Beint í efni

Dimmumót

Dimmumót
Höfundur
Steinunn Sigurðardóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Rósa María Hjörvar

Dimmumót (2019) er ný ljóðabók eftir Steinunni Sigurðardóttur kom út á höfundarafmæli hennar, en í ár er liðin hálf öld frá því að hún gaf út ljóðabókina Sífellur (1969). Steinunn er ekki bara magnað ljóðskáld heldur hefur hún einnig gefið út smásögur, skrifað leikrit, unnið við þýðingar og skrifað 12 skáldsögur.

Dimmumót er einskonar sjálfsævisögulegur ljóðabálkur sem hverfist í kringum samband ljóðmælanda við Vatnajökul og mögulegt brotthvarf hans.

Sögnin að vaga kemur fram snemma í þessu verki með tilvísun í skaftfellska merkingu þess sem á við dagdraumrölt (17). Annars þekkir maður helst þessa sögn úr skólakvæðunum þar sem hann Siggi var úti að vaga, og merkir það skv. orðabók óstöðugur gangur. Á þessi sögn vel við ljóðabálkinn þar ljóðmælandi dagdraumakennt vafrar um ævi sína. Reyndar talar ljóðmælandi um stelpuna í þriðju persónu og við fylgjum henni brotakennt frá fæðingu, í gegnum barnæsku og unglingsár og fram yfir miðjan aldur. En svo er eins og jökullin taki völdin í verkinu og þar með  hugleiðingar um brotthvarf hans og merkingu. Ljóðin verða margradda og endurspegla viðhorfum um jökulinn og þá menningu sem myndast hefur í kringum hann.

Orðið dimmumót merkir ljósaskipti og vísar líklega í hugmynd höfundar um að hvíti liturinn, litur jökulsins sé að hverfa og við taki grásvart grjótið.

Jökullinn er alstaðar og hvergi, hann birtist lesanda sem tákn eilífðarinnar eða einhverskonar guðdómur. Ávallt í augnsýn,  trónir yfir ljóðmælanda, gefur frá sér hljóð en er samt órafjarri og fjarlægist í sífellu. Það er eins og hann standi utan veruleikans eða á mörkum hans, hann er „Elífðarfjallið mitt ljósa“ (7), „skínandi hvítfjall“ (16) og „Hinn Hvíti og Blái“ (90).

Þannig verður jökullinn táknmynd þess eilífa í tilverunni, hvort sem það er fæðing eða dauði. Óhagganlegar staðreyndir sem eru samt hverfular þegar á reynir. Verkið er uppfullt af nostalgíu og þeirri staðreynd að allt er breytingum háð, líkt og ísinn færist til, bráðnar og rennur burt, þá breytast tímarnir líka. Jökullinn speglar líkama ljóðmælanda og þær umbreytingar sem eru fram undan. Jökullinn er líka á einhvern hátt tengdur föðurnum, hann birtist fyrst ljóðmælanda í sveitinni hans Pabba og í ljóðinu „Land elds og einskins“ er hann „yndið mitt stóra úr æskunni“ (68).

En þrátt fyrir að hægt sé að lesa ýmsa táknræna merkingu í notkun höfundar á jöklinum verður ekki hjá því komist að þetta er óður til Vatnajökuls og harmþrungin hugleiðing um afleiðingar loftslagsbreytinga. Ljóðmælandi talar um „okkur“ og ábyrgð okkar. Eins og til að mynda í ljóðinu „Jökullinn deyr“,

Umkomuleysi hans er algjört.

Við gæslumenn sofnuðum á verði.

Hér skipar Steinunn Sigurðardóttir sér í hóp þeirra höfunda sem beita verkum sínum í þágu náttúrunnar og á móti hamfarhlýnun. En hamfarahlýnun er reyndar orð sem kemur frá Steinunni sjálfri. Hún er óhrædd við að tala beint í samtíma sinn og segir meðal annars í ljóðinu „Sjónasviptur 1“:

Börnin og barnabörnin. Krúttin á facebook.

Hvað verður um þeirra krútt og þeirra krúttkrútt.  

Ljóðmælandi veltir svo í kjölfarið fyrir sér í ljóðunum „Hverslendingar?“ og „Sjónmáli“ afleiðingum jökulhvarfsins fyrir ímynd lands og þjóðar. Hvað eru Íslendingar ef hér er engin ís, og hvað verður um heim sem á engan Vatnajökul.

Bálkurinn snýr svo aftur sjónum að ævi ljóðmælanda í ljóðinu „Vistarvera 2“ og hér sýnir skáldið hversu auðvelt hún á með að teikna upp margbrotnar persónur og aðstæður í fáum vendingum. Eða kannski lætur hún það bara líta út fyrir að vera auðvelt, eins og góð skáld gera.

Við tekur bölsýni og eyðilegging. Ljóðmælandi hverfur á vit yfirnáttúrulegra pælinga og óskar þess að geta „galið galdra“ og vildi „þá gala hvíta litinn til baka inn í heiminn“ (82).

En þó að allt sé hverfullt og stefni í einhverskonar ragnarök þegar sólin verður „harmasól“ (82) skilur ljóðmælandi eftir smá von hjá lesanda í lok þessa áhrifaríka verks. Hjá læknum í pabbasveitinni verður eftir flís af sál stelpunnar (92). Þó að flest allt annað sé breytingum og tortímingu háð fáum við að halda í þennan litla ljósdropa í flóðinu frá bráðnandi jökli.

 

Rósa María Hjörvar, nóvember 2019