Japanska myndasagan á sér heilmikla og merkilega sögu sem ástæða er til að gefa gaum nú þegar þetta sérstæða myndmálsform hefur náð mikilli útbreiðslu á vesturlöndum. Útgáfa á manga er nú orðin gífurleg í Bandaríkjunum og evrópskir höfundar eru farnir að leita eftir samvinnu við japanska, dæmi um það er nýútkomin saga eftir franska höfundinn Möbius og japanska teiknarann Jiro Taniguchi.
Hér gefst ekki tækifæri til að ræða heim japönsku myndasögunnar, utan að nefna þátt Osamu Tezuka í henni, en hann er af mörgum nefndur 'faðir manga' eða jafnvel 'guðfaðir manga'. Á sama tíma og bandaríska myndasagan lenti í gífurlegri kreppu blómstraði sú Japanska. Fram yfir stríð hafði japanska myndasagan einkennst af þýðingum en þó aðallega staðfærslum á bandarísku og bresku skrípói, með aðeins lengri sögum í bland, en eftir stríð jókst áhuginn á lengri sögum. Osama Tezuka var einn af þeim höfundum sem komu fram á sjötta áratugnum með alveg nýja sýn á formið, sýn sem var innblásin af frásagnarmáta kvikmyndarinnar. Áherslan var á að teikna upp svið og skapa stemningu með myndskeiðum sem að öðru leyti voru tiltölulega laus við atburðarás. Þannig gafst tækifæri til að búa til fyllri heim, auk þess sem sú táknfræði sem japanska myndasagan hefur alltaf byggt á naut sín vel í þessum orðlausu skeiðum myndmáls. Á þennan hátt var sérstaða japönsku sögunnar enn undirstrikuð, en það hefur hlutur hins myndræna iðulega verið sérlega sterkur, sem gerir síðan þá kröfu til lesandans að hann sé fær um að lesa í myndmálið. En aukinn fjöldi myndramma gerði það einnig að verkum að sögurnar lengdust, og fljótlega þykknuðu tímaritin undir belti og sögur sem safnað var saman voru gefnar út í fjölda þykkra binda.
Ein slík er saga Osamu Tezuka um ævi Búdda. Verkið kom upphaflega út árið 1987 og naut strax mikilla vinsælda, eins og reyndar önnur verk Osamu. Og árið 2003 birtist okkur svo Búdda í enskri þýðingu. Hér er ekki á ferðinni hefðbundin ævisaga því Tezuka hikar ekki við að færa ævi Búdda í skáldsögulegt form. Í fyrsta bindinu er sagt frá forsögu Búdda og í leiðinni kynnumst við ýmsum persónum sem síðar eiga eftir að koma við sögu. Jafnframt er kynnt fyrir lesandanum stéttakerfi Hindúismans og þær hömlur sem þær setja aðalpersónum sögunnar. Fyrstan ber að nefna þrælinn Chapra, sem kynnist þjófastrák af lægstu stétt, stéttleysingja. Sá býr yfir þeim sérstæða hæfileika að geta farið hamförum og ferðast þannig um sem dýr. Munkur nokkur blandast líka í málið, en hann hefur verið sendur út í leit að einmitt slíkum hæfileikamanni. Að auki hittum við fyrir bardagamanninn Bandaka sem reynist örlagavaldur í nýju lífi Chapra, en með því að fela stétt sýna tókst honum að koma því svo fyrir að hann væri ættleiddur af hershöfðingja og færist þannig í stétt stríðsmanna.
Sem fyrr er stíll Osamu Tezuka undir áhrifum frá Disney og það er óneitanlega dálítið merkileg upplifun að lesa sögulegt verk af þessu tagi, um ein útbreyddustu trúarbrögð heims, þarsem aðalpersónur, þar á meðal Búdda sjálfur, sem við hittum fyrir sem ungling og ungan mann í næsta bindi, eru með stór kringlótt augu í anda Disneyfígúra. En þetta skemmir ekki á neinn hátt fyrir þessari frábæru sögu. Osamu nýtir sér frásagnarform myndasögunnar til hins ýtrasta og skapar sérstæðan og heillandi heim sem er auðvelt að gangast inná og gleyma sér í. Annað einkenni sögunnar er húmorinn, er hér er engin helgislepja á ferðinni og höfundur hikar ekki við að leika sér með tíma og rúm og skella inn ýmsum óvæntum athugasemdum í máli og myndum. Það kemur þó ekki í veg fyrir að sagan sé dramatísk, en liðugt samspil og hreyfing á milli hins góða og illa er einkennismerki Tezuka, sem á jafngott með að skapa spennu og ótta hjá lesandanum og fá hann til að tárast af sorg eða gleði. Ég get óhikað mælt með þessari bók fyrir þá lesendur sem vilja kynnast japanskri myndasöguhefð, en Búdda er afbragðsgóður byrjunarreitur, ekki síst fyrir það hvað myndmálið er hreint og táknheimurinn aðgengilegur. Og fyrir þá sem vilja fá innsýn inn í heim Búdda og búddismans er sagan hreinlega ómissandi.
Úlfhildur Dagsdóttir