Það var með nokkurri tilhlökkun sem þessi bók frá Þráni var opnuð. Aftan á kápu segir að um sjálfsævisögur sé að ræða, ekki sögu heldur sögur. Einhvern tíma var sagt „margar verða ævirnar“. Þau orð skil ég þá loksins. En tilhlökkunin var helst fólgin í því að manni fannst orðið tímabært að fá í hendur nýja bók eftir þennan höfund. Það er nefnilega býsna langt síðan Þráinn hefur sent frá sér bók. Síðast var það Sigla himinfley (1992) og þar áður voru það 33 útvarpsþættir, Það var og …(1984) en þá voru tíu ár liðin fá síðustu skáldsögu, Paradísarvíti (1974). Bók á tíu ára fresti er ekki mikið. Vonandi líður ekki svo langur tími þar til næsta bók kemur út, hvort sem það verður framhald þessarar eða skáldsaga.
Í bókinni segir frá lífi höfundar frá barnæsku til námsára í menntaskóla. Þráinn lýsir sér hreinskilnislega sem hálfgerðum væskli með framstæðar tennur og gleraugu. Hann býr einn með öldruðum föður, sekkur sér niður í Íslendingasögur, talsmátinn á köflum fullorðinslegur og þar með sveitó. Hann á það líka til að vera kjaftfor. Sumir munu eflaust segja að ekki hafi hann batnað með árunum hvað það varðar. Barnið flækist milli staða með föðurnum og festir þar af leiðandi lítt rætur og eignast fáa vini þar til nokkuð föst búseta kemst á í 101 Reykjavík. Í lok bókarinnar þegar pilturinn er kominn í menntaskóla virðist nördinn vera að víkja fyrir töffara sem þykir gott brennivín og lítur út fyrir að nýtt skeið sé að hefjast í lífi Þráins sem gaman væri að lesa um síðar.
Sjálfsævisögur eru stundum eins og apparat til sjálfsupphafningar en séu þær ritaðar af hreinskilni og ekki færst undan að glíma við eigin bresti geta þær í besta falli verið öðrum til gagns. Ekki er verra ef þær eru til gamans líka og það verður ekki af Þráni tekið að hann er með skemmtilegustu mönnum á prenti. Fyrir þá sem stunda Borgarbókasafnið og ekki síst fyrir þá sem vinna þar er sérlega fín lýsingin á því hvernig nokkuð sérkennilegur bókavörður, sem margir muna eflaust eftir, kemur höfundi í kynni við heimsbókmenntirnar. Fullt af slíkum og þvílíkum sögum eru í bókinni, margar þeirra bæði fyndnar og sárgrætilegar í senn. Höfundur hlífir ekki sjálfum sér. Hann er ekki að skoða líf sitt með athugasemdum fullorðins manns. Þótt höfundur geri sér kannski ljóst núna ástandið á þeim feðgum og geti haft um það einhverjar félagsfræðilegar skýringar þá eru þær látnar liggja á milli hluta. Lesandinn verður sjálfur að giska á hvað er í gangi út frá upplifun barnsins.
Áhrifamikil bók, þrælskemmtileg og um leið háalvarleg.
Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2003