Æviágrip
Kristín Helga Gunnarsdóttir fæddist 24. nóvember 1963 í Reykjavík. Eftir stúdentspróf stundaði hún nám við Háskólann í Barcelona og lauk síðan B.A. prófi í spænsku og fjölmiðlafræði frá University of Utah í Salt Lake City 1987. Hún tók próf frá Leiðsögumannaskóla Íslands árið 1994. Kristín Helga hefur starfað sem leiðsögumaður og fararstjóri, verið flugfreyja hjá Flugleiðum og hún var fréttamaður hjá Stöð 2 og Bylgjunni 1987-1998. Frá 1998 hefur hún einbeitt sér að skrifum og blaðamennsku.
Fyrsta bók Kristínar Helgu, Elsku besta Binna mín, kom út árið 1997 og síðan hefur hún gefið út fjölmargar bækur fyrir börn. Hún hlaut Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur árið 2001 fyrir bókina Mói hrekkjusvín og hefur síðan hlotið fleiri viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Bókaverðlaun barnanna ítrekað, síðast árið 2018 fyrir Vertu ósýnilegur. Hún hefur jafnframt hlotið Vestnorrænu barnabókaverðlaunin og Sögustein, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi.
Kristín Helga er gift og á þrjú börn. Hún býr í Garðabæ.
Forlag: Mál og menning.
Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Frá höfundi
Frá Kristínu Helgu Gunnarsdóttur
Sögur fljúga manna á milli allan daginn og inn í nóttina. Allir eru alltaf að segja sögur. Maður gæti til dæmis spurt sjálfan sig að kvöldi: Hvað hef ég heyrt margar sögur í dag? Svarið kæmi manni áreiðanlega á óvart. Sögurnar eru í blöðunum, sjónvarpinu og útvarpinu. Þær æða áfram eftir símalínum, þeytast manna á milli í skólum, á vinnustöðum, á róló, í búðinni, á fundum og mannamótum. Það þarf bara tvo til; sögumann og hlustanda. Þetta eru hamingjusögur, sorgarsögur, glæpasögur og skemmtisögur, hetjusögur og ástarsögur.
Þess vegna var alls ekki erfitt að fara úr fréttamennsku, þar sem ég sagði sannar sögur, yfir í heim skáldskaparins þar sem ég réði persónum, söguþræði og sögulokum, gat mótað manneskjur og ráðið örlögum þeirra. Kannski eru bækurnar mínar barnabækur. Ég veit það ekki. Mig langar miklu fremur að þær séu fjölskyldubækur. Bók er bara bók. Ef hún er leiðinleg nennir enginn að lesa hana. Ef hún er áhugaverð á hún erindi til allra.
Það er ósköp notalegt að kúra einn með bókina sína, sökkva sér ofan í aðra veröld og eignast þar bæði vini og óvini, en það eru líka ómetanlegar stundir, sem brúa bil kynslóða, þegar börn og fullorðnir geta átt saman sögustund yfir góðri bók. Þá fer í gang svo dýrmætt félagslegt atferli sem skapar umræður um lífið og tilveruna. Svo bókin megi lifa verður að lesa fyrir börn. Í okkar hraða, tímasnauða og oft á tíðum grimma samfélagi verður lítill tími aflögu til sameiginlegra lestrarstunda. Sjónvarp og tölvur verða rafrænir leikfélagar - daglegum samverustundum fækkar.
Þegar ungir og gamlir hlæja saman yfir sögu, hneykslast og býsnast, jafnvel gráta saman - þegar stóra manneskjan stelst til að lesa einn kafla í viðbót eftir að sú litla er farin inn í draumalandið - það er bók sem brúar kynslóðir og veitir ungum og gömlum sameiginlega ánægjustundir. Slík bók er fjölskyldubók og þannig bækur langar mig að skrifa.
Börn eru miskunnarlaus, kröfuharður, síkvikur en jafnframt einlægur og þyrstur lesendahópur. Fullorðnir láta sig til dæmis hafa það að sitja undir lestri þar til yfir lýkur, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þeir byrja ekki að iða í sæti, bora í nefið og klípa næsta mann við hliðina ef sagan missir marks eða höfðar ekki til þeirra. Þess vegna finnst mér mikil áskorun fólgin í því að skrifa fyrir börn. Þegar dauðaþögn ríkir, ákefð og einbeitni skín úr andliti lítillar manneskju sem er horfin inn í söguna, búin að hreiðra um sig á síðum bókarinnar og drekkur í sig atburðarásina - þá fer gleðistraumur um höfundinn og takmarkinu er náð. Ef saga nær slíkum tökum á barni hef ég mikla trú á að fullorðin manneskja geti orðið fyrir svipuðum hughrifum og þá er niðurstaðan: Góð fjölskyldubók.
Kristín Helga Gunnarsdóttir, 2001
Um höfund
Ferill Kristínar Helgu Gunnarsdóttur spannar rúm 20 ár. Hér að neðan birtast tvær greinar um verk hennar, sú fyrri er eftir Ingu Ósk Ásgeirsdóttur og nær sú umfjöllun til ársins 2001. Í kjölfarið er kemur svo grein Rósu Maríu Hjörvar sem tekur við þar sem grein Ingu Ósk sleppir.
Um verk Kristínar Helgu
Kristín Helga Gunnarsdóttir hefur vakið mikla athygli fyrir barnabækur sínar en frá árinu 1997 hefur hún gefið út fimm bækur, tvær um stelpuna Binnu, Elsku besta Binna mín og Bíttu á jaxlinn, Binna mín, einnig Móa hrekkjusvín um Móa nágranna Binnu, auk tveggja sem höfða meira til yngri lesenda, Keikó, hvalur í heimsreisu sem er ríkulega myndskreytt og Milljón steinar og Hrollur í dalnum sem fjallar um Heklu 5 ára. Erfitt er þó að tilgreina hvaða aldri bækurnar hæfa, kannski fer það meira eftir áhugasviðum barnanna. Binnu- og Móabækurnar segja frá óvenju fjörugum stelpum og strákum og efni þeirra er raunsæislegt. Keikóbókin er mjög fræðandi og höfðar mjög vel til barna sem áhuga hafa á dýrum. Milljón steinar og hrollur í dalnum vinnur markvisst með þjóðsagnahefðina, skrímsli, álfa, drauga og galdra. Slíkt efni heillar mörg börn en önnur ekki en börn virðast mishrifin af fantasíum. Sjálf var ég mjög hrifin af öllum bókunum og tel athyglisvert hversu mikil gróska hefur átt sér stað í útgáfu barnabóka síðustu ár og hversu margir höfundar eins og Kristín Helga hafa sýnt þessu oft vanmetnu bókmenntategund tilhlýðilega virðingu.
Sagan Keikó, hvalur í heimsreisu byrjar eins og hinar bækurnar á hugleiðingu sem inniheldur boðskap sagnanna í hnotskurn auk þess sem hún minnir fullorðna á að börn sjá hlutina oft í skýrara ljósi og mikilvægt er að glata ekki þessu barnslega innsæi:
Kannski skilja börn þetta ævintýri betur en fullorðnir af því að börn eiga framtíðina. Þau ráða því hvernig framtíðin verður. Þau ráða hvernig þau hugsa um jörðina, náttúruna og dýrin. Þau ráða hvort þau henda gömlum reglum og búa til nýjar um veröldina, hvort þau vilja lifa með náttúrunni í sátt við hana eða berjast á móti henni og finna aldrei samhljóm. (Keikó, hvalur í heimsreisu, bls. 3)
Binnubækurnar
Fyrri Binnubókin Elsku besta Binna mín gerist sumarið þegar Binna er níu ára og seinni bókin Bíttu á jaxlinn, Binna mín veturinn eftir og byrjun sumars. Sögurnar gerast að mestu í litlu þorpi nálægt Reykjavík í kringum 1970. Ekki er greint frá nafni þorpsins enda einskorðast heimur sögunnar að mestu við Silfurgötu sem Binna býr við en þar eru 20 krakkar. Við götuna er mói svo stutt er fyrir krakkana að fara út í náttúruna.
Sagan veitir nýja innsýn í heim lyklabarnsins því mamma Binnu vinnur úti ólíkt hinum mömmunum í götunni sem eru heimavinnandi, „svuntumömmunum“ eins og Binna kallar þær. Binna er hæstánægð með hlutskipti sitt og nýtur þess að ráða yfir húsinu ásamt Þorbjörgu hundinum sínum. Húsið er ævintýrakastali og Þorbjörg eða Tobba „heimilisdrekinn“ sem gætir hans. Binna lendir þó stundum í vandræðum, gerir eitthvað án þess að hugsa, og þá fær mamma hennar samviskubit og talar um að hún verði að hætta að vinna. Það vill Binna alls ekki og reynir að stilla uppátækjunum í hóf. Reyndar sendir mamma hennar hana í sveit í fyrri bókinni til ömmu sinnar og afa í Dölunum og víkka sveitakaflarnir heim bókarinnar og koma í veg fyrir einsleitni.
Binna er aðalpersóna og segir söguna. Hún er alltaf með þremur vinkonum sínum, Villu, Betu og Gunnu. Aðrir krakkar úr götunni koma líka við sögu, svo sem hin ómissandi hrekkjusvín. Pabbi Binnu vinnur sem landmælingamaður og er mikið uppi á fjöllum, mamman vinnur í skipafélagi og síðan á Binna systurina Mímí sem er dæmigerður unglingur. Aðrar persónur eru afi og amma Binnu í sveitinni og eru þau gamaldags sveitafólk og alger andstæða afa og ömmu Binnu í borginni.
Persónur eru fyrir utan Binnu mest týpur og fulltrúar ákveðinna gilda. Binna er mjög sjálfstæð og hugmyndarík eins og söfnunarárátta hennar í vísindaskyni ber vott um. Hugmyndaflugið og uppátækjasemin getur þó valdið vandræðum og þótt mamma Binnu skilji hana ítrekar hún að Binna beri ábyrgð á gjörðum sínum og þurfi að biðjast fyrirgefningar og bæta fyrir mistök sín. Binna lendir í einelti í skólanum sem hún kallar „Binnubann“, aðallega vegna þess að hún er í öðruvísi úlpu en hinar stelpurnar. Í því stríði bítur hún á jaxlinn og bölvar í hljóði eins og afi hennar kennir henni og hefur sigur að lokum. Hún kemst að því að það er allt í lagi að vera öðruvísi. Gildi vináttunnar er einnig hampað í sögunum og Binna og vinkonur hennar standa þétt saman og styðja hver aðra í raunum, til dæmis þegar Binna pissar undir er þær gista í tjaldi yfir nótt.. Amma Binnu í sveitinni er ótrúlega kærleiksrík og umburðarlynd og góðsemi hennar hefur mikil áhrif á Binnu. Afinn og amman í sveitinni falla vel að ímyndinni, þau eru laus við stress og í betri tengslum við náttúruna en vinnulúnir foreldrarnir. Að sumu leyti eru þau tákn hverfandi tíma því þau flytja úr sveitinni í blokk í Reykjavík og jörðina kaupir ríkur borgarkarl sem ætlar að rífa bæinn og byggja sumarhús.
Binnusögurnar tvær samanstanda af inngangsköflum og mörgum stuttum köflum sem hver rekur ákveðna sögu. Flestir lýsa uppátækjum og vandræðum Binnu og vinkvenna hennar, til dæmis hundasúruátkeppni sem endar á Slysavarðstofunni, ráni úr garði nágranna og tombólu þar sem Binna gefur dýrgripi foreldra sinna. Inn á milli eru þó alvarlegri kaflar sem lýsa sveitadvöl, því hvernig Binna upplifir helgi jólanna, svo og því þegar hundurinn hennar týnist í fjölskylduferð. Að auki týnist pabbi hennar í óveðri á fjöllum og sjálf gleymist hún bundin við staur eftir að hafa verið í indjánaleik fjarri heimili sínu. Allt fer þó vel og margir kaflarnir enda á því að Binna leggst til svefns, full þakklætis og gleði yfir lífinu.
Persóna Binnu er mjög lífleg og einlæg, hún er úrræðagóð og þegar hún gerir eitthvað af sér er það gert í góðri trú. Samúðin er með henni en þó er undirstrikað að leikir barna geti haft alvarlegar afleiðingar. Sögurnar eru fyndnar án þess að vera yfirdrifnar. Stíllinn er mjög lifandi og samtöl eðlileg. Hver kafli segir ákveðna sögu á hnitmiðaðan hátt, án útúrdúra eða uppbrota. Orðfærið er sérstaklega fjölbreytt og kjarngott og á engan hátt einfaldað eða stílfært. Myndir Margrétar Laxness eru fjörlegar og miðla hlýju líkt og textinn.
Mói hrekkjusvín
Mói nágranni Binnu úr Silfurgötu er níu ára. Hann er hrekkjusvín. Ég velti því fyrir mér hvort hugtakið hrekkjusvín væri enn notað, hvort hrekkjusvínin væru talin ofvirk eða misþroska í dag. Niðurstaðan var sú að börn sem ég þekki tala enn um hrekkjusvín. Sagan er samferða Binnubókunum í tíma, gerist fyrir um það bil 25 árum þegar kúrekar og indjánar voru aðalhugðarefni drengja. Frásagnir af slíkum leikjum vekja að minnsta kosti upp minningar hjá pöbbum sem lesa bækurnar, en hugmyndin um kúrekann Byssu-Jóa, ósýnilegan vin Móa, gerir hugarheiminn mjög áþreifanlegan og sterkan. Fyrir utan Byssu-Jóa, þriggja metra háan kúreka og fylgdarmann Móa er sagt frá Góa, leynivininum sem hann sefur með á nóttinni. Mói er því þrátt fyrir æsileg prakkarastrik lítill í sér. Líkt og Binna framkvæmir hann án þess að hugsa, en ekki af slæmum hug. Hrekkjusvínið er því ekki vandamálatilfelli heldur er litið svo á að vesenið eldist af drengnum.
Frásagnarhátturinn er sá sami og í Binnubókunum og raddir þeirra Binnu og Móa hljóma svipað. Bæði tala í fyrstu persónu og frásagnargleðin er mikil, þegar sagt er frá einu atviki kviknar oft minning um fleiri slík tilvik. Sjónarhorn Móa er fyndið, hann þarf bara að prófa ýmsa hluti. Ævintýri Móa eru þó æsilegri en Binnu, hann flækist inn í þjófnaðar- og lögreglumál, er bjargað úr lífsháska af björgunarsveit og heimsækir sjálfan forsetann. Binna er meira í því að halda tombólu og baka drullukökur og má merkja greinilegan kynjamun. Kannski hentar prakkarastrikaformið strákasögum betur? Allavega er meira fjör í Móabókinni, bæði hvað efni og myndskreytingar varðar. Myndirnar eru eftir Margréti Laxness eins og í Binnubókunum en hér fer hún þá leið að flétta myndirnar meira inn í söguna, inn á milli lesmálsins, og skreyta kaflana þar að auki með táknum og flúri. Myndirnar gegna að mínu mati stærra hlutverki í þessari bók en Binnubókunum og þær eru sterkari og eftirminnilegri.
Keikó, hvalur í heimsreisu
Líkt og mörgum fannst mér nóg um allt umstangið með hvalinn Keikó. Þess vegna óttaðist ég að saga Kristínar Helgu væri ein af þessum einnota bókum sem samdar eru í gróðaskyni. Sem betur fer reyndist svo ekki vera og ég komst að því við lestur sögunnar að í raun vissi ég lítið um þennan fræga hval og hvali almennt.
Bókin er myndabók, myndskreytt af Hallgrími Ingólfssyni og Aðalsteini Svani Sigfússyni. Texti sögunnar er þó talsverður á 34 síðum enda letrið fremur smátt. Sagan er rammasaga og býr sögumaður til ímyndað sögusvið, dýagarðinn í borginni Lúmín í landinu Lúmínala. Í byrjun leiðir hann barn í gegnum garðinn og saman skoða þau ísbjörn, ljón, górillu, mörgæs og hval. Garðurinn er á suðrænum slóðum, hitinn er nær óbærilegur og dýrunum líður illa. Fyrir utan að ímynda sér ferðina í dýragarðinn lætur sögumaðurinn barnið loka augunum í garðinum og ímynda sér dýrin í réttum heimkynnum, frjáls, stolt og hamingjusöm:
Ísbjörninn liggur á maganum á steinsteyptri grænmálaðri klöpp við gruggugan poll. Þykki, hvíti feldurinn hans er skítugur. Hann horfir hjálparvana á okkur og virðist lamaður í hitanum. Við horfum á hann og kannski segir þú:
Aumingja greyið.
Þá segir ég:
Já, vesalingurinn. Það er ólíklegt að honum líði vel hér.
Þú tekur í höndina á mér og saman lokum við augunum. Við ímyndum okkur bláhvítar ísbreiður, kaldan sjó og ísjaka. Stjörnur og norðurljós skreyta himininn. Við sjáum ísbjörninn okkar standa stoltan á ísnum. Hann horfir haminjusamur yfir norðurhafið. Svo opnum við augun og sjáum vin okkar mása í hitanum niðri í steyptri gryfjunni. (Keikó, hvalur í heimsreisu bls. 5)
Myndmál textans höfðar mjög til skynjunar, andstæður eru skýrar, hugsunin um kaldan sjó fær aukið gildi í hitanum. Á hverri opnu þessarar frásagnar eru myndir sem draga andstæðuna enn frekar fram, sýna sama dýrið í dýragarðinum annars vegar og í náttúrulegum heimkynnum sínum hins vegar. Eftir að hafa skoðað hvalinn synda hring eftir hring í lítilli laug og hlustað á tregafullt væl hans sest sögumaður í skugga á bekk með íspinna og segir barninu ævintýrið um íslenska háhyrninginn. Sú frásögn er í þriðju persónu en að henni lokinni er aftur skipt yfir í dýragarðinn og fyrstu persónu frásögn, þar er komið að lokun og eftir umræður á bekknum yfirgefa sögumaður og viðmælandi hans garðinn.
Sagan um ævi Keikós er sett fram sem ævintýri. Ísland er eldfjallaeyja með litlu sætu veiðimannasamfélagi þar sem menn lifa í sátt við náttúruna. Háhyrningurinn er veiddur við Ísland þegar hann er tveggja ára, tekinn frá fjölskyldunni, sendur milli dýragarða um allan heim, fluttur á heilsuhæli eftir að hafa öðlast frægð og frama í kvikmyndum og loks skilað aftur heim eftir 20 ár þar sem hann á að læra að bjarga sér í náttúrunni á ný. Á yfirborði endar ævintýrið vel, Keikó fær frelsi. Sé betur að gáð er frelsið ekki raunverulegt.
Dýragarðsramminn er ákveðin veruleikatenging og sorglegt hlutskipti dýranna í dýragarðinum í Lúmín kallast á við sögu Keikós sem lendir á alls kyns hremmingum í dýragörðum, allt frá einelti af hálfu annarra háhyrninga, til hungurs, veikinda og vinnuþrælkunar sem skemmtikraftur. Keikó er ekki persónugerður í sögunni heldur er aðeins reynt að túlka tilfinningar hans út frá hljóðum, látbragði og útliti. Barnið sem hlustar á söguna sættir sig ekki við dýragarða sem sjálfsögð og eðlileg fyrirbæri og spyr þeirrar spurningar sem gleymist í sjálfumgleðinni yfir frelsun Keikós:
En var þetta ekki ósköp heimskulegt? Segir þú.
Hvernig þá?
Fyrst var hvalur veiddur. Svo var hann fluttur um allar trissur, heimshornanna á milli með skipum, flutningabílum og flugvélum, úr einni sundlaug í aðra. Loks var hann sendur heim til sín í undirdjúpin þar sem hann var veiddur fyrir óralöngu. Mikið getur mannfólkið verið vitlaust. Finnst þér það ekki? spyrð þú. Af hverju fékk hann ekki bara að vera í friði í sjónum með fjölskyldunni sinni? (Keikó, hvalur í heimsreisu, bls. 33)
Þrátt fyrir útskýringar um dásamlegt sendiherrahlutverk Keikós og kærkomna hvíld á heimaslóðum, lætur barnið ekki segjast: „Bað hann um að fá að ferðast: spyrð þú hissa.„ (Keikó, hvalur í heimsreisu, bls. 33)
Barnið er ekki kveðið í kútinn og rödd þess hljómar áfram að lestri loknum. Sagan veltir upp mörgum siðferðilegum spurningum um sambúð manns og náttúru og kallar hvern og einn til ábyrgðar.
Milljón steinar og Hrollur í dalnum
Milljón steinar og Hrollur í dalnum er sögð af hinni sjö ára Heklu og lýsir ævintýrum hennar í sveitinni hjá afa og ömmu þar sem hún dvelur ásamt Kötlu systur sinni og hundinum Eyjólfi á meðan vinnuþrælarnir og húsbyggjendurnir foreldrar hennar skreppa til Parísar „að lyfta sér upp“.
Afi og amma Heklu eru ekki bændur heldur keyptu þau eyðijörð, athvarf frá Reykjavík sem afinn kallar „Rykvík“. Á jörðinni Bjargi nýtur hann lífsins og stundar skógrækt. Amman er ekki eins ginkeypt fyrir sveitasælunni og dvelst meira í Reykjavík. Gamla fólkið í þessari sögu er, líkt og í mörgum öðrum, nátengdara náttúrunni en þeir sem yngri eru og gefur börnunum meiri tíma. Afinn spinnur upp sögur um tröll, skrímsli, álfa og drauga tengdar umhverfi býlisins og amman segir Heklu klassísk ævintýri um kónga og drottningar sem hún hefur betrumbætt. Mjallhvít giftist auðvitað ekki prinsinum strax þótt hann kyssi hana og pabbi og stjúpa Hans og Grétu fara í fangelsi og meðferð fyrir að úthýsa börnum sínum.
Sögur afans eru, líkt og þjóðsögur, trúverðugar hvað umhverfi snertir og Hekla trúir þeim þótt afinn ætlist ekki til þess og amman sé stöðugt að skamma hann fyrir bullið. Þar sem sagan er sögð frá sjónarhóli Heklu renna saman hið náttúrlega og hið yfirnáttúrulega. Hún sér skrímslið í ánni sem afi hennar hafði sagt henni frá til þess að hún væri ekki að þvælast nálægt ánni og þegar á líður söguna er skrímslið stöðugt að skjóta upp kollunum tveimur. Hræðsla Heklu við skrímslið er nær óbærileg en hún biður samt afa sinn að segja sér söguna einu sinni enn, en samkvæmt henni er skrímslið stúlka í álögum. Afinn segir ennfremur hvernig hægt sé að hnekkja álögunum og Hekla fylgir leiðbeiningum, fer í óleyfi út um miðnætti, kastar steini í ána og frelsar stúlkuna:
Allt í einu rufu ógurlegar drunur næturkyrrðina. Hulduklettur skalf og nötraði, og ég var næstum dottin fram af honum og út í ána. Ég greip í Eyjólf og við hjúfruðum okkur upp að Stóra-Steini á klettinum. Grimmilegt öskur bergmálaði í fjallasalnum. Það barst frá fossinum. Vatnaskrímslið teygði sig í öllu sínu veldi upp úr fosshylnum með miklum óhljóðum. Skyndilega hneig ófreskjan niður sem dauð væri og hamurinn flaut líflaus niður ána, framhjá okkur. Um leið sveif silfurlituð þokuslæða upp úr fossinum og hóf sig til himins. Var það sál vesalings stúlkunnar? (Milljón steinar og Hrollur í dalnum, bls. 63)
Hekla sigrast á ótta sínum og beitir til þess meðölum ævintýrisins. Hið góða sigrar hið illa og jafnvægi kemst á milli ímyndunar og veruleika.
Sagan er mjög skemmtilega skrifuð líkt og hinar sögurnar. Kristín Helga vinnur hér á meðvitaðan hátt með þjóðsagnaarfinn enda úr miklu að moða. Hún blandar saman ýmsum tegundum þjóðsagna og hleður söguna minnum. Boðskapur þjóðsagnanna um virðingu fyrir náttúrunni er hér í heiðri hafður svo og uppeldisgildi sagnanna sem margar hverjar hafa þann tilgang að forða börnum frá hættum. Auk þess boðar sagan gildi fjölskyldunnar, Kötlu líður betur í lítilli blokkaríbúð en nýja einbýlishúsinu, áður en foreldrarnir hlaða á sig yfirvinnu. Stundum læðist að manni grunur um að barnabækur séu ekki síður skrifaðar með fullorðna upplesara í huga!
© Inga Ósk Ásgeirsdóttir, 2001
Verk Kristínar Helgu Gunnarsdóttur frá 2001 – 2018
Gallsteinar afa Gissa frá 2002 segir sögu systkinanna Torfa og Grímu sem búa ásamt foreldrum sínum og eldri bróður á annasömu heimili. Foreldrar þeirra eru uppteknir við vinnu og að skipa börnunum fyrir verkum. Þar að auki glíma þau við „unglingaskrímslið“, eins og þau nefna eldri bróður sinn, sem gerir þeim lífið leitt. Systkinin leita skjóls við sjúkrabeð afa Gissa sem er rúmfastur á spítala vegna gallsteinaaðgerðar.
Eins og í öðrum verkum nær Kristín Helga að fanga andrúmsloftið á íslensku nútímaheimili út frá sjónarhorni barnanna. Gríma er hagmælt barn og kryddar frásögnina með ljóðrænum spakmælum auk þess að halda verndarvæng yfir Torfa bróður sínum. Torfi ræður illa við þær hættur sem leynast í hversdagslífinu sem flestar tengjast sambúðinni við „unglingaskrímslið“. Gallsteinar afa Gissa hafa samkvæmt honum galdramátt og í meðförum barnanna verða þeir töframunir og upphefst ævintýri. Allar óskir krakkana rætast, þau fá frí í skólanum, hressa og afslappaða foreldra og peningar vaxa undir persnesku peningamottunni. Fljótt fer Torfa að lítast illa á ástandið. Mamma og pabbi eru hætt að þrífa húsið, sinna ekki vinnu og gefa börnunum ekkert nema nammi. Gríma er hins vegar hæstánægð með samveruna og gotteríið. Torfi og Gríma þurfa að vera sammála til þess að galdramáttur steinanna virki. Þetta er flækja í ætt við þá sem við þekkjum úr bókinni Palli var einn í heiminum, og hér snúast óskir krakkanna upp í andhverfu sína og þau þurfa að læra að meta það sem þau áttu til þess að geta endurheimt það.
Árið 2016 flutti Ríkisútvarpið jólaleikritið Gallsteinar afa Gissa – yfirnáttúrulegt fjölskylduleikrit í fimm þáttum, í leikstjórn Vigdísar Jakobsdóttur með tónlist eftir Jónas Sigurðsson.
Loftur og gullfuglarnir kom út hjá Námsgagnastofnun árið 2003 og var samhliða gefin út sem hljóðbók. Aftur er sjónarhornið barnsins, í þessu tilviki tólf ára drengs sem heitir Loftur og liggur mjög veikur á spítala. Hann kynnist í draumum sínum leynireglu sem kallast „Gullfuglarnir“ sem hjálpar veikum börnum og börnum í vanda. Liðsmenn leynireglunnar eru börn og unglingar sem eru á spítala eða eiga hvergi heima og fljúga í draumum sínum um víða veröld. Leiðtogi þeirra heitir Pikkólína og býr í París. Loftur heimsækir hana ásamt Lilju hvítaljós sem liggur meðvitundarlaus og þungt haldin á sama spítala og hann. Saman hafa þau í nógu að snúast og upplifa ýmis ævintýri á ferðalögum sínum sem Gullfuglar. Í frásögninni af ævintýrum Lofts glittir í kaldan veruleika langveiks barns en höfundur staldrar aldrei við það í sögunni, heldur leyfir lesanda að skoða heiminn eins og hann birtist Lofti. Sagan er spennandi, óræð og hentar vel yngri lesendum sem eru að stíga sín fyrstu skref inn í heim bókmenntanna. Höfundur ræður einstaklega vel við að kynna fyrir börnum erfiðar aðstæður á þeirra forsendum án þess að ryðjast inn í heim barnsins með óþarfa hörku eða fegra um of. Frásögnin er þannig alltaf einlæg, tilgerðarlaus og laus við væmni.
Bókin Strandanornir kom út hjá Máli og menningu árið 2003 og gerist í galdramenningu Strandamanna. Aðalpersónurnar og systurnar Messíana og Úrsúla lenda, ásamt vinum og fjölskyldu, í ævintýri sem leiðir þær vestur og gefur þeim tækifæri til að kynnast göldrum í bæði fortíð og nútíð. Faðir þeirra er uppfinningamaður og honum tekst að selja uppfinningu og getur því keypt risa húsbíl og boðið öllum í ferðalag. Amma systranna, Kolfríður, er sótt heim af uppvakningi og þrátt fyrir að vera sjálf rammgöldrótt þarf hún aðstoð til þess að kveða hann niður. Þegar fjölskyldan leggur í langferð slæst Kolfríður amma með í för ásamt uppvakningnum. Gamli sjóarinn, Ámundi frændi systranna, sem er orðinn leiður á vistinni á dvalarheimilinu fyrir sunnan kemur líka með ásamt Jófríði, vinkona fjölskyldunnar, sem er að jafna sig eftir erfið sambandsslit. Svo er eldri bróðir systranna með, en hann kann því miður ekkert að galdra.
Þegar líður á söguna kemur á daginn að Kolfríður, amma systranna, sveik vinkonu sína þegar hún var ung eftir að þær höfðu orðið ástfangnar af sama manninum. Þess vegna hefur gamla vinkona hennar sigað uppvakningnum á hana í hefndarskini. Það er hressandi að fá að fylgjast með Kolfríði ömmu sem er „gerandinn“, en það var hún sem var vonda nornin. Það er óvenjulegt í barnabók og fróðlegt fyrir lesendur að upplifa þá eftirsjá og endurskoðun sem amma Kolfríður þarf að takast á við vegna gamalla svika. Hins vegar leysist kannski einum of auðveldlega úr deilunni og höfundur nýtir ekki tækifærið til þess að dvelja við þann sársauka og sektarkennd sem gömul vinslit geta valdið. Verkið er uppfullt af litríkum og heilstæðum persónum sem glæða Strandirnar lífi. Þjóðsöguminni verða ljóslifandi í meðförum höfundar og henni tekst einstaklega vel upp að flétta saman hið yfirnáttúrulega og hið hversdagslega:
„Þau stigu upp í strætisvagninn og settust aftast. Vagninn brunaði upp í Breiðholt. Rigningin lamdi rúðurnar.
- Það er lægðarkerfi að fara yfir landið, sagði Úrsúla ánægð. Ég sá það í sjónvarpinu. Það þýðir aðeins eitt.
- Hvað áttu við? spurði Páll.
- Nú, í roki og rigningu er alltaf fjölmennara í veislunni. Amma segir að það sé auðveldara fyrir framliðna að ná sambandi í miklum loftþrýstingi.“ (Strandanornirnar, bls. 19)
Árið 2004 kom út fyrsta bókin um Fíusól, Fíasól í fínum málum, og er það upphafið af barnabókaflokki sem hefur vakið mikla athygli og aðdáun og fest sig í sessi meðal bestu barnabókmennta Íslands. Þegar við hittum Fíusól fyrst er hún 7 ára stelpa sem býr í Grænalundi ásamt foreldrum sínum og systrum, Pippu og Biddu. Ingólfur Gaukur, besti vinur Fíusólar, býr hinum megin við götuna. Fíasól er uppátækjasamur krakki sem hikar ekki við að fylgja eftir hugdettum sínum með misgóðum árangri. Bókin er samansafn af sögum um Fíusól sem hægt er að lesa sjálfstætt og hentar einstaklega vel til samlesturs í faðmi fjölskyldunnar. Árið 2005 kom út Fíasól í hosíló. En hosíló er kósí staður þar sem manni líður vel og á því við um heimili hennar í Grænalundi. Fíasól er ekki lengur hrifin af bleiku, telur sig vera með ofnæmi fyrir súru nammi og veit ekki hvort það er gott eða slæmt þegar mamma hennar kallar hana gleðisprengju. Hún tekst á við myrkfælni, rassorma og jólabjána með öflugt ímyndunaraflið og mótþróann að vopni. Bókin er einstaklega létt og skemmtileg og tilvalin til samlestrar. Fullorðnir geta skemmt sér jafn vel og yngri lesendur yfir uppátækjum Fíusólar og tilraunum mömmu hennar og systur til að skikka hana til. Hér má segja að rödd höfundarins Kristínar Helgu hafi fundið fullkominn farveg og lýsir Fíasól einstaklega vel þessari flóknu og frumlega barnslegu sýn á íslenskan raunveruleika. Árið 2006 kom út þriðja bókin um Fíusól, Fíasól á flandri, Nú er Fíasól orðin átta ára og við öllu búin. Hún spilar á básúnu í lúðrasveit, leikur sér við Ingólf Gauk og tekst á við stóru spurningarnar, eins og t.d. hvað „innan skynsemismarka“ þýðir:
„Mamma er landamæravörður við skynsemismörk en oft er hún hvergi nálægt þegar Fíasól kemur að þeim og þá fer Fíasól stundum óvart inn í land sem heitir Rugl og vitleysa.“ (Fíasól á flandri, bls. 16)
Árið 2010 var sýningin Fíasól í hosíló frumsýnd í Þjóðleikhúsinu í leikgerð Vigdísar Jakobsdóttur og Kristínar Helgu Gunnarsdóttur. Sýningin var söngvasýning og samdi Kristín Helga tónlistina ásamt Ingó veðurguð.
2006 kom út Ferðabók Fíusólar, og inniheldur ýmislegt tómstundarfjör til þess að stytta börnum stundir á löngum ferðalögum.
Árið 2007 kom út Draugaslóð, en þar vinnur höfundur aftur með þjóðsagnaminnið. Eyvindur er 13 ára og býr með ömmu sinni og framliðnum afa sínum í litlu húsi við Elliðavatn. Tónninn í verkinu er þyngri og drungalegri en við höfum áður átt að venjast frá höfundi og leiðir hugann að verkum á borð við Elsku Míó minn eftir Astrid Lindgren. Verkinu fylgir bæði kort og heimildaskrá sem sýnir enn og aftur hversu alvarlega höfundur tekur samband sitt við unga lesendur sína. Höfundi tekst einstaklega vel upp í verkinu þar sem hún fléttar saman þjóðsögum Íslendinga við líf Eyvindar og hvarf tveggja skoskra drengja uppi á hálendinu, svo úr verður einskonar tímalaus heild. Bókin er ætluð aðeins eldri lesendum en önnur verk höfundar og fjallar af einlægni um fátækt og útlegð, bæði nútímans en líka fortíðar.
Árið 2008 og 2010 mætir Fíasól aftur til leiks í bókunum Fíasól er flottust og Fíasól og litla ljóðaránið. Fíasól hefur breyst aðeins frá því að við hittum hana síðast, hún er hætt að segja „hæ“ og „bæ“ og hárið er orðið svo flókið að það minnir helst á hrafnslaup . Við kynnumst ömmu Gógó og afa Donna og lesandinn fær að kynnast mörgum hressilegum uppákomum. Í Fíasól og litla ljóðaráninu er hasarinn í fyrirrúmi og Kristín Helga fer með lesendur á flug í hraðri og fjörugri atburðarás. Eins og fyrri bækur um Fíusól, þá eru þessar bækur fullkomnar fyrir alla fjölskylduna. Þessi íslenska Lína langsokkur nútímans er góður gestur á hverju heimili og bækurnar innihalda eitthvað fyrir alla aldurshópa.
Árið 2010 kom út hjá Menntamálastofnun smásagnasafnið Smásagnasmáræði með teikningum Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur í ritstjórn Sigríðar Wöhler. Þar hafa átta samtímahöfundar skrifað smásögur sem ætlaðar eru bókmenntakennslu á unglingastigi. Á meðal höfunda eru Mikael Torfason, Auður Jónsdóttir, Yrsa Sigurðardóttir og Kristín Helga Gunnarsdóttir. Sögurnar eru birtar með svokölluðum hugleiðingum þar sem settar eru fram spurningar sem nemendur geta velt fyrir sér. Formála skrifar Davíð A. Stefánsson. Smásaga Kristínar Helgu heitir „Ljós leikur við myrkur“ og hefst með upplausn heimilis eftir dauða heimilisföðurins árið 1904. Börnunum er komið fyrir hjá hreppstjóranum í dalnum og sagan lýsir lífinu í torfbæ í hríðarbyljum og barnadauða. Sögumaður er dóttir hreppstjórans sem segir systurdóttur sinni söguna löngu seinna á meðan hún er að sauma á hana kjól. Við fylgjumst með luktum baðstofudyrum og því sem fullorðnir segja í hálfum hljóðum. Altumlykjandi „sorgin fitnaði og tútnaði út.“ Þessi smásaga birtist svo aftur á prenti með örfáum breytingum 2015 sem kaflinn Perla í bókinni Litlar byltingar.
Árið 2011 gaf Kristín Helga Gunnarsdóttir út bókina Ríólítreglan, en þar notar höfundur aftur þjóðsagnaminnið en í þetta sinn sem grunn að ráðgátubók. Kennari hverfur i þann mund sem hann er að skipuleggja ferð fyrir krakkana í Landmannalaugar. Krakkarnir Nói, Steinn, Móna og Gloría eru öll jaðarsett eða afskipt á einhvern hátt en hafa náð góðum tengslum við Hrafn forstöðumann félagsheimilisins, en það er einmitt sá kennari sem hverfur. Eins og í verkunum Strandanornirnar og Draugaslóð er hið yfirnáttúrulega fléttað inn í ósköp venjulegan íslenskan samtíma með hráfæðislasagna og einstæðum mæðrum sem vinna myrkranna á milli við skúringar. Í þetta sinn er það álfatrúin sem er viðfangsefnið og alls ekki í einhverri Disney-útgáfu. Álfar eru magnaðir og stórhættulegir vættir og börnin lenda í miklum ævintýrum í tilraun þeirra til þess að finna kennarann sinn. Ríólít er orkusteinn sem verndar krakkana og krakkarnir mynda leynireglu eins og krökkum í ráðgátubókum ber og skíra hana eftir verndarsteininum. Bókin er spennandi og skemmtileg, lesandinn sogast inn í atburðarásina sem er grípandi fram á síðustu blaðsíðu.
Árið 2012 kom út ævisaga hundsins Gríms Fífils, Grímsævintýri: Ævisaga hunds. Besta og Fúli eigendur Gríms völdu hann úr hvolpahópi og upp frá því verður hann hluti af fjölskyldunni. Bókin er skrifuð út frá sjónarhorni hundsins enda var það, eins og segir í bókinni, Grímur Fífill sem hafði frumkvæði af verkinu og valdi Kristínu Helgu sem ævisöguritara af því að hún hefur langa reynslu af því að tala við hunda. Þetta er kát frásögn fyrir yngri lesendur og veitir þeim tækifæri til þess að kynnast hundum og hundalífi frá nýju sjónarhorni.
Marteinn Jörundur Marteinsson, eða Mói hrekkjusvín eins og hann er kallaður, er hress krakki sem fær aðeins of góðar hugmyndir með ófyrirséðum afleiðingum. Hann er heltekinn af kúrekum og hernaði og mætir heiminum með fífldirfsku. Hann á leynivin, gamlan kúreka, sem hann kallar Byssu-Jóa. Byssu-Jói er þrír metrar á hæð og notar skó nr. 58. Þetta er hispurslaus saga um allt það sem ofvirkir strákar gera og hugsa.
Mói hrekkjusvín er orðinn hluti af persónuflóru íslenskra barnabókmennta og vinsæll gestur á heimilum landsmanna. Undanfarið hefur mikið verið rætt um minkandi lestur íslenskra drengja og skort á bókum við hæfi ungra stráka. Kristín Helga svarar svo sannarlega þeirri þörf með því að kynna Móa hrekkjusvín aftur til leiks, þó að bækurnar eigi líka vel við stelpur. Í viðtali Silju Bjarkar Huldudóttur við Kristínu Helgu kemur hún inn á þetta efni: „Drengir sækja síður í bóklestur heldur en stúlkur og það þarf að halda bókinni vel að þeim til að þeir verði læsir og þá skiptir máli að hafa áhugavert efni á léttlestrarformi. (…) Þeir sem fylgst hafa vel með bóklestri í gegnum tíðina hafa orð á því að stelpur lesi allt, en strákar lesi frekar um stráka og horfi frekar til efnis sem höfðar til þeirra reynsluheims.“ (Morgunblaðið, 29. nóvember 2013)
Árið 2015 kom út skáldsagan Litlar byltingar: draumar um betri daga. Miðja frásagnarinnar er Halla og samtal hennar við Guðrúnu Lóu Jensdóttur (Glóu) föðursystur sína. Verkið er tilraun til þess að skrá ævisögu Glóu, en það er ekki hægt að skrifa um eina konu án þess að skrifa um aðra. Örlög þeirra fléttast saman og í verkinu fá tíu konur rödd til þess að segja sögur sínar. Þetta eru sögur af konum í erfiðum aðstæðum, í kjallaraíbúðum og torfbæjum. En líka af konum sem búa í risavöxnum einbýlishúsum, ameríska draumnum og kvenfrelsi í Danmörku. Glóa hefur alla burði til þess að bera uppi söguna, hún er litrík og margbrotin kvenhetja sem tekur afdrifaríkar ákvarðanir í lífinu sem hafa ófyrirséðar afleiðingar á aðrar konur. En Glóa er líka afsprengi afdrifaríkra ákvarðana annarra kvenna. Það eru þessar ákvarðanir sem eru þær litlu byltingar sem þoka kvenkyninu nær frelsi og sléttari götum sem er auðveldara að feta. Glóa er skáld og magister og starfar sem kennari í Köben eftir að hafa farið burt af klakanum. Hún birtist á síðum verksins sem ljóðmælt og dramatísk, alltaf tilbúin að snú vörn í sókn og setja spurningarmerki við það sem aðrir telja eðlilegt. Þannig fer sagan um víðan völl, alltaf þegar Halla reynir að láta Glóu taka afstöðu til eigin lífs og ákvarðana, snýr Glóa í staðinn speglinum að Höllu og tekur dæmi af formæðrum, vinkonum og frænkum til þess að rökstyðja mál sitt. Textinn er lipur og höfundur á auðvelt með að láta sjónarhornið flakka á milli kvennanna, þrátt fyrir ógnarfjarlægð í tíma og aðstæðum. Glóa getur með sinni háleitu lífsspeki rúmað þetta allt og sjálfa sig líka, en verður fyrir vikið svo stór karakter að lesandi getur átt erfitt með að tengjast henni. Meira að segja sagan af vanrækslu hennar sem móður gagnvart dóttur sinni og drykkjuvandamáli hennar verður einhvern veginn töfrandi og óraunveruleg. Það bætir höfundur hinsvegar upp með öðrum sögupersónum sem lesandi getur auðveldlega samsamað sig við og hrifist með í gegnum blíðu og stríðu. Þetta er í heild hrífandi og metnaðarfullt verk, klassísk fjölskyldusaga sögð á nútímalegan hátt. Hún er lituð af veruleika íslenskra kvenna, af saumaskap, huldufólki og bollalestri en líka bókmenntum og óbilandi þrá. Þetta er fjölskyldusaga Kristínar Helgu. Fyrirmynd Glóu er Inga Birna Jónsdóttir, föðursystir hennar, og er vitnað í ljóð eftir hana á fyrstu síðum verksins. Það er hinsvegar engin ástæða til þess að eltast við ætt eða sagnfræði við lestur bókarinnar. Hún er fyrst og fremst skáldsaga sem er innblásin af þeim frásögnum sem Kristín Helga hefur með sér í farteskinu. Hún er bókmenntaverk sem lýtur eigin lögum um uppbyggingu og stíl og undirrituð sér enga ástæðu til þess að skoða hana með þröngu sjónarmiði ævisögugreiningar.
Vertu ósýnilegur: flóttasaga Ishmael, kom út árið 2017 og fjallar um örlög drengs á flótta. Hér er ekki verið að vinna með þjóðsagnahefð heldur alþjóðlegan raunveruleika og ber bókin þess öll merki. Jafnaldrarnir og vinirnir Ishmael og Salí verða viðskila í Aleppó eftir að stríðið Í Sýrlandi brýst út. Salí og fjölskyldan hennar flýja til Istanbúl og komast þaðan sem kvótaflóttamenn til Íslands. Ishmael verður eftir í Aleppó, en brátt er ljóst að hann getur ekki verið óhultur þar. Þá hefst hættuför drengsins sem fljótt gleymir að hann er barn. Samhliða því fylgjumst við með örlögum Salí og fjölskyldu hennar í Kópavogi og erfiðleikum þeirra.
Texta bókarinnar er fléttað saman við mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og atburðarásin fjallar meðal annars um skjalafals, kvótaflóttamenn og aldursgreiningar á flóttabörnum. Þetta er því ekki bók fyrir yngstu lesendurna. Lýsingar á hörmungum stríðsins eru einlægar og hispurslausar og ekkert þar sem börn sjá ekki í kvöldfréttum sjónvarps. Bókin fellur í þann flokk bóka sem undanfarið hefur verið kallaður ungmennabókmenntir en á líka erindi við fullorðna lesendur. Að baki hennar liggur mikil rannsóknarvinna og finnur lesandi glöggt að höfundur hefur kynnt sér aðstæður vel og vandlega. En texti bókarinnar er líka einstaklega vandaður og með sterka vísun í bókmenntahefðina. Bókin vakti verðskuldaða eftirtekt þegar hún kom út og hlaut Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna auk þess að vera tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Að fjalla um fólk á flótta í því pólítíska ástandi sem nú skekur Evrópu er vandasamt og hætt við að höfundur skipi sér í hóp fólks með fyrir framskilgreindum hugmyndum um flóttamenn. Kristínu Helgu tekst hins vegar með næmni sinni að nálgast málefnið svo úr verður ekki bara hrífandi saga úr samtímanum heldur líka heilsteypt og vandað bókmenntaverk.
Vinkona Ishmael, Salí eða Selma eins og hún er kölluð á víxl, er ljóðskáld og skrifar um reynslu sína. Hér er brot af ljóði sem kemur fyrir í bókinni og sýnir ágætlega hvernig næmni höfundar skapar bæði einlægni og nálægð gagnvart lesenda:
glerkúlan brestur
hjúpurinn springur
vatn seytlar út
fuglinn gránar
plastflögur liggja.
Fjölskyldan flýr inni í húsið
hurð er læst
gluggahlerar skella aftur
húsið marar í hálfu kafi.
Í mórauðu plastflöguvatni
fljóta lífvana börn upp að tröppum
í götóttum björgunarvestum.
Inni er hækkað í tónlistinni og poppað (Vertu ósýnilegur: flóttasaga Ismael, bls. 232)
Eins og fyrr sagði er hætt við að svona verk sem getur ekki verið annað en pólitískt í eðli sínu falli í skotgrafir stjórnmálamenningarinnar. En höfundi tekst að feta framhjá þeim hættum, með því meðal annars að staldra sem minnst við pólitík og trúarbrögð eins og höfundur hefur sjálfur bent á. En það er ekki það eina sem getur farið úrskeiðis þegar höfundur tekst á við svona verkefni. Það eru ófáir vestrænir höfundar sem hafa komist illa frá því að fjalla um stöðu hins í alþjóðavæddum heimi. Leiðin til heljar er vörðuð góðum ásetningi og á sú staðreynd vel við þegar velmeinandi vestrænir höfundar taka sér stöðu með þeim kúguðu en ná oft i kjölfarið að ýta þeim kúguðu til hliðar með vestrænni túlkun á lífi þeirra og skilyrðum. Það gerist þó ekki í þessu verki, og tel ég að valið á barni/ungmenni sem vitundarmiðju skipti sköpum. Rödd barnsins er sammannleg og fer þvert á flokkaskiptingu heimsins og sú staða að börn eru jaðarsett mun víðar en í stríðhrjáðum löndum frelsar frásögnina að einhverju leyti úr viðjum austurs og vesturs.
Af þessu má sjá hversu fjölhæfur höfundur Kristín Helga Gunnarsdóttir er. En hér má líka greina þær megináherslur sem liggja til grundvallar að hennar höfundarverki. Fyrst eru það hinar íkónisku barnahetjur sem eru orðnar hluti af heimilum landsmanna, þau Mói hrekkjusvín og Fiasól. Tveir ólátabelgir með allar sínar klassísku tilvísanir í sögu barnabókmenntanna en jafnframt með báða fætur í íslenskum raunveruleika. Við þetta bætast svo styttri sögur sem einnig skarta ógleymanlegum persónum sem takast á við heiminn hver á sinn hátt. Af þeim öllum ber Fíasól þó höfuð og herðar og greinilegt að höfundur hefur með henni fundið höfundarrödd sinni einstaklega gott faratæki. Fíasól birtist lesendum sem alvöru krakki með öll sín vandamál. En hún hefur líka einstakt hugarflug til þess að takast á við vandamál sín og þannig litar hún heiminn skemmtilega í kringum sig. Bækurnar henta líka fullorðnum lesendum og höfundur nær að höfða til þeirra án þess að það verði á kostnað yngri lesenda.
Í verkunum Strandanornir, Draugaslóð og Ríólítreglan vinnur höfundur með íslenskt þjóðsagnaminni galdramenninguna, draugasögur og huldufólk. En þó bækurnar séu af svipuðum meiði þá eru efnistökin mjög fjölbreytt og gætu verkin flokkast sem þroskasaga, draugasaga og ráðgátubók. Hér sýnir höfundur glöggt hversu gott vald hún hefur á mismunandi stílbrigðum og hversu mikinn metnað hún hefur til þess að bjóða ungum lesendum uppá fjölbreyttar og vandaðar bækur.
Annað einkenni höfundaverkseins er hversu óhrædd Kristín Helga Gunnarsdóttir hefur verið við að taka á erfiðum málum á forsendum lesenda sinna. Vertu Ósýnilegur: Flóttasaga Ishmael og Loftur og gullfuglarnir eru gott dæmi um það. Höfundurinn á mjög auðvelt með að bæði miðla og takast á við stærri málefni án þess að það bitni á söguþræði eða verði óþarflega fræðandi. Einlægar og tilgerðarlausar lýsingar og traust og trúnaður við lesendahópinn hverju sinni ganga fyrir og móta frásagnirnar. Það er einnig aðdáunarvert hversu mikla ábyrgð höfundur tekur á útgáfunni og hlutverki sínu sem meningarmiðlara og sér alltaf til þess að lesendur geti sjálfir haldið lestrinum áfram og kynnt sér aðstæður með því að birta t.d. landakort og tilvísanir í heimildir.
Kristín Helga hefur einnig tekið að sér að skrifa fyrir fullorðna lesendur og er bókin Litlar byltingar gott dæmi um að höfundur ræður vel við það hlutverk. Hún er grípandi og mikilvæg saga af konum í basli. Saga sem vill gjarnan gleymast í íslenskri bókmenntasögu.
© Rósa María Hjörvar, 2018
Greinar
Almenn umfjöllun
„Samtíðarskáld“
Börn og menning, 14. árg., 1. tbl. 1999, s. 30-32
Brynja Baldursdóttir: „Alvara málsins – bóklestur barna: viðtal við Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, barnabókarithöfund.“
Börn og menning, 21. árg., 1. tbl. 2006, s. 4-7.
Silja Aðalsteinsdóttir: „Óskabarn, óskadís, óskasteinn og óskasnillingur : bækurnar um Fíusól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur“
Börn og menning, 34. árg. 1. tbl. 2019, s. 4-9.
Þorgerður Elín Sigurðardóttir: „Fíasól og fjölskyldan í Grasabæ“
Börn og menning, 24. árg., 2. tbl. 2009, s. 13-5.
Um einstök verk
Draugaslóð
Dagný Kristjánsdóttir: „Á drauga- og sagnaslóð“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 69. árg., 4. tbl. 2008, s. 107-11.
Kristján Jóhann Jónsson: „Lífið og dauðinn og önnur viðfangsefni bókmenntakennslu“
Tímarit Máls og menningar, 77. árg., 4. tbl. 2016, s. 65-78
Ferðabók Fíusólar
Harpa Jónsdóttir: „Á ferð og flugi“
Börn og menning, 21. árg., 2. tbl. 2006, s. 26
Fíasól er flottust
Úlfhildur Dagsdóttir: „Fíasól enn á ferð“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Fíasól í hosíló
María Bjarkadóttir: „Fíasól og Karen Karlotta – sjálfstæðar stelpur sem læra af reynslunni“
Börn og menning, 21. árg., 1. tbl. 2006, s. 18-20
Úlfhildur Dagsdóttir: „Tvær stelpur, en engar prinsessur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Gallsteinar afa Gissa
Kristín Helga Gunnarsdóttir: „Úr smiðju höfundar“
Börn og menning, 17. árg., 2. tbl. 2002, s. 28-29
Grímsævintýri: saga hunds
Auður Aðalsteinsdóttir: „Stakkató minninganna“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 7.
Ríólítreglan
María Bjarkadóttir: „Ríólítreglan“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Strandanornir
Dagný Kristjánsdóttir: „Fleira en augað sér. Fimm nýjar fantasíur handa börnum og unglingum.“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 4. tbl. 2004, s. 67-75.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Únglingarnir í skóginum.“
Börn og menning, 19. árg., 1. tbl. 2004, s. 10-11.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Galdrar á ströndum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Greinar og viðtöl við Kristínu Helgu hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins
Vertu ósýnilegur: flóttasaga Ishmaels
Dagný Kristjánsdóttir: „Vertu sýnilegur“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 79. árg., 4. tbl. 2018, s. 135-139.
Verðlaun
2019 – Fjöruverðlaunin: Fíasól gefst aldrei upp
2018 – Fjöruverðlaunin: Vertu ósýnilegur: Flóttasaga Ishmaels
2018 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkur: Vertu ósýnilegur: Flóttasaga Ishmaels
2017 - Bókmenntaverðlaun starfsfólk bókaverslana: Vertu ósýnilegur: Flóttasaga Ishmaels. Besta unglingabókin
2009 – Sögusteinn, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi: Veitt fyrir feril
2008 – Bókaverðlaun barnanna: Fíasól er flottust
2008 – Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins: Draugaslóð
2008 – Draugasögusamkeppni Mýrarinnar og Forlagsins í tilefni hátíðarinnar Draugar úti í mýri, 2. verðlaun: „Rauð húfa“
2006 – Bókaverðlaun barnanna: Fíasól á flandri
2005 – Bókaverðlaun barnanna: Fíasól í Hosiló
2004 – Bókaverðlaun barnanna: Strandanornir
2004 – Vorvindar, viðurkenning IBBY á Íslandi: Strandanornir
2002 – Bókaverðlaun barnanna: Í Mánaljósi
2001 – Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur: Mói hrekkjusvín
Tilnefningar
2022 - Fjöruverðlaunin: Ótemjur
2018 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Fíasól gefst aldrei upp
2018 - Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Vertu ósýnilegur: Flóttasaga Ishmaels
2017 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Vertu ósýnilegur: Flóttasaga Ishmaels
2017 – Astrid Lindgren verðlaunin, Astrid Lindgren Memorial Award
1999 – Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur: Milljón steinar og Hrollur í dalnum
Obbuló í kósímó : Nammið
Lesa meiraOddný Lóa Þorvarðardóttir býr í Kjóamóa þrjúhundruð og sjö. Hvaða krakki getur sagt það? Enginn. Obbuló á heima í Kósímó. Eru sumir dagar leiðinlegir? Gleymir fólk að sækja börn í leikskólann? Er hollt að troða í sig miklu nammi? Spurningunum er svarað í þessari bók.. .Obbuló í kósímó : Myrkrið
Lesa meiraOddný Lóa Þorvarðardóttir býr í Kjóamóa þrjúhundruð og sjö. Hver er hræddur við hlussulegt tramp? Býr einhver í ísskápnum hjá Símoni kennara? Hvað gerir gat á myrkrið hjá Obbuló? Þessum spurningum og öðrum er svarað í bókinni.. .Ótemjur
Lesa meiraFíasól og furðusaga um krakka með kött í maga
Lesa meiraFjallaverksmiðja Íslands
Lesa meiraFíasól gefst aldrei upp
Lesa meiraVertu ósýnilegur: flóttasaga Ishmaels
Lesa meiraMói hrekkjusvín: landsmót hrekkjusvína
Lesa meiraLitlar byltingar: draumar um betri daga
Lesa meira