Æviágrip
Þráinn Bertelsson er fæddur í Reykjavík 30. nóvember 1944. Hann varð stúdent frá M.R. 1965 og stundaði síðan nám í heimspeki og sálfræði við University College í Dublin 1968-1970, og í heimspeki og sálfræði við Université d’Aix-Marseille 1970-1972. Hann útskrifaðist með próf í leikstjórn og kvikmyndaframleiðslu frá Dramatiska Institutet í Svíþjóð 1977. Kvikmyndagerð var síðan hans meginstarf til 1995, en auk þess hefur Þráinn unnið sem blaðamaður, dagskrárgerðamaður, verið afgreiðslumaður í vínbúð, kennari, starfsmaður í frystihúsi og skrifstofustjóri hjá flugfélagi í Saudi Arabíu, svo sitthvað sé nefnt. Hann var ritstjóri Þjóðviljans 1987-1988 og tímaritsins Hestsins okkar 1990. Þráinn sat á Alþingi fyrir Borgarahreyfinguna og síðar Vinstri græna árin 2009-2013.
Þráinn var formaður Rithöfundasambands Íslands frá 1992-1994 og formaður Félags kvikmyndastjóra um eins árs skeið. Hann var einn stofnenda kvikmyndafélagsins Norðan 8 og stofnaði kvikmyndafélagið Nýtt líf 1982.
Þráinn hefur gert fjölmargar kvikmyndir og má þar nefna myndina um þá bræður Jón Odd og Jón Bjarna, sem byggð er á sögum Guðrúnar Helgadóttur, gamanmyndina Nýtt líf og aðrar sem fylgdu í kjölfarið um þá kumpána Þór og Danna og kvikmyndina Magnús sem tilnefnd var til Felix verðlaunanna (evrópsku kvikmyndaverðlaunin) fyrir besta frumsamda handrit og sem besta myndin 1989. Myndin hlaut einnig Menningarverðlaun DV 1990. Hann hefur einnig gert myndir fyrir sjónvarp, meðal annars þáttaröðina Sigla himinfley, og fjölda útvarpsþátta auk útvarpsleikrits. Þráinn sendi frá sér sína fyrstu bók árið 1970, skáldsöguna Sunnudagur. Síðan hefur hann sent frá sér fjölda bóka, fleiri skáldsögur (meðal annars Tungumál fuglanna undir dulnefninu Tómas Davíðsson), barnabók, bók um Þórhall Sigurðsson (Ladda), safn útvarpsþátta og endurminningabækurnar Einhvers konar ég sem vakti mikla athygli þegar hún kom út 2003 og sjálfstætt framhald hennar, Ég, ef mig skyldi kalla 2008. Hann hefur einnig sent frá sér glæpasögur á síðustu árum, Dauðans óvissi tími kom út 2004, Valkyrjur 2005 og Englar dauðans 2007. Hann hefur einnig þýtt sakamálasögur eftir sænsku hjónin Sjöwall og Wahlö. Einhvers konar ég kom út í enskri þýðingu sem Myself & I árið 2004.
Þráinn hlaut Heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til kvikmyndagerðar á Edduhátíðinni 2022.
Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Um höfund
Rithöfundurinn hefur níu/ný líf: Þráinn Bertelsson
Í fyrra fór ég til Færeyja. Sú ferð er í frásögur færandi en sú saga verður ekki sögð hér. Hinsvegar minnir þessi ferð mig alltaf á myndir Þráins Bertelssonar, því með í förinni voru ungir menn, ríflega tvítugir, sem voru mjög áhugasamir um færeyskar meyjar og rifjuðu í leiðinni upp senur úr kvikmyndinni Dalalíf (1984). Mér fannst þetta dálítið merkilegt þarsem þeir voru þetta ríflega áratug yngri en ég, en virtust samt gerþekkja þessar myndir, sem voru jú eftir alltsaman, myndir minnar kynslóðar. En það var greinilegt á þessu að trílógía Þráins hefur ekki orðið eftir þarna á níunda áratugnum, heldur haldið ótrauð áfram að skemmta komandi kynslóðum.
Annað sem er skemmtilegt við þetta er að Þráinn skuli vera þekktastur fyrir myndir sem heita líf-eitthvað, Nýtt líf, Dalalíf og Löggulíf, því sjálfur virðist hann, sem höfundur, eiga sér allmörg líf. Ef höfundarferill hans er skoðaður má greina þar allavega þrjú aðal tímabil, en í það minnsta fjóra, ef ekki fimm eða jafnvel sex, þræði í höfundarverki. Þráinn hefur feril sinn sem skáldsagnahöfundur og sendir frá sér, kornungur maðurinn, einar fjórar skáldsögur með stuttu millibili, Sunnudag (1970), Stefnumót í Dublin (1971), Kópamaros (1972) og Paradísarvíti (1974). Síðan verður nokkuð hlé. Árið 1981 hefst kvikmyndaferillinn, með Jóni Oddi og Jóni Bjarna, kvikmynd sem var byggð á samnefndri sögu Guðrúnar Helgadóttur og vakti gífurlega lukku. Á eftir henni fylgja líf-myndirnar, grínmyndir sem slóu vandlega í gegn, Nýtt líf (1983), Dalalíf (1984) og Löggulíf (1985). Árið 1985 birtist önnur mynd eftir Þráin, í allólíkum stíl, en það var hrollvekjan Skammdegi. Magnús, blanda af gríni og drama, kemur út árið 1989 og unglingamyndin Einkalíf 1996. Í millitíðinni gerði Þráinn meðal annars sjónvarpsþáttaseríuna Sigla himinfley, sem einnig kom út sem skáldsaga (1992). Þriðja tímabilið hefst svo með sjálfsævisögunni Einhverskonar ég (2003), en hún varð metsölubók og vakti mikla athygli. Henni fylgdi Þráinn svo eftir með tveimur glæpasögum, Dauðans óvissi tími (2004) og Valkyrjur (2005), en þær sverja sig í ætt við Tungumál fuglanna, sem birtist undir dulnefninu Tómas Davíðsson árið 1987. Þessar bækur bera öll merki þess að vera upphafið á glæpaseríu, líkt og hafa orðið vinsælar hér á landi með sögum Arnaldar Indriðasonar, Stellu Blómkvist, Árna Þórarinssonar og Ævars Arnar Jósepssonar.
Þá eru þrjú ‘lífin’ komin, en eins og ljóst má vera eru þræðirnir fleiri. Meginþræðirnir eru fjórir, skáldsögurnar, kvikmyndirnar, sjálfsævisagan (en í þann flokk mætti einnig fella tvær bækur með útvarpspistlum, Það var og... (1985) og Vinir og kunningjar (1996)) og glæpasagan. En með því er tunnan ekki tæmd, því Þráinn hefur einnig skrifað barnabók og ævisögu (Ladda). Þetta mætti síðan þátta niður í tegundir, grín, drama, hroll... En látum slíkar bókmenntafræðiflokkanir nægja að sinni.
I
Fyrstu tvær skáldsögur Þráins eru ákaflega tilvistarheimspekilegar. Sunnudagur lýsir því að blindur maður fær kunningja sinn í heimsókn, en sá reynist hafa banað konu um nóttina. Sagan gengur svo út á það að sá blindi sér fangavist hins fyrir sér, sjónarhornið flakkar á milli og við fáum líka sýn morðingjans á líf sitt og morðið. Inni á milli birtast einnig kaflar úr skáldskap hans. Skáldsagan er nokkuð klassískt byrjendaverk, hádramatískt og fylgir hinum tilvistarlega tóm(hyggju)anda sem þá eimdi enn af í íslenskum skáldskap kenndum við módernisma. Stefnumót í Dublin er um margt ekki ósvipuð, hún lýsir tilgangslausu lífi ungs manns sem fer til Dublinar í von um að eitthvað gerist, ekkert gerist, lengi, en svo hittir hann stúlku og hamingjan virðist í vændum. Í sögunni er andrúmsloft gömlu Dyflinnar teiknað upp, með tilheyrandi vísunum í Joyce. Dublin hefur breyst gífurlega á undanförnum árum, en hér getur lesandi andað að sér gömlu stemningunni.
Í þriðju skáldsögu sinni er Þráinn enn að fjalla um leit að tilgangi. Kópamaros skiptist í tvo hluta, í þeim fyrri er lýst uppvexti drengs í borginni. Hann flytur tímabundið í sveitina þegar leiðir foreldranna skilja og dvelst hjá afa og ömmu með mömmu sinni, en flytur síðan aftur í bæinn þegar foreldrarnir ákveða að láta reyna á hjónabandið aftur. Lýsingar á samskiptum barnsins við hina fullorðnu eru afar fallegar margar og einskonar forsmekkur þess sem koma skal í sjálfsævisögunni Einhverskonar ég, þarsem skiptist á hlýja og ótti og skilningsleysi barnsins á hinum óörugga heimi hinna fullorðnu. Í síðari hlutanum kynnumst við barninu sem uppreisnargjörnum unglingi, sem þráir að stofna anarkistasellu og hrista uppí stöðnuðu borgarasamfélaginu með sprengingu. Hér er tómleikinn aftur kominn til sögunnar.
Fjórða sagan er svo enn ólík, en Paradísarvíti er reyfari, saga af ævintýramanni sem leggur ungur út í heim á millistríðsárunum og kemst þar í kynni við hið furðulegasta fólk, smyglara, konung Albaníu, gyðinginn gangandi og sjálfan Hitler og endar svo með því að gerast njósnari Breta í Þýskalandi.
II
Það þarf líklega ekki að fara mörgum orðum um kvikmyndina Jón Odd og Jón Bjarna, en skáldsaga Guðrúnar Helgadóttur fór fljótlega í þann hóp íslenskra skáldsagna sem hefur beinlínist smeygt sér inn í tungumálið. Enn þann dag í dag vitnar fólk í Soffíu frænku, Ömmu dreka, flöskuna með kertavaxinu og svo þá tvíbura, Jónana, á sama sjálfsagða háttinn og persónur úr fornsögum og sögum Jóns Thoroddsen. Myndin endurskapar vel þá sérstæðu persónusköpun sem einkennir söguna og er á allan hátt vel heppnuð sem aðlögun og sjálfstætt kvikmyndaverk.
Og eins og ég komst að í Færeyjaferðinni virðist líf-myndunum hafa tekist að skapa sjálfum sér álíka status í tungumálinu og saga Guðrúnar, en þær segja frá ævintýrum þeirra félaga Þórs og Daníels. Í fyrstu myndinni flýja þeir undan vanþakklátum yfirmönnum, og enn vanþakklátari fyrrum eiginkonum og leigusölum, alla leið til Eyja og vonast til að verða ríkir af vertíðinni. Fljótlega kemur í ljós að vinnugleðin er lítil en sagnamennskan þeim mun meiri og vinirnir koma sér hvað eftir í annað í vandræði með sannleiksrýrum sögum sínum af sjálfum sér. Þessi mynd er í dag reyndar orðin að einskonar heimildamynd, því það verbúðalíf sem þarna er líst er næsta horfið í dag, líkt og farandverkamannastéttin í heild, líkt og segir frá í allt öðru skáldverki, Ísrael eftir Stefán Mána. Á sama hátt er næsta mynd, Dalalíf, orðin að einskonar raunsæissögu, en þar taka þeir félagar sig til og taka að sér að sjá um bóndabæ í fjarvist eigendanna og þykjast útlærðir búfræðingar. Fákunnátta þeirra, þegar kemur að skepnuhaldi er vissulega kostuleg, en jafn vissulega umhugsunarverð, nú á tímum þegar vænta má að flestir séu álíka fákunnandi um búskaparhætti. Svo sýna þeir félagar líka nokkra framsýni þegar þeir viðra hænurnar (þær hljóta að hafa gott af því að komast út alveg eins og kýrnar), en nútildags þykir það afarfínt að borða egg úr frílistuðum hænum. Dalalíf býr yfir örlítið meiri söguþræði en Nýtt líf, en þeir félagar hefja búskapinn á því að skella sér í borgina á djammið, annar hittir þar auðkýfing sem þráir sveitalífið og hinn giftist færeyskri konu að ásatrúarsið. Í kjölfar þessa setja þeir upp Dalalífsviku þarsem fólk getur komið og kynnst íslenskum búskap af eigin raun, en það þýðir auðvitað að á meðan þurfa þeir félagar ekki að vinna neitt. En þá dúkkar sú færeyska upp... Í málið blandast svo ljóshærð fegurðardís sem þeir félagar slást um, líkt og þeir slógust um aðra í fyrri myndinni. Dalalíf er öllu ævintýralegri en Nýtt líf en ævintýralegust er þó þriðja myndin Löggulíf, sem er í raun einskonar revía. Þar tekst þeim félögum að láta munstra sig í lögguna með skrautlegum árangri. Hér er enn hert á plotti, en það gengur annarsvegar útá ólöglega fálkaungasölu, sem er enn ólöglegri fyrir það að fálkaungarnir eru falsaðir hænuungar, og síðan allundarlegt búðarrán. Ekki má heldur gleyma rónanum Kormáki sem leiðbeinir við lögreglustörfin og enn einni dömunni fyrir þá vinina að slást um.
Skammdegi er, eins og áður sagði, einskonar hrollvekja og gerist á afskekktum bæ en þar er hitavatnsuppspretta. Ekkja eins bróðurins frá bænum kemur þangað í þeim tilgangi að sannfæra hin systkinin um að selja sinn hlut í jörðinni, en svo fara dularfullir atburðir að gerast og ekkert er sem sýnist. Magnús fjallar um nokkra daga í lífi Magnúsar sem kemst að því að hann er með krabbamein og í Einkalífi eru nokkrir unglingar að búa til raunveruleika-kvikmynd.
III
Ekki má heldur gleyma blaðamannsferli Þráins en hann er meðal annars þekktur fyrir pistlaskrif sín. Í mörgum þeirra birtust glefsur úr lífshlaupi höfundar, en það var ekki fyrr en með sjálfsævisögunni Einhverskonar ég sem hann felldi í eina heild söguna af barnæsku sinni og sérstæðum aðstæðum í uppvexti. Sagan kemur út á tímum mikillar umræðu um mörk æviskrifa og skáldskapar sem rithöfundar á borð við Guðberg Bergsson og Oddnýu Eir Ævarsdóttur hafa gengið hvað lengst í að útmá. Saga Þráins hallast þó frekar að æviskrifum en skáldskap, og einkennist af mikilli sjálfskoðun, sem gerir bókina eftirminnilega og áhrifamikla. Viðtökurnar voru afar góðar og höfundi virðist hafa hlaupið kapp í kinn, því hann fylgdi ævisögunni eftir með nokkuð hressilegum glæpasagnaskrifum, sem einnig hafa vakið heilmikla athygli.
Þó aðeins tvær nýjustu skáldsögur Þráins séu glæpasögur þá má vel gera sér það að leik að rekja einskonar glæpa- og lögguþráð í gegnum fyrri verk hans. Í fyrstu skáldsögunni er, eins og áður sagði, framið morð, í þeirri næstu hittum við fyrir dularfullan Íra og okkur er gefið til kynna að hann sé mögulega tengdur IRA, í þeirri þriðju skipuleggja ungmenni sprengingu og stela sprengiefni, og í þeirri fjórðu er sögumaður iðulega tengdur glæpafólki af ýmsu tagi. Löggulíf inniheldur að sjálfsögðu glæpamál, eins og fyrr er sagt, og Skammdegi er sömuleiðis með glæpsamlegum undirtóni. Glæpir og löggur koma við sögu í Einkamálum og í Sigla himinfley er líka svolítill glæpur. Ekki má heldur gleyma hlutverki þýðinga, en Þráinn þýddi á íslensku nokkrar af hinum afarvinsælu glæpasögum Sjöwalls og Wahlöö. Og svo er, eins og áður sagði, Tungumál fuglanna einskonar fyrirrennari glæpasagnanna, en þar segir frá blaðamanni sem fær óvænt upp í hendurnar upplýsingar um næsta glæpsamlegt athæfi ýmissa fyrirmenna í þjóðfélaginu og tekst í krafti þeirra ekki aðeins að koma blaði sínu á siglingu heldur einnig að koma forsætisráðherra og arftaka hans frá, auk einnar konu í ráðherrastóli. Að baki þessu er svo heilmikið samsæri. Hér er augljóslega verið að vísa í stjórnmál og átök síns samtíma, líkt og er tema nýju glæpasagnanna tveggja, Dauðans óvissi tími og Valkyrjur.
Á yfirborðinu er um að ræða tvo glæpi í Dauðans óvissa tíma; annarsvegar bankarán sem endar með morði, hinsvegar morðmál. Rannsóknarlögreglan, með þunglynda guðfræðinginn Víking Gunnarsson í fararbroddi, rannsakar málin tvö, jafnframt því að standa í útistöðum og samningum við ríkislögreglustjóraembættið og nokkra ráðherra. Bankaránið er fremur einfaldur glæpur, unninn af ógæfumönnum, og spilast sá þáttur meira eins og þriller, því lesandi fylgist með þeim félögum og fylgist með leitinni að þeim. Morðið er hinsvegar öllu flóknara, en þar er á ferðinni hefðbundnari glæpaflétta, með vísbendingu úr óvæntri átt og allt það. Hinn myrti er besti vinur og starfsmaður hjá hinum nýríka bankaeiganda og athafnamanni, Haraldi Rúrikssyni, en honum er lýst sem einum þeirra sem lagðist í nútíma víking til Rússlands og auðgaðist þar. Svona lýsir fyrrum viðskiptafélagi hans ástandinu:
Svona tímabil fengu forfeður okkar að upplifa hér á Íslandi fyrir 1000 árum á þjóðveldisöld, sem með fullri virðingu fyrir nútímanum er örugglega mesta gróskutímabil sem þessi þjóð hefur gengið í gegnum. Ekkert framkvæmdavald til að leggja hömlur á sköpunargáfu einstaklingsins og athafnafrelsi. Hæfustu einstaklingarnir risu yfir fjöldann, það voru goðarnir, og þeir tóku við þeim sem til þeirra leituðu og sáu þeim fyrir vernd, en hlutu stuðning þeirra í staðinn.
Þannig var þetta í Rússlandi. Þar komu fram á sjónarsviðið ungir menn og öflugir sem í gamla kerfinu hefðu í besta falli getað orðið einhvers konar kommissarar en gátu nú notað hæfileika sína til fulls. (316-17)
Og það er semsagt þessi heimur, þessar nútímavíkingaferðir Íslendinga til Rússlands, sem liggur að baki sögunni. Þráinn nýtir sér reyndar sagnaarfinn á margvíslegan hátt með fjölmörgum vísunum í Íslendingasögur og atburði þeirra, svo ekki sé talað um fleygar setningar, en hann lætur ekki staðar numið þar heldur fléttar inn ýmsum öðrum vísunum í menningu og bókmenntir, lafði Macbeth á þarna smá innkomu, sömuleiðis þættirnir góðu Já ráðherra, og ekki má gleyma sögu Þráins sjálfs, Tungumál fuglanna, sem hann gaf út undir nafninu Tómas Davíðsson, en sá er einmitt ritstjóri dagblaðs í Dauðans óvissi tími…
En Þráinn lætur sér ekki nægja að skjóta á nútíma víking til Rússíá, heldur tekur hann út íslenskt viðskiptalíf og kemur í leiðinni á framfæri umhugsunarverðri pólitískri pælingu, um frelsi og fjármál, viðskipti og glæpastarfssemi. Og Þráinn lætur sér heldur ekki nægja að taka út þær miklu breytingar sem orðið hafa í íslensku samfélagi síðustu árin vegna einkavæðingarinnar, heldur vísar hann einnig til umræðna um líftækni og verðbréfaviðskipti tengd slíkum fyrirtækjum. Þarna er því komin heilmikil úttekt, á íslenskum stjórnmálum og áhrifum þeirra á verslun og viðskipti. Það er alltsaman gott og gilt, en lesandi hlýtur þó að velta fyrir sér hvað þetta bankaránsdæmi sé að flækjast þarna. Og nú er ástæða til að fara dálítið á flug, því ég get ekki betur séð en að hér sé verið að draga upp skemmtilega hliðstæðu milli einkavæðingar og sölu á ríkiseignum til valdra einstaklinga og bankarána, að slík sala sé í raun ekkert annað en bankarán. Auk þess sem það er klár undirtónn í sögunni að allt þetta vafstur og áhersla á einkavæðingu ali á græðgi og auki á möguleikann á auðgunarbrotum á við bankarán (fyrst allt þetta pakk á svona mikinn péning, þá vil ég fá minn hlut líka), og annarri glæpastarfssemi. Því vil ég halda því fram að í raun sé um þrjá glæpi að ræða í sögu Þráins, og að þriðji glæpurinn sé viðskiptalífið í dag, einkavæðing og fjármálabrask ýmiskonar – og áhrif þess á einstaklinga. Það er því heilmikið lagt undir í sögunni og við sjáum að vísanir í skoska leikritið og sjónvarpsþætti um stjórnmálamenn taka á sig aukið vægi í þessari fléttu um átök um völd.
Þetta gerir það á verkum að sagan virkar á stundum dálítið samsett, og á tímabili fannst mér eins og ég væri í raun að lesa tvær bækur, að ég hefði á einhvern Calvínó-ískan hátt hoppað yfir í allt aðra sögu í miðri setningu. Fyrsti hlutinn kynnir aðalpersónur til sögunnar, Harald og sögu hans, guðfræðilögreglumanninn og bankaræningjann, auk þess að við fáum stutta kynningu á því hvað psýkópati sé, og kynnumst dæmum um slíka. Síðan koma glæpirnir og þá skiptir dálítið um stíl, háðið sem einkenndi lýsinguna á íslenskum stjórmálum og viðskiptum víkur fyrir hefðbundnari raunsæislegum glæpasagnatóni. En þó að þessi samsetningarbragur hafi aldrei alveg farið af, þá kemur límingin í ljós í lokin þegar ’þriðji’ glæpurinn kemur til.
Ekki svo að skilja að þetta hafi nokkurntíma verið verulega truflandi, eða til skaða, því í heildina séð var lesningin skemmtileg. Skemmtilegheitin halda svo áfram í næstu glæpasögu, Valkyrjur, en sú saga er heilmikil kvennasaga. Þar er sumsé mikið fjallað um konur og málefni kvenna og líkt og í Dauðans óvissa tíma er einnig mikið fjallað um pólitík samtímans á skáldskaparlegu rósamáli. Þó sá þáttur sé að mínu mati ekki tekinn eins áhugaverðum tökum og í fyrri sögunni má vissulega skemmta sér ofurlítið yfir því hvernig Þráinn leikur sér að því að fjalla um menn og málefni samtímans í skáldverkum sínum. Í Valkyrjum hittum við fyrir sama lögguliðið og í fyrri bókinni (og sömu pólitíkurnar) og svo virðist að hér sé Þráinn kominn á skrið inn í glæpaseríu.
Lík umdeilds femínista finnst í bíl á Rauðhólum, í fyrstu mætti ætla að um sjálfsmorð sé að ræða, en fljótlega kemur í ljós að svo er ekki. Konan, sem heitir auðvitað Freyja, hafði unnið að bók um slæma stöðu kvenna á (nú)tímum klámvæðingar og mansals, en hluti bókarinnar átti að vera viðtöl við tvær fráskildar konur áhrifamanna í samfélaginu. Væntu menn því mikilla afhjúpanna og fór um suma. Eins og áður sagði er löggutímið frá fyrri bókinni mætt með hinn þunglynda Víking í fararbroddi, en þau eru jafnframt að leita uppi lík konu nokkurrar, sem virðist hafa verið banað af eiginmanni sínum. Inn í málið blandast svo yfirvofandi skilnaður einnar lögreglukonunnar og átök milli toppa innan lögreglunnar. Nýráðinn ríkislögreglustjóri er kona og telja sumir að til embættisins hafi verið stofnað til að útvega henni starf – hún er, sumsé, vel tengd.
Í heildina séð er Valkyrjur mun heilsteyptari – eða ætti ég að segja heildrænni? – skáldsaga en Dauðans óvissi tími og hér sýnir höfundur mun meiri fimi við að flétta samfélagslegar vísanir inn í framrás sögunnar. Þó glæpirnir sjálfir séu ekki eins hressilegir og blóðugir og í fyrri sögunni kemur það ekki (mikið) að sök, er reyndar alveg í takt við það að þessi nýja saga er öll mun agaðari og meitlaðari en hin. Þetta kemur meðal annars fram í því hvernig hið femíníska viðfangsefni – morðið – er stutt með því að gera hlut kvenna veigamikinn og á allan hátt mjög sýnilegan.
Sjálf glæpafléttan er sömuleiðis ágætlega unnin, þó vanir krimmalesendur séu væntanlega fljótir að átta sig á málunum. Stíll Þráins einkennist af því sem kalla mætti launfyndni og nýtur sín afskaplega vel hér, hvort sem er í alvarlegri þáttum sögunnar eða þarsem háðsádeilan er hvað hressilegust. Sérstaklega hafði ég þó gaman af því hve ýmis smáatriði eru vel unnin, má þar nefna lýsingu á samskiptum manns og hests þegar þeir ramba á lík (hesturinn heitir Stjörnufákur en er kallaður Mói). Þessi smáatriði gefa sögunni mikinn lit og líf og eru bæði sæt og smart, reyndar má í heildina segja að þetta hafi bara verið helvíti smart.
Það er óneitanlega dálítið átak fyrir saklausan bókmenntafræðing að eiga að skrifa heilsteypta yfirlitsgrein um höfund sem sinnt hefur jafn fjölbreyttum verkefnum og Þráinn Bertelsson. Lokaorð sem þessi eru til dæmis næsta ómöguleg, því ekki aðeins finnst mér vafasamt að fella hin ólíku verk höfundar undir sama hatt og gefa út einhverja regnhlífaryfirlýsingu, heldur er það í raun og veru ekki hægt. Húmorinn, eða launfyndnin, er vissulega sterkt höfundareinkenni, en þó eru verk, eins og til dæmis fyrstu skáldsögurnar þrjár og kvikmyndin Skammdegi, sem eru í allöðrum tón – þó þau séu ekki laus við húmor. Sjálfur lýsir Þráinn sér sem ‘atvinnugrínista’ í Einhverskonar ég, og vissulega mætti notast við það sem hentugt handfang. En með því finnst mér gengið framhjá þeim samfélagslega og pólitíska þætti sem einnig einkennir mörg verkanna, hvort sem þau eru sett fram á hákómískan hátt eins og í líf-trílógíunni, eða í dulargerfi glæpasögunnar eins og í síðustu tveimur bókunum.
Ég sé mér því ekki annað fært en að skilja við þessa grein dálítið í lausu lofti, og enda bara á tilvitnun í skáldið sjálft, þarsem sögumaður Paradísarvítis lýsir stjórnmálamönnum, en sú lýsing er í það minnsta áhugaverð í ljósi hinna nýju glæpasagna:
Vinafár og einmana almúgamaður tekur sér leikara, íþróttamann eða sjónvarpsstjörnu í vinarstað. Og í stað þess að trúa á sjálfan sig, trúir hann á einhvern stjórnmálamann eins og sitt alter ego (annað sjálf) og fylgist af innlifun með því, þegar slíkir menn strá um sig blekkingunni, ellegar þegar þeir fá þvagteppu eða brennivínsslag.
Yfirleitt held ég að stjórnmálamenn fyrirlíti stuðningsmenn sína, og það með réttu, því auðvitað veit enginn betur en þeir sjálfir, hversu heimskulegt það er að vænta sér mikilla hluta af þeirra hálfu. Sín á milli tala stjórnmálamenn oftlega um, að starf þeirra felist aðallega í því að henda perlum fyrir svín (almenning), þótt þeir viti fullvel, að konstin er oftar sú að rétta fólkinu steina fyrir brauð. (149)
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2005.
Greinar
Almenn umfjöllun
Páll Skúlason: „Þráinn Bertelsson: pólitískt viðtal“ (viðtal)
Skjöldur 2010, 19. árg., 2. tbl. bls. 16-8.
Um einstök verk
Dauðans óvissi tími
Erna Erlingsdóttir: „Bisness og blóðhefnd“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 3. tbl. 2005
Úlfhildur Dagsdóttir: „Í víking“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Englar dauðans
Ingvi Þór Kormáksson: „Englar dauðans eftir Þráinn Bertelsson“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Einvers konar ég
Guðmundur Andri Thorsson: „Tilgangur. Komdu. Himinn. Hugleiðingar kringum þrjár sjálfsævisögur 2003“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 3. tbl. 2004, s. 51-59
Fallið
Ingvi Þór Kormáksson: „Fallið“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Valkyrjur
Úlfhildur Dagsdóttir: „Konur hér og konur þar, eða, köld eru kvennaráð?“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
2022 - Heiðursverðlaun fyrir framlag til íslenskrar kvikmyndagerðar á Edduhátíðinni 2022
Smásaga í Kalkül & Leidenschaft
Lesa meiraBertels Sohn: Ein Leben in Island
Lesa meiraFallið : Fjölskylduleyndarmál
Lesa meiraHöllenengel
Lesa meiraWalküren
Lesa meiraÉg, ef mig skyldi kalla. Seinþroskasaga
Lesa meiraEnglar dauðans
Lesa meiraEnglar dauðans
Lesa meiraVeröldin sem var og er: framtíðarpóstur
Lesa meira