Æviágrip
Stefán Máni fæddist í Reykjavík 3. júní 1970. Hann ólst upp í Ólafsvík og bjó þar fram yfir tvítugt. Hann lauk grunnskólaprófi og hefur síðan stundað almenna verkamannavinnu og unnið þjónustustörf. Þar má telja fiskvinnslu, byggingarvinnu, smíðar, hellu- og pípulagnir, garðyrkju, næturvörslu, ræstingar, bókband, vinnu með unglingum og umönnun geðsjúkra.
Stefán Máni sendi frá sér skáldsöguna Dyrnar á Svörtufjöllum árið 1996 og síðan hafa fjöldamargar skáldsögur fylgt í kjölfarið, síðast Nautið (2015). Hann hefur einnig gefið frá sér tvær unglingabækur, Úlfshjarta (2014) og Nóttin langa (2015). Stefán hefur hlotið Blóðdropann, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags í þrígang. Fyrst fyrir Skipið (2007), þá Húsið (2012) og loks fyrir Grimmd (2013). Skipið fékk einnig tilnefningu til Glerlykilsins 2008 en Svartur á leik var tilnefnd til sömu verðlauna 2006. Svartur á leik var kvikmynduð í leikstjórn Óskars Thors Axelssonar og kom út árið 2012.
Skipið hefur komið út í þýðingum í Tyrklandi, Ítalíu, Danmörku, Frakklandi og Þýskalandi.
Stefán Máni býr í Reykjavík.
Forlag: JPV útgáfa.
Frá höfundi
Að skrifa eða ekki skrifa: Aftur til fortíðar 1 & 2.
(F REW … 2002101999876, STOP. PLAY.)
/: BREAK ON THROUGH (TO THE OTHER SIDE)
Haustið 1996 ákvað ég að skipta um vinnu, hætti í stórri rækjuverksmiðju (sem fór svo á hausinn) og réði mig til starfa í nýlega fiskvinnslu þar sem ég sá um pökkun á frosnum fiskflökum, en hugurinn var ekki í nýju vinnunni, þó að líkaminn stritaði þar frá 6 á morgnana til 8 á kvöldin, ég var nefnilega búinn að semja litla skáldsögu í frítíma mínum, sögu sem mér þótti alveg óskaplega vænt um, og þykir enn, ég tvísteig mikið í gúmmístígvélunum og hugsaði um bókina, um hugsanlega útgáfu, um ritstörf, á meðan kaldar og bólgnar hendurnar flokkuðu fiskflök eftir tegund og þyngd, og að lokum sigraði andinn efnið og ævintýramennskan skynsemina, ég sagði vinnunni hikandi upp, tróð aleigunni í gamla Lödu og keyrði til Reykjavíkur með hnút í maganum, ljós í höfðinu og handritið að Dyrnar á Svörtufjöllum í brúnu umslagi í farþegasætinu...
(F REW … 199654321, STOP. PLAY.)
/: LIGHT MY FIRE
Þegar Hraðfrystihús Ólafsvíkur fór á hausinn árið 1991 myndaðist tóm í þessu litla sjávarplássi, ég missti vinnuna, ásamt stórum hluta bæjarbúa, og innan í mér myndaðist líka tóm, stór og svört hola full af efasemdum um framtíðina og áleitnum spurningum um tilgang og trú, hola sem auðvelt hefði verið að hrapa ofan í og týnast í að eilífu, en eftir að hafa rambað á barmi hennar í eitt, tvö ár og starað von-daufur og ringlaður niður í syndandi myrkrið settist ég einn daginn niður með blað og penna í hönd og tókst með þrautseigju, þolinmæði og þrotlausum stílæfingum að byrgja þennan sálarlausa brunn með samannegldum orðum á blaði : ég hafði samið ljóð, sem ég kallaði leikhús:
í ilmandi þögninni
sem lifir eftir
endurtek
ég sporin
endurtek
ég orðin
endurtek
ég leikinn
frá upphafi
til enda
í tómu húsinu
og hneigi mig síðan
og felli tár
á myrkvuðu sviðinu
um ókomin ár
því þótt tjaldið sé fallið
blómin skrælnuð
og fólkið
fyrir löngu farið
er sýningin
rétt að hefjast.
Stefán Máni, 2002
Um höfund
Eftirfarandi umfjöllun um höfundarverk Stefáns Mána er í tveimur hlutum: sá eldri, „Verkamaður í víngarði Drottins“ birtist árið 2002 og ræðir bækur Stefáns frá fyrstu útgáfu til og með skáldsögunni Ísrael: saga af manni. Síðari hlutinn, „Ódæðin kalla“ birtist í nóvember 2017 og nær til skáldsögunnar Skuggarnir, sem kom út sama ár.
Smellið hér til að fara beint á eldri greinina, eða lesið þá nýrri hér beint fyrir neðan.
Um verk Stefáns Mána II – Ódæðin kalla
Rithöfundaferill Stefáns Mána tók miklum breytingum eftir söguna um farandverkamanninn í Ísrael: Saga af manni (2002). Næsta skáldsaga hans var glæpasagan Svartur á leik (2004) sem gerist að mestu í undirheimum Reykjavíkurborgar, og eftir það hefur hann haldið sig við glæpa- og spennusögur, iðulega með dulúðugu og hrollvekjandi ívafi og oft tengdar undirheimum. Undantekningin er næsta bók á eftir Svartur á leik, Túristi (2005), en hún er tilraunakenndur bræðingur um rithöfunda og skáldskap. Sagan er þó afar myrk og inniheldur margvíslegar tilvísanir í hrollvekjur, en myrkur tónn einkennir öll verk Stefáns Mána, bæði fyrir og eftir glæpasagna-snúninginn.
Þó ber að nefna að Stefán Máni á sér enn eitt höfundasjálf, en árið 2016 kom út eftir hann í félagi við Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur barnabókin Hin æruverðuga og ættgöfuga hefðarprinsessa frökin Lovísa Perlufesti Blómasdóttir: daprasta litla stúlka í öllum heiminum. Þar segir frá lítilli prinsessu sem býr alein í turni.
Undirheimar og óhugnaður
Það fer minna fyrir ævintýrastemningu í Svartur á leik. Aðalpersónan er Stefán Kormákur Jónsson sem vinnur á bar í Reykjavík og kemst þar í kynni við undirheima borgarinnar. Eigandi barsins, Jói Faraó, og Tóti sem er framkvæmdastjóri og dyravörður staðarins, takast á um yfirráð yfir eiturlyfjasölu í bænum. Áður en af veit er Stefán (sem Tóti kallar Stebba psycho) flæktur í valdabaráttu milli kynslóða: Jói Faraó er gamall barón en Tóti og félagar eru fulltrúar nýrrar kynslóðar. Stebbi verður hluti af klíku Tóta og fylgst er með þróun hennar á glæpabrautinni. Inn í þessi átök blandast hinn dularfulli Bruno sem reynist mikill örlagavaldur bæði fyrir undirheimana og Stebba sjálfan. Viðfangsefnið er semsagt það sem helst telst til undirheima: eiturlyf og hverskyns glæpir og ofbeldi þar í kring.
Hér er á ferðinni fremur klassískt plott: sagan af hinum saklausa ferðalangi sem heldur á vit ævintýranna og endar sem breyttur maður. En Stefán Máni býður ekki upp á einfaldar formúlur, til dæmis er lokaspretturinn afar athyglisverður. Stíll Stefáns er harður en laus við tilgerð og sagan naut mikilla vinsælda, ekki síst meðal ungra karla sem eiga það til að vera afskiptir í íslensku bókmenntalandslagi.
Átta árum síðar birtist samnefnd kvikmyndaútgáfa skáldsögunnar og þar er harkan og ofbeldið sem lýst er í sögunni nýtt til hins ítrasta, en minna fer fyrir hinum sérstæðu dulúðugu undirtónum sem gera glæpasögur Stefáns Mána svo áhugaverðar og kraftmiklar. Myndin varð afar vinsæl og síðan þá hafa fleiri sögur höfundar verið orðaðar við kvikmyndir og sjónvarp.
Á þeim tíma sem Svartur á leik kom út stóð nokkur styr um íslensku glæpasöguna, en hún hafði rétt náð undir sig fótunum með tveimur afar vinsælum skáldsögum Arnaldar Indriðasonar, Mýrinni (2000) og Grafarþögn (2001). Höfundar eins og Árni Þórarinsson, Stella Blómkvist og Viktor Arnar Ingólfsson nutu einnig vinsælda og vöktu athygli, en bókmenntaheimurinn virtist ekki vel undir þetta búinn og nokkurs titrings gætti. Það er ekki ólíklegt að Stefán Máni hafi fundið fyrir því að hafa ‚yfirgefið‘ bókmenntirnar og stokkið á glæpasagnahraðlestina með Svartur á leik. Allavega fjallar næsta bók hans, Túristi, um rithöfund(a) og bókmenntir með lítt dulbúnum tilvísunum í íslenskan bókmenntaheim. Jafnframt er velt upp spurningum sem tengjast höfundum og skrifum. Inn í þetta fléttast svo afskaplega dularfull saga sem tengist fyrrnefndu handriti, en þar má greina tilvísanir í eina frægustu hrollvekju allra tíma, Drakúla (1897)eftir Bram Stoker.
Eftir þessa úttekt á makti bókmenntannamyrkranna sneri Stefán Máni sér aftur að glæpasögum með mismiklu hrollvekjandi ívafi, og reyndar með mismiklum glæpum líka.
Áður en Svartur á leik kom út birtust reglulega viðtöl við höfundinn þar sem hann lýsti kynnum sínum af undirheimum Reykjavíkurborgar og síðan hefur hann nýtt sér þá vinnu á ýmsan hátt í verkum sínum, eins og áður segir. Og þó að skáldsagan Skipið (2006) sé ekki beint undirheimasaga, þá er ein aðalpersóna hennar þaðan ættuð. Skipið hlaut á sínum tíma nýstofnuð íslensk glæpasagnaverðlaun, Blóðdropann, og er eitt albesta verk höfundar. Síðan hefur hann nælt sér í tvo dropa að auki, fyrir Húsið (2012) og Grimmd (2013).
Skipið skríður frá landi, drekkhlaðið vandræðum (en með tóma lest). Það er á leiðinni til Súrínam til að ná í súrál. Á fragtskipinu Per se hvílir bölvun, það hét upphaflega Noon „en undir því nafni varð skipið alræmt eftir lögregluransóknir vegna tveggja morða og þriggja sjálfsvíga sem voru framin á því á rúmlega tveggja ára tímabili“ (136). Áhöfnin er engu minna skrautleg, en stór hluti þeirra er á flótta undan vandræðum eins og Sæli háseti sem er stórskuldugur eftir tap í spilavíti og ásóttur af handrukkara sem nefnir sig Kölska. Kölski er nafn sem Jón Karl Esrason, sjómannssonur og glæpon, hefur tekið sér, en hann endar óvænt um borð, á flótta undan samkeppnisaðilum sínum í undirheimunum. Kyndarinn er satanisti og hefur lesið yfir sig af verkum H.P. Lovecraft.
Svona er ástandið þegar lagt er úr höfn og þá byrjar það að versna. Þegar í ljós kemur að Jón Karl er glæpon fer titringur um mannskapinn en við því er ekkert að gera því skipið er sambandslaust eftir skemmdarverk. Og svo er að sjálfsögðu stöðugt óveður.
Persónusköpunin er auðug og lífleg en eitt einkenni verka Stefáns Mána eru áhugaverðar og eftirminnilegar persónur. Þeir Sæli og Jón Karl minna í fyrstu óþarflega mikið á Stefán Kormák og Brúnó í Svartur á leik, en verða fljótlega að nýjum persónum í nýrri sögu. Sérstaklega er skemmtilegt að fylgjast með því hvernig karakter Jóns Karls er spilaður, en þar nýtir höfundur sér efni úr fyrrnefndri skáldsögu en leikur sér svo að því að föndra persónuna áfram í nýjum kringumstæðum. Stíllinn er sömuleiðis alltaf að styrkjast, hér er mikið af endurteknum stefjum, líkt og einkenna Túrista og sjást einnig í fyrri sögum. Sama senan er endurtekin frá ólíkum sjónarhornum með tilheyrandi breytingum, og sömu lýsingarnar endurtaka sig í mismundandi samhengi. Þannig er búinn til taktur, sem slær í takt við siglingu skipsins og ölduna sem brýtur á því, en sá taktur er reglulega sleginn í gegnum alla söguna, stundum með aukastefjum. Þessi sterki hrynjandi heldur svo áfram að setja mark sitt á mörg síðari verk, eins og komið verður að hér á eftir. Myndmálið er hlaðið og einföldustu lýsingar eru notaðar til að gefa tóninn, eins og í upphafi bókarinnar þegar húsi Jóns Karls er lýst: „Við innkeyrsluna að húsinu standa steinljónin eilífan vörð og láréttir gluggarnir loga eins og augu í skepnu sem hvorki er gömul né ný, raunveruleg né ímynduð“ (15). Hér má greina bragð af kölska sjálfum og þeim margvíslegu myndbirtingum hans sem ganga í gegnum alla söguna.
Persónur, stíll og myndmál, allt vinnur þetta saman og skapar magnað andrúmsloft sem auðvelt er að sogast inn í. Stefán Máni spilar á strengi bæði spennusagna og hrollvekja en skipið fyrir miðju sögunnar minnir mjög á draugaskip enda eru því mörkuð dramatísk örlög. Að auki er vísað í allskonar hrakningasögur af sjó og tilvistarlega undirtóna siglinga og sjómannslífs.
Hin myrka undiralda í Skipinu tengist aðallega kölska og satanisma (sem eiga eftir að dúkka upp á ný), en í Ódáðahrauni (2008) er það norræna goðafræðin sem höfundur nýtir sér. Líkt og Skipið er sagan hlaðin táknum, en hún fjallar um það gróðæri sem ríkti árin eftir einkavæðingu bankanna og spáði að nokkru leyti fyrir um hrunið – en hún kom út um miðjan október, nokkrum dögum eftir að efnahagskreppan skall á ströndum landsins.
Í Ódáðahrauni segir frá eiturlyfjasalanum Óðni sem lendir í ógöngum og þarf að afla fjár í hasti. Hann er eineygður eftir bílslys og aðstoðarmenn hans nefnast Huginn og Muninn. Eftir misheppnuð viðskipti ætlar hann að flýja land en uppgötvar í staðinn að hann er launsonur og einkaerfingi auðugs manns. Skyndilega er hann því orðinn leikmaður í íslenskum fjármálaheimi og gerist ráðandi þar með því að beita sömu aðferðum og hann hefur áður gert sem eiturlyfjabarón. Hann losar sig við andstæðinga sína og sölsar undir sig gífurlegum auði, giftist fínni konu og er allt í einu orðinn menningarmógull. En fortíðina hristir hann ekki svo auðveldlega af sér og þar blandast norræna goðafræðin aftur inn, því Óðinn finnur hvernig að honum er sótt, Ragnarökin verða ekki umflúin.
Ódáðahraun er sérlega áhugaverð í ljósi þeirra hamfara sem íslenskt efnahagslíf var að ganga í gegnum á þessum tíma, ekki síst fyrir það hvernig höfundur tengir saman efnahagsuppganginn og glæpi. Í köflum sem eru kannski enginn yndislestur, en þó upplýsandi, rekur hann klækjabrögð krosseignatengsla og ýmissa skuggahliða fjármálavafsturs og kryddar með hressilegri blöndu af dulúð og blóðugu ofbeldi að hætti undirheimabókmennta.
Hörður Grímsson
Gróðærið og glæpir eru einnig viðfangsefni Hyldýpis (2009), en hún gerist árið 2007. Þar kemur lögreglumaðurinn Hörður Grímsson fyrst við sögu en hann á eftir að leika aðahlutverk í nokkrum síðari verkum höfundar. Titillinn vísar til senu þar sem tíu ára strákur, Sölvi, sekkur í hyldjúpt og kyrrt vatn og sér þar sýn: stelpu á aldur við hann sjálfan sem réttir honum eitthvað. Tíu árum síðar verður Sölvi fyrir árás og finnst nakinn í skurði. Hann man ekkert eftir aðdraganda árásarinnar en fréttir svo að sama dag hafi ung stúlka horfið, og verður sannfærður um að hún sé sú sama og hann sá í vatninu. Hann er einnig sannfærður um að hvarf hennar tengist sínu á einhvern hátt og að það sé glæpsamlegt. Hann reynir að rannsaka málið í trássi við allt og alla, en stúlkan hafði verið nokkuð þekkt fyrir lauslæti og því er hvarf hennar ekki tekið mjög alvarlega. Grunur Sölva beinist að frænda hans, Bergi, og tveimur bræðrum sem eru góðvinir Bergs. Sölvi, Bergur og bræðurnir vinna allir saman á fasteignasölu og voru allir saman úti á báti á vatninu þegar hann sökk ofan í djúpið. Þremenningarnir stunda ekki aðeins vafasöm viðskipti heldur virðast þeir hafa tileinkað sér einskonar heimspeki illskunnar – sem er líka einskonar hyldýpi.
Hyldýpi er að hluta til könnun á persónu ungs manns líkt og sum af fyrri verkum höfundar, aðalsöguhetjunnar sem heitir því fallega nafni Sölvi Helgason. Tilvísunin er augljós, Sölvi greyið er tvítugt rekald sem veit ekki vel hvað hann vill með líf sitt, eða hvort hann vill nokkuð með það yfirleitt. Að þessu leyti minnir hann á fyrri sögupersónur í verkum Stefáns Mána, eins og til dæmis ungu mennina í Hótel Kalifornía, Ísrael og Svartur á leik, sem allir eru á einhvern hátt leiksoppar annarra, iðulega kvenna og vonlausra ásta, en einnig vafasamra manna.
Sem mótvægi við þessi reköld teflir Stefán Máni svo fram sterkum körlum, sterabúntum sem láta sér ekkert fyrir brjósti brenna, en félagar Sölva eru einmitt af því taginu. Hér er þeir augljóslega táknmynd fyrir þann her ungra verðbréfa-gutta sem svo ötullega stuðluðu að fjármálakreppunni, menn sem svífast einskis í viðskiptum, hvort sem það er með fasteignir eða konur.
Líkt og fyrr eru það hinir dulrænu taktar sem gera söguna áhrifamikla og áhugaverða, lýsingin á vatninu og atburðunum þar er sláandi og höfundi lætur vel að framkalla svimandi andrúmsloft spennu og óhugnaðar.
Eins og áður segir er Hyldýpi fyrsta sagan þar sem Hörður Grímsson birtist, en hann kemur stuttlega fyrir í tengslum við rannsóknina á hvarfi stúlkunnar. Þar verður strax ljóst að hann er óvenjulegur maður, því hann virðist ansi næmur á það sem ekki er hægt að skilja á röklegan hátt. Hann reynist eiga sér nokkuð dramatíska fortíð sem fjallað er um í næstu bók, Feigð (2011). Allt frá útgáfu Svartur á leik urðu skrif Stefáns Mána vinsælt efni í fjölmiðlum, en auk fyrrnefndar umræðu um undirheimarannsóknir tókst honum að vekja athygli á Túrista með hatrömmum deilum við útgefanda sinn. Feigð vakti þónokkra athygli áður en hún kom út, en þar er bakgrunnurinn snjóflóðið í Súðavík árið 1995 þar sem fjöldi manns fórst.
Líkt og Skipið er Feigð uppfull af ógn og að sama skapi er helsta einkenni verksins kraftur, þungur taktur og öflugur sláttur sem birtist bæði í efnistökum og textanum. Þessi kraftur birtist með tvennum hætti; annarsvegar í náttúruöflunum, hafinu, veðurfarinu og snjóflóðinu, og hinsvegar í aðalpersónunni Herði Grímssyni, sem er tröllvaxinn maður, bæði hár og sterklega vaxinn. Hann er í raun á allan hátt ýktur karakter, með sítt rautt hár og íklæddur skósíðum leðurfrakka. Sömuleiðis eru gjörðir hans yfirgengilegar, allt frá því að hann fer hamförum í björgunarstarfi eftir snjóflóðið í fyrsta hluta bókarinnar til lokahlutans þegar hann fer hamförum yfir vesturhluta landsins. En þrátt fyrir að vera tröll að burðum er Hörður veikur fyrir, þjáist af astma og sóríasis og er hvað eftir annað felldur af höfðuðóvini sínum, steratröllinu Símoni dópsala.
Feigð gerist að hluta til á Vestfjörðum, nánar tiltekið á Súðavík, og að hluta í Reykjavík. Í fyrsta hlutanum kynnumst við Herði og föður hans, sem í félagi við skipstjórann Pétur sökkva bát til að ná í tryggingafé. Feigðin gerir strax vart við sig, því Pétur ferst óvart með bátnum. Lát Péturs er reiðarslag fyrir konu hans og dóttur, eiginkonan fer yfrum á geði og dóttirin María missir tökin á tilverunni á annan hátt. Eftir snjóflóðið taka þau Hörður saman um tíma, en hún vill meira en hann getur boðið (lesist: dóp) og leitar á náðir Símons.
Nokkrum árum síðar erum við stödd í Reykjavík, en þangað hefur Hörður flutt og starfar sem rannsóknarlögreglumaður. Símon er líka fluttur í bæinn og stundar þar sín vafasömu viðskipti en erfitt reynist að sanna neitt misjafnt á hann þrátt fyrir að Hörður og félagar leggi sig alla fram. Hér kynnumst við líka félaga Harðar, lesbíunni Þóru sem er nokkuð flottur karakter þó hún fái ekki mikið rými, og sambýliskonu hans Bíbí, en hún er barnshafandi og sígrátandi.
Í þriðja hluta, sem gerist á fyrstu mánuðum eftir efnahagshrunið, er Hörður aftur fluttur til Súðavíkur með Bíbí og reynir að byggja upp nýtt líf. En að sjálfsögðu fer fátt eins og ætlað er.
Sagan er römmuð inn af tvennskonar hamförum sem gengu yfir Ísland, annarsvegar af völdum náttúrunnar og hinsvegar af völdum gráðugra fjárfesta og bankamanna. Auk þess koma hafið og óveður nokkuð við sögu. Náttúruöflin eru spegluð í vélbúnaði sem lýst er með samblandi af munúð og tryllingi. Í fyrsta hlutanum eignast Hörður amerískan kagga með öflugri vél og mikil áhersla er lögð á að stilla þessu tvennu saman, kraftmikilli kerrunni og tröllinu sem ekur. Þessar lýsingar allar skapa saman þennan þunga takt sem einkennir verkið, og má vel sjá merki um yfirvofandi feigð, eða ógnvekjandi dauðadans.
Stefán Máni heldur áfram að bræða saman hrollvekju og glæpasögu í Húsinu (2012), en þar er að sjálfsögðu draugagangur. Húsið er stungið gotneskum undirtónum, líkt og Skipið, en í báðum sögum vinnur höfundur með hugmyndina um illsku. Reyndar má segja að illskan sé reglulegt stef í verkum Stefáns Mána, sem á sinn hátt er afar gotneskt, en gotneska skáldsagan fjallar iðulega um einhverja óljósa ógn sem stafar af illviljuðum öflum, hvort sem þau eru þessa heims eða annars. Í Húsinu eru þau hvort tvegga, enda eru hús og heimili klassískt þema gotnesku skáldsögunnar, auk þess að vera innblástur frægrar umfjöllunar Freuds um óhugnaðinn. Kenning hans gengur í stuttu máli út á að það sem á að vera kunnuglegt – heimilislegt – á það til að hverfast í andstæðu sína og verða hrollvekjandi, ókennilegt.
Sú er einmitt raunin í Húsinu, en sagan hefst á skelfilegum morðum í afskekktu húsi í Kollafirði, vestur af Reykjavík. Ungur drengur lifir af, en er ásóttur af óhugnanlegum draumum um mann með hamar. Svo virðist sem eitthvað fylgi húsinu, því mörgum árum síðar dregst ungur maður að því, en hann á að baki skuggalega æsku og ofbeldisfull unglingsár. Þessi ungi maður, Theódór eða Teddi, er í raun aðalpersóna bókarinnar og jafnframt fulltrúi hins illa. Öfugt við Jón Karl eða ‚Kölska‘ úr Skipinu á Teddi sér engar málsbætur, hann er hreinræktaður skíthæll og þegar hann flytur í húsið í Kollafirði með fjölskyldu sína er voðinn vís. Illskan sem býr í húsinu losnar úr læðingi og sagan endurtekur sig.
Sagan gerist árið 2007, sama ár og Hyldýpi og lögreglumaðurinn Hörður Grímsson er hér mættur á ný, að rannsaka dauða gamals manns sem finnst látinn á heimili sínu. Málið er afgreitt sem slys en Hörður er á öndverðu máli. Enn á ný kemur fram að Hörður hefur innsæi sem ekki er öllum gefið og hann finnur á sér að ekki er allt með felldu. Hann hefur augastað á Tedda og fylgist náið með honum, án þess þó að vita hversu mikið er í húfi.
Í dag er það sem undraði Freud svo mjög í upphafi tuttugustu aldar orðið almennt viðurkennt; heimilið er ekki endilega griðastaður og þar fer oft fram versta ofbeldið. Þetta er meðal annars viðfangsefni Hússins: misnotkun og heimilisofbeldi. Hrollvekjan, líkt og glæpasagan, hefur löngum verið mikilvægur farvegur til að rýna í félagsleg mein af þessu tagi þar sem draugagangur og ill öfl eru tákngerð í ofbeldisverkum og –mönnum. Sem fyrr tekst Stefáni Mána að forðast að sagan verði of táknsæ, þó hún bjóði vissulega upp á slíkan lestur. Hann forðast að falla í þá gryfju að vera með áróður eða predikanir en býður í staðinn upp á kraftmiklar vangaveltur um þá illsku sem búið getur í mannssálinni og stöðu illskunnar sem samfélagslegrar ógnar og utanaðkomandi afls. Þetta gerir Húsið að áhrifamiklu og sannfærandi skáldverki og sagan inniheldur magnaðar lýsingar á draugagangi og sterkri nærveru hins myrka og hins illa.
Hörður Grímsson er einnig á ferð í Grimmd (2013), en líkt og í Húsinu er hann ekki endilega aðalpersónan eins og hann var í Feigð. Grimmd gerist árið 2010 og rauðhærði risinn er snúinn aftur til Reykjavíkur. Sögusviðið er að hluta til undirheimar Reykjavíkur með tilheyrandi stefi eiturlyfja og harðjaxla. Aðalpersóna bókarinnar er Smári, smákrimmi með stóra drauma sem ólukkan virðist fylgja, því honum tekst að flækja sig í hver vandræðin á fætur öðrum. Þessi persóna er orðin kunnugleg úr bókum Stefáns Mána, ungur maður sem er dálítið einfaldur en vill gjarna gera sig breiðan. Í Grimmd kynnumst við sögu hans, en hann átti hörmulega æsku sem mótar allt hans líf og persónuleika, því hann er utanveltu allsstaðar. Það sem gerir hann sérstaklega skemmtilega samansettan er að hann er gagnkynhneigður klæðskiptingur sem finnur óvænt skjól hjá Ingu, óhamingjusamri húsmóður við Ægisíðuna. Og það er einmitt vinátta þessara ólíku einstaklinga sem síðan skiptir sköpum í lífi beggja.
Smári er með miklar áætlanir um að græða fé og flytja úr landi en fellur á eigin bragði og endar á því að vera hundeltur af tveimur eiturlyfjagengjum. Úr verður bókstaflegur eltingaleikur, því Smári flækist í fjölskyldumál Ingu þegar dóttursyni hennar er rænt. Hann býður sig fram í að ná barnsræningjanum og þar með hefst fjölmennur og flókinn bílaeltingaleikur þvert yfir landið; Smári eltir barnsræningjann og á eftir Smára eru svo fulltrúar á tveggja eiturlyfjabaróna. Loks er lögreglan einnig á ferð, nánar tiltekið góðvinur okkar Hörður Grímsson sem hefur ákveðna samúð með okkar manni, alveg eins og við lesendur.
Grimmd tekur við af Húsinu og heldur áfram að byggja upp mynd Harðar Grímssonar. Fyrir utan að vera mikill vexti og sérsinna í klæðaburði er tilfinningalíf hans einnig dramatískt. Hann drekkur of mikið og sambandið við hárgreiðslukonuna Bíbí er stormasamt – enda er eins og Herði fylgi stöðugur stormur.
Í Grimmd er þó meiri húmor en í Húsinu, þrátt fyrir titilinn. Þessi húmor er óneitanlega nokkuð svartur og sver sig í ætt við hasarmyndir sem gera út á bræðing af ýktu ofbeldi, hressilegum persónum og krassandi tilsvörum. Hans gætir í öllum bókunum sem hér eru til umfjöllunar, í mismiklum mæli þó. Hér er það Smári sem er fulltrúi tragikómíkurinnar, en steratröllin og eiturlyfjabarónarnir fá sinn skammt líka, sérstaklega eru samskipti þeirra í bílaeltingaleiknum kostuleg. Hörður fær sinn skammt líka, bæði er hann gerður kómískur í tilfinningasveiflum sínum og yfirstærð og svo eru mannleg samskipti honum oft nokkur leyndardómur. Stefán Máni er flinkur í að halda jafnvægi milli húmors og alvöru, bæði innan sagna og milli þeirra, en eins og áður segir er húmorinn meiri í Grimmd heldur en í Húsinu eða Feigð, svo dæmi séu tekin.
Svarti galdur (2016) er svo öllu alvörugefnari, þó þar sé Hörður Grímsson vissulega nokkur skotspónn fyrir kímni. Í þessu verki kynnumst við Herði sem ungum manni, nýbyrjuðum í lögreglunni og fáum að fylgjast með uppafi kynna þeirra Bíbí. Þessi kynni eru allskrautleg, því Herði er ekki gefin mikil færni í samskiptum, hvorki við hitt kynið né vinnufélaga sína. Hann er sérsinna og óvenjulegur á allan hátt, meðal annars vegna hæfileika hans til að sjá annað og meira en aðrir. Skyggnigáfa hans er hér kynnt vandlega til sögunnar, en Hörður óttast þennan hæfileika sinn og vill sem minnst af honum vita. Þessi áhersla á dulræna hæfileika Harðar helst svo í hendur við söguþráðinn, en þar koma yfirskilvitleg öfl við sögu á mun ríkari hátt en áður í verkum Stefáns Mána.
Svarti galdur fjallar um morð sem virðast ekki eiga sér neinar röklegar skýringar, þar sem ungt fólk myrðir þingmann og fleiri góðborgara án sýnilegrar ástæðu. Hörður, sem þarna er enn í einkennisbúningi, blandast í málið því hann bókstaflega rekst á einn morðingjann og skynjar að ekki er allt með felldu. Vegna hæfileika sinna er hann líka opnari fyrir því að koma á auga þá þætti málsins sem eru utan við röklegar skýringar. Snemma í sögunni er hann til dæmis að skoða eigur horfins smákrimma og rekst þar á undarlega hluti sem virðast tengjast einhverskonar galdra-ritúali, og síðar kemur í ljós að leika lykilhlutverk í lausn málsins. Samtímis þessu er sögð saga tveggja smákrimma og samskipta þeirra við ‚yfirmann‘ sinn sem situr inni á Litla-Hrauni.
Sagan er á mörkum hrollvekju og sem fyrr ferst höfundi vel úr hendi að spinna myrka þræði inn í glæpasöguformið. Þetta myrkur var nýtt til hins ítrasta í markaðssetningu bókarinnar, en útlit hennar minnir á Biblíuna, utan að krossinn á forsíðu snýr öfugt. Vakti þetta mikla athygli og jafnvel óhug sem mikið var gert úr í fjölmiðlum.
Varúlfar og naut
Inni á milli Grimmdar og Svarta galdurs sendi Stefán Máni frá sér fjórar bækur þar sem Hörður kemur ekki við sögu. Tvær þeirra eru ætlaðar yngri lesendum, Úlfshjarta (2013) og framhald hennar, Nóttin langa (2015). Eins og titlarnir gefa til kynna er viðfangsefnið varúlfar, en sagan er í stuttu máli sú að ungur maður, Alexander, er skotinn í stelpu, Védísi. Vandinn er sá að hún er litla systir besta vinar hans. En það er fleira sem herjar á Alexander, hann er ekki í góðum tengslum við fjölskyldu sína, flosnar upp úr námi og er almennt stefnulaus og frekar þunglyndur. Og uppstökkur. Á fylliríi missir hann stjórn á sér og gengur í skrokk á besta vini sínum og er í kjölfarið tekinn undir verndarvæng samtaka nafnlausra varúlfa sem reyna að skýra út fyrir honum hvers eðlis hann er. Alexander á erfitt með að sætta sig við þetta, enda einfaldar þetta ekki málið gagnvart stúlkunni og enn flækjast málin þegar hann fær það verkefni að vingast við glæpamann, varúlf, sem er nýkominn úr fangelsi. Sá hafnar öllum tilraunum til að hemja úlfinn og segir að hamfarirnar séu til komnar vegna þess að þetta sé skemmt fólk, nánar tiltekið fólk sem hefur verið nauðgað og aldrei getað tekist á við það.
Þrátt fyrir að úlfar hafi aldrei fundist á Íslandi má finna ýmis ummerki þeirra í sögum og kvæðum frá miðöldum. Norræn goðafræði er auðug af úlfum og er Fenrisúlfur líklega þeirra þekktastur. Kenningin í Úlfshjarta er sú að til sé úlfagen, sem geri það að verkum að örsmá prósenta mannkyns geti haft hamskipti. Þetta er svo stutt með allskonar sögulegum og bókmenntalegum tilvísunum. Og varúlfarnir eiga sér samtök nafnlausra varúlfa, með augljósri tilvísun í samtök þeirra sem eiga við áfengisvandamál að stríða. Varúlfagenið gefur auk þess nýja og spennandi krafta: „Hann er ekki bara varúlfur – hann er ofurhetja!“ (159) hugsar Alexander eftir að hafa uppgötvað sitt innra eðli.
Rödd Védísar heyrist líka í Úlfshjarta, þar sem í ljós kemur að hún er skotin í Alexander og er, líkt og hann, uppstökkur einfari sem á erfitt með að tengjast umhverfi sínu. Í Nóttinni löngu fær Védís meira rými og þar kemur í ljós að hún er líka varúlfur. Einnig kemur við sögu hópur fólks sem hatast við varúlfa og vill útrýma þeim. Loks eru (kynslóða)átök milli ólíkra hópa varúlfa, eins og fram kom í fyrri sögunni.
Varúlfabækurnar eru dæmi um það hvernig Stefán Máni vinnur með goðsagnir og óvætti á kraftmikinn hátt. Hann forðast að draga einfaldar línur og býður upp á margræðar persónur og ólíkar hliðar þess sem telst til hryllings eða ógnar. Þó er eitt stef sem reglulega stingur upp kollinum og er ekki gefinn afsláttur á, en það er illskan. Í Svartur á leik er Bruno fulltrúi hins illa, eitthvað illt er á kreiki í Skipinu en það er þó ekki fyrr en í Hyldýpinu sem vangaveltur um illsku komast verulega á flug og halda áfram í Húsinu, Grimmd og Svarta galdri. Illskan tengist iðulega glæpum og þá ekki á almennan hátt, heldur þeim glæpum sem framdir eru af fullkomnu siðleysi og miskunnarleysi þess sem valdið hefur og nýtur þess að beita því. Í Hyldýpinu, sem gerist árið 2007, er dregin skýr tenging á milli gróðærisins og illskunnar, í líki hinna ungu jakkafataklæddu manna sem stunda það að pynta ungar stúlkur. Gróðærið tengist líka glæpum í Ódáðahrauni og þó gróðærið komi ekki beinlínis við sögu í Húsinu gerist hún líka gróðærisárið 2007. Hrunið kemur fyrir í Feigð, en sagan hefst á gróðabraski sem endar með dauða, svo þar er tilvísunin augljós. Í öllum verkunum eru glæpamenn og/eða illmenni sem hika ekki við að valda öðrum skaða ef þeir sjálfir geta hagnast á því á einhvern hátt. Það er þó ekki fyrr en í Litlu dauðunum (2014) sem Stefán Máni gerir atlögu að því að fjalla um kreppuna, en þar er aðalsögupersónan bankamaður, Kristófer, sem missir vinnuna og flækir sig í vafasöm viðskipti til að reyna að koma sér hjá gjaldþroti. Hann leynir konu sína öllu og á flótta undan sjálfum sér og vandræðum sínum fer hann með hana í óundirbúna sumarbústaðaferð sem endar með ósköpum. Atburðir sögunnar gerast á mörkum hins yfirnáttúrulega, en Kristófer villist á leið í bústaðinn og þau hjónin lenda í óvæntri útisamkomu bifhjólafólks. Í lokin er Kristófer gersamlega týndur í myrkum helli og virðist ásóttur af óvætt.
Litlu dauðarnir eru, líkt og Túristi, dæmi um nokkuð skýrar táknsögur, en hvorug getur talist með áhrifameiri verkum Stefáns Mána. Honum lætur betur að gefa hinum táknrænu tilvísunum lausari tauminn og vinna með fjölbreytt róf myrkraverka, orsaka þeirra og afleiðinga. Kristófer er þó athyglisvert dæmi um þá karlmennskukreppu sem einkennir flestöll verk Stefáns Mána. Eins og áður hefur komið fram eru aðalsöguhetjur hans iðulega ungir menn sem eiga erfitt með að fóta sig í lífinu og finna sér farveg. Margir þeirra leiðast út í glæpi vegna þessa, utan helst Hörður sem leiðist á braut lögreglunnar. Glæpamennirnir Stefán, Óðinn og Smári þrá allir skjót- og auðfenginn gróða og flótta frá aðþrengjandi aðstæðum á Íslandi. Það sama á við Rikka sem er önnur aðalpersóna Nautsins (2015).
Líkt og fyrri verk Stefáns Mána hentar Nautið vel til myndrænnar útfærslu en mikið er lagt upp úr nákvæmum lýsingum og sviðsetningum. Í fyrsta kaflanum, sem rammar verkið inn, segir frá tveimur erlendum stúlkum á ferð um Ísland. Bíllinn bilar og símasamband næst ekki og því ganga þær af stað í von um hjálp. Það er hábjartur dagur og glampandi sól sem undirstrikar enn frekar þá ógeðfelldu sýn sem blasir við þeim þegar þær banka upp á Uxnavöllum.
Í næstu senu hittum við fyrir aðalpersónur bókarinnar, Ríkharð eða Rikka og Hönnu sem heitir fullu nafni Jóhanna. Þau tilheyra undirheimum eiturlyfja og ofbeldis sem er kunnuglegt úr fyrri bókum Stefáns Mána. Hanna er trúlofuð eiturlyfjasala sem Rikki selur fyrir og bæði dreymir um betra líf. Aðstæðurnar eru sannarlega ekki öfundsverðar en Hanna er alin upp á sveitabæ og misnotuð af föður sínum frá því hún var unglingur. Sem fyrr er birtist hér helsta einkennismerki verka Stefáns Mána: hráslagalegt, kraftmikið raunsæi sem er stöðugt skotið undirtónum dulúðar.
Framvindan er svo mörkuð af tifi í klukku sem brýtur frásögnina upp í kafla. Í þessum köflum er flakkað fram og til baka í tíma, en þó er ljóst að tíminn stendur í raun í stað og að persónur bókarinnar eru allar fangar í neti aðstæðna sem gera þeim ekki kleyft að halda áfram eða eiga sér framtíð. Tíminn, í þessum heimi myrkraverka og ofbeldis, er því lykilþáttur í byggingu verksins. Strax í lok fyrstu senunnar birtist tíminn sem ógnvaldur: „Veggklukkann tikkar fyrir ofan hana. Sekúndurnar pikka í hausinn á henni, oddhvassar og harðar. Tíminn er miskunnarlaus fugl sem reynir að kljúfa á henni hauskúpuna, opna á henni höfuðið (20).“ Það er sérstaklega Hanna sem skynjar vald tímans á þennan hátt. Hún líkir tikkinu í klukku síns gamla heimilis við járnpöddu sem „skríður áfram, hún hreyfir stífa fæturnar í takt en stendur samt í stað (210).“ Nautið er annað þema í myndmáli og stingur sér víða niður. Þannig helst tungumálið og myndmálið í hendur við innihald sögunnar og byggir hægt og rólega upp andrúmsloft innilokunar og ógnar.
Gotneskir skuggar
Skáldsagan Skuggarnir (2017) er hrein hrollvekja, en þar hafa þau draugalýsulog sem gefa skáldsögum Stefáns Mána sín fjölkunnugu blæbrigði alveg tekið yfir. Hér er það stúlka sem er í aðalhlutverki, Kolbrún, en hún á í sambandi við aðeins eldri mann, Tímóteus eða Timma. Timmi er ljósmyndari með miklar fyrirætlanir. Hann lokkar Kolbrúnu með sér í leit að óþekktu eyðibýli, sem hann hyggst fanga á forsíðumynd ljósmyndabókar, og hljóta þannig frægð og frama. Ferðin er illa undirbúin og enginn kannast við eyðibýlið, en á endanum rekast þau á það og að sjálfsögðu reynist það draugahús.
Sagan er í sjálfu sér nokkuð hefðbundin draugasaga með táknrænum undirtónum sem svo oft birtast í verkum höfundar. Það breytir þó ekki því að þetta er magnað verk, því Stefán Máni hefur náð afar góðri færni í því að skapa yfirþyrmandi andrúmsloft og sannfærandi persónur. Kolbrún og Timmi hafa bæði sína djöfla að draga. Kolbrún er tilfinninganæm, viðkvæm og í andlegu ójafnvægi yfir höfuð, sem er afleiðing af erfiðu sambandi við foreldra hennar og því þráir hún fjölskyldu. Hún starfar að sjálfsögðu á leikskóla og kynnist Timma þannig, en dóttir hans er á leikskólanum þar sem Kolbrún vinnur. Timmi er töffari sem býr við ofbeldi af hálfu konunnar sinnar, Önnu. Hann er klassískt dæmi um mann sem tekst ekki að rísa undir þeirri karlmennskuímynd sem hann þráir: ekki aðeins hefur honum mistekist að finna frægðina heldur beitir eiginkonan hann ofbeldi og hótar honum öllu illu ef hann ekki slítur sambandinu við Kolbrúnu. Ferðin er því að öllu leyti dæmd til að farast, fyrir utan að vera illa ígrunduð atlaga að ólíklegri frægð, þá er hún flótti undan óbærilegum aðstæðum.
Sagan er markvisst byggð upp með köflum þar sem skiptast á sjónarhorn Kolbrúnar og Timma, auk þess sem farið er fram og til baka í tíma. Strax í upphafi er Kolbrún föst í martröð um skugga og útburði, en hrekkur upp þegar þau nálgast Kópasker, en þaðan á að leggja á heiðina. Í þorpinu hittir Kolbrún svo dularfulla svartklædda gamla konu og póstleggur umslag með umsókn um háskólanám. Undir lokin koma konan og umslagið svo aftur við sögu og þar bregður fyrir sjálfsögulegu stefi, en slík eru einmitt afar vinsæl í hrollvekjum, þar sem sögurnar hverfast hver um aðra.
Það lætur Stefáni Mána sérlega vel að vinna með klassísk gotnesk stef og gera þau að sínum. Skuggarnir vísa bæði til þjóðtrúar fortíðarinnar og samtímans og sýna hvernig arfur fortíðar hverfur aldrei, heldur tekur á sig ný form í veruleika nútímans sem reynist ekkert endilega svo fjarri forneskju.
Á sama hátt er höfundarverk Stefáns Mána sérlega áhugavert í ljósi hefðbundinnar skiptingar í afþreyingu og fagurmenningu, hámenningu og lágmenningu, en verk hans ganga þvert á slíka aðgreiningu og eru til marks um hversu takmörkuð hún er. Fyrstu bækurnar féllu betur að flokki hámenningar, en frá og með Svartur á leik snýr höfundur sér að bókmenntategundum, glæpasögum og hrollvekjum, sem almennt teljast til lágmenningar. Hann fer því öfuga leið við marga höfunda sem hefja feril sinn með afþreyingarsögum en stefna að því að færast í flokk fagurbókmennta. Þó Stefán Máni nýti sér klassísk viðfangsefni glæpasögunnar og hrollvekjunnar þýðir það ekki að bækur hans séu ómerkilegri fyrir vikið, þvert á móti þá færir höfundarverk hans sönnur á að í færum höndum eru slíkar sögur ekki síður áhrifaríkar og mikilvægar bókmenntir.
úlfhildur dagsdóttir, október 2017
Um verk Stefáns Mána I – Verkamaður í víngarði Drottins: eða hæfileikinn til að geta komið auga á hið ómerkilega og smáa
I
Undir lok skáldsögu Stefáns Mána, Ísrael: Saga af manni (2002), lendir aðalpersónan Jakob, kallaður Ísrael, í stjórnmálarökræðum við matargest sinn sem er aðstoðarfjármagnsflæðistjóri alþjóðalífeyrissjóðs með annan fótinn í pólitík. Sá heitir Haraldur og er kallaður borgarstjóri morgundagsins. Rökræðurnar fara fram yfir borðum en þar er dregin upp allgrótesk mynd af þessum þéttvaxna framtíðarleiðtoga sem smjattar á matnum og virðist ekki kunna eða vera tilbúinn til að sinna almennum borðsiðum. Kannski er það vegna þess að heiðarleiki og hreinskilni er hans mottó en allavega hikar hann ekki við að gera lítið úr verkafólki og heimi þess. Þegar Jakob bendir konu Haraldar, ritstýrunni Líf, á þann möguleika að skrifa greinar í glanstímarit hennar um hið hversdagslega, eins og til dæmis kartöflur og herðatré, bregst hún við með því að tala niður til hans og segir:
Það er kannski gjöf guðs til hins fábrotna verkamanns, þessi undarlegi hæfileiki að geta komið auga á hið ómerkilega og smáa í umhverfinu, á hluti og fyrirbæri sem við, sem hlutum menningarlegt uppeldi og eigum langskólanám að baki, förum á mis við í amstri dagsins [...] hún sagði mér, hún Hrefna sambýliskona þín, Jakob, í trúnaði reyndar, að þegar þið kynntust hafir þú verið rótlaus og drykkfelld barfluga sem átti margra ára flakk og farandverkavinnu að baki, og kallaði sig þar að auki Ísrael, er þetta satt? (248)
Jakob neitar því að hafa verið barfluga, en hikar hinsvegar ekki við að lýsa því yfir að hann sé farandverkamaður í húð og hár, „og verð alltaf farandverkamaður, svona innst inni, ... og er stoltur af því, enda einn af þeim síðustu, ... jafnvel sá síðasti“ (248). Því „tilverunni hefur verið kippt undan fótum farandverkafólksins, ... kvótakerfið, minni afli, vélvæðing og ódýrt erlent vinnuafl hafa séð til þess að íslenskt samfélag er laust við þessa bannsettu plágu“ (253). Þessi plága á sér auðvitað aldagamla hefð á Íslandi, og því er nafnið Ísrael réttnefni að því leyti að það felur í sér sögu heillar þjóðar.
Ísrael: Saga af manni er fjórða skáldsaga höfundar, en sú fyrsta, Dyrnar á Svörtufjöllum (1996) er örstutt og minnir í uppsetningu meira á ljóðabók en skáldsögu. Önnur skáldsaga hans, Myrkravél (1999), vakti nokkra athygli en það var ekki fyrr en með þriðju skáldsögunni, Hótel Kalifornía (2001) sem lesendur og gagnrýnendur fóru verulega að gefa þessum unga höfundi gaum. Ísrael uppfyllir þau loforð sem Hótel Kalifornía gaf, og það er ljóst að þessi ungi höfundur hefur allt það sem þarf til að verða að varanlegri í íslenskri bókmennta- og menningarumræðu.
Líkt og kemur fram í umræðunum í Ísrael er heimur Stefáns Mána heimur verkamannsins. Myrkravél, Hótel Kalifornía og Ísrael eru allar sagðar frá sjónarhorni verkamanns, og þegar æviatriði höfundar eru skoðuð er ljóst að hann færir sér eigin reynslu í nyt. Í pistli sínum hér á síðunni lýsir hann því hvernig hann stóð með hendurnar á kafi í fiskikerum og hugsaði um hvort hann ætti ekki bara að drífa sig og gefa Dyrnar á Svörtufjöllum út: „ég tvísteig mikið í gúmmístígvélunum og hugsaði um bókina, um hugsanlega útgáfu, um ritstörf, á meðan kaldar og bólgnar hendurnar flokkuðu fiskflök eftir tegund og þyngd“. Það er þó ekki fyrr en í Ísrael sem ákveðið stolt gerir vart við sig, meðan aðalpersóna Myrkravélarinnar er maður sem er alvarlega truflaður á geði, og sögumaður Hótels Kaliforníu virðist vera fremur mikill einfeldningur, er Jakob stoltur maður sem lætur ekki troða á sér. Hann er fær í flestan sjó, vinnuþjarkur sem á auðvelt með að aðlagast ólíkum verkamannastörfum og sinna þeim af natni. Þetta kemur sérstaklega vel fram í tengslum hans við vélar, en við þær nær hann sérstöku sambandi, hefur skilning á virkni þeirra og lempar þrjóskustu vélar til samvinnuþýðni. Hann hefur mun meiri stéttarvitund en hinir sögumennirnir og þekkingu á hinu pólitíska landslagi, auk þess sem hann á sér draum um að leiða sína þjóð. Þegar Líf spyr – hæðnislega – hvort nafnið Ísrael vísi til þess að Jakob ætli að verða ættfaðir eða konungur og láta niðja sína skipta þúsundum þá svarar Jakob því til að hann hafi dreymt um „að farandverkafólk sameinaðist undir merkjum ákveðinnar hugsjónar, stofnaði einhverskonar samtök eða hreyfingu, ekki hefðbundna verkalýðshreyfingu eða stjórnmálaflokk, heldur eins konar bræðralag“ (249). Jakob er maður sem stendur á mörkum tveggja heima eða tíma, og þrátt fyrir að hugsjón hans sé honum enn kær, gerir hann sér vel grein fyrir því að svona viðhorf eiga ekki lengur við. Þessi einlægi pólitíski eldmóður er horfinn, eins og farandverkafólkið, en eftir stendur Jakob, og sem fulltrúi horfinna hugsjóna og heimsmyndar þá hlýtur hann að deyja.
II
Heimur verkamannsins er þó fjarri góðu gamni í Dyrunum á Svörtufjöllum, en hún er eina saga Stefáns Mána sem er sögð frá sjónarhorni konu. Sagan er nokkuð dæmigert byrjendaverk, tilraunakennt í stíl og uppsetningu, en höfundur gaf bókina út sjálfur og hannaði útlit hennar. Inni í fjalli býr lítill hópur fólks, sú sem segir söguna, foreldrar hennar og amma. Eitthvað hefur gerst og heimurinn fyrir utan er orðinn óbyggilegur, framtíð mannkyns hvílir á þessum fimm sálum, en þrátt fyrir að afinn sé dauður stendur til að hann endurfæðist. Textinn er örstuttur, og eins og áður sagði minnir hann frekar á langt prósaljóð eða einræðu í leikriti en skáldsögu.
Sami knappi stíllinn einkennir Myrkravél, þó þar sé á ferðinni mun lengra verk. Myrkravél er einskonar stutt skáldsaga, eða nóvella, sem lýsir sjúkum hugarheimi ungs manns. Sagan er sögð í fyrstu persónu og sögumaðurinn situr í fangelsi og segist ekki mennskur, að hann sé myrkravél. Hann rekur ævisögu sína frá bernsku, en svo virðist sem hann hafi alltaf verið undarlega truflað barn. Að endingu er honum vísað úr heimahúsum og eftir það liggur leiðin hratt niður á við. Það gengur illa að fóta sig í samfélaginu og þrátt fyrir að ráða sig tvisvar í byggingarvinnu og gera með því tilraun til að lifa reglubundnu lífi verður óreiðan í sálinni æ meiri, þar til að lokum hann fremur það voðaverk sem hann er fangelsaður fyrir. Skáldsagan er áhugaverð um margt, kannski dálítið unggæðingsleg á köflum, en gaf klárlega til kynna að hér væri metnaðarfullur höfundur kominn á skrið.
Í Myrkravél kemur vel fram sá einmanaleiki sem einkennir verk Stefáns Mána, en þar brýst einsemd sögumanns fram í ofbeldi gegn umhverfi sínu og að lokum manneskju. Stúlkan í Dyrunum á Svörtufjöllum bregst við einmanaleikanum með því að loka sig enn frekar inni, en sögumenn Hótel Kaliforníu og Ísrael streitast gegn einsemd sinni með því að leita misörvæntingarfullt að félaga, kærustu, fjölskyldu. Stefán í Hótel Kaliforníu dreymir um rómantísk samskipti við hitt kynið en er ákaflega óhæfur til að uppfylla slíka drauma, því hann nemur ekki bilið milli þeirra og veruleikans. Jakob í Ísrael á hinsvegar auðvelt með að umgangast konur en samskiptin eru þó ekki alltaf sem skildi, og þrátt fyrir að vera farinn að búa nokkuð hamingjusamlega með Hrefnu þeirri sem heldur matarboðið, sem vitnað er til að ofan, er ljóst að hann kann ekki allskostar við sig og er ekki kominn í höfn.
Naprasta einsemdin loðir þó við sögumann Hótel Kaliforníu, þegar hann í enda sögunnar gengur einn inn sjúskaðan gang skemmtistaðarins, en áður hefur komið fram í sögunni að þetta kvöld eigi ekki eftir að lukkast vel. Hótel Kalifornía sver sig í ætt við hefðbundnar þroskasögur ungra manna, líkt og birtist í misheppnuðum samskiptum sögumanns við konur. Þessi vandræðagangur sögumanns í Hótel Kaliforníu varð til þess að mér leist ekki meira en svo á blikuna og hugsaði með mér hvort ekki væri nóg komið af þessum endalausu sögum um unga menn, þeirra óspennandi komplexum og lífsviðhorfum og hvort ég þyrfti virkilega eina ferðina enn að sitja undir því að lesa sögu um einhverja stráka í tilvistarkreppu og þeirra tilbreytingalausa líf. Nema Stefán Máni kom mér ánægjulega á óvart og skrifar sögu sem sker sig úr þessum annars einsleita hópi skáldsagna. Því eitt af því sem er eftirtektarvert við Hótel Kalíforníu er að söguhetjan þroskast bara ekki par. Og í því liggur sjarmi þessarar annars yfirlætislausu sögu, hetjan unga, ungi maðurinn á tilgangslausri leið sinni í gegnum lífið sem samkvæmt formúlunni á að vera annar maður í bókarlok en hann var í upphafi, er enn jafn tilgangslaus og hann var í byrjun.
Fyrri hluti skáldsögunnar segir frá því hvernig söguhetjan, sögumaðurinn Stefán, lifir sínu tilbreytingalausa lífi. Hann vinnur í fiski, við vél sem hausar þorska. Yfirleitt er svo mikið að gera að hann verður að vinna laugardaga líka. Það kemur hinsvegar ekki í veg fyrir að hann fari á formúlukennd fyllerí með vinum sínum um helgar, þarsem íslenskt brennivín í pepsí leikur aðalhlutverkið. Eftir því sem á líður söguna verður ljóst að sögumaður hefur nokkra sérstöðu í fiskvinnslusamfélaginu og þykir dálítið skrýtinn. Hann til dæmis fer í gönguferðir. Og í einni slíkri rifjast upp áhrifarík en stutt dvöl í höfuðborginni, þarsem drengnum var ætlað að sækja Menntaskólann í Reykjavík. Hann hinsvegar dreymdi um að fara í Iðnskólann, enda sérlega laginn við allt sem gekk fyrir rafmagni. Skólagangan – sem einmitt býður upp á enn eina þroskasöguklisjuna – endar sem fíaskó og Stefán flýr aftur heim á vit hins fullkomna tilbreytingalausa lífs.
Stíllinn er agaður og hreinlega eintóna á köflum, sem hæfir hinu eintóna lífi sögumanns. Til að byrja með var þetta dálítið erfitt en eftir því sem á líður fer lesandi að finna fyrir veðrabrigðum í lífi Stefáns, vonum og draumum, þreytu og örvæntingu auk hins linnulausa leiða og vonleysis. Tónlistin sem hann hlustar á spilar nokkuð hlutverk og á sinn þátt í að auka á blæbrigðin og opna leið inn í huga sögumanns. Aðalstefið er náttúrulega „Hotel California“, en í stað þess að láta það lag hljóma sínkt og heilagt, þá birtast laglínur úr því á stöku vel völdum stað, auk þess sem það leikur lykilhlutverk fyrir endalok sögunnar.
III
Því hefur verið haldið fram að skáldsögur yngstu kynslóðar íslenskra rithöfunda einkennist af einhverskonar afturhvarfi til raunsæis, og hefur orðið ný-raunsæi jafnvel verið nefnt í þessu sambandi. Er þá væntanlega verið að vísa í skáldsögur Auðar Jónsdóttur, Gerðar Kristnýjar, Guðrúnar Evu Mínervudóttur og Mikaels Torfasonar, en þrátt fyrir að Andri Snær teljist vissulega til yngstu kynslóðarinnar verða verk hans hingað til seint kölluð raunsæisleg. Ég er ekki fyllilega sannfærð um þessa skilgreiningu því þrátt fyrir að vissulega einkennist skáldverk þessara höfunda af ákveðnu raunsæi, þá er það raunsæi ákaflega skilyrt fyrirbæri, og þessi skilyrðing birtist greinilega í skáldsögum Stefáns Mána. Reyndar birtst sérstök nálgun á raunsæi einnig í skáldsögum Auðar, Guðrúnar Evu og Gerðar Kristnýjar, en þar virðist það einhvernveginn alltaf í hættu statt, og sífellt við það að tryllast og verða eitthvað allt annað. Svona eins og það sé tæplega tamið dýr í búri.
Og þessi tilfinning fór semsagt að grafa um sig í mér eftir því sem ég las mig lengra í inn eftir göngum Hótel Kaliforníu. Undir hinu ördauða yfirborði leynist spenna sem brýst annað slagið út – oftar en ekki í drykkjuspýju. Átökin við raunsæið eru svo enn meiri í Ísrael, en þar siglir höfundur lesanda gegnum langar nákvæmar lýsingar á vinnubrögðum og atvinnuháttum og hversdagslegum smáatriðum í lífi sögumanns. Það eru einmitt þessi tök á hversdeginum, þetta næmi fyrir því venjulega, eða, svo notuð séu orð höfundar hér að ofan, „þessi undarlegi hæfileiki að geta komið auga á hið ómerkilega og smáa í umhverfinu“ sem gefa látlausum stíl Stefáns Mána lymskulegan kraft sem þegar best lætur hefur dáleiðandi áhrif á lesandann.
Dæmi um slíka lýsingu er sagan af uppvasksstarfinu á fínum matsölustað í Reykjavík. Senan opnast fyrir utan veitingastaðinn, en hann er til húsa í hundrað ára gamalli bruggverksmiðju í gamla austurbænum. Við fylgjum gestum inn um þungt járnhlið sem opnar klukkan sex síðdegis og inn ganginn, lagðan rauðu teppi, inn í móttökuna og þaðan inn í koníaksstofuna. Eftir nokkra dvöl þar kemst lesandi loks inn í borðsalinn sem er lýst nákvæmlega, en þar sveima þjónar inn og út úr eldhúsinu. Og það er ekki fyrr en á fimmtu síðu kaflans um uppvaskið sem lesandi fær að sjá eldhúsið og vinnuaðstöðu Jakobs, sem er lýst af sömu námkvæmninni og innbúi veitingahússins. Stefán stýrir ferðinni af öryggi og ég fylgdi honum alveg dáleidd í gegnum rangala hússins, rifrildi þjóna og aðferðir við að hreinsa sjóðheita uppþvottavélina. Tökin eru fumlaus og fim, rétt eins og tök Jakobs á vélinni og starfi sínu og framfarirnar frá Hótel Kaliforníu eru greinilegar, en á stundum urðu álíka nákvæmnislýsingar þar dálítið þungar í vöfum og þreytandi aflestrar. Aðrar slíkar senur eru kaflinn í prentverksmiðjunni sem er einskonar þungamiðja skáldsögunnar, og hefst á langri forsögu prentsmiðjunnar og stofnenda hennar, en lýsingar þar á samskiptum Jakobs við vélar og annað starfsfólk eru hreint frábærar.
Það er í slíkum ílöngum og íhugulum nákvæmnislýsingum sem hugmyndin um hefðbundið raunsæi brestur. Þriggja síðna lýsing á ferð bókar gegnum fæðingavegi vélanna reynir um of á þanþol veruleikablekkingarinnar, en hún hefst svo:
Í bókbandsdeild prentsmiðjunnar var samankomið ótrúlegt safn af vélum, bláum, gráum og grænum, sem gengu fyrir rafmagni og lofti, skröltu áfram og soguðu og blésu, flestar orðnar lélegar, fornar í skapi og pínulítið sérvitrar, tannhjólin slitin, keðjunrnar slakar, öxlarnir bognir og reimarnar trosnaðar, en þær gerðu sitt gagn og unnu oft myrkranna á milli við að skera, brjóta, sauma, taka upp, líma og hefta framleiðslu fyrirtækisins, allt frá einföldum bæklingum og eyðublaðaheftum til dýrra glanstímarita og fallegra, innbundinna bóka. (92)
Þessi persónugerving vélanna heldur svo áfram, en eins og áður sagði hefur Jakob sérstaka hæfileika þegar kemur að vélum.
Í prentsmiðjunni vinnur einnig unglingssonur eigandans, Rósi Brekkan sem er ’droppát’ úr skóla með ýkt litað hár og furðulegar hugmyndir um heiminn. Hann er ekki liðtækur til vinnu en þeim mun duglegri við að spinna upp undarlegustu dagdrauma, eins og þann að „prentsmiðjan væri alls ekki prentsmiðja heldur bara blekking, við værum ekki frjálsir verkamenn heldur lífstíðarfangar í einu rammgerðasta fangelsi alheimsins“ (145). Hér mætti hugsa sér að ýjað sé að því að allur almenningur sé fangi blekkingar; ekki frjálsir verkamenn heldur lífstíðarfangar í því rammgerða fangelsi sem nútímasamfélag er. Persónugerving vélanna og uppspuni stráksins er líka dæmi um hvernig undirtónar fantasíu smeygja sér inn í verkið. Fantasíu í íslenskum bókmenntum hefur vaxið fiskur um hrygg á tíunda áratugnum og þrátt fyrir að verk áðurnefndra ungra höfunda geti ekki talist fantastísk bera þau mörg merki þess þrots raunsæisins sem birtist svo vel í ofurnákvæmum raunsæislýsingum Stefáns Mána.
Og í raun er þessi hugmynd Rósa ekki fjarri lagi þeirri sýn á raunsæi sem Stefán Máni skapar í verki sínu, með sínum útsmognu lýsingum og linnulausri skrásetningu á hversdagslegustu atburðum. Lesandinn fær það eiginlega á tilfinninguna að þetta hljóti allt að vera blekking.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2002
Greinar
Viðtöl
Tine Maria Winther: „Fra fiskefileter til forfatter“
Viðtal við Stefán Mána í Politiken í tilefni danskrar útgáfu Skipsins.
Politiken 13. júní 2009
Greinar um einstök verk
Feigð
Úlfhildur Dagsdóttir: „Allt eins og blómstrið eina?“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur
Grimmd
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall: Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómar)
Stína 2014, 9. árg., 2. tbl. bls. 122-32.
Hyldýpi
Úlfhildur Dagsdóttir: „Atburðir við vatn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur
Myrkravél
Berglind Steinsdóttir: „Myrkir innviðir“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg., 3. tbl. 2000, s. 118 - 121.
Björg Gísladóttir: „Saga af illum huga“
Vera 18. árg., 6. tbl. 1999, s. 60.
Nautið
Úlfhildur Dagsdóttir: „Baulaðu nú Búkolla mín“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur
Ódáðahraun
Ingvi Þór Kormáksson: „Eiturlyfjabarón gerist bisnessmaður“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur
Skipið
Davíð Stefánsson: „Að ferðast án meðvitundar“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2007, 68. árg., 4. tbl. s. 128-33.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Sjómannslif - ástir og ævintýr?“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur
Svartur á leik
Erna Erlingsdóttir: „Bissness og blóðhefnd.“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 3. tbl. 2005, s. 97 - 102.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Sveitapiltsins draumur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur
Túristi
Páll Ásgeir Ásgeirsson: „Bók með óþarfan farangur“
Tímarit Máls og menningar, 67. árg., 2. tbl. 2006, s. 130-133
Úlfhildur Dagsdóttir: „Makt bókmenntamyrkranna“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur
Úlfshjarta
Ásdís Guðrún Sigmundsdóttir: „Íslenskar fantasíur : upprisa tegundabókmenntanna“
Spássían 2013, 4. árg., haust/vetur, bls. 11-6.
Erla Elías-Völudóttir: „Að beisla úlfinn hið innra“ (ritdómur)
Börn og menning 2013, 28. árg., 1. tbl. bls. 28-9.
Helga Birgisdóttir: „Spangól í einmana úlfi“ (ritdómur)
Spássían 2013, 4. árg., vor/sumar, bls. 8.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Dýrið gengur laust“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur
Greinar og viðtöl við Stefán Mána hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
2014 – Blóðdropinn: Grimmd
2013 – Blóðdropinn: Húsið
2007 – Blóðdropinn: Skipið
Tilnefningar
2008 – Glerlykillinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin: Skipið
2006 – Glerlykillinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin: Svartur á leik
Borg hinna dauðu
Lesa meiraFöstudagskvöld nokkurt í september yfirgefur hin 19 ára gamla Sigríður Bella Ólafsdóttir heimili sitt við Dragaveg. Hún segir engum hvert hún er að fara. Þegar hún skilar sér ekki heim hringja foreldrarnir á lögregluna. Það er eins og jörðin hafi gleypt dóttur þeirra.Hungur
Lesa meiraKlukkan tifar og einhvers staðar í skuggum borgarinnar leynist sjúk sál sem er drifin áfram af óseðjandi hungri.Horfnar
Lesa meiraMörgæs með brostið hjarta: Ástarsaga
Lesa meiraMörgæs með mannlegar tilfinningar, ástfangin en um leið full af kvíða, leitar að tilgangi lífsinsDauðabókin
Lesa meiraAðventa
Lesa meiraKrýsuvík
Lesa meiraSkuggarnir
Lesa meiraNautið
Lesa meira