Beint í efni

Brakið

Brakið
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Eftir vinsældir síðustu bókar Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig, hugsaði maður með sér að erfitt yrði fyrir höfundinn að skrifa bók sem jafnaðist á við hana eða tæki henni jafnvel fram. Samt voru deildar meiningar um ágæti hennar. Sumum fannst illa farið með góðan efnivið og höfundur segist í viðtölum hafa verið mjög tvístígandi og óviss um að hún væri að gera rétt. Flestir tóku þó fagnandi þessum gæsahúðarvaka og vissulega var ekki hægt annað en dást að því hve vel Yrsu tókst að skapa bæði spennu og hrylling. Bókin hlaut Blóðdropann fyrir bestu glæpasöguna þótt hún væri á mörkum tveggja heima, glæpa og hryllings. Það fór heldur minna fyrir glæpasöguplottinu, en það var þarna í bakgrunni og býsna gott sem slíkt. Yrsa er ansi góð að plotta eins og vel kemur fram í nýjustu bók hennar sem nefnist Brakið.

Hér erum við aftur komin í seríuna um lögmanninn Þóru sem rannsakar dularfullt hvarf hjóna með tvær dætur sínar og þriggja manna áhafnar snekkju einnar sem verið var að flytja frá Lissabon til Reykjavíkur. Fleyið kemur sem sé mannlaust til hafnar. Foreldrar Ægis, eins þeirra sem hurfu í hafi, snúa sér til Þóru varðandi líftryggingu og ýmislegt sem lýtur að því að ganga frá málum er heil fjölskylda hverfur. Í bókinni skiptist sjónarhornið milli Þóru og Ægis. Við fylgjumst með því hvernig Þóra reynir að átta sig á því sem hefur gerst og svo hvernig málin hafa þróast nokkrum dögum áður úti á rúmsjó.

Frásagnarmátinn er fremur hægfljótandi og mikið gert úr smáatriðum sem sumir vildu kannski fá að sleppa við. Reynslan sýnir þó að þessi smáatriði eru nauðsynleg þegar allt kemur til alls og ekki síst til þess að auka á trúverðugleika og heildarmynd sögunnar. Það þarf vissulega að byggja upp spennu án of mikils asa, koma svo með nýjar og helst óvæntar upplýsingar með jöfnu millibili. Þetta er þó allt með hægasta móti framan af en svörin liggja oft í smáatriðunum. Stíll höfundar, sem var dálítið stirður í fyrstu bókunum, gerist nú liprari með hverri bók. Lýsingin á örvæntingu og ráðaleysi Ægis er firnagóð og samskipti hans við stúlkurnar litlu þegar allt er komið i óefni sannfærandi. Um leið er ráðaleysi hans og rangar ályktanir dálítið pirrandi í þeim tilvikum er lesandinn þykist vita betur. Þægilegur húmor höfundar léttir andrúmsloftið af og til, sem er alveg bráðnauðsynlegt. Undirritaður lesandi var á einhverjum stað í lestrinum búinn að prjóna aðeins öðru vísi endi á bókina í huga sér. Átti þar viss kvenpersóna að hafa skipt um hlutverk við aðra. Þessu reyndist nú ekki þannig varið þótt hlutverkaskipti hafi raunar átt sér stað. „Nú, var þetta bara svona,“ er hugsun sem stundum hvarflar að manni að loknum lestri spennusagna. Það er búið að byggja upp mikla eftirvæntingu og svo þegar allt kemur heim og saman vill endirinn verða eilítil vonbrigði. Allt hefur verið útskýrt, eða mestallt, og það verður vart við smá anti-klimax. En það var allavega gaman á leiðinni.

Yrsa er í essinu sínu. Henni tekst vel upp í þessari bók, það er ekki hægt að segja annað. Þrátt fyrir að maður væri við það að missa athyglina í fyrri helmingi bókarinnar, var ekki hægt að sleppa henni og smátt og smátt jókst spennan. – Fór að hugsa um að manni þætti bara ekkert undarlegt við að söguhetjan sem leysir málin skuli vera amma. Þær eru dásamlegar þessar ömmur nú til dags.

Ingvi Þór Kormáksson, desember 2011