Beint í efni

Dauðabókin

Dauðabókin
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Eva Dagbjört Óladóttir

Dauðabókin eftir Stefán Mána er áttunda bókin í glæpasagnaröð hans um Hörð Grímsson, rannsóknarlögreglumann. Fyrsta bókin um Hörð, Hyldýpi, kom út árið 2009 og því hefur Stefán nú unnið með persónuna í rúm tíu ár. Í Dauðabókinni rannsakar Hörður morð á tveimur menntaskólanemum sem virðast á einhvern hátt tengjast andláti stúlku sem lést af ofskömmtun eiturlyfja í partýi í Borgarnesi sumarið áður, sem og læksíðu á facebook sem kallast Dauðabókin. Sagan er að mestu sögð frá sjónarhóli tveggja persóna, Harðar og MH-ingsins Odds, sem var viðstaddur atvikið í Borgarnesi og flækist síðan í morðmálið.

Sögurnar af Herði hafa m.a. verið flokkaðar sem noir eða rökkursögur, harðsvíraðar glæpasögur og spennusögur en ég tel að Dauðabókinni svipi meira til sígildra ráðgátna að hætti Agöthu Christie. Auk þess má sjá nokkur áhrif frá hrollvekjuhefðinni en þau eru þó minni en maður á von á þegar maður opnar fyrst þessa kolsvörtu bók með hauskúpum og galdrastaf á kápunni.  Áhrifa hrollvekjunnar gætir helst í grunnþræði sögunnar en þar eru unglingar narraðir til að taka þátt í dularfullum leik á facebook sem þeim reynist svo ómögulegt að hætta í. Leikir, og sérstaklega leikir sem vinda óvænt upp á sig, birtast sem stef í ýmsum frásögnum en hrollvekjan hefur gert þeim sérstaklega góð skil og skapað ýmis afbrigði af hinu banvæna keðjubréfi sem má t.d. sjá í kvikmyndum á borð við The Ring og It Follows.

Þótt ensk hefðarsetur og grunsamlegir brytar komi hvergi við sögu er lesandinn fljótur að koma auga á sígild ráðgátustef í Dauðabókinni. Persónur leika tveimur skjöldum; sviðsetningar og sjónrænar blekkingar, mikil eftirlætisverkfæri Christie, vega þungt; í hegðun morðingjans birtist leikgleði sem sjaldan sést í rökkursögum (en birtist þó oft í hrollvekjum); og rannsókn málsins lýkur með sígildu ráðgátusniði en þá kallar Hörður saman ákveðinn hóp, stígur í pontu, fer yfir rannsókn málsins og afhjúpar loks morðingjann með tilþrifum. Þótt töluvert sé fjallað um tilfinningalíf Harðar blandast hann ekki persónulega í málið, eins og gerist oft í spennusögum, heldur er það hlutverk hans að greiða úr flækjunni og koma aftur á röð og reglu í heimsmynd sögunnar. Ógnin og myrkrið svífa yfir vötnum en það er þetta púsluspil sem vegur þyngst. Auk þess má segja að Hörður Grímsson sjálfur eigi minna skylt við þjáðar en stóískar hetjur rökkursagnanna en við sérvitringa á borð við föður Brown og Hercule Poirot sem geta leyst flóknar ráðgátur einmitt vegna þess að þeir eru ekki alveg eins og fólk er flest.

Í flestum bókum af þessu meiði er það ráðgátan sjálf sem ber söguna uppi. Bestu ráðgáturnar eru í raun skemmtilegur leikur. Höfundurinn gefur lesandanum nægar vísendingar til að hann eigi möguleika á að leysa gátuna en afvegaleiðir hann einnig við hvert tækifæri og reynir að fá hann til að draga rangar ályktanir. Að mínu mati gengur leikurinn ekki alveg upp í Dauðabókinni. Það er of auðvelt að þekkja raunverulegar vísbendingar frá þeim sem eiga að villa um fyrir manni og  því verða krókaleiðirnar sem höfundurinn þarf að fara til að halda réttu svörunum leyndum langsóttar og grafa undan trúverðugleika sögunnar. Það er of auðvelt að vinna og þá er ekkert gaman að leiknum. Þetta gæti m.a. stafað af því að ekki sé nóg lagt í persónu morðingjans, sem á jú að vera drifkrafturinn á bak við atburðarásina. Hann er auðvitað hulduvera lengst af en þegar hugsanagangur hans, hvatir og ætlunarverk komu í ljós fannst mér þau ekki koma heim og saman. Mér fannst ég ekki fá skýringu á því hvers vegna viðkomandi tók það stóra skref að gerast morðingi og hvers vegna hann valdi einmitt þessa aðferð. Stefán Máni setur fram svör við báðum þessum spurningum en mér fannst þau hvorki sannfærandi né fullnægjandi. Í raun kemur á óvart að morðinginn skuli ekki reynast betur mótaður þar sem nær allar aðrar sögupersónur eru virkilega vel skrifaðar. Raunar tel ég að frekar en ráðgátan séu það persónurnar, þróun þeirra og sögur sem grípa lesandann og fá hann til að halda áfram með bókina.

Í Dauðabókinni eru bæði aðal- og aukapersónurnar lifandi og mannlegar. Stór hluti sögupersónanna eru unglingar og það er gaman að sjá hvað Stefán Máni fangar vel þetta óreiðukennda og undarlega æviskeið. Unglingar Stefáns Mána eru misjafnir að upplagi og hafa mismunandi hugmyndir um lífið og tilveruna en glíma þó allir við spurningar unglingsáranna um hver maður vilji vera, hvar sé staður fyrir mann og hvaða kröfur sé eðlilegt að gera til annarra. Jafnvel óviðfelldnar persónur á borð við sjálfelska og ofbeldisfulla tappann Braga og Patrek, sem beitir fyrrverandi kærustuna sína kynferðisofbeldi, eru manneskjur frekar en einföld skrímsli. Stefán Máni fléttar líka inn í frásögnina fyrirbæri á borð við neteinelti og annað stafrænt ofbeldi, eiturlyfjasölu á netinu og önnur vandamál sem koma upp í tengslum við netið og samfélagsmiðla. Mannleg tengsl og samskipti eru eitt af meginstefjum sögunnar og því liggur beint við að kanna einnig þessar skuggahliðar samskiptabyltingarinnar. Stefáni Mána ferst það vel úr hendi en hann veltir upp spurningum um þessi málefni og skoðar hlutverk samfélagsmiðla í daglegu lífi án þess að detta í predikunargírinn. Auðvitað eru það ekki bara unglingar sem glíma við þessi vandamál en þeir eru oft berskjaldaðri fyrir þeim en fullorðnir. Kannski mætti segja að áhrifa hrollvekjunnar gæti einnig hér en hrollvekjuhöfundar eru einmitt duglegir að fjalla um unglinga, unglingamenningu og þær hættur sem ungt fólk er sérstaklega útsett fyrir.

Hörður Grímsson hefur, eins og áður segir, átt tíu ára feril í bókum Stefáns Mána. Þegar hér er komið sögu er hann fastráðinn hjá rannsóknarlögreglunni, er í sambúð og að reyna að eignast barn, og á sér tengslanet í samstarfsfólki sínu. Þó gengur honum oft illa að fóta sig í hversdeginum. Hann er óþægilega skotinn í samstarfskonu sinni, er hreint ekki viss um að sig langi í barn og er óöruggur gagnvart yfirmanni sínum, Axel, sem er föðurlegur og hranalegur til skiptis. Þetta eru hversdagsleg vandamál og það er auðvelt að samsama sig Herði þegar honum mistekst algjörlega að takast á við þau á skynsamlegan og heilbrigðan hátt. Hann er breyskur eins og við og flestir lesendur hafa á einhverjum tímapunkti búið til mikla flækju úr eigin lífi af einskærum bjánaskap.

Hörður er fallega berskjaldaður tilfinningalega og sýnir oft viðbrögð sem er gaman að sjá í samhengi glæpasögunnar. Til dæmis má nefna samtal þeirra Axels á vettvangi fyrsta morðsins þar sem Axel gefur misvísandi skilaboð um traust sitt til Harðar:

   „Ég er sammála þér, og þess vegna fól ég þér rannsókn þessa máls,“ segir gamli Sléttuúlfurinn. „Ég skal glíma við snápana á meðan þú gerir það sem þú þarft að gera. Það er skömminni skárra að hafa engin svör við spurningum blaðamanna í fáeina daga heldur en að þurfa að svara fyrir gallaða rannsókn að nokkrum vikum eða mánuðum liðnum - jafnvel fyrir dómi.“
   Hörður verður svo upp með sér við þessi orð yfirmannsins að hann fær kökk í hálsinn. „Takk fyrir traustið.“
   „Ekkert að þakka,“ segir Axel þurrlega. „Láttu mig bara ekki sjá eftir að hafa treyst þér fyrir þessu.“
   Herði líður eins og hann hafi verið kýldur í magann. „Nei, ég...“
   „Þú leyfir mér að fylgjast með,“ segir Axel og gengur síðan til baka í áttina að vegatálmanum. (36-27)

Senum sem þessum bregður ekki ósjaldan fyrir í glæpasögum. Hetjan má þola vantraust frá yfirmönnum og samfélaginu áður en hún sannar sig með því að leysa gátuna eftir eigin leiðum. En það er óvenjulegt að sjá hetjuna svona varnarlausa í þessum aðstæðum. Hörður ber virðingu fyrir Axel og vill standa sig vel í starfi og orð Axels í þessu samtali særa hann og grafa undan sjálfstrausti hans. Eins og flestar persónur bókarinnar virðist hann vera að leita sér að samastað í tilverunni og til þess er nauðsynlegt að takast á við þessar hversdagslegu flækjur, en það er svo oft meira en að segja það.

Oddur glímir við svipaða leit að samastað en hann þarf að fóta sig í hlutverki unglings frekar en fullorðins manns. Foreldrar hans eru látnir og hann er ekki náinn fósturforeldrum sínum. Hann fellur ekki í hópinn í MH, á fáa vini og líkar ekki við þá sem hann þó á. Við kynnumst honum fyrst í Borgarnesi þar sem hann segir upp kærustunni sinni og verður að viðurkenna að hann elski hana ekki. Eftir sambandsslitin er hann mjög hugsi:

   Oddur reynir að hrista af sér ónotin vegna sambandsslitanna en kveðjuorð Áslaugar bergmála í huga hans, stingast í hjartað eins og grýlukerti. En við hverju bjóst hann svo sem? Líklega átti hann þetta skilið. Hann hefði aldrei átt að byrja með henni. Það er ömurlegt að þurfa að segja einhverjum upp. Alveg fullkomlega skítömurlegt.
   Ef hann kynnist einhverri stelpu á Ibiza ætlar hann sko ekki að...
   Oddur hrekkur við þegar hann heyrir hávær óp og skræki. (16-17)

Oddur veltir fyrir sér ábyrgð sinni gagnvart tilfinningum annarra og vill forðast að standa aftur í sporum þess sem særir aðra. Hann ímyndar sér að með því að taka skynsamlega ákvörðun núna geti hann afstýrt frekari tilfinningalegum skakkaföllum og komið í veg fyrir óreiðuna og óvissuna sem fylgja mannlegum samskiptum.

Seinna veltir hann fyrir sér eigin tengslaleysi og óttast að hann sé einfaldlega ekki fær um ást:

   Oddur nemur staðar á miðju Miklatúni og lítur upp í gráan himininn. Er hann kannski tilfinningakaldur? Er eðlilegt að hrífast sjaldan eða aldrei af einu eða neinu? Eða að fá alltaf leið á öllu?
   Hann er ekki viss. Hann hefur aldrei verið annar en hann sjálfur og hefur því ekki samanburð. En stundum hefur hann á tilfinningunni að aðrir upplifi heiminn á annan hátt en hann sjálfur. Fólk verður agndofa af hrifningu yfir byggingum, listaverkum og ljóðum, og yfir sig ástfangið af annarri manneskju. Hann hefur alveg smekk fyrir fallegri hönnun og kann virkilega að meta góðar bíómyndir, og hann hefur vissulega orðið skotinn í stelpum. En hann verður mjög sjaldan yfir sig hrifinn af einhverju. Og hrifning hans á stelpum endist aldrei það lengi að úr verði alvöru samband.
   Á hann að hafa áhyggjur af þessu? Oddur dæsir. Hann veit ekki svarið. Kannski vill hann ekki vita það. (62)

Þegar á líður söguna verður Oddur svo ástfanginn í fyrsta sinn og þarf þá að læra á heim þar sem líf hans er samofið lífi annarrar manneskju. Að hann verði ástfanginn virkar þó ekki eins og svar við efasemdum hans í byrjun sögunnar heldur frekar eins og áframhald af tilraunum hans til að átta sig á sjálfum sér.

Það er gaman að sjá vangaveltur um mannlega tengsl og þau áhrif sem við höfum öll hvert á annað birtast svona sterkt í tveimur karlkyns persónum í morðgátu. Þótt báðum mönnum mistakist oft að mynda tengsl eða særi fólkið í kring um sig með lífsklaufskunni er greinilegt að svali einfarinn er ekkert átrúnaðargoð og það er ekki annað í boði en að reyna að reyna að greiða úr flækjunum.

Ég skemmti mér vel yfir Dauðabókinni. Það hefði verið gaman að fá að glíma við erfiðari ráðgátu en þrátt fyrir það naut ég þess að lesa um persónurnar og sögur þeirra. Þær voru bæði vandaðar og grípandi og mætti jafnvel segja að það sé persónusköpunin sem haldi sögunni uppi. Þótt bókin sé að mörgu leyti afar venjuleg morðgáta er tónninn í henni oft  skemmtilega óvæntur og jafnvel fallegur vegna þess hversu berskjaldaðar og mannlegar persónurnar eru. Jafnvel þegar ég var löngu búin að leysa gátuna langaði mig að lesa áfram. Mig langaði að vita hvað yrði um Odd og ástina hans, að fylgjast með samskiptum Harðar við fólkið í kring um sig og fá að kynnast öllu þessu fjölbreytta fólki betur.

 

Eva Dagbjört Óladóttir, desember 2020