúuð á mig, en bauð mér síðan afmælisáskrift að Tímariti Máls og menningar. Mér fannst hún vera orðin nokkuð ágeng og það var farið að þykkna í mér. Ég sagði henni eins og var að konan mín væri áskrifandi. Hún leit þá eldhvasst á mig og hreytti út úr sér: Enginn heitur matur eftir klukkan níu. Þetta endaði með því að ég keypti mér samloku og tók leigubíl suðrí Voga.
Það var kona sem ók bílnum. Hún var krúnurökuð og með áberandi ör á hnakkanum. Í sætinu við hliðina á henni lá nýjasta heftið af Tímariti Máls og menningar. Ég lét ekki á mér bera í aftursætinu alla leiðina þó mig dauðlangaði að benda henni á að ég ætti smásögu í þessu hefti.
Þegar ég leit í spegilinn á ganginum heima sá ég að enn vottaði fyrir fölbleikum varalitnum. (Myrkrið kringum ljósastaurana, s. 35)
Þessi undirfurðulegi tónn og dálítið dularfulli blær er einkenni á ljóðum Óskars Árna, en hann er meistari þess að blanda saman kímni, gleði, trega og ógn á hljóðlátan og átakalausan hátt. Við fyrstu sýn virðast ljóðin létt og leikandi – og eru það vissulega – en þegar nánar er að gáð birtast í þeim hin fjölbreyttustu blæbrigði. Þetta hefur Óskar Árni líklega lært af hækunni, sem stundum virðist ekki segja neitt, en getur um leið sagt allt sem segja þarf um heiminn, eins og hann kemst sjálfur að orði í fyrrnefndum formála að þýðingum sínum á Matsuo Bashô. Þessi blæbrigði birtast svo fallega í einfaldri mynd sem dregin er upp í hæku númer 12 í hækubálknum „Vegvísar“ í Myrkrinu kringum ljósastaurana, en þar segir: „Kvöldþokan/hefur stolist burt/með hákarlahjallinn“. Húmorinn er greinilegur í hugmyndinni um þokuna sem lymskast á brott með hákarlahjallinn, en jafnframt býr einkennileg ógn í einmitt sömu hugmynd; að þokan hafi vald til að brottnema hús og kennileyti, að það sem hún hylur það sé horfið. Einnig má sjá hatta fyrir hugmyndinni um hinn hljóðláta banvæna hákarl, sem dylst undir sjávarfletinum en getur ráðist fram hvenær sem skyldi.
Titill bókarinnar bregður upp mynd af myrkri og ljósi og þessi mynd af þoku sem máir burt kennileiti og hrífur með sér hús kallast á við ljós og stjörnur sem kvikna hér og þar í gluggum – og á hattbörðum eins og í ljóðinu „Nótt í Arles“ þarsem málarinn heldur út á akurinn um miðja nótt, „festir kertisstubbana/á hattbörðin/-og byrjar að mála“. Önnur skyndileg ljósaskipti verða í „Óvæntum dyrum“:
Stundum gerist það
eins og uppljómað
strandferðaskip
sigli dimman fjörðallt í einu
opnast dyr
milli heimaveröldin
svo miklu stærri
en þig minnti
Enn erum við minnt á hugmyndina að baki hækunni, að hún rúmi samtímis hið smáa og hið stóra. Það mætti ímynda sér að þessi hugmynd sé tekin alla leið í hinum undurfögru ljóðum án orða sem birtust í 25. hefti Tímarits Bjarts og frú Emilíu. Þar er skráður óður til ritvélarinnar í bókstöfum sem búa til myndir: hópur af keikum i-um ber yfirskriftina „Bókstafstrúarmenn“, láréttir svigar, upprétt i og kommur að ofan eru „Regnhlífar í París“, og i innan láréttra sviga er borið af línulegri líkfylgd annarra i-a í „Jarðarför í rigningu“, utan við fylgd i-anna standa fjögur önnur, þrjú í hóp og eitt stakt. Og ekki má gleyma „Gunnari á Hlíðarenda“ sem keikur spennir boga svigans og verst ásókn hóps láréttra i-a. Fyrir mér eru þessi ljóð dæmi um ljóðlist í sínu hreinasta formi, þarsem myndauðgi og leikur að tungumálinu fara saman í eins knöppu formi og mögulegt er. Eitt af því sem Hallgrímur taldi nútímaljóðinu til hnjóðs var það að það er svo orðfátt, í hverri bók eru örfá ljóð sem síðan hvíla örsmá fyrir miðri hvítri síðu. Þetta myndbirtir sjálfhverfuna og erindisleysuna, vildi Hallgrímur meina.
Ljóð án orða eru einmitt ákaflega gott dæmi um þessa hugmynd um ljóðið sem einskonar mínímalískt myndlistaverk á auðri síðu, en í stað þess að sanna tilgangsleysi þessa sýna orðlaus ljóð Óskars Árna einmitt fram á fjölbreytni og möguleika ljóðsins. Ef einhver ljóð eru opin, margbreytileg og úthverf, þá eru það þessi og þau henta við öll tækifæri. Þetta hef ég sannreynt því ég hef notað þessi ljóð sem dæmi í kennslu og fyrirlestrum um árabil. Hvort sem um er að ræða vangaveltur um myndmál, sjónmenningu, listfræði eða bókmenntir þá opna þessi ljóð ævinlega augu áheyrenda fyrir vangaveltum um andstæður eða hliðstæður milli orða og mynda, fyrir samspili einfaldleika og margbreytileika og ekki síst fyrir möguleikum ljóðsins. Eftirminnilegasti fyrirlesturinn var hjá viðskiptafræðinemum sem urðu hreinlega uppnumdir af orðlausu ljóðunum og fóru á flug við að leika sér með túlkun þeirra – þrátt fyrir að lýsa í upphafi yfir litlum áhuga á ljóðlist. Hverjir eru þessir sem standa fyrir utan líkfylgdina? spurðu þau og svöruðu sjálf: viðhaldið! og þannig spunnust upp heilu sögurnar utanum örfáa bókstafi og rit-tákn.
Að spinna upp sögur utanum örfá augnablik og atvik er einmitt það sem Óskar Árni gerir í prósum sínum, en fyrir utan þá prósa sem birtast í ljóðunum hefur hann gefið út tvær bækur helgaðar stuttum prósum sem liggja einhversstaðar mitt á milli smásagna, örsagna og prósaljóða. Önnur þeirra er áðurnefnd Vegurinn til Hólmavíkur en hin nefnist Lakkrísgerðin (2001) og eru prósarnir þar öllu lengri en þeir sem við höfum áður kynnst hjá Óskari Árna. Það skaðar þó ekki, eiginlega þvert á móti, því bókin er líklega besta og heilsteyptasta verk höfundar til þessa og sneisafull að dásamlegum myndbrotum, vangaveltum og merkilegum viðburðum, sem Óskar Árni lýsir á sinn undirfurðulega hátt. Margir prósanna minna á verk argentínska höfundarins Jorge Luis Borges, að því leyti sem hugsanir, draumar og minningar renna saman við veruleikann. Í „Ferðalög“ sést til konu á borgarkorti, síðan hittum við hana fyrir í bókabúð, og svo aftur á nýju korti. Þröstur ávarpar konu á þýsku, grunlaus um að hún er með vatnsbyssu í töskunni í „Kona og fugl“, og í „Doris Day“ tekur Dísa í dalakofanum á sig mynd leikkonunnar. „Snjóþyngsli“ verða uppspretta rússneskrar stemningar í Fljótunum, þegar dúðaðar heimasætur ferðast um á hundasleðum í gegnum snjógöngin og lesa Önnu Karenínu í splunkunýrri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar og í einni gönguferð um bæinn má rekast á heilan flokk skálda, lifandi sem liðinna og ræða við þau um „Regnhlíf eða piparmyntur“. Bækur, lestur og bókmenntaleg minni einkenna margar sögurnar enda kemur í ljós að „Bókasafnið“ er í raun geimstöð:
Það var eins og öll gatan væri lifandi; húsin með uppglennt augun, brunahaninn, skuggarnir í görðunum og trén sem teygðu handleggina yfir grindverkin. Kvöldið streymir í gegnum hann og nýjar kenndir og skynjanir bærðust með honum. Öll borgin andaði og honum fannst þúsund varir hvísla í myrkrinu. Og þarna beið bókasafnið eins og uppljómuð geimstöð tilbúin að flytja hann til annarra hnatta. Hann sá fólkið inni í húsinu rétta út hendurnar eftir bókunum.
Um leið og hann hljóp upp tröppurnar heyrði hann sjálfan sig telja þrepin ... tíu níu átta sjö ...
Og svo tekst hann væntanlega á loft, eins og lesandi Lakkrísgerðarinnar.
Í Myrkrinu kringum ljósastaurana er að finna ljóðið „Galdramúsin“ eftir bandaríska ljóðskáldið Kenneth Patchen, en þar segir frá galdramúsinni sem borðar ekki ost heldur sólsetur og krónur trjánna. Hún hefur ekki feld, en „klæðist reykháfum/týndra skipa og veðrinu/undir visnuðu laufi“. Þessi mús hræðist hvorki ketti né skógaruglur, hún gerir það sem henni sýnist og borðar spörfugla „-og smámeyjar//sem bragðast eins og ryk“:
Ég er galdramúsin
ég borða ekki ost
ég borða sólsetrin
og krónur trjánna
ég hef ekki feld
ég klæðist reykháfum
týndra skipa og veðrinu
undir visnuðu laufiÉg er galdramúsin
ég hræðist hvorki ketti
né skógaruglur
ég geri það sem mér sýnist
ævinlega
ég borða ekki brauðskorpur
ég borða spörfugla
- og smámeyjarsem bragðast eins og ryk
Þessi galdramús minnir ekki lítið á ljóðið sjálft eins og það birtist í meðförum Óskars Árna. Hún er ekki mikil um sig fremur en hin orðfáa hæka, en í smáum kroppi hennar býr bæði gleði og magnaður kraftur og hún getur náð yfir sólsetur jafnt sem trjákrónur og klæðnaður hennar er fínlegur þytur einhvers sem er úr augsýn. Ljóðmús galdursins hræðist ekkert því hún er fær um að fanga spörfugla og smámeyjar áður en þær breytast í ryk.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2002
Greinar
Um einstök verk
Blýengillinn
Vera Knútsdóttir: „Ljóðaþjónustan, góðan daginn!“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Einnar stjörnu nótt
Jón Kalman Stefánsson: „Bernska og stjörnur: ritdómur um Einnar stjörnu nótt“
Tímarit Máls og menningar 51. árg., 2. tbl. 1990, s. 110-112.
Kuðungasafnið
Úlfhildur Dagsdóttir: „Þorpatal“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Truflanir í vetrarbrautinni
Úlfhildur Dagsdóttir: „Einhverskonar reimleikar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Ráð við hversdagslegum uppákomum
Úlfhildur Dagsdóttir: „Fjórar línur og titill og Ráð við hversdagslegum uppákomum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Reykjavíkurmyndir
Vera Knútsdóttir: „Og eiginlega ekkert meira um það að segja“
Bókmenntavefurinn umfjöllun um bækur, sjá hér
Sjónvillur
Úlfhildur Dagsdótir: „Sjónvillur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Skuggamyndir úr ferðalagi
Haukur Ingvarsson: „Smáprósa raðir“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2009, 70. árg., 1. tbl. bls. 139-43.
Vegurinn til Hólmavíkur
Sigurlín Bjarney Gísladóttir: „Bækur og líf“
Bókasafnið 2002, 26. árg., bls. 71-4.
Það er að hefjast gleðskapur (þýðing)
Úlfhildur Dagsdóttir: „Risinn í eldhúsinu“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Þrjár hendur
Úlfhildur Dagsdóttir: „Viðburðir“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
2006 – Ljóðstafur Jóns úr Vör: fyrir ljóðið „Í bláu myrkri“
2004 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
Tilnefningar
2017 – Íslensku þýðingaverðlaunin: Neyðarútgangur eftir Ewu Lipsku (ásamt Áslaugu Agnarsdóttur, Braga Ólafssyni, Magnúsi Sigurðssyni og Olgu Hołowniu)
2010 – Íslensku þýðingaverðlaunin: Kaffihús tregans eftir Carson McCullers
2008 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Skuggamyndir úr ferðalagi
Vegamyndir
Lesa meiraVegamyndir geyma úrval ljóða og smáprósa Óskars Árna frá árunum 1990-2015. Höfundur fer með lesandann á flakk um fásótta jafnt sem fjölsótta staði á Íslandi og skissar upp það sem fyrir augu ber – land og fólk sem verður á vegi hans.Reykjavíkurmyndir
Lesa meiraFjörutíu ný og gömul ráð við hversdagslegum uppákomum
Lesa meiraBlýengillinn
Lesa meiraEftirherman
Lesa meiraKúbudagbókin: anno 1983
Lesa meiraÞýðingar í Styttri ferðum
Lesa meiraÞað sem við tölum um þegar við tölum um ást
Lesa meiraKuðungasafnið
Lesa meira
Neyðarútgangur: ljóðaúrval 1967-2015
Lesa meiraMúsin sem gelti á alheiminn
Lesa meira