Myndir í barnabókum geta skipt ótrúlega miklu máli. Þær móta lestrarupplifunina og ráða heilmiklu um hvernig lesandi skynjar bókina, sögusvið hennar og andrúmsloft. Myndir Evu Kristjánsdóttur ljá spæjarasögum Kristjönu Friðbjörnsdóttur alþjóðlegt - eða reyndar aðallega amerískt - yfirbragð sem mér finnst orka svolítið tvímælis. Annarsvegar má vænta þess að ungir lesendur geti auðveldlega tengt persónur og atburði við vinsælt sjónrænt afþreyingarefni (bandarískar teiknimyndir) og því virki sagan spennandi og ólík hefðbundnari íslenskum barnabókum. Á hinn bóginn eru myndirnar í það stöðluðum stíl að þær draga svolítið frá sögunni og skapa henni umbúnað sem fletur hana að nokkru leyti út.
Fjóli Fífils: Lausnargjaldið er önnur saga Kristjönu Friðbjörnsdóttur um spæjarann Fjóla og félaga hans. Þrátt fyrir að sagan beri nafn Fjóla þá er aðalhetjan hér í raun vinkona hans Fornfríður, því þótt Fjóli stæri sig af því að hafa náð hæstu meðaleinkunn úr einkaspæjaraskóla Sumarliða, þá er hann ekki sérlega fær á sínu sviði. Það svið er sumsé að spæja, en í upphafi sögunnar fær Fjóli bréf frá Sumarliða en þar kemur fram að honum hefur verið rænt og hann biður Fjóla um aðstoð. Fjóli er að sjálfsögðu reiðubúinn og í félagi við Fornfríði og ofurhamsturinn Pedró leggur hann upp í leit að Sumarliða. Í hópnum er svo einnig að finna franskan aðstoðarmann Fornfríðar, Grimm Diableu.
Hvarf Sumarliða virðist tengjast áhuga hans á Ásum og norrænni goðatrú og er þetta þriðja barnabókin sem ég les á þessu ári sem fjallar um hin norrænu goð og heimsmynd þeirra. Að þessu sinni er það Freyja sem er í aðalhlutverki, en Brísingamen hennar er lausnargjaldið sem mannræninginn krefst fyrir Sumarliða.
Þannig eru öflugar kvenhetjur nokkuð áberandi í sögunni meðan Fjóli er aðallega uppspretta hláturs. Hann missir stöðugt af aðalatriðum og ruglast stöðugt í orðum, sérstaklega ef þau eru óvenjuleg eða löng (kallar allsherjargoðann allsberagoðann) og er ákaflega klaufskur að auki. Slíkir aulabárðar eiga sér auðvitað heilmikla hefð sem höfundur sækir til og tekst ágætlega upp í þessari samsetningu. Fornfríður er hinsvegar vel lesin og tekur mun betur eftir því sem fram fer í kringum hana, þó ekki sé hún óskeikul. Hamsturinn Pedró er þarna greinilega til að skapa aukna tilfinningu fyrir ævintýri með krúttívafi, og er á allan hátt mjög í anda teikninganna. Segja má að sagan sé í heildina nokkuð stöðluð, en þó með skemmtilegum hliðarstefjum, sem, eins og áður sagði, njóta sín tæplega nægilega vel í myndmálinu.
Bókinni er þó greinilega ekki ætlað að valda neinum straumhvörfum í barnabókmenntum, hér er fyrst og fremst verið að búa til fyndinn og dálítið dularfullan ævintýraheim með spennuívafi og það heppnast ágætlega.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2008