Da Vinci lykillinn hefur notið mikilla vinsælda undanfarið og prýtt vinsældalista víða um heim. Ekki hægt að segja annað en þessar vinsældir séu að verðleikum. Svona mestan part. Á fyrstu blaðsíðum bókarinnar hefst frásögn sem grípur lesandann strax föstum tökum. Morð er framið í hinu fræga Louvre listasafni í París og fljótlega kemur í ljós að hinn myrti var meðlimur í aldagömlum leynilegum félagsskap. Aðalpersónum bókarinnar er strax hent í týpíska veröld spennusagna þar sem þær þurfa að leysa málið en vera jafnframt á flótta undan bæði réttvísinni og „vondu“ köllunum.
Það sem kannski er sérstakt við Da Vinci lykilinn eru söguskýringarnar sem snúast að allmiklu leyti um líf Krists og Dauðahafshandritin, gyðjudýrkun, verk Leonardo Da Vinci, leitina að Gralnum og ýmislegt fleira sem kann að koma mörgum mjög á óvart en öðrum minna. Það er mikil frásagnargleði í þessum köflum og einnig þeim sem fjalla um talnavísindi, dulmálslykla og ráðgátur sem nóg er af í bókinni. Má til dæmis nefna frásögnina af gullinsniðinu. Samtöl og samskipti persóna bókarinnar eru hins vegar öll í stirðara lagi og greinilegt að mannlegi þátturinn er ekki sterkasta hlið höfundar. Minnir hann í þeim efnum talsvert á þá félaga Alistair MacLean og Robert Ludlum. Ekki er við þýðinguna að sakast því að hún virðist vönduð þótt ekki hafi þýðandi að vísu lagt í að koma kveðskapnum í bókinni yfir í bundið mál sem hefði verið skemmtilegra.
Ýmsir lausir endar eru hnýttir í lok sögunnar eins og gengur. Það er ekki óalgengt að spennusögur, nema þær allra bestu, skilji mann eftir með svolítið tómahljóð inni í sér. Nú, var þetta bara svona? Alheimssamsærið ekki eins svakalegt og maður hafði haldið og skúrkarnir hálf vesældarlegir eftir allt saman. Þannig er það með þessa að nokkru leyti en ferðalagið í gegnum hana er skemmtilegt og sagan afspyrnu spennandi og um leið fræðandi.
Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2003