Æviágrip
Kristín Steinsdóttir fæddist á Seyðisfirði 11. mars 1946. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri hóf hún nám við Kennaraskóla Íslands og útskrifaðist sem kennari 1968. Hún kenndi við gagnfræðadeild Réttarholtsskóla í Reykjavík í þrjú ár en hélt síðan til Kaupmannahafnar þar sem hún dvaldist veturinn 1971-72 við nám í dönsku og dönskum bókmenntum við Kennaraháskólann þar í borg. Þaðan fór hún til Göttingen í Þýskalandi þar sem hún var búsett næstu sex árin, frá 1972-1978 og lagði þar stund á nám í þýsku og dönsku meðfram heimilisstörfum og barnauppeldi. Árið 1978 fluttist hún ásamt fjölskyldu sinni til Noregs en ári síðar til Íslands og bjó lengst af á Akranesi fyrir utan ársdvöl í Þrándheimi í Noregi 1998 - 1999. Á Akranesi kenndi Kristín fyrst við Brekkubæjarskóla en eftir að hún lauk B.A. prófi í dönsku og þýsku frá HÍ kenndi hún við Fjölbrautaskóla Vesturlands þar til hún sneri sér alfarið að ritstörfum árið 1988.
Kristín sat í stjórn Rithöfundasambands Íslands frá 1993 - 2001 og varð síðan formaður samtakanna 2010. Hún var formaður stjórnar Samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda (SÍUNG) 1999 - 2003. Kristín hefur skrifað fjöld bóka fyrir börn og unglinga og einnig hefur hún þýtt barnabækur úr þýsku. Hún hefur samið leikrit, bæði fyrir svið og útvarp, í samstarfi við systur sína, Iðunni Steinsdóttur rithöfund og sent frá sér skáldsögur fyrir fullorðna. Kristín hefur einnig skrifað kvikmyndahandrit með styrk úr Kvikmyndasjóði.
Kristín hefur hlotið margskonar verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín. Fyrsta bók hennar, Franskbrauð með sultu, sem út kom 1987, hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin sama ár. Engill í vesturbænum (2002) er margverðlaunuð, hún hlaut meðal annars Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur 2003 og Norrænu barnabókaverðlaunin sama ár. Kristín hlaut viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins 2007.
Bækur eftir Kristínu hafa verið þýddar á önnur mál.
Kristín Steinsdóttir er gift og á þrjú uppkomin börn. Hún er búsett í Reykjavík.
Forlag: Vaka-Helgafell.
Ritþing um Kristínu Steinsdóttur í Gerðubergi 12. október 2013
Frá höfundi
Frá Kristínu Steinsdóttur
Einu sinni var stelpa austur á landi. Hún bjó í löngum firði með háum fjöllum. Þessi stelpa gat setið tímunum saman og horft upp í fjöllin eða út á fjörðinn, sem oftast var lygn. Af öllu þessu glápi þekkti hún klettana og hamrabeltin svo vel að enn þann dag í dag getur hún kallað þau fram í hugann með því að loka augunum. Hún vissi hvar bjuggu risar, skessur og huldufólk og þótt einhverjir héldu því fram að það væri ekki rétt skipti það ekki máli, því þetta var hennar heimur og í honum hafði hún hlutina eins og hún vildi ein.
Á veturna þegar myrkrið grúfði yfir og allir voru farnir í skólann nema hún, mamma og litli bróðir lá hún á bekknum í hlýju eldhúsinu vafin inn í sæng. Mamma sat á stól við eldavélina, las og drakk kaffi ef litli bróðir þagði. Á gamla trébekknum urðu til endalausar sögur og ævintýri. Það var eitthvað við þennan bekk sem gerði það að verkum að sögurnar bara komu. Seinna uppgötvaði hún að þær voru ekki bundnar bekknum en voru á næsta leiti hvar sem hún fór og urðu hennar bestu félagar. Stundum hágrét hún yfir örlögum sögupersóna eða hún gat ekki sofnað á kvöldin vegna spennusögunnar sem braust um í kollinum á henni. Umfjöllunarefnið var margbreytilegt. Allt frá því að vera dauði blinda kattarins í næsta húsi upp í skipstjórann, sem átti amerískan bíl og gat borðað niðursoðna ávexti upp úr dós allan ársins hring, þegar aðrir fengu þá í besta falli á jólum. Svo kom tímabil æsilegra ástarsagna – og leið hjá. Lítið sem ekkert af þessum sögum fór á blað og engum sagði hún þær. Öllum þessum sögum var eitt sameiginlegt: Það var náttúran sem gæddi þær lífi. Stúlkan þurfti alltaf að vera að lýsa háum fjöllum, fallegum skýjum, lygnum fjörðum eða marglitum blómum. Að öðrum kosti lifnuðu sögurnar ekki við. Hún gætti þess líka að missa aldrei af veðurfréttunum og gerir það enn í dag.
Og árin liðu. „Óttaleg hjáræna geturðu verið!“ sögðu menn. Hún herti sig, reyndi að láta ekki á neinu bera en naut þess að vera í sínum heimi í leiðinlegum tímum og á misjafnlega skemmtilegum vinnustöðum. Það var ekki fyrr en löngu seinna að rann upp fyrir þessari stelpu, sem þá var orðin fullorðin kona, að hún gæti haft atvinnu af því að skrifa niður hugsanir sínar. Hún sagði upp kennarastarfinu og varð rithöfundur. Upp frá því var hún alltaf í vinnunni!
Oft heyrir hún utan að sér að hún hafi verið dugleg og að það liggi mikið höfundarverk eftir hana. Þá brosir hún í kampinn. Menn ættu bara að sjá allt það sem ekki fór á blað, hugsar hún. Og hver veit nema það hafi verið bestu sögurnar!
Kristín Steinsdóttir, 2001
Um höfund
Segja má að rithöfundaferill Kristínar Steinsdóttur sé tvískiptur: Hún skrifaði í fyrstu barnabækur en hefur í seinni tíð snúið sér að skrifum fyrir fullorðna. Hér á vefnum birtast því tvær yfirlitsgreinar: Sú fyrri er eftir Katrínu Jakobsdóttur um barna- og ævintýrabækur Kristínar. Sú síðari er eftir Úlfhildi Dagsdóttur, hér að neðan.
Höfundur á tímamótum : Um barnabækur Kristínar Steinsdóttur
Kristín Steinsdóttir er með afkastameiri barnabókahöfundum þjóðarinnar.
Ferill hennar hófst 1987 þegar hún hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir fyrstu bók sína, Franskbrauð með sultu. Síðan þá hefur Kristín gefið úr fjölmargar bækur, hartnær eina á ári, og notið mikilla vinsælda.
Síðasta bók hennar, Engill í Vesturbænum (2002) hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar, þ.á m. Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur og Norrænu barnabókaverðlaunin. Segja má að sú bók marki ákveðin straumhvörf á ferli Kristínar enda allfrábrugðin fyrri bókum hennar.
Þær bækur sem Kristín er þekktust fyrir eru raunsæissögur. Hún fæst við vandamál hversdagsleikans en hefur einnig blandað dulrænu, þjóðtrú og þjóðlegum fróðleik inn í sögur sínar með góðum árangri. Margar þeirra gerast í fortíðinni og þar nefna þríleikinn um Lillu sem hófst með Franskbrauði með sultu og gerist um miðja 20. öld. Þá hefur hún skrifað hreinar ævintýrasögur en það form hefur þótt henta henni síður.
Algengt sögusvið í bókum Kristínar er sjávarþorp þar sem jökulinn ber við himin enda hefur Kristín lengst af verið búsett á Akranesi. Einnig gerast ýmsar bóka hennar austur á fjörðum en þar ólst Kristín einmitt upp. Nýjasta saga hennar gerist svo í Vesturbænum enda er Kristín nýlega flutt í póstnúmer 107. Því má segja að umhverfi höfundar verði henni uppspretta í bókum hennar.
Aðalpersónur eru ýmist drengir eða stúlkur og má segja að þar sem Kristínu tekst best upp nái hún að lýsa hugarheimi aðalpersóna sinna af stöku næmi og innsæi. Má þar nefna bækur eins og Franskbrauð með sultu, Fjólubláir dagar (1991), Kleinur og karrí (1999) og svo auðvitað verðlaunabókina Engil í Vesturbænum. Í öllum þessum sögum er höfuðáherslan á persónur og innri átök fremur en atburðarás og ytri spennu. Þrjár þær fyrrnefndu eru raunsæjar sögur en sú síðasttalda er fremur safn hugleiðinga þar sem ímyndunaraflinu er gefinn laus taumur þó að umfjöllunarefnið sé hversdagslegt umhverfi barnsins. Í þessum sögum tekst Kristínu mjög vel upp með því að nota lágstemmdan stíl og nýtir innsæi á hversu flóknar og margbrotnar hversdagslegar aðstæður geta orðið. Oft og tíðum stillir Kristín upp andstæðum gamals og nýs með því að láta börnin eiga mikil samskipti við afa sína eða ömmur og er sú raunin t.d. í þríleiknum um Lillu, Kleinum og karríii, Draugar vilja ekki dósagos (1992) og Krossgötum (2000).
Raunsæissögur
Ef farið er stuttlega yfir helstu verk Kristínar má flokka þau saman. Rétt er að taka fram að hér verður fjallað um helstu verk hennar og til að mynda ekki rætt um náms- og kennslubækur sem Kristín hefur skrifað.
Franskbrauð með sultu (1987), Fallin spýta (1988), Stjörnur og strákapör (1989), Fjólubláir dagar (1991), Ormurinn (1998) og Kleinur og karrí (1999) eru í hópi raunsæisbóka. Franskbrauð með sultu, Fallin spýta og Stjörnur og strákapör er þríleikur um Lillu, sjálfstæða stelpu sem lætur ekki að sér hæða og lendir oft í vanda vegna þess að hún talar og framkvæmir án þess að hugsa. Í Fjólubláum dögum og Kleinum og karríi eru aðalpersónur drengir sem eiga í miklum innri átökum enda að ganga í gegnum erfiða tíma, ýmist vegna ytri eða innri aðtæða.
Franskbrauð með sultu hlaut íslensku barnabókaverðlaunin og vakti athygli á Kristínu sem barnabókahöfundi. Hún gerist 1955 og segir frá því þegar Lilla þarf að dvelja sumarlangt hjá ömmu sinni og afa austur á fjörðum. Sumardvölin reynist bæði ævintýraleg og þroskandi og Lilla eignast nýja vini og tekur upp á ýmsu.
Fallin spýta og Stelpur og strákapör segja svo frá sömu persónum. Sögurnar eru einkar ljúfar og Kristínu lætur vel að segja frá gömlu dögunum, löngum rútuferðum í rigningu, ævintýralegum bíóferðum og síldarvinnslu á planinu.
Krakkarnir setja upp leikritð Skugga-Svein (sem er greinilega eitt af eftirlætisleikritum Kristínar þar sem það kemur einnig við sögu í Draugar vilja ekki dósagos) og finna upp á mörgu öðru sér til skemmtunar. Síðasta bókin gerist svo í Reykjavík.
Í Fjólubláum dögum segir frá Ella Palla sem er illa haldinn af unglingaveiki og skammast sín fyrir alla fjölskyldumeðlimi sína. Pabbi hans hefur engan áhuga á fótbolta, eins og pabbar eiga að hafa, mamma hans er alltaf upptekin enda kennari og líka í námi sjálf, litli bróðir hans, Bjartmar, er ekki eins og fólk er flest en hann er misþroska á einhverjum sviðum, og Begga litla systir hans er algjör frekja að mati Ella Palla. Þarna er tekið á ýmsum málum, s.s. einelti, hópþrýstingi og unglingaástum.
Ormurinn er stutt saga, ætluð ungum börnum, segir frá Rósu og Pétri, sem búa á Akranesi og leggja upp í leiðangur til að finna út hvaða ormur það sé sem hefur tekið sér bólsetu í maganum á mömmu Rósu. Pétur hefur ýmsar hugmyndir um orminn, að hann sé berjaormur, hringormur eða einhver þaðan af verri ormur en ormurinn reynist þó allt annars eðlis. Sniðug saga sem byggist einkum á ímyndunarafli Péturs og áhyggjum Rósu af því sem ekkert er. Vandamálin eiga því vel við yngri lesendur.
Kleinur og karrí er svo enn ein sagan um ungan dreng, Bjössa sem spilar á fiðlu fyrir sjófuglana og jökulinn sem gnæfir yfir þorpinu hans. Bjössi býr með litla bróður sínum og pabba en mamma hans dó í bílslysi. Úlfhildur frænka hans sem er árinu yngri á ekki til orð yfir leti og ómennsku Bjössa en hún vill sjálf alltaf vera á milljón og vill helst að allir séu þannig.
Úlfhildur þráir fjölskyldulíf en fær það ekki vegna fullkomnunaráráttu móður sinnar sem getur ekki unnt fólki að vera eins og það er. Í og með eru þessi frændsystkin að flýja tilveruna; Bjössi forðast tilhugsunina um móðurmissinn með því að gleyma sér í tónlistinni og náttúrunni en Úlfhildur forðast erfitt heimilisástand og rifrildi foreldra sinna með því að vera alltaf á fullu. Bjössi á því erfitt með að þola Úlfhildi sem helst vill þeyta honum um allt og vill ekki að hann sé skrýtinn:
„Úlfhildur!“ sagði ég aftur og nú stoppaði ég til þess að hún tæki eftir því að ég var að segja eitthvað. „Af hverju má ég ekki vera skrýtinn í friði?“ [...] „Þú ert frændi minn og næstum því bróðir minn og langafar okkar voru bræður og byggðu hús hlið við hlið.“ „Og hvað með það?“ „Ég vil ekki eiga ruglaðan frænda!“ sagði hún og lagði áherslu á hvert einasta orð. „Skilurðu það?“ (Kleinur og karrí, 20)
Þegar indversk fjölskylda flyst í kjallarann hjá Bjössa einkennist viðhorf Úlfhildar og móður hennar til útlendinganna af fordómum. Bjössi veit hins vegar að Úlfhildur, sem er afar vinsæl, gæti einmitt hjálpað indversku krökkunum að aðlagast samfélaginu og neyðist því til að eiga samskipti við hana til að hún taki Indverjana í sátt. Kleinur og karrí eru með bestu bókum Kristínar enda tekst henni þar einkar vel upp í persónusköpun og framvinda sögunnar fangar athygli lesanda þótt hún sé róleg.
Ævintýri, glens og grín
Kristín hefur einnig skrifað hreinræktaðar ævintýrasögur. Í þeim flokki eru Draugabækurnar, Draugar vilja ekki dósagos (1992) og Draugur í sjöunda himni (1994) ásamt Abrakadabra (1995). Tvær þær fyrsttöldu tengjast, í fyrri bókinni er Elsa litla í aðalhlutverki en hún kemst í kynni við drauginn Móra. Móri er svo aðalpersónan í síðari bókinni en þá fer hann til himna og verður engill. Abrakadabra fjallar um töframanninn Arg og drenginn Alla sem á heima í Njólanesi.
Draugar vilja ekki dósagos og Draugur í sjöunda himni nutu mikilla vinsælda. Þarna teflir Kristín saman andstæðum; nútíð og fortíð; strák og stelpu. Hún er reyndar á svipuðum slóðum í Vestur í bláinn þar sem einnig er teflt saman fortíð og nútíð en sú saga er alvarlegri. Í bókunum um Móra er grín og glens áberandi og ýmis spaugileg atvik búin til í tengslum við árekstra gamals og nýs. Fyrri bókin gerist í Hafnarfirði þar sem Móri er draugur, fastur milli þilja, vegna þess að bein hans hafa aldrei verið grafin í kirkjugarði. Aðalpersónan er þó Elsa sem missir ömmu sína á sama tíma og hún flytur í nýtt hús. Hún er hálf geðvond yfir þessu öllu saman en Móri hleypir nýju fjöri í tilveruna og Elsa verður bjargvættur hans með því að finna beinin.
Seinni bókin gerist í himnaríki. Þar ríkir skýr stéttaskipting og Móri (sem heitir reyndar Gabríel Móri núna vegna þess að englar verða að heita englanöfnum) á erfitt með að vinna sig upp úr fyrsta himni þar sem hann nennir varla að læra alla þá sálma sem almennilegir englar eiga að kunna.
En hann þráir hins vegar ekkert heitar en að verða smali og til þess þarf hann að komast í dýraríkið og þangað geta almennir englar á fyrsta himni ekki komist án þess að læra sálmana – eða með því að fá sérstakt leyfi hjá almættinu sjálfu sem er í sjöunda himni. Elsa kemur aðeins lítillega við sögu í þessari sögu en kemur Móra til hjálpar enn og aftur.
Í þessum sögum er ýmsum skemmtilegum vangaveltum varpað fram um eðli lífs og dauða, himnaríkis og almættis.
Abrakadabra segir frá Alla sem á heima í Njólanesi og kemst í kynni við Arg töfrakarl sem snýr öllu á hvolf í bænum. Argur er einkar geðstirður töfrakarl, töfrar fram heilu skógana (en hann er sjálfur úr Svartaskógi) og veldur almennum usla. Alli og vinir hans eyða svo sögunni í að reyna að losna við Arg án þess að grunsemdir hinna fullorðnu vakni. Þarna kemur við sögu minnið um að fólk á málverkum eigi sér sérstaka tilveru sem Kristín vinnur svo mun betur úr í sögunni Vestur í bláinn. Þetta minni kemur einnig fyrir í Franskbrauði með sultu þar sem það rétt ber á góma.
Þjóðtrú, sagnfræði og nútími
Segja má að Vestur í bláinn (1997) og Krossgötur (2000) séu nokkurs konar ævintýrasögur en þær eru með mun alvarlegri og raunsærri undirtón. Í Vestur í bláinn er tvinnað saman sagnfræði, yfirnáttúrulegir atburðir og raunsæissaga úr nútímanum sem segir frá Þóru, þrettán ára stelpu, sem á yfirnáttúrulegan hátt fer inn í málverk og ferðast með jafnöldru sinni, Magneu, vestur um haf til Winnipeg á 19. öld og lendir þar í þrengingum og harðindum sem verða til þess að hún lítur eigin tilveru öðrum og bjartari augum. Þessi saga er hluti af þeirri bylgju barnabóka sem sameinuðu þjóðtrú, sagnfræði og nútímaveruleika sem var mjög áberandi á seinni hluta tíunda áratugarins. Líklega tengist þessi áhugi hér á landi á dulrænu og yfirnáttúrulegum viðburðum áhuga um allan heim á göldrum og ævintýrum sem má til dæmis sjá á vinsældum bókanna um Harry Potter og margra fleiri. Hér á landi hefur þessi bylgja verið tengd þjóðtrú og einnig verið nýtt til að varpa ljósi á forna tíma og þjóðhætti (t.d. með ferðum aftur í tímann).
Kristín er á svipuðum slóðum í Krossgötum þar sem þjóðtrúin leikur þó enn stærra hlutverk. Þar er farið í smiðju gamalla íslenskra þjóðsagna. Þrír unglingar, Stína, Addi og Eyvi, þurfa að vinna verkefni um þjóðsögur fyrir skólann. Fyrir valinu verður álfasagan um krossgötur á nýjársnótt. Verkefnisvinnan leiðir þau hins vegar á slóðir handanheimsins og voðinn er vís.
Leiðarminni er dauðinn og líf eftir dauðann og ýmis þjóðsagnakennd fyrirbæri gegna mikilvægu hlutverki. Þannig má segja að gamlar þjóðsögur lifni við í þessari nýju sögu, hugsanlega í breyttri mynd en samt kunnuglegar. Stína fær mest pláss hjá höfundi. Persónusköpun Eyva og þó sérílagi Adda tekst einnig vel en sá síðarnefndi er eins konar jákvæður póll í sögunni sem heldur jarðsambandi allan tímann. Jarðbundnir lesendur eiga því auðvelt með að samsama sig honum. Stína og Eyvi eru hins vegar heillaðri af dulræna sviðinu og sagan vekur spurningar um hvernig eigi að taka á yfirnáttúrulegum hlutum, hvort á maður að forðast þá eða sækja í þá, trúa öllu eða hafna öllu. Í þessum flóknu málum er langamma Stínu sú sem veit flest svörin og gegnir því hlutverki vitringsins í sögunni.
Tímamót
Síðust en ekki síst af bókum Kristínar er verðlaunabókin Engill í Vesturbænum (2002) en þar er hún á nýjum slóðum í frásagnaraðferð.
Uppbygging sögunnar er nýstárleg í barnabók en hún er sett saman úr hugsanabrotum og hugleiðingum lítils drengs í Vesturbænum. Þessi brot mynda þó heildstæða sögu. Ekki er gerður greinarmunur á ímyndun og veruleika. Sagan hefur því tvöfalt ávarp þar sem fullorðnir lesendur geta greint á milli en ungir lesendur hrífast með inn í draumaheiminn. Með öðrum orðum má segja að börn og fullorðnir lesi ekki hið sama út úr sögunni. Úlfurinn í kjallaranum er úlfur í huga sögumanns og bernskra lesenda en hinir fullorðnu sjá að í úlfinum býr ógn við sögumann; sá hinn sami úlfur hefur nefnilega hug á móður sögumanns. Engillinn sjálfur sem sagan er kennd við táknar vaxandi þroska sögumanns og í sögulok getur hann glaður gefið engilinn því að hann hefur staðist ákveðnar þolraunir (sem þó eru hversdagslegar í raun) á leið til aukins þroska og veit að engillinn hjálpar öðrum betur nú (í þessu tilfelli litla bróður hans).
Myndir Höllu Sólveigar Þorgeirsdóttur kallast vel á við frumlega uppbyggingu sögunnar. Þær eru einfaldar að uppbyggingu og á þeim eru dregin fram aðalatriði textans. Má með sanni segja að samspil mynda og texta geri söguna að heildstæðri upplifun sem má kallast frumlegt verk í íslenskri barnabókmenntasögu.
Segja má að Kristín Steinsdóttir standi á tímamótum í höfundarferli sínum, rétt eins og hún stóð á tímamótum þegar hún vann Íslensku barnabókaverðlaunin 1987 en áður hafði hún einkum fengist við að semja leikrit ásamt Iðunni systur sinni. Hún hefur þegar sannað sig sem einn vinsælasti og frambærilegasti barnabókahöfundur þjóðarinnar og nú er spurning hvort hún haldi inn á nýjar brautir í skáldskap sínum.
© Katrín Jakobsdóttir, 2003
Líf og lín – vefnaður sögunnar
Eftir að hafa skrifað skáldsögur fyrir börn um árabil sendi Kristín Steinsdóttir frá sér skáldsögu fyrir fullorðna, Sólin sest að morgni, árið 2004. Síðan þá hefur hún aðallega skrifað fyrir fullorðna, þó börnin hafi vissuleg ekki alveg verið höfðu útundan. Hér verður fjallað um verk Kristínar fyrir fullorðna, sem þegar þetta er skrifað (2018) telur sex skáldsögur.
Mæður og minningar
Fyrsta bók Kristínar fyrir fullorðna, Sólin sest að morgni, er gefin út sem skáldsaga en hún er þó greinilega sjálfsævisöguleg. Þar lýsir Kristín barnæsku sinni og uppvexti í stuttum minningarbrotum. Megináherslan er á fjölskylduna, fjölskyldulífið í sveit og sérstaklega er hugað að veikindum móður hennar. Bókin endar með láti hennar, en hún hafði verið hjartveik:
Í kreppunni barst skarlatssótti til landsins. Hún byrjaði með háum hita, höfuðverk og særindum í hálsi. Næsta stig voru rauð útbrot og hreistrun. Menn dóu, einkum börn og unglingar. Aðrir sátu uppi með nýrnaskaða og urðu margir skammlífir. Hjá sumum beið hjartað aldrei bætur. Þeir áttu við áralöng veikindi að stríða.
Mamma er í þeim hópi. (13)
Bókin er að miklu leyti helguð minningu móðurinnar, þó faðirinn, amma og systkin leiki einnig hlutverk. „„Hvernig var amma?“ spurði lítil manneskja einu sinni. Við vorum að dunda okkur í hlýju eldhúsinu. Ég hefði viljað segja frá veröld fullri af sólskini, frá öryggi og óbrotnum heimi en þá var eins og færi að snjóa og það setti hroll í bakið á mér“ (14). Þannig hvíla veikindi og dauði móðurinnar eins og skuggi yfir allri sögunni, en þó er þar líka mikið af hlýju og gleði – og sól. Saman við minningarnar um móðurina blandast svo söknuður eftir sveitinni og umhverfi náttúrunnar.
Það er greinilegt að Kristín nýtir vel hæfni sína í að skrifa bækur fyrir börn og fangar vel tóntegund lítillar stúlku sem horfir á sinn heim og veltir fyrir sér stöðu sinni innan hans. Eftir því sem hún eldist breytist stíllinn líka og þannig á lesandi auðvelt með að fylgja stúlkunni eftir inn í unglingsárin. Inni á milli minninga koma svo brot úr nútímanum, sem stundum taka á sig form samtals eins og sést strax í upphafi sögunnar:
„Af hverju fórstu?“ spyr ég mig stundum. Yfirgafst sólina og snarbrött fjöllin.
„Ég yfirgaf ekki neitt,“ svara ég snefsin á móti. „Stakk sólinni í poka, pakkaði fjöllunum saman og fór með þau. Og þegar mig vantar fjall, opna ég glugga og það er enn á sínum stað.“ (9)
Þetta innra samtal á sér rætur í bernskunni þegar stúlkan uppgötvar að innra með henni býr önnur stúlka, Tobba, sem er alltaf hlýðin og góð og þannig vill sögukonan gjarna vera. En fyrirmyndirnar sem hún sækir til eru hörkukonur sem láta ekki eiga neitt hjá sér: „Það er dyggð að kunna að svara fyrir sig. Hallgerður langbrók og Bergþóra létu aldrei sinn hlut fyrir neinum“ (19). Sömuleiðis á móðirin formóður sem hún lítur upp til: „Grundar-Helga var mikil kona. Hún lét safna liði og drepa Smið Andrésson harðstjóra og skattpínanda á Grund í Eyjafirði árið 1361. Mamma er beinn afkomandi Grundar-Helgu í nítjánda lið. Það er henni mikils virði. Hún sækir kjark til þessarar sterku konu og íklæðist styrk hennar þó að sexhundruð ár séu liðin“ (30). Þessar öflugu konur eru þær sem mæðgurnar ákalla fremur en guð, en þó viðurkennir sögukonan að kannski hefði mátt milda hörkuna og ræða hlutina „í stað þess að vera alltaf svona kjarkmikil og dugleg“ (31). Þannig skapast margradda samtal innan minninganna, milli sögu og ævintýra, nútíma og fortíðar.
Bókin er stutt og í henni er birtur nokkur fjöldi ljósmynda, sem sýna höfund og fjölskyldu á þeim tíma sem sagan er skrifuð. Gunnþórunn Guðmundsdóttir hefur skrifað um þátt ljósmynda í æviskrifum og bent á margrætt hlutverk þeirra þegar kemur að minningum og einnig gleymsku. Í umfjöllun sinni um Sólin sest að morgni segir Gunnþórunn: „Ljósmyndirnar staðsetja okkur svo frekar í tíma og rúmi með því að segja „svona litu þau út“, „þarna bjuggu þau“, en um leið minna þær okkur á aðrar fjölskyldur geymdar í öðrum albúmum“ (https://bokmenntir.is/umfjollun/solin-sest-ad-morgni).
Í bók sinni Representations of Forgetting in Life Writing and Fiction (2017) fjallar Gunnþórunn um hlutverk ljósmynda í æviskrifum og skáldskap sem byggir á heimildum og bendir á hvernig ljósmyndir hafa orðið að mikilvægum hluta slíkra bókmennta, hvort sem þær birtast í sögunni eða er lýst. Þær þjóna því hlutverki að muna, eru fastir punktar í hinu síkvikula minni sem allir búa við (147). Fjölskyldumyndir eru hluti af einkaskjalasafni hvers og eins en það er einmitt háð bæði minni og gleymsku og því stöðuga ferli að endurvinna söguna og fortíðina (47).
Og fortíðin og fjölskyldan heldur áfram að vera viðfangsefni Kristínar í þriðju skáldsögu hennar, Ljósu (2011). Í Sólin sest að morgni hittum við móðurömmu stúlkunnar sem er henni mikill stuðningur auk þess að vera berdreymin. Föðuramman er látin. Hennar er getið stuttlega í síðari hluta sögunnar: „Ég heiti í höfuðið á föðurömmu minni. Hún var Skaftfellingur, trúuð kona en varð geðveik og dó í einangrun“ (56).
Þessi föðuramma er fyrirmyndi aðalsöguhetjunnar í Ljósu. Sú saga er þó ekki sögð í samskonar minningarbrotum og er öllu hefðbundnari söguleg skáldsaga, án þess þó að tapa neinum af þeim sjarma sem einkennir Sólina.
Aðalumfjöllunarefni verksins er vaxandi geðsýki eða hugsýki aðalsöguhetjunnar, Ljósu. Ljósa er dóttir hreppstjórahjóna á Austurlandi síðla á nítjándu öld. Hún á stóran systkinahóp, ekki síst vegna þess að faðir hennar er ákaflega lauslátur og barnar bæði vinnukonur og aðrar konur sem á vegi hans verða. Ljósa elskar móður sína og dáir föður sinn líka, þrátt fyrir þessa bresti hans sem hún sér að valda móðurinni mikilli sorg. Strax hér hefst ómöguleg togstreita innra með stúlkunni, sem á sinn þátt í andlegum erfiðleikum hennar. Hún kynnist ungum manni sem faðirinn hafnar, meðal annars vegna þess að hann er brjóstveikur, og sendir stúlkuna í skóla til Reykjavíkur. Þar blómstrar hún, enda gædd góðri greind og listrænum hæfileikum þegar kemur að saumaskap og orgelleik. Hún er þó hætt komin þegar ljóst verður að af frekara sambandi við piltinn verður ekki.
Ljósa fer aftur heim í sveitina til foreldra sinna og sver að yfirgefa þau aldrei, enda vill hún vera móður sinni stuðningur. Ungur maður, Vigfús, biður hennar og eftir nokkra umhugsun játast hún honum, án þess þó að elska hann verulega. Hún krefst þess að vera áfram heima, en andrúmsloftið á heimilinu er ekki gott, ekki síst vegna þess að faðirinn er ekki sáttur við tengdasoninn. Hugsýki Ljósu eykst og eykst svo enn þegar Vigfús kaupir jörð og heimtar að flytja þangað.
Það er sérlega eftirtektarvert að fylgjast með því hvernig höfundur byggir upp heim geðveikinnar í samspili við stöðu konunnar. Ljósa er góðu vön frá hreppstjóraheimilinu en eiginmaðurinn forsmáir alla sóun - er greinilega svo hagsýnn að það jaðrar við nísku. Að sjálfsögðu er það huggun kvennanna, kaffi og sætabrauð, sem er meðal þess sem hann gagnrýnir. Sömuleiðis hefur hann takmarkaða þolinmæði gagnvart hannyrðum konu sinnar, og það þrátt fyrir að þær hafi ótvírætt praktískt gildi, bæði fyrir fjölskylduna og heimilið og svo til að bera björg í bú en Ljósa er eftirsótt saumakona. Það sama á við um orgelleikinn og sönginn, sem er ein helsta gleði Ljósu. Hér kemur strax fram togstreita kynjanna, Vigfús vill að eiginkonan hugsi um heimilið að hefðbundnum hætti og skilur ekki þörf hennar fyrir að láta sköpunargleðina njóta sín í saumaskap og söng. En því er ítrekað lýst hvernig þessi tvö atriði hjálpa henni að halda heilsu.
í þessu samhengi má nefna þekkta smásögu bandarísku skáldkonunnar Charlotte Perkins Gilman, „Gula veggfóðrið“ (1892, á ísl. 1982), sem einmitt er skrifuð um sama leyti og skáldsaga Kristínar gerist, en þar verður sögukonan smám saman geðveik vegna þess að henni tekst ekki að uppfylla hefðbundið eiginkonuhlutverk.
Kristín tengir geðsýki Ljósu hefðbundnum íslenskum temum, en að sögn hafði álfkona lagt álög á föður hennar. Sjálf á hún sér álfkonulund og sér einnig framliðna. Þessi skyggnigáfa eykst svo mjög þegar andlegu ástandi hrakar og lesandi áttar sig á að mögulega voru yfirnáttúrulegir hæfileikar alltaf hluti af geðveiki stúlkunnar.
Á þennan hátt mætast margir ólíkir heimar í skáldsögu Kristínar Steinsdóttur og líkt og saumaskapurinn leikur í höndum Ljósu er færni höfundar í því að þætta saman þessa þræði ótvíræð.
Vegir konunnar (eru órannsakanlegir)
Önnur skáldsaga Kristínar, Á eigin vegum (2008), er allólík fyrstu bókinni, þó hún sé einnig stutt og minni á hið eðla form nóvellunnar. Hér er sagt frá ekkjunni Sigþrúði sem býr í Norðurmýrinni og vinnur fyrir sér með því að bera út blöð. Líf hennar einkennist af nægjusemi og hefur gert alla tíð, sem kemur þó ekki í veg fyrir að hún eigi sér drauma. Móðir hennar sem var vinnukona í sveit ferst af barnsförum svo litla stúlkan er alin upp af eldri konu á bænum. Hjá henni á hún öruggt skjól sem barn, en þegar hún eldist fer að harðna á dalnum, því önnur hönd Sigþrúðar er óvenjuleg í laginu og minnir mest á selshreifa. Þetta gerir henni erfitt fyrir í námi auk þess sem hin börnin leggja hana í einelti, og Sigþrúður hörfar inn í sig. Hún fer úr sveitinni við fyrsta tækifæri og kynnist manni, Tómasi, og saman flytjast þau svo til Reykjavíkur á efri árum. Tómas deyr og Sigþrúður tekur sig til og fyllir líf sitt ýmsu því sem hún hafði neitað sér um í hlédrægni sinni og fólksfælni.
Í stuttu máli felst þetta líf í því að mæta í jarðarfarir og syngja, auk þess sem hún leitar samviskusamlega uppi alla menningaratburði, sýningaropnanir og tónleika sem hún getur sótt frítt, því ekki hefur hún miklar tekjur. Þó er langt því frá að hún sé neinskonar afæta, hræsnari sem gengur á lagið hjá grunlausu fólki, étur frítt og drekkur. Í meðförum Kristínar verður Sigþrúður sú sem hvað helst kann að meta og setja sig inn í hinar ólíku aðstæður sorgar og fögnuða. Hún hugsar hlýlega til hinna látnu og vill að þeim sé sýnd tilhlýðileg virðing og kann að njóta menningarinnar. Sú nægjusemi sem einkennir líf Sigþrúðar endurspeglast fagurlega í sjálfri skáldsögunni, texta hennar og viðfangsefni.
Einnig er athyglisvert hvernig Kristín fléttar breytta tíma fimlega og fátlaust inn í söguna, það er aldrei beint fjallað um það hvernig heimsmyndin gerbreytist á þeim tíma, síðari hluta tuttugustu aldar, sem sagan lýsir, heldur falla þessar breytingar hávaðalaust að framvindu sögunnar, sérstaklega þegar kemur að því að Sigþrúður, sem hefur smátt og smátt orðið sjálfstæðari eftir dauða eiginmannsins, leggur drög að því að láta drauma sína rætast. Sá hluti, sem snýr að draumum hennar sem byggja á sögnum um að móðurafi hennar hafi verið franskættaður, er sömuleiðis sérlega vel unnin og verður aldrei tilgerðarlegur.
Lífið eftir ‚lífið‘ er aftur viðfangsefni Kristínar í skáldsögunni Ekki vera sár (2017). Þar er lýst konu, Ingibjörgu eða Imbu, sem er komin á eftirlaun og við tekur tilvera sem er ekki alveg eins og hún hafði hugsað sér. Aðallega kemur henni þó á óvart að uppgötva að eftir áratuga hjónaband er hún ekki alveg viss um hvernig ævi hennar hefur verið varið. Hjónin eru bæði hætt að vinna, en svo virðist sem aukin samvera sé ekki eins velkomin og ætla mætti og eiginmaðurinn heldur sig aðallega í sumarbústað sem hann er að gera upp. Hún þarf því að skoða sjálfa sig og sínar væntingar til lífsins.
Þessi sjálfskoðun fer fram í formi upprifjunar, en hluti sögunnar fjallar um ævi Imbu, æskuár hennar í Reykjavík á eftirstríðsárunum og foreldrana sem eru að reyna að koma undir sig fótunum, en drykkja föðurins setur strik í þann reikning. Stúlkan reynir að hjálpa móðurinni eftir bestu getu og verður ung ábyrg. En að sama skapi upplifir hún sorg og einmanaleika, því hún nær ekki að tengjast móður sinni á þann hátt sem hún þráir og faðirinn yfirgefur fjölskylduna að lokum. Imba er því alltaf að berjast við að sanna sig en upplifir stöðugt að standa ekki undir væntingum – aðallega þó væntingum sjálfrar sín.
En þrátt fyrir allt tekst Imbu að mennta sig, hún fer í Kennaraskólann og vinnur svo alla tíð sem kennari. Hún kynnist eiginmanninum, Jónasi, og eignast með honum þrjú börn og skapar sjálfri sér því þá tryggu tilveru sem móðir hennar eignaðist aldrei. En til þess þarf Imba að gefa sjálfa sig eftir, ef svo má segja. Þegar hún hefur tíma til að hugsa um annað en fjölskylduna áttar hún sig á því að sambandið við Jónas hefur verið mest á hans forsendum. Henni finnst hún hafa tapað markmiðum sínum og draumum og í staðinn gengið inn í hlutverk og heimssýn sem var ekki endilega sú sem hún hafði séð fyrir sér. Hún finnur fyrir óþoli og óróa sem á rætur sínar að rekja til þeirrar mótsagnar sem hún upplifir milli væntinga ungu konunnar sem hún var og stöðu þeirrar fullorðnu konu sem hún er orðin.
Sem fyrr er stíll Kristínar hógvær og saga konunnar einkennist af kyrrlátri skoðun á sjálfri sér og sambandi sínu við manninn – og ævinni sem hún hefur lifað. Líkt og Sigþrúður á hún sér allskonar drauma um það sem hana langar að gera, en ræður ekki vel við að uppfylla þá. Það er líka ákveðinn húmor í sögunni sem snýr að stöðugu vafstri eiginmannsins í bústaðnum. Jónas nýtur þess að vera í kyrrðinni utan við borgarmörkin og dunda sér við þau margvíslegu handverk sem fylgja því að hressa upp á bústaðinn – hann skilur ekkert í því að konan vilji ekki það sama.
Í raun má segja að þessar tvær sögur lýsi ólíkum örlögum kvenna, þó báðar eigi sér svipaðar fortíð þá vinna þær á ólíkan hátt úr tilverunni. Sigþrúður nær að fanga drauma sína og skapa sér líf úr litlu, meðan Imba, sem í raun á meira, uppgötvar að hún hefur farist á mis við það sem hana sjálfa langaði mest til að gera. Það sem gerir báðar sögurnar svo sérlega áhugaverðar er að þær fjalla um æviskeið kvenna sem yfirleitt er ósýnilegt í bókmenntum og varpa upp krefjandi spurningum um hlutverk konunnar innan fjölskyldunnar og stöðu hennar þegar því hlutverki er ‚lokið‘.
Konur og koppar
Tilvísanir til bókmennta einkenna mjög fyrstu skáldsögu Kristínar, Sólin sest að morgni, en eins og áður segir tengja þær mæðgur vel við kraftmiklar fornkonur. Þjóðsögur eru einnig lifandi hluti minningabókanna. Í fjórðu skáldsögu sinni, Bjarna-Dísu (2012), tekur Kristín beinlínis fyrir þekkta þjóðsögu og skrifar um hana skáldsögu. Sem fyrr er áherslan á að lýsa stöðu konunnar, en bókinni er beinlínis ætlað að gagnrýna hefðbunda sýn á Dísu.
Draugasagan um Bjarna-Dísu er kannski ekki eins þekkt og frægustu íslensku draugasögurnar, en hún er samt afar minnisstæð, ekki síst fyrir lýsinguna á háttalagi afturgangna. Samkvæmt sögunni þurfa afturgöngur að feta sig fjóra faðma burt og stökkva svo öfugt í einu hlaupi jafnfætis aftur í bæli sitt. Tveimur þessara hafði Dísa náð þegar komið var að henni eftir fimm daga dvöl í fönn, en það þriðja vantaði og því náði hún ekki að verða eins kraftmikil og skyldi. Annað eftirminnilegt atriði úr sögunni er svo auðvitað klæðaburður stúlkunnar, enda er það hann sem hvað mest er gert úr, en Þórdís þótti fín með sig og vildi aðeins ganga í þunnum fötum með útlendu sniði. Að auki var hún svarri í skapi og því má ljóst vera að konan var frá upphafi varasöm og ekki nema eðlilegt að svona færi.
Þjóðsagan er í stuttu máli þessi: Bjarni Þorgeirsson er á ferð yfir austfirði og systir hans Þórdís slæst í för með honum. Þegar þau ætla að leggja af stað yfir Fjarðarheiði „var veður þykkt og snæfall með talsverðu frosti“ („Bjarna-Dísa“, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, bindi III, 1958, bls. 298). Óveðrið skellur samviskusamlega á og Dísa þreytist og gefst upp. Bjarni grefur hana í fönn og heldur áfram og kemst að lokum illa farinn að bænum Firði í Seyðisfirði. Óveðrið heldur áfram, en „á fimmta dægri eftir að hann skildi við Dísu rofaði lítið eitt til“ (299) og Bjarni leggur af stað með bóndanum í Firði, Þorvaldi sem lýst er sem óttalausum manni, og Jóni vinnumanni sem kallaður er drengur góður. Um nóttina finna þeir Dísu, það er tunglskin og veður í skýjum – menn voru ekki ónæmir á dramatískt andrúmsloft á átjándu öldinni. Þeir heyra öskur og sjá svo Dísu: „Var hún þá ei, sem hann mundi vænta dauðrar manneskju, liggjandi, heldur er hún því líkast sem menn eru á setum sínum. Léreftskjóllinn var í göndli um mittið á henni gaddfrosinn og hún ber fyrir neðan og berhöfðuð“ (299). Þorvaldur tekur hana í fang sér og ætlar að færa hana í buxur sínar, til að hún væri ekki ber, en þá öskrar stúlkan á ný. Þorvaldur ógnar henni öllu illu og „skaut Dísu hart niður“ (300), klæðir hana svo og býr um á börum. Þeir halda heim en Dísa gengur aftur og er meðal annars kennt um að þrettán börn Bjarna deyja „öll ung og bráðlega“ (300). Hún nær sem sagt að ganga aftur, þrátt fyrir að hafa ekki klárað stökkin.
Bjarna-Dísa er að hluta til byggð á heimildum um Þórdísi, auk draugasögunnar. Sagan hefst á því að þau systkynin leggja á heiðina, alveg eins og í draugasögunni og henni lýkur á því að Dísa finnst. Inn í þessa ferða- og hrakningasögu er svo skotið lífshlaupi Dísu, auk sögu móður hennar og móðursysturinnar Veigu. Allt er þetta haganlega smíðað, vandað og vel á haldið. Kristín hafnar því neikvæða ljósi sem varpað er á Dísu í þjóðsögunni. Í staðinn er brugðið upp nokkuð hefðbundinni sveitasögu, um unga lífsglaða og skapmikla stúlku, sem þrátt fyrir fátækt og fátæklegan bakgrunn á sér drauma um annað líf, ástir og ævintýri.
Kristín tekur þá afstöðu að hafna því alfarið að Dísa hafi verið svo vitlaus að klæða sig ekki betur fyrir ferðina yfir heiðina. Í því felst helsti glæpur Dísu og í þá lýsingu má einmitt lesa þörf hennar fyrir að lifa öðru lífi en hún gerir; metnaður fyrir að vera betri. Í sögu Kristínar hefur Dísa vissulega þann metnað, en hann birtist ekki í því heimskulega háttalagi að rjúka fáklædd út um hávetur heldur í því að fylgjast vel með umhverfi sínu, ekki síst þegar hún er í vist hjá fínni frú á Eskifirði. Metnaðurinn verður Dísu að falli í þjóðsögunni, en þrá eftir einhverju útlensku þótti ekki gott.
Það er því bæði stéttaskipting og kynjamisrétti sem hér býr að baki og er svo vandlega undirstrikað í lýsingunni á því þegar Þorvaldur bóndi og Bjarni bróðir klæða hana í buxur Þorvaldar – beinlínis hefta hana með tákni karlveldisins, svo gripið sé til femínískrar orðræðu.
Í bók sinni From the Beast to the Blonde (1995) ræðir Marina Warner konur í þjóðsögum og ævintýrum, ekki bara sem persónur heldur líka sem sögukonur. Áhersla Warner er að kanna hvernig konur hafa notað sér þessar frásagnir til að fjalla um ýmis þau málefni sem snerta konur sérstaklega, auk þess sem hún ræðir kvenpersónur og sögukonur í samhengi við þá ríkjandi hefð að sjá þennan sagnaarf sem höfundarverk karla, þeirra þekktastir eru aðvitað Grimms bræður (sem Jón Árnason tileinkar sagnasafn sitt). Það þarf ekki miklar ófreskigáfur til að skoða skáldsögu Kristínar Steindóttur í ljósi þessara skrifa Warner.
Skáldsaga Kristínar sýnir allt aðra mynd af Dísu en þá sem birtist í þjóðsögunni, auk þess sem hún setur ferðalagið í samhengi og lýsir svo upplifunum Dísu þessa daga sem hún liggur í fönninni. Höfundur lýsir vel hjátrú þessa tíma og þeirri stöðugu ásókn drauga sem Þórdís verður fyrir þar sem hún liggur í fönninni. Kristín snýr því dæminu við: í stað þess að segja frá Dísu sem afturgenginni meinvætt lýsir hún því hvernig hún sjálf verður fyrir ásóknum, drauga og manna, sem á endanum verða henni að aldurtila.
Stétt og staða vinnukvenna er einnig viðfangsefni fimmtu skáldsögu Kristínar, Vonarlandið (2014). Vonarlandið segir aðallega sögu Guðfinnu, ungrar vinnukonu sem eftir að hafa unnið árum saman á fjölda bæja tekur sig upp með nýrri vinkonu, Stefaníu, sem einnig er vinnukona, og fer til Reykjavíkur í von um nýtt líf. Hana dreymir um vist í fínu húsi þar sem hún mun fljótlega hitta vel stæðan ungan mann. Aðallega dreymir hana þó um sjálfstæði, að ráða sér sjálf en vera ekki upp á aðra komin. Stefanía hefur sambönd í bænum og kemur þeim í leigu í þurrabúðinni Litlakoti og með því hefst saga ólíkra kvenna sem þó deila örlögum. Þorfinnur smiður, eigandi Litlakots, er drykkjumaður og kona hans Margrét sér fyrir honum með ýmiskonar dagvinnu. Fyrir utan stúlkurnar tvær býr Jóka vatnsberi líka í húsinu. Þó þvottavinnan verði fljótlega helsta viðværi stúlknanna vinna þær líka við fisk- og kolaburð og þannig er dregin upp mynd af helstu tegundum þess strits sem konum bauðst á þessum tíma – en sagan gerist á áttunda áratug nítjándu aldar og kemur konungsheimsóknin og stjórnarskráin meðal annars stuttlega við sögu.
Kristín kann svo vel þá tækni að segja mikið í stuttu máli. Þannig er komið inn á ansi margt, allt frá dönskuskotnu ‚fínu‘ máli (bollar eru kallaðir koppar) til stöðu útlendinga í bænum. Þessar sögulegu tilvísanir eru ævinlega settar í samhengi við líf kvennanna og á sama hátt er bæjarbragnum lýst á sannferðugan hátt útfrá sjónarhorni stúlkna sem eru að koma til Reykjavíkur í fyrsta sinn og kynna sér bæinn.
Eins og fyrr segir er áherslan fyrst og fremst á konurnar og þó ýmsir karlar komi við sögu, þá eru þeir í algeru aukahlutverki, þar er smiðurinn þó fyrirferðarmestur, og kemur ekki af góðu. Það er í raun svolítið skemmtilegt að sjá hvernig Kristín snýr hlutverkum kynjanna innan skáldsagna fimlega við. Jafnframt er sýnt fram á hversu mjög líf kvennanna er háð körlum. Guðfinna er sterk og vinnur á við hvaða karlmann sem er (og lemur einn hressilega þegar hann veitist að henni), en fær einungis hálf laun. Á sama hátt er Þorfinnur smiður yfirvaldið á sínum bæ, þrátt fyrir að leggja ekkert til (þvert á móti, þá drekkur hann út laun konu sinnar) og svo má áfram telja. Og önnur yfirvöld koma svo við sögu þegar líður á söguna, þegar útsjónarsemi Guðfinnu kemur konunum í koll.
Og það er einmitt þessi hversdagur tímabilsins sem Kristínu tekst að fanga svo vel, það er auðvelt að skynja kuldann og þreytuna, bólgnar hendurnar og bardagann við hvíta línið, en jafnframt gleðina í hinu smáa og kómíska. Guðfinna er þungamiðja verksins, praktísk og alvörugefin, metnaðarfull og útsjónarsöm, en vinkonur hennar Stefanía og Sína eru uppspretta lífsgleði og drauma. Húsfreyjan Margrét er kona á barmi taugaáfalls vegna þeirra áfalla sem lífið hefur úthlutað henni, en öðlast nýtt líf í félagi við yngri konurnar og Jóka vatnsberi er sömuleiðis útslitin og drykkfelld, en fær nýja von.
Allar þessar konur þræða ný örlög í línið og hafna þeim fyrirsjáanlegu hlutverkum sem þeim bjóðast, en það er freistandi að velta fyrir sér táknrænum merkingum línsins í skáldsögunni. Höfuðáherslan er á þvottakonurnar sem fóru reglulega langar ferðir í Laugarnar að þvo þvott þeirra sem efni höfðu á að greiða þeim. Í leiðinni skapa þær sér sín eigin örlög – hvítt línið umbreytist þá í óskrifað blað þess frelsis sem þó ríkti í höfuðstaðnum, allavega í samanburði við vistarbönd til sveita. Ennfremur má spinna þráðinn áfram og tengja vefnaðinn við textasmíð Kristínar, en líkt og í fyrri verkum hennar birtist hér þéttofin smíð sem geymir í sér margar sögur.
Bókmenntafræðingurinn Marko Juvan, sem leggur áherslu á pólitískt og félagslegt vægi textatengsla í áhrifamiklu riti sínu um textatengsl, History and Poetics of Intertextuality (2008). Meðal annars fjallar hann um hlutverk textatengsla sem menningarlegs minnis, sem geti virkað hvort sem er til að varðveita, endurskoða eða eyða sameiginlegu minni (132). Hann bendir á að virkni textatengsla, sú einfalda staðreynd að bókmenntir eru búnar til úr bókmenntum og sögur byggi á sögum stuðli að því að skáldskapurinn verður að miðli menningarlegs minnis (181). Í þessu felst að textatengsl hafa samfélagslegt og pólitískt hlutverk en eru ekki sjálfhverfur vefur tilvísana.
Staða kvenna hefur verið Kristínu hugleikin í fyrri bókum hennar fyrir fullorðna, Á eigin vegum (2006) fjallar einmitt um fátæka konu sem tekst að gera mikið úr lífi sínu – sú bók fjallar einmitt einnig um það að láta drauma sína rætast. Í Ljósu (2010) er fjallað um sálsjúka konu og aðstæður hennar og í Bjarna-Dísu (2012) birtist snörp ádeila á birtingarmynd konu í þekktri þjóðsögu, þar sem gerð er tilraun til að varpa ljósi á líf hennar. Þessar bækur eiga það sameiginlegt að í þeim býr þung undiralda þess að segja söguna út frá öðru sjónarhorni, minna á það sem áður hefur verið ‚gleymt‘ en búa í staðinn til nýjar minningar.
Úlfhildur Dagsdóttir, 2018.
Greinar
Almenn umfjöllun
Kristín Ómarsdóttir: „Láttu ekki þessa ögn hlæja að þér“
Tímarit Máls og menningar, 78. árg., 3. tbl. 2017, s. 4-20
Um einstök verk
Á eigin vegum
Úlfhildur Dagsdóttir: „Nægjusemi“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Erna Erlingsdóttir: „Stór að innan“
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 3. tbl. 2007, s. 99-102
Bjarna-Dísa
Auður Aðalsteinsdóttir: „Sagan endurrituð“
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 9-17.
NN: „Uppvakning?“
Spássían 2013, 4. árg., vor/sumar, bls. 9-11.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Dísu vantaði þriðja sporið“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur
Draugar vilja ekki dósagos
Silja Aðalsteinsdóttir: „Landvindinger i himlen: Kristín Steinsdóttir maner et spögelse frem i islandsk börnelitteratur / Settling in heaven: Kristín Steinsdóttir rouses a ghost in Icelandic children’s literature“
Nordisk litteratur 1995, s. 76 – 78
Engill í Vesturbænum
Kristín Ragna Gunnarsdóttir: Vængir hugans, listbrögð myndabóka í ljósi Engils í vesturbænum
Tímarit Máls og menningar, 67. árg, 4. tbl., 2006, s. 25-38
Fjólubláir dagar
Fanney Finnsdóttir: „Fjólubláir dagar“
Vera, tímarit um konur og kvenfrelsi 11. árg., 1. tbl. 1992, s. 32
Hetjur
Brynja Baldursdóttir: „Hetjur“ (ritdómur)
Börn og menning, 25. árg., 2. tbl. 2010, s. 24-25
Margrét Tryggvadóttir: „Barnabækur eftir hrun“
Tímarit Máls og menningar 2010, 71. árg., 2. tbl. bls. 80-86.
Ljósa
Erna Erlingsdóttir: „... að raða heimsmyndinni saman ...“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2011, 72. árg., 4. tbl. bls. 142-5.
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall : Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómur)
Stína 2011, 6. árg., 2. tbl. bls. 201-10.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Prinsessa í höll“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
19. júní
Hlín Agnarsdóttir: „Kemur Nóra heim aftur?“
19. júní, 37. árg., 1987, s. 93 – 94
Síldin kemur og síldin fer
Ármann Guðmundsson: „Síldin kemur og síldin fer í Þjóðleikhúsið“
Leiklistarblaðið, 28. árg., 1. tbl., 2000, s. 2-3
Sólin sest að morgni
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Myndir af minningum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Helgi Hallgrímsson: „Ritfregnir“
Múlaþing, 32. árg., 1. tbl. 2005, s. 154-158
Ingunn Ásdísardóttir: „Svipmyndir stúlku – myndbrot konu“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 4. tbl. 2005, s. 118-120
Vestur í bláinn
Kristín Viðarsdóttir: „Í annan heim“
Börn og menning 13. árg., 1. tbl. 1998, s. 28 – 31
Vítahringur: Helgusona saga
Anna Rós Bergsdóttir: Vítahringur í kennslustofunni
Skíma, 30. árg., 1. tbl. 2007, s. 48-49
Vonarlandið
Úlfhildur Dagsdóttir: „Lín og líf“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
2013 - Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu, fyrir framlag til íslenskra bókmennta
2011 - Fjöruverðlaunin. Bókmenntaverðlaun kvenna: Ljósa
2010 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Ljósa
2008 - Sögusteinn, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi: Veitt fyrir feril
2007 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
2007 - Silfurstjarnan (verðlaun sænksu IBBY samtakanna): Engill í Vesturbænum
2007 - Fjöruverðlaunin. Bókmenntaverðlaun kvenna: Á eigin vegum
2004 - Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins: Engill í Vesturbænum
2003 - Norrænu barnabókaverðlaunin: Engill í vesturbænum
2003 - Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur: Engill í vesturbænum
2003 - Vorvindar: Viðurkenning Barna og bóka, Íslandsdeildar IBBY: Engill í vesturbænum
1999 - Úthlutun úr Bókasafnssjóði höfunda
1998 - Bæjarlistamaður Akraness
1992 - Viðurkenning Íslandsdeildar IBBY (Börn og bækur): Fjólubláir dagar
1989 - Leikritasamkeppni Leikfélags Reykjavíkur, 3. verðlaun: Randaflugur (ásamt Iðunni Steinsdóttur)
1989 - Leikritasamkeppni Leikfélags Reykjavíkur, 2. verðlaun: Mánablóm (ásamt Iðunni Steinsdóttur)
1987 - Íslensku barnabókaverðlaunin: Franskbrauð með sultu
1986 - Leikritasamkeppni Ríkisútvarpsins, 1. verðlaun: 19. júní (ásamt Iðunni Steinsdóttur)
Tilnefningar
2008 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Á eigin vegum
1998 - Bókmenntaverðlaun Janusar Korzack í Póllandi: Vestur í bláinn
Yfir bænum heima
Lesa meiraHoffnungsland
Lesa meiraEkki vera sár
Lesa meiraAngel v soseski
Lesa meiraVonarlandið
Lesa meiraBjarna-Dísa
Lesa meiraLjósa
Lesa meiraIm Schatten des Vogels
Lesa meiraHetjur
Lesa meira