Það er alltaf gaman að láta koma sér á óvart í þeirri vertíðarstemningu sem einkennir íslenska bókaútgáfu. Hinu svokallaða jólabókaflóði vill oft fylgja nokkur fyrirsjáanleiki, fjölmiðlar keppast við að fjalla um það sem koma skal, viðtöl við höfunda, uppfull af yfirlýsingum um eigin verk, eru hvarvetna og gagnrýnandi verður að gæta fyllstu varúðar að verða ekki of blaseraður gagnvart þessu öllu saman.
Þegar bók Kristínar Steinsdóttur, Sólin sest að morgni, kom út fyrir tveimur árum þá vissi ég ekkert við hverju ég ætti að búast. Kristín var þá - og er enn - fyrst og fremst þekkt sem barnabókahöfundur og leikskáld, og hafði sem slík sent frá sér nokkurn fjölda verka. Þrátt fyrir að hafa verið afar hrifin af mörgum verka hennar, var ég síður hrifin af öðrum, og því, eins og áður sagði, alveg laus við að geta gert mér neina sérstaka fyrirfram hugmynd um skáldsögu hennar fyrir fullorðna. Það var því bæði sérstætt og áhrifamikið að lesa þessa frábæru sögu; ég man enn kringumstæðurnar, var í klippingu með hárið í lituðum hnúð á höfðinu, sat við risastóran og alltofbjartan spegilinn og hágrét. Það var því með mikilli eftirvæntingu sem ég las nýja skáldsögu Kristínar, Á eigin vegum, og get sagt það strax að ég varð ekki fyrir vonbriðgum. Vissulega hafði sagan ekki eins mikil áhrif á mig og sú fyrri, en það gæti líka verið vegna þess að nú vissi ég betur á hverju ég ætti von.
Kristín skrifar knappan, hæfilega ljóðrænan stíl, og notar hann til að koma ótrúlega mikilli sögu til skila, en þó bækurnar minni að umfangi á stuttar skáldsögur, eða nóvellur, þá eru þær í formi skyldari ‘venjulegum’ skáldsögum. Hér er sagt frá ekkjunni Sigþrúði sem býr í Norðurmýrinni og vinnur fyrir sér með því að bera út blöð. Líf hennar einkennist af nægjusemi og hefur gert alla tíð, sem kemur þó ekki í veg fyrir að hún eigi sér drauma. Móðir hennar sem var vinnukona í sveit ferst af barnsförum svo litla stúlkan er alin upp af eldri konu á bænum. Hjá henni á hún öruggt skjól sem barn, en þegar hún eldist fer að harðna á dalnum, því önnur hönd Sigþrúðar er óvenjuleg í laginu og minnir mest á selshreifa. Þetta gerir henni erfitt fyrir í námi auk þess sem hin börnin leggja hana í einelti, og Sigþrúður hörfar inní sig. Hún fer úr sveitinni við fyrsta tækifæri og kynnist manni, Tómasi, og saman flytjast þau svo til Reykjavíkur á efri árum. Tómas deyr og Sigþrúður tekur sig til og fyllir líf sitt ýmsu því sem hún hafði neitað sér um í hlédrægni sinni og fólksfælni.
Í stuttu máli felst þetta líf í því að mæta í jarðarfarir og syngja, auk þess sem hún leitar samviskusamlega uppi alla menningaratburði, sýningaropnanir og tónleika sem hún getur sótt frítt, því ekki hefur hún miklar tekjur. Hér gæti lesandi hugsað með sér: nú þetta er þá einskonar afæta, hræsnari sem gengur á lagið hjá grunlausu fólki, étur frítt og drekkur. En það væri mikill misskilningur, því í meðförum Kristínar verður Sigþrúður sú sem hvað helst kann að meta og setja sig inní hinar ólíku aðstæður sorgar og fögnuða. Hún hugsar hlýlega til hinna látnu og vill að þeim sé sýnd tilhlýðileg virðing og kann að njóta menningarinnar - vetrarhátíð og menningarnótt eru að sjálfsögðu í uppáhaldi! Á sama hátt og Kristínu tekst að gera persónu sem þessa áhugaverða og, svo ég segi það bara hreint út, góða, því Sigþrúður er umfram allt góð kona, þá sýnir hún líka einstaka færni í því að gæða hina hefðbundnu sveitasögu, af einmana utangarðsmanneskjunni, nýju lífi. Ekki síst hreifst ég síðan af því hvernig Kristín fléttar breytta tíma fimlega og fátlaust inní söguna, það er aldrei beint fjallað um það hvernig heimsmyndin gerbreytist á þeim tíma, síðari hluta tuttugustu aldar, sem sagan lýsir, heldur falla þessar breytingar hávaðalaust inní framvindu sögunnar, sérstaklega þegar kemur að því að Sigþrúður, sem hefur smátt og smátt orðið sjálfstæðari eftir dauða eiginmannsins, leggur drög að því að láta drauma sína rætast. Sá hluti, sem snýr að draumum hennar sem byggja á sögnum um að móðurafi hennar hafi verið franskættaður, er sömuleiðis sérlega vel unnin og verður aldrei tilgerðarlegur.
Sú nægjusemi sem einkennir líf Sigþrúðar skilar sér ennfremur í sjálfri skáldsögunni, texta hennar og viðfangsefni, og allt er þetta afskaplega gott dæmi um það hvernig skáldkonur starfa að skrifum, án gusugangs eða glannalegra yfirlýsinga, en skila síðan af sér verki sem ekki bara stendur fyllilega fyrir sínu heldur er svo miklu meira umfangs en útlitið gefur til kynna.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2006