Æviágrip
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson er fæddur 22. júlí 1955 á Húsavík. Hann ólst upp á Öndólfsstöðum í Reykjadal í S-Þingeyjarsýslu. Aðalsteinn Ásberg lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1974 og stúdentsprófi frá sama skóla tveimur árum seinna. Hann stundaði nám í íslensku við Háskóla Íslands veturinn 1976-1977. Hann lagði stund á tón- og leiklist og sótti ennfremur námskeið í kvikmyndahandritagerð og leikritun.
Frá 1980 hefur Aðalsteinn helgað sig ritstörfum og tónlist. Hann hefur skrifað ljóðabækur og barnabækur auk þess að þýða verk erlendra höfunda. Fyrsta verk hans var ljóðabókin Ósánar lendur sem kom út árið 1977. Aðalsteinn Ásberg var einn af frumkvöðlum tónlistarfélagsins Vísnavina og var í hljómsveitinni Hálft í hvoru. Hann hefur einnig gefið út tónlistarefni fyrir börn ásamt eiginkonu sinni Önnu Pálínu Árnadóttur sem nú er látin.
Aðalsteinn Ásberg var framkvæmdastjóri Félags tónskálda og textahöfunda 1988-1998, forseti Nordisk Populærautor Union 1993-1995 og formaður Rithöfundasambands Íslands 1998 - 2006. Árið 2023 hlaut Aðalsteinn viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir árið 2022.
Mynd af höfundi: Nökkvi Elíasson.
Um höfund
Um verk Aðalsteins Ásbergs
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson hóf feril sinn sem ljóðskáld og kom fyrsta ljóðabók hans út árið 1977. Í kjölfar hennar fylgdu fimm aðrar ljóðabækur og ein ljóðræn skáldsaga, Ferð undir fjögur augu frá árinu 1979. Frá 10. áratugnum hefur Aðalsteinn Ásberg snúið sér nánast alfarið að barnabókum, en ljóðskáldið fær ennþá útrás bæði í ljóðum í barnabókunum, og í vísum og kvæðum fyrir börn. Viðfangsefnin eru fjölbreytt en bæði í ljóðum og skáldsögum sækir hann sér innblástur meðal annars í þjóðsögur og þjóðtrú. Stíllinn í verkunum er ljóðrænn, og leitin að sjálfi er honum hugleikið viðfangsefni. Með tímanum verður stíllinn ákveðnari og einbeittari, og ber merki þess að höfundurinn leitast við að þroska bæði sjálfan sig og lesendur sína með verkum sínum.
Fyrsta ljóðabók Aðalsteins Ásbergs, Ósánar lendur (1977) ber vott um ungt ljóðskáld sem ennþá er í mótun. Stíllinn er oft óákveðinn og mismunandi ljóðform eru notuð. Ljóðin eru bæði rímuð og órímuð og fjalla um allt frá náttúru til pólitíkur enda samin og gefin út á miklum umrótartímum sem má segja að endurspeglist í verkinu. Í næstu bók, Förunótt (1978) virðist skáldið hafa komið sér niður á ákveðinn stíl og þar af leiðandi verður meira samhengi í verkinu sem heild. Stíllinn er knappur en lýsandi og lesandinn skynjar sjálfsleit skáldsins í gegnum ljóðin. Í Gálgafrestur (1980) er stíllinn svipaður og í Förunótt en innblásturinn er nú sóttur að miklu leiti til þjóðtrúar, en líka til hversdagsleikans, en þessar andstæður gefa ljóðunum myrkari og þyngri tón en áður. Fugl (1982) er eins og titillinn ber með sér töluvert léttari en Förunótt og tónninn í henni hraðari og glettnari þó enn verði lesandinn var við sjálfsleit skáldsins.
Fimmta ljóðabókin er Jarðljóð (1985) en í henni verður vart við hversdagslegri og nútímalegri umfjöllunarefni innan um þau sem skáldið hefur áður fjallað um. Hann leitar aftur til æskunnar og í borgina og myndar þannig sterkar andstæður milli náttúru og tækni, fortíðar og nútíma. Síðasta ljóðabók Aðalsteins Ásbergs þegar þetta er skrifað er Draumkvæði frá árinu 1992. Hún er töluvert kyrrlátari en fyrri bækurnar og endurtekin minni eru til dæmis snjór, þoka og nótt. Skáldið leitast við að sameina í verkinu fortíð, nútíð og framtíð og í því ríkir meiri sátt en áður. Ferð undir fjögur augu (1979) er fyrsta og eina skáldsaga Aðalsteins Ásbergs fyrir fullorðna og í henni má sjá sömu stíleinkenni og í ljóðabókum hans. Bókin fjallar um ungan námsmann í leit að sjálfum sér, hann veit ekki hvað hann vill eða hvaða stefnu líf hans muni taka. Tungutakið er ljóðrænt og framvinda sögunnar algerlega á valdi hugsana aðalpersónunnar. Undarlegum, og oft truflandi, myndum er bruðgið upp sem ýta við lesandanum og virðist ætlað að vekja hann til umhugsunar.
Dvergasteinn (1991) er fyrsta barnabók Aðalsteins Ásbergs og fjallar hún um Uglu sem fer í heimsókn til ömmu sinnar í nokkrar vikur yfir sumar. Amman býr í gömlu húsi sem geymir mikla sögu. Í garðinum er stór steinn og þegar Ugla finnur skrítinn gljástein við hann sér hún allt í einu dvergana, íbúa hans. Gljásteinninn gerir þeim sem ber hann kleift að sjá dvergana og þann heim sem er yfirleitt ósýnilegur mönnum.
Herbergið sem Ugla gistir í á Dvergasteini var upphaflega herbergi ömmusystur hennar, Sæunnar, sem dó ung. Ugla finnur dagbók Sæunnar þar sem hún segir frá kynnum sínum af dvergunum í garðinum, hvernig einn þeirra týndi gljásteininum sínum og er dæmdur til að vera mennskur þangað til hann fær hann aftur. Sæunn telur sig vera undir álögum og er viss um að sjúkdómurinn sem dregur hana til dauða stafi af því að hún geti ekki hjálpað dvergnum að komast aftur heim. Ugla uppgötvar þó að í stofu ömmu hennar er gljásteinn alveg eins og sá í draumnum og getur sér þess til að þetta sé steinninn sem dvergurinn týndi. Hún fær Orra vin sinn til þess að hjálpa sér að hafa uppi á dvergnum, sem býr nú í mannslíki í útjaðri bæjarins. Krökkunum tekst að skila steininum til dvergsins sem er þeim afar þakklátur og getur loksins snúið aftur heim.
Bókin er létt og skemmtileg þó að alvarleiki lífsins fléttist inn í söguna með frásögninni af dauða Sæunnar, og dvergsins Gaums, sem getur ekki snúið heim til sín. Í sögunni af dvergnum endurspeglast líf Uglu sjálfrar, því hún er í upphafi ein eins og hann á nýjum stað. Þegar líða tekur á söguna heillast hún af húsi ömmu sinnar, bænum og steininum í garðinum og þegar hún snýr aftur heim til sín í lokin, í hversdagsleikan langt frá Dvergasteini, fær Gaumur einnig að snúa heim til sín, burt frá hversdagsleikanum og aftur í heim álfa og dverga. Sagan er einnig lýsing á því hvernig Ugla áttar sig á því að þó að henni finnist gljásteinninn spennandi vegna þeirra hæfileika sem hann veitir henni, þá sé rétt að skila honum og hjálpa Gaumi að snúa aftur heim. Hún áttar sig á því að stundum verði hún að láta aðra ganga fyrir sínum eigin löngunum og að eigingirni sé aldrei af hinu góða.
Næsta saga Aðalsteins ber nafnið Glerfjallið og kom út 1992. Þar segir frá bræðrunum Halla og Frikka, og frænku þeirra Gúndínu sem er afar merkileg kona. Gúndína tekur að sér að passa bræðurna á meðan foreldrar þeirra fara í ferðalag en áður en þau fara gefur hún Frikka undarlega spiladós sem á eftir að hafa mikil áhrif á líf þeirra. Fyrstu nótt Gúndínu í húsi bræðranna hverfur Frikki og spiladósin með honum. Halli og Gúndína taka sér á hendur langa ferð til finna hann og leitin leiðir þau í undarlegt neðanjarðarland þar sem búa risar, álfar og allskyns aðrar furðuverur. Sér til leiðsagnar hafa þau dropalaga perlu, sem vísar þeim í rétta átt með því að spila sama lag og spiladósin. Þau gera sér þá grein fyrir því að hvarf Frikka tengist á einhvern hátt spiladósinni. Lagið sem spiladósin spilar hefur mikil áhrif á framvindu sögunnar en Gúndína kann textann við lagið og það kemur í ljós að hann beinir þeim einnig á rétta braut ef þeim tekst að túlka hann á réttan hátt.
Á ferð sinni um landið undarlega rekast þau á ýmsar verur sem ýmist hjálpa þeim eða reyna að tefja fyrir þeim. Þau koma loks að háu glerfjalli þar sem búa Skarmýrar, sem eru eins konar blanda af hröfnum og mönnum og virðast frekar hættulegir. Þau komast að því að Skarmýrarnar halda Frikka föngnum því þær halda að hann hafi stolið og eyðilagt spiladósina sem er einhverskonar lykill að hamingju og velfarnaði í ríkinu sem glerfjallið stendur í. Halla og Gúndínu tekst að frelsa Frikka, en á flóttanum út úr fjallinu verður á vegi þeirra öldungur sem segir þeim að eina leiðin til að bjarga landi þeirra og komast svo heim sé að skila perlunni í spiladósina sem muni þá hljóma aftur um landið eins og hlutverk hennar var í upphafi. Halli fær það hlutverk, en til að geta skilað perlunni þarf hann að fara upp háan stiga en með hverju nýju þrepi mætir hann ógnvekjandi skuggamyndum og þarf að yfirvinna ótta sinn til að geta haldið áfram. Allt fer þó vel að lokum, perlan fer á sinn stað og Halli, Frikki og Gúndína geta snúið heim eftir að hafa bjargað landinu undarlega frá myrkri og böli.
Glerfjallið er fyrstu persónu frásögn og er á sama hátt og Dvergasteinn á vissan hátt þroskasaga barns sem kemst að því að stundum þarf að fórna einhverju til að geta hjálpað öðrum. Þessi saga er þó aðeins flóknari en sú fyrri þar sem hún er einnig sagan af því hvernig Halli sigrast á því sem hann er hræddur við, stiginn sem hann fer upp táknar þessa hræðslu en vísar einnig til þess að eigi manni að takast að finna rétta leið í lífinu dugar ekki að gefast upp þegar á móti blæs.
Álagaeldur (1993) er á margan hátt dæmigerðari unglingabók en fyrri bækur Aðalsteins. Aðalpersónur sögunnar eru vinirnir Óðinn og Logi og seinna bætist Árni, frændi Óðins frá Danmörku við. Gamall járnsmiður í bænum, Kobbi að nafni, segir þeim sögu af fjársjóði sem á að vera grafinn í hól fyrir utan bæinn en ef hreyft er við hólnum mun kvikna í bænum. Sagan heillar vinina og þeir halda í útilegu að hólnum til að geta reynt fyrir sér í friði. Samhliða sögunni af hólnum eru lýsingar á samskiptum strákanna við aðra bæjarbúa, aðallega Kobba gamla og hrekkisvín bæjarins, Danna. Strákarnir eiga í stöðugu stríði við Danna en undir lokin kemur í ljós að hann er ekki eins slæmur og hann virðist.
Þegar þeir félagar taka að grafa í hólinn sjá þeir fljótt að sagan sem Kobbi sagði þeim hefur ræst, það er kviknað í smiðju Kobba gamla. Það kemur þó í ljós að bruninn stafar ekki af þjóðsögunni heldur brennuvargi, bróður Danna, sem er kominn til að hræða hann. Félagana þrjá fer að gruna hvernig í málum liggur, þó það sé aðeins Logi sem veit hver sökudólgurinn er því hann hefur unnið trúnað Danna sem sagði honum alla söguna. Vinirnir þrír halda að húsinu við hólinn og komast að því að brennuvargurinn heldur sig þar. Hann kveikir í húsinu áður en hann yfirgefur það en félagarnir þrír leiða hann í gildru og koma honum í hendur lögreglu.
Í þessari sögu er tekið á algengum unglingavandamálum og þá aðallega þeim sem varða samskipti við aðra. Frændinn frá Danmörku og Danni gegna báðir því hlutverki að sýna fram á að hægt sé að vingast við fólk sem manni líst ekki á í upphafi og að fólk geti verið vinir og átt margt sameiginlegt þrátt fyrir ólíkan bakgrunn. Þetta sannast reyndar einna best á vinunum Óðni og Loga sjálfum en Logi missti pabba sinn ungur og býr með móður sinni í lítilli kjallaraíbúð. Hann er frekar fátækur en tekur öllu með jafnaðargeði og virðist sáttari við líf sitt en Óðinn sem á þó bæði fjölskyldu og peninga. Það er aðallega Óðinn sem þroskast í sögunni og lærir að meta fólk að verðleikum.
Furðulegt ferðalag (1996) er fjórða barnabók Aðalsteins Ásbergs en í henni er aðalpersónan yngri en í fyrri bókum. Hún fjallar um Börk sem er að fara að flytja en er ekki sáttur við það. Nótt eina verður hann var við skrítna veru úti í garði, og þegar hann fer að kanna málið kemst hann að því að þetta er skógarpúki sem á að bjarga trjánum í garðinum frá nýju eigendunum sem hyggjast fella þau. Skógarpúkinn, Pansjó, vill að Börkur hjálpi sér við verkið og segir honum að fá fleiri til liðs við þá, því þeir hafi mikið verk að vinna. Trén sem á að bjarga eru svo kölluð lífsandatré, sem eru sérstök tré og hafa sál. Börkur fær vin sinn til liðs við sig og litla systir hans fylgir óvænt með. Pansjó er leyndardómsfullur um verkið og margar þrautir verða á leið þeirra. Þau þurfa að takast á við illa andstæðinga og missa eitt trjánna á leiðinni, en með aðstoð dyggra vina koma þau hinum á leiðarenda og tekst að fá þau til að slá rótum í laut við Þingvelli.
Í þessari sögu tekur Aðalsteinn Ásberg upp þráðinn frá fyrri bókum sínum tveimur þar sem ljóst er að ekki er allt sem sýnist í þessum heimi. Ferðalagið sem þau halda í með trén táknar á svipaðan hátt ferðalag barnanna til þroska, og sýnir hvernig þau læra að takast á við vandamál sem upp koma, á ferðalaginu jafnt og lífsleiðinni. Sagan af trjánum sem verða að rífa sig upp með rótum og flytja endurspeglar líf Barkar sem þarf líkt og þau að rífa sig upp með rótum og flytja sjálfur frá stað sem honum þykir vænt um. Trén kenna honum að það þarf ekki að vera slæmt, nýju heimkynni þeirra eru ekki verri en þau gömlu og þegar Börkur áttar sig á þessu sættist hann við það að þurfa sjálfur að flytja.
Brúin yfir Dimmu (2000) og Ljósin í Dimmuborg (2002) eru nýjustu verk Aðalsteins Ásbergs og í þeim eru stíllinn og efnistök mun ákveðnari en í fyrri bókum. Hér er hann búinn að fínpússa stíl sinn en sögurnar eru töluvert frábrugðnar fyrri verkum hans. Þær gerast báðar í heildstæðum hliðarheimi sem höfundurinn hefur sjálfur skapað. Bækurnar fjalla um Kraka, Póa litla bróður hans, og Míríu frænku þeirra sem eru vöðlungar og búa í fyrri bókinni öll saman, ásamt foreldrum Kraka og Póa, á Stöpli við brúna yfir fljótið Dimmu. Vöðlungar eru verur sem líkjast mönnum og eiga margt sameiginlegt með þeim. Mennirnir eru þó verstu óvinir þeirra, og eru afar hættulegir vöðlungunum. Hægt er að komast á milli mannheima, eða Myrkheima eins og vöðlungarnir kalla heiminn sem við búum í, og vöðlungaheims á mismunandi hátt en leiðirnar eru flestar hættulegar og torfærar. Ætt Kraka og Póa hefur lengi haft það hlutverk að vakta brúna sem liggur yfir Dimmu til mannheima, því fornir spádómar segja til um að í framtíðinni muni mikið skrímsli koma frá Myrkheimum og leggja heim vöðlunga í rúst.
Í fyrri bókinni fara Kraki, Pói og Míría til Myrkheima. Kraki finnur gamla dagbók í bókasafni sem finnst óvænt í leyniherbergi á Stöpli þar sem lýst er hvernig best sé að fara að og þau halda yfir brúna með þá vitneskju sér að leiðarljósi. Þegar komið er til mannheima sjá þau að allt er gjörólíkt því sem þau eiga að venjast og auðvelt reynist fyrir vöðlunga að villast. Pói og Míría lenda í klónum á fjölskyldu sem heldur að þau séu annað hvort álfar eða geimverur og heldur þeim föngnum til að geta sýnt þau fjölmiðlum. Margt undarlegt ber fyrir augu þeirra á heimili mannfólksins, ýmiskonar undarleg tæki og tól sem bæði vekja forvitni þeirra og hræða þau. Míríu tekst að gera sig nokkurn vegin skiljanlega því þó að vöðlungar eigi auðvelt með að skilja mannamál þá eiga mennirnir ekki eins auðvelt með að skilja vöðlungamál. Það kemur í ljós að Allína móðir Míríu, sem hefur verið týnd í mörg ár, býr á næsta bæ og þegar þeim tekst loks að flýja slæst hún í för með þeim. Þau komast með naumindum aftur yfir brúnna og Allínu og börnunum er ákaft fagnað við heimkomuna.
Í seinni bókinni er Míría flutt ásamt móður sinni til Dimmuborgar og Kraki, Pói og Vaðlína mamma þeirra koma í heimsókn. Undarlegir hlutir eru á seyði í Dimmuborg, sem verður bara myrkari og myrkari með hverjum deginum. Ungvöðlurnar komast að því að ljósorkusteinn sem á að vera í turni í miðborginni og lýsa upp borgina er horfinn og veldur slíku myrkri að vöðlungar veikjast í hrönnum og borgin er sett í sóttkví. Kraki, Pói og Míría fara eftir gömlu korti sem Kraki finnur og komast að því hvað hefur gerst og hvernig er hægt að bjarga málunum. Með aðstoð Allínu taka þau sér aftur á hendur ferð til mannheima og tekst að endurheimta steininn ásamt því að finna pabba Míríu, sem hefur verið týndur svo árum skiptir. Þau snúa aftur, koma steininum á sinn stað og hafa bjargað ríki vöðlunga frá myrkri og skelfingu.
Bækurnar um Dimmu og Dimmuborg fylgja hefðum fantasíunnar í ríkari mæli en fyrri sögur Aðalsteins Ásbergs. Börnin ferðast í annan heim, leysa gátur og erfið verk og tekst með sameinuðum kröftum að bjarga heiminum, en þetta eru allt dæmigerð fantasíuminni. Önnur orð eru notuð yfir hversdagslega hluti, kýr heita til dæmis baulur og ungabörn er kölluð burar. Stíllinn er afar skýr og það eykur á skilning og skynjun lesandans á öðrum heimi að hlutirnir beri önnur nöfn, þar sem heimurinn verður meira framandi fyrir vikið.
Eins og í fantasíum almennt fjalla Brúin yfir Dimmu og Ljósin í Dimmuborg undir niðri um leit aðalpersónanna að sínum stað í lífinu og sínu hlutverki. Í upphafi eru bæði Kraki og Míría fremur óörugg um stöðu sína og framtíð, Kraki býst við að þurfa að verða brúarvörður eins og faðir hans en hefur takmarkaðan áhuga á því og Míría hefur ekki hugmynd um hvað bíður hennar þar sem báðir foreldrar hennar eru týndir í byrjun sögunnar. Eftir að hafa ferðast til hættulegra slóða og tekist á við skrímsli og vonda menn átta þau sig bæði á því hvað þau vilja, og sætta sig við það hlutverk sem lífið hefur ætlað þeim.
Auk ljóða og barnabóka hefur Aðalsteinn Ásberg samið fjölda laga og lagatexta. Má þar nefna plöturnar Berrössuð á tánum og Bullutröll sem hann vann ásamt eiginkonu sinni Önnu Pálínu Árnadóttur heitinni. Aðalsteinn semur textana við lögin sem eru í vísnastíl og eru bæði fyndin og skemmtileg. Inn á milli eru einnig sögur sem grípa unga sem aldna hlustendur með hnyttni og alvarleika í bland.
Eins og sjá má er Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson mjög fjölhæfur höfundur þar sem verk hans spanna ljóð, barnabækur, skáldsögu, vísnatexta og þýðingar. Ef litið er á verk hans í heild má sjá hvernig höfundurinn þroskast með verkum sínum og verður bæði ákveðnari og markvissari í umfjöllun og stíl. Vegna þess að verk hans spanna nú þegar rúmlega 25 ár endurspegla þau einnig áherslur hvers tíma, en Aðalsteini tekst auðveldlega að tileinka sér einkenni og áherslur mismunandi tíma.
© María Bjarkadóttir, 2004
Greinar
Almenn umfjöllun
Kristín Birgisdóttir : „...hugsum svo mikið í gegnum eyrun“ (viðtal)
Börn og menning, 14. árg., 2. tbl. 1999, s. 31-36
Um einstök verk
Dimmubókin
María Bjarkadóttir: „„Að breyta myrkri í ljós““
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Eyðibýli
Úlfhildur Dagsdóttir: „Inn í rökkursögu“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Eyðibýli og Hús eru aldrei ein
Auður Aðalsteinsdóttir: „Draugar fortíðar“
Spássían 2011, 2. árg., haust, bls. 14.
Hjaltlandsljóð: þýðingar
Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir: „Hljóðlát ljóð til jarðar“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 32.
Hjartaborg
Úlfhildur Dagsdóttir: „Hraði ljóðsins“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Romsubókin
Úlfhildur Dagsdóttir: „Óvæntar uppákomur í máli og myndum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Sumartungl
Rósa María Hjörvar: „Sumartungl“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Ævintýri úr Nykurskógum og Krúsilíus og fleiri barnasöngvar
Harpa Jónsdóttir: „Nokkrir nýlegir barnadiskar og ein nótnabók“
Börn og menning, 22. árg., 1. tbl. 2007, s. 30-31
Greinar um verk Aðalsteins Ásbergs og viðtöl við hann hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
2023 - Viðurkenning Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir árið 2022
2018 - Viðurkenning fyrir verkefnið Skáld í skólum í tilefni af degi íslenskrar tungu. Aðalsteinn er upphafsmaður verkefnisins og tók við viðurkenningunni fyrir hönd Höfundamiðstöðvar RSÍ
2018 - Sérstök viðurkenning í samkeppni um kórlag í tileni 100 ára afmælis fullveldisins 2018 – fyrir ljóðið "Þjóðvísa"
2010 - Viðurkenning Tónmenntasjóðs kirkjunnar
2005 - Verðlaun úr sjóði Alfred Andersson-Rysst (Noregi)
2004 - Verðlaun í örleikjasamkeppni Síung fyrir leikþáttinn "Lýsing"
2003 - Viðurkenning úr Bókasafnssjóði höfunda
2001 - Viðurkenning Tónmenntasjóðs kirkjunnar
1999 - Viðurkenning Íslandsdeildar IBBY: Berrössuð á tánum
1997 - Viðurkenning úr Rithöfundasjóði Íslands
1994 - Fyrstu verðlaun í smásagnasamkeppni Íslandsdeildar IBBY og Máls og menningar: Ormagull
1990 - Verðlaun í bókmenntasamkeppni AB: Dvergasteinn
1984 - Viðurkenning úr Rithöfundasjóði Íslands
Tilnefningar
2021 - Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir 43 smámunir eftir færeyska höfundinn Katrin Ottarsdottir.
1994 - Evrópsku leikskáldaverðlaunin: Óvinir (óbirt leikrit)
Spunatíð
Lesa meiraSpunatíð er ellefta frumsamda ljóðabók Aðalsteins Ásbergs, en ljóð hans hafa verið þýdd og gefin út á norsku, ensku, þýsku, frönsku og rússnesku.Kvæði og sögur
Lesa meiraMyndarlegt úrval af kvæðum og sögum þessa brautryðjanda vestrænna nútímabókmennta, sannkölluð stórbók með þýðingum frá fyrri tíð, en líka glænýjum þýðingum eftir marga kunna þýðendur. Meðal eldri þýðinga eru Svarti kötturinn og Hjartslátturinn í þýðingu Þórbergs Þórðarsonar, Hrafninn í rómuðum þýðingum Einars Benediktssonar og Þorsteins frá Hamri, Í röstinni í þýðingu Málfríðar Einarsdóttur og Draumaland í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Nýir þýðendur kvæða og sagna eru Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Ástráður Eysteinsson, Elísa Björg Þorsteinsdóttir, Jón Karl Helgason, Rúnar Helgi Vignisson og Sjón.Vendipunktar
Lesa meiraKvæðið um Krummaling
Lesa meiraSumartungl
Lesa meiraDimmubókin
Lesa meiraLjóð í leiðinni: skáld um Reykjavík
Lesa meiraSjálfsmyndir
Lesa meiraDvärgstenen
Lesa meira
Heyrnarlaust lýðveldi
Lesa meiraHeyrnarlaust lýðveldi er ljóðabók sem fjallar um atburði í ónefndum bæ á stríðstímum. Þegar innrásarlið drepur heyrnarlausan dreng, verður byssuskotið það síðasta sem bæjarbúar heyra – allir missa heyrnina, en angist, reiði, skelfing og uppgjöf eru látin í ljós á táknmáli.Úr vonarsögu
Lesa meiraLjóðaflokkur þar sem vonin sjálf er undirliggjandi og mikilvægt afl til mótvægis við atburði sem eiga sér stað á yfirborðinu. Á markvissan hátt vinnur skáldið úr minningabrotum úr æsku og fléttar saman hinu kunnuglega og því sem er framandi.. .Stjarnan í austri
Lesa meiraJólasaga um Mæju mey og barnið, byggð á gömlum helgisögnum og ævintýrum, og gerist í vetrarríki á norðurslóðum.Umskiptin
Lesa meiraSjáðu Hamlet
Lesa meiraEinmunatíð og fleiri sögur
Lesa meiraRummungur 3
Lesa meira