Æviágrip
Kristjana Friðbjörnsdóttir er fædd í Reykjavík þann 11. janúar árið 1976.
Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1996 og B.Ed.-gráðu frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999.
Hún hefur síðan starfað sem grunnskólakennari í Reykjavík ásamt því að vinna að ýmsum félagsstörfum með börnum og unglingum. Kristjana er höfundur bókanna um Fjóla Fífils og Ólafíu Arndísi.
Um höfund
Um verk Kristjönu Friðbjörnsdóttur
Kristjana Friðbjörnsdóttir rithöfundur hefur sent frá sér sjö barnabækur sem ætlaðar eru lesendum á aldrinum sjö til þrettán ára. Fyrstu þrjár bækur hennar fjalla um einkaspæjarann Fjóla Fífils og ævintýralega glæpi sem hann tekur að sér að leysa, en næstu fjórar um Ólafíu Arndísi dagbókar-, blogg- og bréfaritara. Kristjana hefur verið mjög virk frá því að fyrsta bókin um Fjóla Fífils kom út árið 2007 og hefur sent frá sér nýja bók árlega. Flateyjarbréfin (2010) er fyrsta bókin um Ólafíu Arndísi og fyrir hana hlaut Kristjana barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar. Í bókum Kristjönu er fjallað um ýmis málefni og hún einskorðar sig ekki við eina tegund frásagnar eða umfjöllunarefnis. Bækurnar um Fjóla Fífils eiga til dæmis sitt hvað skylt með sígildum leynilöggusögum þó þær séu einnig kryddaðar ríkum húmor og fræðslu í bland. Bækurnar um Ólafíu Arndísi mætti segja að séu eins konar þroskasögur þar sem aðalpersónan lærir margt um sjálfa sig og aðra og þroskast með hverri bókinni. Þar leikur höfundurinn sér einnig að frásagnarforminu og sjónarhorni og lesandinn þarf að lesa á milli línanna til að fá alla söguna.
Fjóli Fífils
Bækurnar um Fjóla Fífils fylgja allar svipuðu mynstri: glæpur er framinn og Fjóli tekur að sér að leysa hann. Lesandinn fær á tilfinninguna að hann sé kannski ekki besti einkaspæjari í heimi en hann leynir á sér og tekst, stundum óvart, að finna vísbendingar og leysa gátur. Hann hefur sér til aðstoðar Fornfríði fræknu, safnvörð á Heimsminjasafninu, og klikkaða spæjarahamsturinn Pedró, en allir meðlimir þessa ósamstæða þríeykis hafa sitt fram að færa. Bækurnar eru allar í hefðbundnum frásagnarstíl með þriðju persónu frásögn, stíllinn er léttur og orðanotkunin oft skondin og óvenjuleg. Sögusvið bókanna er borg einhversstaðar í hinum þekkta heimi en er ekki staðsett nánar. Hins vegar ferðast þríeykið um allan heim í leit að vísbendingum: til Mexikó, Egyptalands, Rússlands, Noregs og svo framvegis og þriðja bókin, Fjóli Fífils – Napóleonssverðið, gerist að mestu leyti í Frakklandi. Atburðarásin í öllum sögunum þremur er hröð og grípandi þar sem spennu, húmor og smá fantasíu er blandað saman.
Í fyrstu bókinni Fjóli Fífils – Skuggaúrið (2007) er Fjóli nýútskrifaður úr einkaspæjaraskóla Sumarliða þegar hann kemst að því að rán hefur verið framið á Heimsminjasafninu. Verðmætu gullúri hefur verið stolið og Fjóli ákveður að taka málið að sér. Hann er fullur sjálfstrausts og búinn að koma sér upp einkaspæjarabúnaði þannig ekkert er því til fyrirstöðu að hann leysi málið í einum grænum. Spæjarabúnaðurinn er keyptur í sérstakri spæjarabúð og þegar Fjóli fer að nota búnaðinn kemur í ljós að hann hefur fengið óvæntan kaupbæti. Það er spæjarahamsturinn Pedró sem á eftir að taka að sér að vera bæði rödd skynseminnar og óskynseminnar til skiptist og jafnvel á sama tíma í ævintýrum Fjóla. Þegar komið er á Heimsminjasafnið er takmarkaður áhugi fyrir aðstoð Fjóla en hann gefst ekki upp og tekst óvart að bjarga Fornfríði fræknu, sem ræninginn hefur lokað inni. Fornfríður slæst í för með þeim Fjóla og Pedró og í sameiningu taka þau að sér að finna úrið og leysa gátuna á bakvið það, því þetta er ekkert venjulegt úr sem hefur verið stolið af safninu. Fornfríður útskýrir fyrir Fjóla að úrið sé búið mætti til að stjórna tímanum og stórkostlega mikilvægt að ræninginn komist ekki að því á undan þeim hvernig á að virkja það. Þau endasendast um allan heim í leit að úrinu en í ljós kemur að ræninginn er allur annar en þau áttu von á.
Fjóli Fífils – Lausnargjaldið (2008) gerist í beinu framhaldi af fyrri bókinni en nú hefur lærimeistara Fjóla, Sumarliða Mikkelson skólastjóra einkaspæjaraskólans, verið rænt. Fjóla hefur borist mjög dularfullt bréf þar sem Sumarliði biður hann um að finna sig og koma sér til bjargar. Fjóli og Fornfríður halda heim til Sumarliða til að skoða vettvang mannránsins en þar hefur öllu verið snúið á hvolf. Augljóst er að einhver hefur verið að leita að einhverju, en engin leið fyrir þau að vita hver það var eða að hverju hann var að leita. Það eina sem þau finna eru leyndardómsfullar rúnir og mynd af Sumarliða og óþekktri konu. Stuttu seinna berst Fjóla annað bréf frá Sumarliða þar sem hann biður þau um að afhenda mannræningjunum Brísingarmen, gullhálsmen ásynjunnar Freyju, í lausnargjald fyrir hann. Á Heimsminjasafninu fá þau upplýsingar um hvert þau geta haldið í leit að hálsmeninu og fá auk þess liðsauka frá hinum unga og veiklulega Grimm Diableu sem er franskur skiptinemi í læri hjá Fornfríði. Þau halda til Rússlands í leit vísbendingum og konunni á myndinni heima hjá Sumarliða en félagarnir þurfa að ferðast töluvert og leysa ýmsar gátur áður en þau komast til botns í þessu máli.
Í þriðju bókinni, Fjóli Fífils – Sverð Napóleons (2009), ákveða Fjóli, Fornfríður og Pedró að skella sér til Frakklands í frí eftir allan hasarinn í kringum hvarf Sumarliða. Þau ætla að taka því rólega og láta lítið fyrir sér fara. Þau eru hins vegar varla lent í París þegar gamall vinur Fornfríðar, Bertrand safnvörður á Hersafninu í París, hefur samband við þau og biður um aðstoð. Verðmætu sverði sem eitt sinn tilheyrði Napóleon keisara hefur verið stolið af safninu. Fjóli Fífils ákveður að taka málið að sér ásamt Fornfríði og auðvitað Pedró. Bertrand afhendir þeim lista með nöfnum á fjórum safngestum sem hafa sýnt grunsamlega mikinn áhuga á sverðinu að undanförnu en lögreglan er hins vegar sannfærð um að ránið hafi verið framið af alþjóðlegum glæpahring. Fjóli og félagar ákveða að hafa uppi á öllum á listanum en í ljós kemur að það er eitthvað meira en lítið bogið við þá alla. Eftir því sem líður á rannsókn Fjóla verður greinilegt að hér er eitthvað undarlegt á seyði og í leit að sverðaþjófnum eiga þau Fjóli, Fornfríður og Pedro eftir að rekast á fólk sem hefur orðið áður orðið á vegi þeirra.
Ólafía Arndís
Bækurnar um Ólafíu Arndísi eru töluvert frábrugðnar þeim um Fjóla Fífils. Hér er sögusviðið Ísland og frásögnin rækilega stað- og tímasett af sögumanninum sjálfum og aðalpersónunni, Ólafíu Arndísi, sem er að klára fimmta bekk í fyrstu bókinni og er nýfermd í þeirri síðustu. Bækurnar eru allar fjórar fyrstu persónu frásagnir og eru allar skrifaðar á mismunandi bréfaformi. Í Flateyjarbréfunum skrifar Ólafía Arndís sendibréf sem eru uppistaða bókarinnar, í Dagbók Ólafíu Arndísar færir hún dagbók, í Reisubók Ólafíu Arndísar á hún að vera að skrifa reisubók en nennir því ekki og skrifar í staðinn tölvupósta til vina og vandamanna og í nýjustu bókinni, Lífsreglur Ólafíu Arndísar, skrifar hún blogg eða vefdagbók. Frásagnarformið hefur í för með sér að sjónarhornið er eingöngu Ólafíu Arndísar sem ávarpar bæði dagbækurnar og lesandann reglulega enda er ætlun hennar í upphafi sú að bréfabækur hennar verði gefnar út. Frásagnarstíll Ólafíu Arndísar er stórtækur, mjög ýktur og oft fyndinn en ef lesið er á milli línanna má sjá að það býr eitthvað meira á bakvið. Veruleikinn sem hún setur fram er ekki alltaf sá sem hún segir að hann sé, enda viðurkennir hún inn á milli að hún segi ekki alltaf satt. Í einstaka tilvikum fær lesandinn svo sjónarhorn annarra til samanburðar. Það gerist óbeint þegar Ólafía Arndís segir frá viðbrögðum við skrifunum, svo sem þegar mamma hennar prófarkales bréfin hennar í Flateyjarbréfunum, og beint með athugasemdum lesenda við bloggfærslurnar í Lífsreglum Ólafíu Arndísar.
Flateyjarbréfin (2010) er eins og áður sagði fyrsta bókin um Ólafíu Arndísi og gerist alfarið í Flatey þar sem foreldrar hennar hafa tekið að sér rekstur kaffihúss yfir sumartímann. Samfélagsástandið virðist hafa haft töluverð áhrif á líf þeirra þó Ólafía Arndís pæli ekkert sérstaklega í því en fram kemur að foreldrar hennar hafi bæði misst vinnuna og vilji tilbreytingu og ný tækifæri. Hún vill hins vegar alls ekki tilbreytingu og er hundfúl yfir þessari ráðstöfun. Þrátt fyrir einbeittan vilja tekst henni þó ekki að vera í fýlu mjög lengi heldur kynnist fleiri krökkum sem eru í Flatey yfir sumarið og lendir með þeim í alls konar atburðum og aðstæðum sem eru henni mjög framandi. Á endanum skemmtir hún sér bara nokkuð vel og eignast góða vini til framtíðar. Þar sem Ólafíu Arndísi hefur ekki gengið of vel í skólanum í Reykjavík ákveður hún að leggja sig alla fram um sumarið og vinnur ýmis verkefni og sendir Arnfríði kennara. Bréfin sem bókin samanstendur af eru öll stíluð á Arnfríði og eru hluti af endurmenntun hennar svo hún komist upp í sjötta bekk.
Dagbók Ólafíu Arndísar (2011) gerist sumarið á eftir Flateyjarbréfunum og nú hafa foreldrarnir ákveðið að flytja með fjölskylduna til Dalvíkur. Þetta fellur í grýttan jarðveg hjá dótturinni sem vill bara vera áfram í Grafarvogi. Eftir nokkurra daga fýlu sér hún þó fram á að kannski sé hægt að skemmta sér eitthvað á Dalvík. Hún fær sér vinnu og eignast nýja vini en þetta tvennt hefur mikil áhrif á hana og hún lærir margt á samveru sinni við nýja vinnuveitandann og nýju vinina. Húsið sem fjölskyldan leigir á Dalvík er gamalt og á sér merkilega sögu. Ólafía Arndís hættir sér sjaldan niður í kjallara en í eitt af þeim fáu skiptum sem hún gerir það rekst hún á gamla dagbók. Færslurnar í henni eru dagsettar árið 1934 og höfundurinn er hinn 14 ára gamli Svenni. Ólafía Arndís og vinir hennar einsetja sér að komast að því hvað varð af Svenna og af hverju hann hætti skyndilega að skrifa dagbókina. Í leit sinni að upplýsingum fræðast þau (og lesandinn í leiðinni) heilmikið um gamla tíma og sögu svæðisins. Eins og titillinn gefur til kynna er frásögnin hér í dagbókarformi og dagbækur Ólafíu Arndísar og Svenna kallast svo á við þriðju dagbókina, Dagbók Önnu Frank, sem Ólafía Arndís les og hefur töluvert meiri áhrif á hana en hún býst við í fyrstu.
Reisubók Ólafíu Arndísar (2012) hefst eftir árs dvöl á Dalvík en þá ákveður amman í fjölskyldunni að bjóða henni með sér í langferð um landið á húsbíl. Hún ætlar að heimsækja gamla vini víðs vegar um landið og heimtar að fá barnabarnið með sér til að færa reisubók fyrir sig. Þrátt fyrir mótbárur foreldranna og efasemdir Ólafíu Arndísar sjálfrar fer hún með og kemst ekki að því fyrr en það er orðið of seint að ferðin á að taka allt sumarið. Hún er sannfærð um að amma hennar sé stórundarleg, meðal annars vegna þess að hún heldur því fram að Ólafía Arndís megi taka sig á í framkomu og hegðun. Fyrsta heimsóknin í ferðinni er til æskuvinkonu ömmunnar en þar bætist annar farþegi við föruneytið, barnabarn vinkonunnar er nefnilega í heimsókn frá Ameríku og þarf að láta hressa sig við. Barnabarnið, Indía, er jafnaldra Ólafíu Arndísar en langt frá því eins hress. Okkar einlægri finnst Indía reyndar frekar leiðinleg enda yfirleitt þögul og þungbrýn en þegar þær fara að kynnast betur fær Ólafía Arndís innsýn í heim sem er bæði fjarlægur og hreinlega frekar hættulegur. Í ferðalaginu á Ólafía Arndís að vera að færa reisbók fyrir ömmu sína en nennir því ekki og skrifar í staðinn tölvupósta til vina og vandamanna. Þar lýsir hún því sem gerist en miklu máli skiptir hverjum hún skrifar því tóninn í bréfunum er til dæmis allt annar þegar hún skrifar Krisjtáni bróður sínum en þegar hún skrifar mömmu sinni. Hér eins og áður lærir Ólafía Arndís margt um sjálfa sig, lífið og tilveruna. Hún þroskast töluvert í þessari bók eins og þeim fyrri og gerir það á sannfærandi hátt.
Lífsreglur Ólafíu Arndísar (2013) er nýjasta bókin, að minnsta kosti þegar þetta er ritað. Þegar komið var heim úr reisunni í lok Reisubókar Ólafíu Arndísar var fjölskyldan að flytja til Hveragerðis og sagan hefst eftir árs dvöl þar. Ólafía Arndís er nýfermd og tónninn hér er örlítið breyttur frá fyrri bókum. Hún er ekki eins ærslafull og virðist hafa róast svolítið enda kemur í ljós að henni hefur ekki gengið vel að eignast vini á nýja staðnum og semur auk þess einstaklega illa við móður sína. Hún er samt sem áður að vissu leyti söm við sig, yfirlýsingaglöð og gjörn á að ýkja í frásögninni. Mamma hennar ákveður að þær mæðgur skuli fara saman á námskeið til að styrkja tengslin og þangað halda þær í byrjun sögunnar. Námskeiðið er haldið á sveitasetri og er ætlast til að þátttakendur búi á staðnum á meðan það stendur yfir. Það reynist hins vegar ekki alveg vera það sem mamma hennar bjóst við og þrátt fyrir yfirlýsingar um að Ólafía Arndís sé óstýrilát og uppstökk er það mamma hennar sem ákveður að þær skuli strjúka ásamt fjórum öðrum af námskeiðinu. Þau halda öll í sveitina fyrir utan Hvolsvöll til Rikka og sonar hans Ríkharðs sem tóku þátt í flóttanum, en þar bíða pabbi Ólafíu Arndísar, Kristján bróðir og fjölmörg ný tækifæri. Hluti af námskeiðinu í að rækta mægðnasambandið felur í sér að Ólafía Arndís eigi að kynnast sjálfri sér og læra að bera ábyrgð á hegðun sinni og framkomu, að rækta sjálfið. Eitt af verkefnunum sem hún fær er að skrifa bloggið eða vefdagbókina og bókin samanstendur af færslum sem hún skrifar þetta sumarið. Vinir hennar og fjölskylda skrifa svo athugasemdir við færlsunar og þannig er sjónarhornið í þessari bók ekki eingöngu Ólafíu Arndísar heldur einnig þeirra sem standa henni næst og gefur það frásögninni annan blæ.
Ólafía Arndís þroskast töluvert á þessum fjórum árum sem bækurnar spanna og fer frá því að vera ærslafullt og óstýrilátt barn í að vera unglingur. Þrátt fyrir léttan tón verður einnig skýrara með hverri bókinni að rótleysi foreldra hennar hefur töluverð áhrif á hana og ekki hægt annað en að hafa ákveðna samúð með henni. Henni gengur illa í skóla og hún á erfitt með að fóta sig en tekst samt alltaf einhvern veginn á endanum að snúa hlutum sér í hag, oft fyrir milligöngu einhvers sem er eldri, reyndari og jafnframt skynsamari en hún. Þrátt fyrir ýkjurnar sem hún viðurkennir fúslega sjálf við nokkur tækifæri er ljóst að Ólafía Arndís hefur sterka réttlætiskennd og snýst hún ekki eingöngu um það sem henni finnst foreldrar sínir gera á sinn hlut heldur einnig um að standa með þeim sem eru á einhvern hátt utangarðs eða útundan. Anton Ísberg vinur hennar á Dalvík er dæmi um þetta en hann á erfitt með að falla inn í hópinn og aðrir vaða yfir hann, þangað til Ólafía Arndís kemur til sögunnar og hjálpar honum að standa uppi í hárinu á þeim.
Þótt bækurnar um Fjóla Fífils og um Ólafíu Arndísi séu ólíkar eru nokkur atriði sem þær eiga sameiginleg. Eitt þeirra er húmorinn en hann er aldrei mjög fjarri þó oft sé fjallað um alvarlega hluti eða atburðarrásin spennandi. Annað sameiginlegt einkenni á bókunum öllum er fróðleikurinn sem er fléttaður inn í textann. Lesandinn fræðist og lærir um allt mögulegt við lesturinn, hugmyndir, sögu og menningu, en alltaf án þess að það trufli frásögnina eða textinn verði ofhlaðinn upplýsingum. Margt af því sem Ólafía Arndís tekur sér fyrir hendur er mörgum börnum eflaust framandi og mætti þar nefna lífið í Flatey, dúntekju eða störf kvikmyndagerðarmanna svo eitthva sé nefnt. Hið sama á við um Fjóla Fífils en viðfangsefni þar eru tengd sögu og menningu utan Íslands. Þar er f allað um múmíur, ásatrú, Napóleon og ýmislegt fleira.
Bækur Kristjönu eru fullar af skilningi, húmor og virðingu fyrir lesandanum og persónum bókanna. Þótt Fjóli sé stundum kjánalegur er aldrei gert lítið úr honum og þótt Ólafía Arndís láti stundum illa er alltaf borin virðing fyrir henni. Stíllinn og orðbragðið er ögrandi fyrir unga lesendur, ætlast er til þess að þeir hugsi sjálfstætt og lesi ekki gagnrýnislaust. Ráðgátur Fjóla og ýkjur Ólafíu Arndísar eru til þess gerðar að hvetja þá til þess að velta hlutum fyrir sér og hugsa um það sem fer fram. Þrátt fyrir þetta verða hvorki textinn eða umfjöllunarefnið of þung, léttleiki og fjölbreytileiki eru alltaf í fyrirrúmi og tekst þannig að halda góðu jafnvægi þar sem alvarleiki og kímni spila saman, hvort sem verið er að fjalla um einkaspæjara eða daglegt líf hjá íslenskum krökkum.
María Bjarkadóttir, desember 2013
Rosalingarnir
Lesa meiraFreyja og Fróði eignast gæludýr
Lesa meiraFreyja og Fróði rífast og sættast
Lesa meiraFreyja og Fróði geta ekki sofnað
Lesa meiraFreyja og Fróði eru lasin
Lesa meiraFreyja og Fróði fara í búðir
Lesa meiraFreyja og Fróði í klippingu
Lesa meiraFreyja og Fróði í sundi
Lesa meiraFreyja og Fróði hjá tannlækni
Lesa meira