Beint í efni

DNA

DNA
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Aðdáendur glæpasagna bíða vanalega spenntir eftir nýrri bók frá Yrsu Sigurðardóttur. Það er ekki að undra því að henni tekst mætavel að skapa spennu og má því oft ganga að góðri afþreyingu vísri hjá henni. Það er þó dálítið misjafnt hvernig tekst að halda þeirri spennu. Stundum er eins og öll smáatriðin sem höfundur vill að komi fram, og þurfa væntanlega að koma fram, dragi frásögnina óþarflega á langinn og valdi óþolinmæði hjá lesandanum. En einmitt þessi óþolinmæði er oft og tíðum ófrávíkjanlegur hluti af nautninni við að lesa glæpasögur. Spurningin er þá hvar nautninni sleppir og við tekur erfiði.

Bækur Arnaldar Indriðasonar og Yrsu Sigurðardóttur njóta vinsælda hjá bókakaupendum, og lesendum líka, skulum við vona. Þeim er stundum stillt upp sem kónginum og drottningunni af Blóðdropanum. Án þess að fara út í mikinn samanburð eða bollaleggingar má segja að hvað stíl varðar hafi Arnaldur vinninginn en Yrsu tekst upp á síðkastið betur að skapa þessa umtöluðu spennu. Spennustigið hjá Arnaldi er orðið talvert lægra en áður var en margt annað kemur til sem lyftir bókum hans langt yfir meðallagið.

Í þessari nýjustu bók Yrsu, DNA, eru framdir býsna ógeðfelldir glæpir. Þeir eru ógeðfelldir þó að sá sem glæpina fremur vilji koma sér undan blóðsúthellingum og óþrifnaði. Morðvopnin gerast í það minnsta vart frumlegri. Kona nokkur verður fyrst fyrir barðinu á morðingjanum og það er ekkert óvenjulegt við hana: hún er móðir þriggja barna, gift lækni. Dóttir konunnar verður mikilvægt vitni og er yfirheyrð í Barnahúsi. Sálfræðingurinn Freyja sem þar starfar hefur áður átt skyndikynni með lögreglumanninum, Huldari, sem stýrir rannsókn málsins. Þessi kynni þeirra voru heldur með vandræðalegra móti, sérstaklega viðskilnaðurinn, og valda því að samstarf þeirra gengur fremur stirðlega. Við sögu kemur einnig samstarfsfólk Huldars, þau Erla og Ríkharður og enn fremur þrír dálítið kostulegir ungir menn, radíóamatörar, núverandi og fyrrverandi, skoplegir nokkuð í háttum. Þeir eru svolítið í ætt við Bakkabræður eða kannski öllu heldur Cheech og Chong en með heilmiklu nördaívafi sem minnir á amerískar kvikmyndir um slík ungmenni. Í lýsingu á samskiptum þeirra félaganna nýtur skopskyn Yrsu sín vel án þess þó að frásögnin verði farsakennd. Það er þó til í dæminu að höfundi förlist eins og þegar segir frá því að draumar Karls verði eins og staðið kók þegar þeir loks rætast. Ekki alveg nógu sniðug líking, of unglingsleg kannski. En yfirleitt linar húmorinn á fyrrgreindri óþolinmæði eða óþreyju og léttir aðeins á spennunni rétt áður en maður fer að gnísta tönnum. – Ég verð að nefna að á blaðsíðu 229 er líklega ruglað saman nafni barns og hunds og á síðu 355 er annar álíka nafnaruglingur.

Karl, sá eini þremenninganna sem enn sinnir radíóamatörismanum heyrir undarlegar talnarunur lesnar á stuttbylgjunni og kveikir alla vega fljótt á því að sumar þessar tölur eru nafnnúmer þótt aðrar tölur virðist óskiljanlegar framan af. Svo er eins og hann þvælist óvart inn í þungamiðju söguþráðarins. Maður fer að velta fyrir sér hvert stefni með þessa persónu, hvað hann sé að gera þarna, því að það er þó nokkuð forvitnilegt. Hvert ætlar höfundur með þennan unga mann?

Ástæður morðanna eiga sér að sumu leyti rætur í fortíðinni. Þannig er nú titill bókarinnar tilkominn en ekki endilega vegna heilmikilla DNA-rannsókna á vegum lögreglunnar. Það verður ekki skafið af Yrsu Sigurðardóttur að hún kann að magna upp eftirvæntingu lesandans. Í þessari bók er hún á fínu flugi og þegar líður á lesturinn er erfitt að leggja bókina frá sér og fara að gera eitthvað annað, til dæmis að fara að sofa.

DNA jafnast ekki á við bestu bækur Yrsu, Horfðu á mig, Ég man þig og Lygi, en stendur þokkalega vel fyrir sínu. Þegar hulunni er svipt af „vonda kallinum“ eru það nokkur  vonbrigði. Maður hafði svo sem rennt grun í það arna en vonaðist eftir einhverju mikilfenglegra, óskaði ef til vill eftir óvæntari sögulokum. Samt er ekki hægt annað en dást að kunnáttusemi höfundar við að halda manni við efnið.

Ingvi Þór Kormáksson, desember 2014