Í viðtölum vegna glæpasögu sinnar frá í fyrra, Horfðu á mig, talaði Yrsa Sigurðardóttir um að hana langaði til að skrifa bók sem væri meira í ætt við hrollvekju en glæpasögu. Og nú hefur hún uppfyllt þau loforð því nýja bókin, Ég man þig, er meiri draugasaga en glæpasaga þó vissulega komi glæpir og glæpsamlegt athæfi við sögu.
Svo virðist því sem Yrsa sé hér að bæta við sig þriðju bókmenntategundinni, en hún hóf ferilinn sem barnabókahöfundur og breytti svo yfir í glæpasögur, með lögfræðinginn Þóru í fararbroddi. En nú er hún hinsvegar komin á enn nýja braut, því Ég man þig er tæplega barnabók þó börn komi við sögu og hin úrræðagóða Þóra er með öllu fjarverandi.
Ég man þig inniheldur í raun tvær sögur sem eru sagðar til skiptis. Fyrst er lesandinn kynntur fyrir þremur manneskjum, ungum hjónum, Katrínu og Garðari, og vinkonu þeirra sem er nýorðin ekkja, Líf. Þau hafa fest kaup á yfirgefnu húsi á Hesteyri á Vestfjörðum og ætla að gera það að sumarhóteli. Í upphafi sögunnar stefna þau á vikudvöl að vetrarlagi til að vinna í húsinu, sem er í slæmu ásigkomulagi. Geðlæknirinn Freyr er aðalsöguhetja hinnar sögunnar. Hann hefur flutt á Ísafjörð til að flýja slæmar minningar, en sonur hans hvarf sporlaust þremur árum áður. Hjónabandið leystist upp í kjölfarið og fyrrum eiginkonan virðist veik á geði.
Saga Freys byrjar sem hefðbundin glæpasaga úr litlu þorpi, það eru framin skemmdarverk í skólanum og aldraður sjúklingur Freys rifjar upp að samskonar skemmdarverk voru framin áratugum áður. Freyr byrjar að kanna málið í félagi við lögreglukonuna Dagnýju sem hann hrífst af. Hann kemst meðal annars að því að nokkru áður en skemmdarverkin voru framin hafði drengur horfið sporlaust úr þorpinu. Málið minnir hann því dálítið á eigin harmleik og forvitni hans eykst. Allt virðist þetta svo tengjast sjálfsmorði konu sem gerist á svipuðum tíma og skemmdarverkin og síðan fara ýmsir dularfullir atburðir að láta á sér kræla.
Saga sumarhússins í eyðiþorpinu er hinsvegar meiri draugasaga alveg frá upphafi. Unga fólkið finnur vonda lykt, bein undir palli og verður vart ýmissa undarlegra hljóða. Skipstjórinn sem sigldi með þau yfir hafði enda gefið í skyn að þarna væri eitthvað undarlegt á seyði og allir góðir lesendur vita að þegar gamlir karlar taka til máls í svona sögum hafa þeir rétt fyrir sér. Fljótlega verða þau vör við dreng sem virðist uppspretta vandræðanna. Eitthvað eru samskiptin stirð, sérstaklega milli kvennanna tveggja, og ekki skánar ástandið þegar batteríin úr símunum tæmast fyrirvaralaust og þeim verður ógerlegt að hringja á hjálp.
Það er best að segja ekki meira, því eins og sjá má er hér kjörið upplegg fyrir spennandi og spúgí draugasögu. Ég gleypti hana í mig á tveimur myrkum kvöldum og ekki minnkaði það stemninguna að nágrannarnir virtust allir hafa sammælst um að gera einhverjar aðgerðir á híbýlum sínum, því reglulega heyrðust brestir og bank ýmist að utan, ofan eða neðan.
Yrsa nýtir margskonar efni, allt frá þjóðsögum til nútímahrollvekja. Þjóðsagnastefin birtast í hinum ýmsu merkjum um reimleika og af tilvísunum til nýrra efnis má nefna þekktar draugahússögur eins og The Haunting of Hill House eftir Shirley Jackson (1959), sem var innblástur sögu Stephen King, The Shining (1977). Annað stef úr þjóðsögunum eru draumar en jafnframt spilar nútímatækni hlutverk (draugahvísl er tekið upp á kvikmyndavél og farsíma). Húmorinn er heldur ekki fjarri, þó myrkrið sé mikið. Hér má einnig finna gotnesk stef um leyndarmál fortíðar og beinagrindur í skápum, auk þess sem Yrsa vinnur fimlega með báðar hefðir hinnar gotnesku skáldsögu. Hún er almennt talin skiptast í tvo meginflokka; annarsvegar á allt sér eðlilegar skýringar og hinsvegar á allt sér yfirnáttúrulegar skýringar. Allt spilar þetta vel saman og Yrsu tekst afskaplega vel upp í þessari sögu um leyndardóma fortíðarinnar. Þó viðbrögð þeirra Katrínar, Garðars og Lífar séu á stundum nokkuð ótrúverðug, þá ber að hafa í huga að þar fylgir Yrsa þekktri og kærri hefð hrollvekjunnar, en hún krefst þess einmitt að alltaf þegar persónur í hættu hafa val, þá velja þær rangt.
Enn annar þáttur sögunnar er svo kreppan, en ástæðan fyrir örvæntingarfullum aðgerðum á húsinu er sú að Garðar hefur tapað öllu, þar á meðal starfinu, og þau hjónin eru tæknilega gjaldþrota. Líf er hinsvegar vel stæð, meðal annars vegna þess að maður hennar tapaði minna og skildi að auki eftir sig feita líftryggingu. Yrsa notaði kreppuna líka á sannfærandi hátt sem umgjörð um Horfðu á mig, og hér virkar þessi bakgrunnur jafnvel enn sterkari, sem kaldur veruleiki andspænis hinum kuldalegu reimleikum.
Í þessu má enn á ný sjá ýmis kunnugleg ummerki hrollvekjunnar, en eitt einkenna hennar er einmitt vinna með sterkar andstæður og venjulegt fólk í ómögulegum aðstæðum. Af einhverjum ástæðum hafa sögur af þessu tagi ekki átt upp á pallborðið í íslenskum skáldskap, þrátt fyrir okkar auðuga þjóðsagnaarf og fullkomið umhverfi fyrir fjölskrúðug myrkraverk. Ég var því bæði sæl og glöð þegar ég hafði lokið lestrinum og vona sannarlega að Yrsa bjóði í framtíðinni upp á meira af þessu tagi.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010.