Beint í efni

Eyðibýli

Eyðibýli
Höfundur
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Útgefandi
Edda
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í ljóðinu „Á ystu strönd“ lýsir ljóðmælandi því að hingað hafi hann aðeins komið „í ljósum draumi“ og „á ystu strönd“ hafi staðið „yfirgefið hús / limfagurt lauftré,“ hinum megin við fjörðin eru „skóglaus skýjalöndin.“ Þessari ferð er heitið „inn í rökkursögu“ en þar ber ævintýratréð þann sjaldgæfa ávöxt, „einfalda, dýrmæta kyrrð.“ Það er einmitt slík einföld kyrrð sem hvílir yfir bók þeirra Aðalsteins og Nökkva um eyðibýlin. Myndir Nökkva af yfirgefnum býlunum eru ýmist hrikalegar í auðn sinni og eyðileggingu eða fínlegar og næstum ljúfar, eins og myndin sem á við ljóðið „Á ystu strönd.“ Myndin er alveg eins og ljóðið, í forgrunni kúrir lítið yfirgefið hús og við hliðina á því er einmana tré. Í bakgrunni er vatn - fjörður - og skýin hylja landið hinum megin að hluta.

Annars eru ljóðin alls ekki alltaf lýsingar á myndunum, mörg þeirra eru fremur eins og stef, minningarbrot, eða sagnabrot, vangaveltur um aðskilnað og söknuð. Mörg eru tregafull, en myndirnar eru undartekningarlaust hlaðnar trega og sorg, þrátt fyrir að vera jafnhliða einskonar óður til landsins og þá sérstaklega skýjafarsins.  Eftir að ég hafði skoðað myndirnar með tilliti til húsanna fór ég nefninlega að taka eftir því hvað skýjin leika stórt hlutverk í stemningunni. Þannig getur æsingslegt og búttað skýjafar gefið eyðibýlunum margradda undirtóna, eins og í myndunum af Aflstöðum í Haukadal og Gamla bænum á Skógum. Þar heitir ljóðið líka „Með dásamlegum trega.“ Það er einnig dásamlegur tregi í ljóðinu „Skínandi ævintýri,“ en þar segir frá fundum tveggja elskenda sem taka á sig þjóðsagnabúning, sömuleiðis er krúsaleg kómík í ljóðinu um þarfasta þjóninn, sem þegar að er gáð, reynist bíll en ekki hross. Sá þarfi þjónn birtist okkur hins vegar í öðru ljóði, „Hlutskipti“, en þar segir frá einhyrningum sem „leynast alhvítir / í ævintýrum“ meðan „gamli Jarpur“ er kominn inn fyrir túngarðinn að „naga allt / niður í rót.“

Samspil mynda og ljóða er því á allan hátt einstaklega vel heppnað, mynd og texti mynda órjúfanlega fallega heild. Myndirnar lifna með ljóðunum og taka á sig hin fjölbreytilegustu blæbrigði, meðan ljóðin eflast og stillast innanum myndir af rökkursögu íslenskra sveita.

Úlfhildur Dagsdóttir, júní 2005