Höfundar barnabóka með litskrúðugum myndum fara um víðan völl þetta árið og það endurspeglast ágætlega í þeirri umfjöllun sem hér fer á eftir þar sem söguefnið er allt frá hefðbundinni sveitafrásögn til villtra ævintýra kappsamra skrímsla og kinda sem geyma tígrisdýr í ullinni sinni.
Björk Bjarkadóttir segir frá bræðralagi stráksins Tolla og kindarinnar Todda í bókinni Grallarar í gleðileit. Þegar mamma þeirra þreytist á fíflalátunum í þeim ákveða þeir að bregða sér niður í bæ og finna eitthvað sem glatt getur mömmu. Ullarfeldurinn á Todda hefur þann eiginleika að geta tekið við endalausu af dýrmætum varningi og félagarnir nýta sér það óspart í bæjarferðinni þegar að þeir stinga í ullina kökum, koddum, blómum og ýmsu öðru sem glatt gæti mömmu.
Rúsínan í pylsuendanum er svo heilt tígrísdýr sem Toddi á ekki heldur í neinum erfiðleikum með að bera í ull sinni, jafnvel þó að honum lítist kannski ekkert allt of vel á þá grimmu skepnu. Allt stefnir þó í uppnám þegar að Toddi hristir hlutina úr feldinum og ekkert stendur eftir nema eitt blóm.
Björk er bæði höfundur mynda og texta. Myndirnar eru líflegar og skemmtilegar og líklegar til að höfða til ungra lesenda sinna. Sagan höfðar áreiðanlega vel til krakka með ríkt ímyndunarafl þar sem að falin tígrísdýr í ullarfeldi kindar er jafn eðlilegur hlutur og blár himinn.
Var það bara svona?, saga Kristínar R. Thorlacius með myndum Erlu Sigurðardóttur, eru öllu rótgrónari. Þar er rammasaga mest áberandi, lögð í munn ömmu sem segir barnabarni sínu sögu. Sagan sem amman segir er um stúlku á sveitaheimili sem leiðist en tekur gleði sína á ný þegar að hún fær að fara með pabba sínum að gefa hrútunum hafrana.
Yfirbragð sögunnar er nokkuð fornt og það sama á við um frásagnarmáta og orðaval. Auðvitað er mikilvægt að börn venjist því að lesa fjölbreyttan texta og auka orðaforða sinn en ég er dálítið smeykur um að hinn forni stíll valdi því að sagan glati inntaki sínu hjá ungum lesendum sínum, sérstaklega vegna þess frásögnin hverfist um margbreytileika tungumálsins. Þá er uppbygging sögunnar nokkuð losaraleg og þá sérlega sögulokin.
Myndir Erlu Sigurðardóttur eru vel unnar en þær mættu vera líflegri og kraftmeiri.
Guðrún Helgadóttir er sjálfri sér lík í sinni nýjustu sögu. Sem betur fer. Guðrún hefur alltaf sýnt lesendum sínum þá virðingu að hlífa þeim ekki við stórum og flóknum viðfangsefnum lífsins, þá ekki síst þeim sem aðrir barnabókahöfundar koma sér undan að fjalla um af tepruskap eða misskilinni góðvild.
Í Lítilli sögu um latan unga segir frá lötum unga sem nennir ekki að fylgja í fótspor jafnaldra sinna og fljúga úr hreiðri móður sinnar og hefja sitt eigið líf. Mamman þarf því að þræla sér út til að afla matar sem hæfir tiktúrum hins matvanda afkvæmis síns. Jafnframt þarf hún að lifa í óttanum við það hvað muni gerast þegar að hreiðrið sligast undan þunga stálpaðs ungans og hann hrapar ófleygur úr trénu.
Þetta er hressileg, fyndin og hárbeitt saga. Maður þarf ekki að vera mjög góður í því að lesa í táknsögur til að sjá hvernig eru skotspónar þessarar sögu Guðrúnar.
Ég sting alla vega upp á þessari bók í jólapakkann, ekki bara til barna heldur líka til dofinna ungmenna á „hótel mömmu“ sem kannski hafa varðveitt barnið í sér aðeins meira en góðu hófi gegnir.
Myndir Önnu Cynthiu Leplar passa frásögninni vel. Sérstaklega er forsíðumyndin kostuleg, af fýldum unglingnum sem hangir letilega í hreiðrinu með annan fótinn út í loftið.
Menn hafa misjafnar skoðanir á norrænu samstarfi. Enginn gæti þó nokkurn tíma haft nokkuð á móti norrænu samstarfi ef það lukkaðist ávallt jafn vel og skrímslabókasamstarf þeirra Áslaugar Jónsdóttur frá Íslandi, hins sænska Kalle Güettler og Rakelar Hemsdal frá Færeyjum.
Bókaflokkur þeirra um litla skrímslið og stóra skrímslið er ekkert minna en stórkostlegur. Sögurnar taka á öllum þeim ólgandi tilfinningum sem bærast með okkur öllum, bæði börnum og fullorðnum, og okkur gengur misjafnlega vel að hafa stjórn á. Allar snúast þær um þær flækjur sem þetta getur valdið og ekki síst hvað það getur verið erfitt að gangast við tilfinningum sínum og vinna með þær. Það kemur einhvern veginn af sjálfu sér að bækurnar verði uppspretta innihaldsríkrar umræðu milli barna og foreldra þeirra. Í því hef ég alla vega lent sjálfur og notið þess mjög.
Sögurnar hitta mann alltaf í hjartastað, þær eru vel sagðar og persónurnar eru ákaflega heillandi og auðvelt að samsama sig með þeim.
Allir höfundarnir þrír eru skráðir fyrir sögunum en Áslaug er ein höfundur mynda. Áslaug er, að mínu mati, langbesti myndhöfundur barnabóka á Íslandi um þessar mundir og raunar stendur hún líka í allra fremstu röð sem textahöfundur barnabóka. Einkenni hennar verka er mjög sterkt samspil á milli textahönnunar og mynda, raunar má segja að textahönnunin leiki lykilhlutverk í hennar verkum. Auk Skrímslabókanna má þar til dæmis nefnda hina fræbæru bók hennar, Ég vil fisk!, þar sem stigmögnunin eykst í texta og myndum frá síðu til síðu.
Nýjasta bókin, Skrímsli á toppnum, er sú sjötta í röðinni. Þar er stærilæti í brennidepli og segja má að dramb sé þar bókstaflega falli næst. Um hana á allt það sama og um flokkinn í heild og þess vegna fær Skrímsli á toppnum fullt hús, eins og allar hinar bækurnar í flokknum fá líka. Lifi norrænt skrímslasamstarf sem lengst!
Sigurður Ólafsson, desember 2010.
Fjórar myndskreyttar barnabækur
- Höfundur
- Björk Bjarkadóttir
- Útgefandi
- Mál og menning
- Staður
- Reykjavík
- Ár
- 2010
- Flokkur
- Barnabækur
- Höfundur
- Guðrún Helgadóttir
- Útgefandi
- Vaka-Helgafell
- Staður
- Reykjavík
- Ár
- 2010
- Flokkur
- Barnabækur
- Höfundar
- Áslaug Jónsdóttir,
- Kalle Güettler,
- Rakel Helmsdal
- Útgefandi
- Mál og menning
- Staður
- Reykjavík
- Ár
- 2010
- Flokkur
- Barnabækur
- Höfundar
- Kristín R. Thorlacius,
- Erla Sigurðardóttir
- Útgefandi
- Uppheimar
- Staður
- Akranes
- Ár
- 2010
- Flokkur
- Barnabækur
- Höfundur umfjöllunar
- Sigurður Ólafsson