Beint í efni

Fíasól í Hosíló og Ríkey ráðagóða

Fíasól í Hosíló og Ríkey ráðagóða
Höfundur
Kristín Helga Gunnarsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Barnabækur
Fíasól í Hosíló og Ríkey ráðagóða
Höfundur
Eyrún Ingadóttir
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í allri umræðunni um fegurðardrottningu Íslands sem varð ungfrú alheimur nú fyrir skemmstu er afskaplega hressandi að setjast niður og lesa tvær barnabækur um stelpur sem eru gersamlega lausar við prinsessudrauma. Hinsvegar dreymir þær báðar um að veiða fisk! (án þess þó að vilja borða hann). Þótt nokkur aldursmunur sé á þeim Fíusól og Ríkey eiga þær það sameiginlegt að vera afskaplega lítið dömulegar, í raun má segja að báðar sögurnar geri sitt besta til að skapa persónur sem eru fyrst og fremst krakkar, og síðan stelpur, ef svo má segja: að því leyti finnst mér að báðar bækurnar ættu að geta höfðað jafnt til stráka og stelpna.

Fíasól í hósiló (Mál og menning, 2005) er eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur sem getið hefur sér gott orð fyrir líflegar og glaðlegar barnabækur. Þetta er önnur sagan af Fíusól, en sú fyrri, Fíasól í fínum málum, kom út í fyrra (2004). Fíasól er sjö ára og eins og segir í sögunni þá er sjö ára stelpum gersamlega ómögulegt að vera kyrrar. Fíasól er því á stöðugri hreyfingu í gegnum alla bókina, hvort sem er þegar hún flýr úr ‘hræðilega herberginu’ sínu yfir til systur sinnar af ótta við lítil blá skrýmsli í glugganum og loðin skrýmsli í dótakassanum, eða þegar hún getur ekki staðið kyrr meðan mamma hennar spjallar við kunningja sinn sem hún hittir í búð. Inn í söguna blandast besti vinur Fíusólar, Ingólfur Gaukur, og svo veiðiumræða mikil, en meðal annarra atburða veiðir Fíasól fyrsta fiskinn sinn, bleikju (sem heitir María), og meira að segja borðar hann, þó hún sé almennt séð ekki gefin fyrir fisk. Í stuttu máli sagt er þessi saga af Fíusól bráðskemmtileg bók, bæði eru sögurnar skemmtilegar og svo er texti Kristínar Helgu svo líflegur að allt fer á hreyfingu með Fíusól. Myndir Halldórs Baldurssonar leika líka stórt hlutverk í því að skapa þessari einföldu sögu sérstakan og ævintýralegan andblæ.

Ríkey ráðagóða (JPV útgáfa, 2005) er fyrsta barnabók Eyrúnar Ingadóttur, en hún er sagnfræðingur að mennt og sendir í ár einnig frá sér bók um Örn Clausen. Öfugt við Fíusól býr Ríkey úti á landi og gengur sagan út á það hvað Ríkey finnur uppá að gera yfir eitt sumar, sumarið sem hún er ellefu ára. Hún á að passa yngri systur sína og líkar það illa, enda fer illa, því litla systir dettur og slasar sig og Ríkey fyllist samviskubiti. Afleiðingarnar eru þó þær að hún losnar við pössunina og hefst handa við að byggja þorp, RÍJÓ, með vini sínum Jónasi (RÍ-key-JÓ-nas) og í félagi við fleiri vini halda þau kjötkveðjuhátíð. En glannaskapur veldur enn vandræðum. Inn í söguna blandast afi sem er trillukarl og leyfir Ríkey að fara með sér á sjó og Sóli, sem er skrýtinn einfari og verður fyrir aðkasti, en Ríkey og félagar vingast óvænt við. Einnig er tekið á ýmsum átökum í fjölskyldu og þjóðfélagi. Þannig er sagan af Ríkey öllu efnismeiri en sagan af Fíusól, en það þýðir ekki endilega að hún sé betri. Meðan Fíusólarbókin iðaði af lífi er sagan um Ríkey ráðagóðu einkennilega bragðdauf og hefðbundin saga af uppátækjum krakkahóps, og sá félagslegi þáttur sem rennur í gegnum Ríkey er með óþarflega miklum undirtónum predikunar. En sagan er ágætlega sögð og vissulega er ánægjulegt að sjá ráðagóða og drífandi stelpu í aðalhlutverki í svona þorpssögu.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2005