Beint í efni

Elín, ýmislegt

Elín, ýmislegt
Höfundur
Kristín Eiríksdóttir
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Nýútkomin skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur Elín, ýmislegt er þéttofin vísunum og þráðum í önnur verk skáldkonunnar, til að mynda í ljóð sem lesendur hafa mögulega lesið áður í ljóðabókum hennar. Svo tengjast aðalsöguhetjurnar tvær leikhúsi en Kristín hefur á undanförnum árum skrifað leikrit. Þar á meðal Karma fyrir fugla sem hún skrifaði ásamt Kari Ósk Grétudóttur og var sett upp í Þjóðleikhúsinu árið 2013, og Hystory sem leikhópurinn Sokkabandið setti upp í Borgarleikhúsinu árið 2015. Þá er Kristín myndlistarmenntuð sem skilar sér meðal annars í áherslu á efni og efniskennd í verkum hennar, með lýsingum á blæbrigðum áferðar og lita, oft með súrrealískum áhrifum og undirtónum.

Aðalsöguhetjurnar eru tvær. Annars vegar Elín sem opnar söguna fyrir lesendum og er sögumaður í fyrstu köflunum. Hún gerir sig líklega til að segja lesendum ævisögu sína og lýsir því hvernig þrír kassar dúkka óvænt upp heima hjá henni. Kassarnir eru allir merktir henni en merkingarnar „Elín, pappírar“, „Elín, bækur“ og „Elín, ýmislegt“, gefa til kynna að þeir geymi efni sem tengist fjölskylduarkífinu, og áþreifanlegar minningar sem gætu hvatt söguhetjuna til að rifja upp líf sitt. Sjálf kallar hún kassana „óræð tímahylki“ sem vísar til þess að þeir geyma vitnisburð um fortíð hennar, æsku og fyrra líf sem hún segist lítið vilja velta fyrir sér. Því veigrar hún sér við að kíkja í þá, en gerir þó að lokum og handfjatlar munina sem þar eru að finna – bækur og dagbækur, smádót og síðast en ekki síst lítinn glerhest, sem berst inn með kössunum og reynist hafa afar þýðingarmikið hlutverk í sögunni. Glerhestur og aðrar „míniatúrur úr gleri“ komu einnig við sögu í bókverkaljóðabókinni KOK sem kom út árið 2015. [Sjá umfjöllun Veru um KOK hér á vefnum.]

Elín er komin á efri ár en stundar enn sína vinnu. Hún er einyrki, byggði hálfpartinn húsið sem hún býr í og hefur þar vinnustofu, gerir props eða leikmuni fyrir leikhús, kvikmyndir og sjónvarp. Hún er hokin af reynslu og hefur þroskað sjónahorn en hleypir fólki ekkert of nálægt sér og vill vera út af fyrir sig, deilir ekki innri veruleika með öðrum en okkur lesendum. En þar er líka komið yfirlýst markmið skrifanna: að segja lesendum sögu sína en frásögnin sem fylgir endurspeglar tilraunir hennar til þess. Hins vegar reynist það erfitt og eru ýmsar ástæður fyrir því. Þá er hún frá upphafi heldur hikandi við að rifja upp atburði lífs síns og gefur ýmislegt í skyn í stað þess að segja allt. Lesendur fá til dæmis aldrei alveg á hreint hvers vegna hún beri áberandi ör í andlitinu eða hver faðir hennar hafi raunverulega verið. Það síðarnefnda virðist hún raunar ekki vita.

Eftir nokkra kafla tekur hin aðalpersónan við keflinu. Sú heitir Ellen og er ungt leikskáld, talin vera snillingur, en skelfilega félagsfælin og kvíðin. Líf hennar virðist vera alvarlega markað af því að hafa alist upp með andlega veikri móðir, fjarverandi föður og því ójafnvægi og óöryggi sem því fylgir.

Þrátt fyrir töluverðan aldursmun söguhetjanna er ljóst að þær eru tvífarar. Það má því hugsa sér að tvífarastefið gefi nokkra hugmynd um hvert líf Ellenar stefni, eða að líf Elínar gefi að minnsta kosti nokkra hugmynd um það. Þá er ýmislegt sem tengir þær tvær. Rótlaus húsplanta sem skyndilega birtist á stofugólfinu heima hjá Elínu í upphafi sögunar, og minnir á rísóm Deleuze – strúktur sem vex eins og jarðaberjaplanta og hefur hvorki upphaf né endi, miðju né jaðar – birtist síðar í sögunni í leikriti Ellenar. Og af einhverjum ástæðum ber Elín, sem yfirleitt tengist ekki öðru fólki tilfinningaböndum, móðurlegar tilfinningar til Ellenar. Kallar hana jafnvel „elsku stelpuna“ og þegar líður á söguna komumst við af hverju.

Annað sem söguhetjurnar eiga sameiginlegt er sambandið við mæður þeirra sem í báðum tilfellum er brostið. Báðar eiga þær mæður sem hafa brugðist þeim vegna veikinda eða óljósra slysa og þeim áföllum þurfa þær að lifa með ævina á enda. Elín elst upp hjá ömmu sinni sem kynnir hana fyrir leikhúsinu. Hún er hárkollumeistari sem segist alltaf vera að reyna að gleyma því það sé svo sársaukafullt að lifa. Ellen verður aftur á móti að verndara móður sinnar löngu áður en hún hefur aldur til.

Um miðbik sögunnar eiga sér stað ákveðin hvörf. Við það breytast bæði tónn hennar, sem verður mun harmrænni en áður, og eins formið sem verður afhjúpandi. Við kynnumst söguhetjunum betur og komumst að því að þeim er ekki alveg treystandi – að minnsta kosti er Elín afar óáreiðanlegur sögumaður án þess að ég fari nánar út í af hverju.

Með Elín, ýmislegt sýnir Kristín Eiríkssdóttir enn og aftur að hún er með áhugaverðustu rithöfundum hér á landi. Verk hennar eru allt öðruvísi en verk annarra höfunda, en því má meðal annars þakka bakgrunni hennar í myndlist, að minnsta kosti að hluta til, en samhliða því er hún afar snjöll að smíða frásögn, miðla söguheimi, skapa persónur og þráð sem er lágstemmdur til að byrja með en stigmagnast eftir því sem líður á. Hún hefur áður unnið með form afhjúpunar, þar sem lesendur komast hægt og rólega á snoðir um afar mikilvægar upplýsingar sem breyta sýn þeirra á atburðarásina í heild, sögupersónurnar og söguheiminn. Slíkt form mátti sjá í Hvítfeld, síðustu skáldsögu Kristínar sem kom út árið 2012, og eins í leikritinu Hystory þar sem það var gert með afar áhrifaríkum og eftirminnilegum hætti. Form afhjúpunar er vægast sagt krassandi og Kristín leysir það einkar vel.

Elín, ýmislegt er bók sem maður vill ekki segja of mikið frá, til að skemma ekki lestrarupplifun annarra, en hún er mögnuð og einstaklega hrífandi. Mér finnst eins og Kristín sé að sanna það betur og betur, áður til dæmis með leikritinu Hystory, og núna með Elínu, ýmislegt, hvað hún er einstaklega lagin að spila á hjartastrengi lesenda og áhorfenda – að skapa frásagnir sem hafa hápunkt eða ris sem smýgur í gegnum allar varnir og stingur beint í nakið hjartað og situr þar lengi eftir að lestrinum líkur eða tjöldin falla.

Elín, ýmislegt er bók sem mig langar að gefa öllum vinkonum mínum í jólagjöf, systur, mágkonu, svilkonu og Gumma frænda. Þá langar mig að hún verði þýdd með hraði svo ég geti gefið hana vinum mínum, sem ekki lesa íslensku, í jólagjöf næstu jól. Tilnefningin til íslensku bókmenntaverðlaunina, sem Kristín hlaut fyrir verkið í síðustu viku, er afar rökrétt – Kristín Eiríksdóttir er einfaldlega áhugaverðasti höfundurinn á Íslandi í dag.

Vera Knútsdóttir, desember 2017