Þráinn Bertelsson útskýrir sjálfur í dagbók sinni í Fréttablaðinu að með Englum dauðans sé lokið þrílógíu þar sem fyrsta bókin fjallaði um útrás og gripdeildir, önnur bókin um valdið og sú þriðja um fíkn. Í fyrstu bókinni mátti sjá efnistök sem virtust gefa til kynna að Þráinn væri að feta í fótspor Carl Hiaasens, Donalds Westlakes eða annarra álíka höfunda sem rita grínglæpasögur. Þessar sögur eru þó alla jafna með alvarlegum undirtóni, að minnsta kosti lætur Hiaasen ekki deigan síga er hann beinir spjótum sínum í allar áttir í gagnrýni á menn og málefni. Bankaræningjarnir í Dauðans óvissa tíma minntu sannarlega á sumar persónur Hiaasens. Í annarri bókinni, Valkyrjum, bar minna á fyndnum uppákomum og grínið er algerlega á undanhaldi í þeirri þriðju og síðustu, Englum dauðans. Stíll Þráins er samt eftir sem áður léttur og leikandi, samtöl stundum fyndin, ekki síst mörg tilsvör lögreglumannsins, Terjes. Tilfellið er að skáldsagnahöfundar geta auðvitað útskýrt fyrir lesendum eitt og annað sem snertir framvindu sögunnar með því að ávarpa þá beint en ein persóna getur varla miðlað upplýsingum til annarrar án samræðna, nema hún geri það með bréfaskriftum eða skilaboðum í síma. Það leiðir okkur að því að helsti ókostur margra spennusagna er sá að algengt er að persónurnar þurfi að halda misjafnlega leiðinlega fyrirlestra hver yfir annarri til að koma öllum kurlum til grafar. Getur það orðið býsna staglsamt. Þetta á stundum við um Engla dauðans en sem betur fer án þess að nokkur ónotalegur pirringur geri vart við sig. Höfundinum er eflaust meira niðri fyrir í þessari bók en þeim fyrri í seríunni og það gerir hana ögn alvarlegri. Þótt vissulega sé hægt að spauga með alkóhólisma og þær oft og tíðum fáránlegu ógöngur sem fíknin getur leitt fólk í, ber lítið á slíkum útútdúrum í bókinni. Það hefði svo sem verið hér tilefni til að koma með nokkrar mergjaðar sukksögur.
Saga þessi hefst í útlöndum, Eistlandi og Hollandi, en mestanpart vindur henni fram hérlendis. Lík finnast hér og hvar, amfetamínverksmiðja og innflutningur eiturlyfja er möndullinn sem sagan snýst um. Það er nokkur asi á frásögninni og lesandinn þarf að reyna að hafa hemil á sér, hemja sig svo að hann gleypi ekki í sig bókina á einu kvöldi. Þannig hefur stíllinn dálítil áhrif á lestrarhraðann. Þetta er fjörugur texti um alvarleg mál. Flestallir unglingar sem nú eru að alast upp mega trúlega einhvern tíma búast við því að verða boðið að prófa áfengi og eiturlyf. Áður fyrr var það kannski bara áfengi, og hugsanlega hass, en núna næstum hvað sem er nema kannski heróín. Við vitum ekki hverjir koma til með að ganga fíkninni algerlega á vald. Í hverjum genin og efnafræði líkamans eru þannig gerð að fíknin mun heltaka viðkomandi eða félagslegar aðstæður kunna að vera með því móti að sumum finnist best að geyma sig og gleyma sér í öðrum heimi en hinum raunverulega. Þetta er því rússnesk rúlletta eins og Þráinn kemur inn á í þessari sögu. Alvaran er sem sé djúp og hægt hefði verið að falla í þá gryfju að prédika. Lesendur sleppa þó við þau leiðindi enda af nógu öðru að taka til að koma boðunum til skila, t.d. þegar kemur að því að segja frá falli alkóhólista og viðbrögðum hinna nánustu. Víkingur Gunnarsson uppgjafaguðfræðingur og yfirmaður í lögreglunni finnur sig til dæmis skyndilega í hlutverki meðvirks aðstandanda og kann því illa, veit reyndar ekkert hvernig hann á að bregðast við. Það er nefnilega heilmikil kúnst að bregðast rétt við eins og það er heilmikil kúnst hjá alkanum hvernig hann felur neysluna.
Auk Víkings eru mætt til sögu Randver, Dagný, Terje og fleiri gamlir kunningjar úr löggunni sem við kynntumst í fyrri bókunum. Enn vantar nýja kaffivél á vinnustaðinn en annars er lopinn lítið teygður með óþarfa smáatriðum. Í fyrstu virtust samtöl í bókinni dálítið hátíðleg en svo rann upp fyrir manni ljós. Þau eru bara á svo kjarnyrtri og góðri íslensku að við liggur að þau virki sérlega hátíðleg. Lesendur eru kannski orðnir svo vanir slangri í glæpasögum, hvort sem þær eru á íslensku eða öðrum tungumálum, að þeir taka sérstaklega eftir þessu. Við nánari umhugsun komst undirritaður að því að það er einmitt svona sem fullorðið fólk talar saman ef það á annað borð hefur einhverja máltilfinningu. Og persónur Þráins, löggurnar að minnsta kosti, virðast í góðum málum hvað varðar íslenska tungu.
Það vantar ekki blóðið í þessa sögu. Það streymir í stríðum straumum eins og kötturinn Glámur kemst að raun um og margir fleiri. Það eru morð, fullt af þeim, og sjálfsmorð, færri en ætlað var í fyrstu. Hvort tveggja fylgifiskur áfengis og eiturlyfja. Morðin eru í ógeðslegri kantinum og kannski mætti segja um þessa bók að hún sé alls ekki fyrir viðkvæma. Ekki heldur þá sem viðkvæmir eru fyrir alvöru lífsins því að eins og oft hefur sýnt sig þá er veruleikinn stundum svakalegri en nokkur skáldsaga. Því miður.
Fléttan er nokkuð sterk. Einhverjum kann þó að finnast hún lítið undirbyggð. Ekki er mikið ýjað að því að sagan taki þessa stefnu sem hún að endingu tekur en þá hefði líklega ekki tekist að koma lesandanum eins mikið á óvart. Það kemur sem sé talsvert á óvart hverjir hafa framið þessa voðalegu glæpi sem lögreglan er að fást við. Það er hins vegar spurning hvort lesandinn sé ánægður með málalok. Af hverju fór þetta svona? En það er eins og í lífinu sjálfu. Það fer ekki allt eins og maður hefði helst óskað. Sama er með sögulok í bókum.
Það er óskemmtilegt en það virðist lítil ástæða til bjartsýni í baráttunni við eiturlyfin. Nýlega sagði einn af æðstu yfirmönnum lögreglunnar í Englandi að skást væri að hætta þessu basli og slá af bann gegn eitrinu. Það væri hvort sem er vonlaust að eiga við þetta. Sams konar vonleysi gerir vart við sig hjá Randveri: “...samt eykst harkan og mýktin lætur undan, gleðin deyr og sorgin lifnar, gæskan hörfar og illskan eykst.” Ekki er það efnilegt. Framtíðarsýnin er myrk. Það er næsta víst. En meðan menn glepjast til að fremja glæpi halda rithöfundar áfram að fá hugmyndir.
Í Englum Dauðans nær Þráinn ágætu flugi og frásagnargleðin er mikil. Bókin er kröftug, spennandi og umhugsunarverð. Verst hvað hún er fljótlesin. Maður hefði viljað smjatta á svona góðum texta í allan vetur. En eiginlega verður að hrósa höfundinum fyrir allar þrjár bækurnar í einu. Þær mynda prýðilega heild. Sú fyrsta fyndnust, þessi alvarlegust og sú í miðið er bara sú í miðið, eins og gengur. Vel heppnuð sería.
Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2007