Æviágrip
Áslaug Jónsdóttir fæddist þann 31. mars 1963. Hún ólst upp á bænum Melaleiti í Melasveit í Borgarfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1983 og stundaði síðan nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1984 - 1985. Áslaug nam við Listiðnaðarskólann í Kaupmannahöfn (Skolen for Brugskunst - Danmarks designskole) frá 1985 - 1989 þegar hún útskrifaðist frá teikni- og grafíkdeild skólans. Auk þess hefur hún tekið þátt í námskeiðum í Bandaríkjunum, Svíþjóð og á Íslandi.
Frá því að hún lauk námi hefur Áslaug starfað sem myndhöfundur, grafískur hönnuður, rithöfundur og myndlistamaður. Hún hefur skrifað og myndskreytt fjölda barnabóka og tekið þátt í samsýningum, bæði hér heima og erlendis. Þá hefur hún haldið námskeið og fyrirlestra á ýmsum vettvangi, m.a. í Háskólanum á Akureyri, hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, hjá Ung í Færeyjum og víðar á Norðurlöndum. Áslaug hefur einnig skrifað og myndlýst barnaefni fyrir sjónvarp. Hún var fréttaritari fyrir Morgunblaðið 1996 - 1998 og pistlahöfundur og teiknari á Degi 1998. Hún hefur átt sæti í stjórnum SÍUNG, félags barnabókahöfunda, og Fyrirmyndar, félags myndskreyta, frá 2001.
Áslaug hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín, m.a. hefur hún tvisvar fengið Dimmalimm verðlaunin – íslensku myndskreytiverðlaunin, hún hlaut Barnabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins 2002 ásamt Andra Snæ Magnsyni fyrir Söguna af Bláa hnettinum og Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2017 í flokki barna- og unglingabóka fyrir Skrímsli í vanda.
Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Frá höfundi
Frá Áslaugu Jónsdóttur
Einu sinni, fyrir langa löngu … var bóndabær, var sumar, var tún, var heyskapur, var hóll, var fólk og barn með hrífu. Þetta hlýtur að hafa verið í eldgamladaga. Svona einhvern tíma upp úr miðri síðustu öld. Fólkið sat á hólnum og gaspraði um góða veðrið, það hafði lagt frá sér hrífurnar og horfði á heyflekkinn og dráttarvélarnar snúast í kringum hann. Barnið með hrífuna var líka búið að arka hringinn og eltast við dreifar. Barnið horfði á þetta risastóra græna flæmi. Það tók heila eilífð að ganga í kringum svona flekk. Í endalausa hringi. En það var ekki nóg. Það biðu enn stærri tún eftir sömu meðferð. Bylgjandi breiður af grænu grasi eins og augað eygði. Heil sumur af heyskap. Margir, margir dagar af labbi með hrífu. Barnið kveið því að verða fullorðið og þurfa að raka þessi risatún alla daga. En því til furðu var fullorðna fólkið glatt yfir öllu saman. Það hló og talaði um eitthvað allt annað en vinnuna. Það talaði um Nóbelskáldið. Nóbelskáldið sagði þetta og nóbelskáldið skrifaði hitt. „Hvað gerir Nóbelskáld?“ spurði barnið. „Hann Halldór er rithöfundur, hann skrifar bækur,“ var svarið. „Skítlétt!“ hugsaði barnið og rótaði með hrífunni sinni í grasinu um leið og það rifjaði upp sögu og mynd af álfi sem það var enga stund að gera fyrr um daginn. „Ég ætla að verða rithöfundur þegar ég verð stór,“ sagði barnið, „þá þarf ég ekkert að vinna.“
Af hverju var hlegið? Ég skildi það ekki þá.
Nú eru túnin smá og grasið jafn grænt beggja vegna lækjar. Þegar ég kemst í tæri við heyskap vex mér sú vinna ekki lengur í augum, jafnvel þó leggja verði nokkurt traust á veðurguðina. Í ritstörfum og bókagerð sé ég á hinn bóginn óendanlegar breiður af orðum og myndum, uppsprettu heillandi vinnu sem fær mig til að gleyma öllu um sumarleyfi, átta stunda vinnudag og öruggar tekjur. Þar er á fáa að treysta nema sjálfan sig og ég reyni að raka saman í minn litla flekk.
Það er enginn rauður þráður frá þessari fyrstu hugmynd minni um starf rithöfundarins til þeirrar staðreyndar að ég hef skapað myndabækur fyrir börn. Leiðin um lífið er skrykkjótt og skrýtin, einn daginn hefur tíminn gefið okkur starfsheiti, reynslu og ferilskrá, sem segir að þetta sért þú. Einu sinni var framtíðin risavaxinn geimur af möguleikum. Ég man ekki betur en ég vildi frekar verða grasafræðingur eða galdranorn, heldur en rithöfundur eða eitthvað í þá veru. Eða kannski vitavörður, fuglafræðingur, lestarstjóri eða bóndi. Ég varð ekki bóndi, en ég vinn við einn af frumatvinnuvegunum. Listamenn eiga það sammerkt með bændum að þeir framleiða lífsnauðsynjar og afurðirnar skapa enn fleirum lífsviðurværi.
Ég skrifa texta af því ég teikna. Ég teikna af sömu ástæðu og aðrir skrifa. Það sækja að mér sögur og ég skoða lífið í gegnum myndir og orð. Ég er heilluð af þessari misflóknu samsetningu pappírsarka sem virðast geta rúmað allt milli himins og jarðar og kölluð er BÓK. Ég er einlægur aðdáandi myndabókarinnar og mér finnst ég varla byrjuð að skoða möguleika hennar og leyndardóma. Sjálfsagt má væna mig um fortíðarþrá þegar barnabækur eiga í hlut, en það vita allir, sem lásu bækur í barnæsku, að töfrastundir eru til. Það eru þessar stundir sem ég minnist og það er þessi tilfinning fyrir óendanleika og frelsi sem ég upplifi í heimi barnabókanna.
Áslaug Jónsdóttir, apríl 2006
Um höfund
Áslaug Jónsdóttir og mettaðar myndir, eða: Nei! sagði litla myndin
Þó það megi sjálfsagt ásaka mig fyrir bókmenntafræðilega stæla þá stenst ég ekki mátið að gera litla skrímslið í sögu Áslaugar Jónsdóttur, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler að táknmynd fyrir stöðu myndarinnar gagnvart orðinu. Þessi stutta fallega saga segir frá litla skrímslinu sem er orðið þreytt á yfirganginum í stóra skrímslinu og hefur sig loks í að hrópa „Nei!“
„Myndin er setningarfræðilega og merkingarlega þétt vegna þess að engan punkt er hægt að einangra sem einstakt, auðkennanlegt gildi (eins og staf í stafrófi)“ (184) segir bókmenntafræðingurinn W.J.T. Mitchell í umfjöllun sinni um myndir og mál, og vitnar þar í kenningar heimspekingsins Nelsons Goodman. Hér er vísað til umræðunnar um stöðu myndar gagnvart stöðu orðsins, en almennt er myndin álitin standa höllum fæti í þeim samanburði. Goodman leggur hinsvegar áherslu á það að merking mynda sé mettuð, en merking tungumálsins afmörkuð – hana má miða við staf eða orð, en merkingu myndarinnar er erfitt að einskorða við tiltekinn lit eða form, táknheimur hennar mótast alltaf af heildarmyndinni.
Roland Barthes fjallar líka um belgvíðan merkingarheim myndarinnar í grein sinni „Retórík myndarinnar“ og setur fram þá kenningu að þessi mettaða merking sé stöðugt tamin af textanum, hinu ritaða máli, sem fylgir myndinni og stýrir merkingu hennar. Greinarnar „Myndir og mál“ og „Retórík myndarinnar“ birtust í Ritinu: riti Hugvísindastofnunar (1:2005), en það hefti er helgað orðum og myndum, samspili þeirra og sundrungu. Með því að skoða efnisyfirlitið er í fljótheitum hægt að sjá hinar ólíku myndir sem umræðan um orð og myndir tekur á sig, hér eru greinar um listfræði, sjónmenningu, táknmál, táknfræði og svo er líka ein myndasaga. Og síðast en ekki síst, grein um barnabækur, nánar tiltekið bækurnar um Snúð og Snældu, sem Gunnar Harðarson bendir á að hafi haft kynskipti jafnhliða málskiptum, en í upphaflegu frönsku bókunum voru kettlingarnir báðir karlkyns. Hann ræðir þetta skemmtilega kynjaflökt síðan útfrá samspili mynda og orða.
Það virkar kómískt að sjá langa fræðilega grein um svona einfaldar barnabækur eftir heimspeking í virðulegu fræðiriti, gefnu út á vegum Háskóla Íslands, en þegar nánar er að gáð hefði þetta þema orða og mynda orðið hálf asnalegt ef slík grein hefði ekki verið með. Það er jú helst í barnabókum sem unnið er með orð og myndir á markvissan hátt (þó vissulega sé slíka vinnu einnig að finna í auglýsingum). Myndasagan er líka mikilvæg í þessu sambandi, en þó mætti hugsa sér að þar sé um dálítið annan hlut að ræða, því þar tengjast texti og mynd mun nánari böndum – það væri aldrei hægt að segja um myndasögu að myndirnar séu bara myndskreytingar, til dæmis.
En er virkilega hægt að tala um að myndir í barnabókum séu ‚bara myndskreytingar‘? Ekki samkvæmt Áslaugu Jónsdóttur, rithöfundi og myndlýsi, sem hefur einmitt tekið upp orðið ‚myndlýsing‘ til að leggja áherslu á mikilvægi mynda í barnabókum, mikilvægi sem nær langt útfyrir að vera ‚bara‘ skreyting. (Hér hljóta að koma upp vangaveltur varðandi hlut skreytinga: af hverju þær eru alltaf álitnar svona neikvætt og ómerkilegt fyrirbæri, en það er sérumræða í allt aðra grein.) Árið 2001 birtist grein eftir Áslaugu í tímaritinu Börn og menning, „Yfir eyðimörkina á merinni Myndlýsingu“, en þar ræðir hún stöðu myndlýsinga hér á landi og veltir meðal annars upp spurningunni „Bara fyrir börn?“ Hér má aftur minna á myndasöguna, sem, þrátt fyrir að vera upphaflega ætluð fullorðnum (birtist í dagblöðum) er stöðugt álitin barnaefni, og það þrátt fyrir að ljóst megi vera að viðfangsefnin séu langtífrá við barna hæfi. Ég hlýt að deila með Áslaugu þeirri von að einhverntíma verði myndlýstar bækur fyrir fullorðna jafn sjálfsagðar og myndabækur fyrir börn, kannski það gæti þjónað tvennum tilgangi, að styrkja stöðu myndasögunnar og myndlýsinga almennt. Enn sem komið er eru það fyrst og fremst ljóðabækur sem eru gefnar út með ríkulegu myndmáli og er þá litið á slíkar sem samstarfsverkefni myndhöfundar og skálds, dæmi um þetta eru bækur sem Bernd Koberling hefur gefið út með Baldri Óskarssyni, Gyrði Elíassyni og Snorra Hjartarsyni og ljósmyndabók Nökkva Elíassonar með ljóðum Aðalsteins Ásbergs, svo örfá dæmi séu tekin.
Áslaug Jónsdóttir hefur starfað lengi sem rithöfundur og myndlýsir, en hún gaf út sína fyrstu bók árið 1990, Gullfjöðrina. Hún varð þó ekki almennt þekkt fyrr en árið 1999 en það ár hlaut bók sem hún myndlýsti, Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason, Íslensku bókmenntaverðlaunin. Þar var ýmislegt sem vakti athygli, bæði var það í fyrsta sinni sem barnabók fékk þessi eftirsóttu verðlaun, en árið áður hafði verið mikil umræða um hversu veik staða barnabóka væri á vettvangi almennra bókmenntaverðlauna. Einnig vakti það athygli að það var Andri Snær sem fékk verðlaunin, en ekki Áslaug með honum, þó ljóst mætti vera að hlutur hennar væri mikilvægur í sögunni, en hún ekki aðeins myndlýsti heldur hannaði bókina alla. Hér var því ljóslega á ferðinni dæmi um að hið ritaða mál er álitið afmarkanlegt frá ‚myndskreytingum‘, verðlaunin voru því í raun veitt fyrir ritað handrit Andra, en ekki bókina í heild, ef við viljum fara með hlutverk myndlýsinga alla leið. (Sjá nánar um Bláa hnöttinn í grein minni um Andra Snæ hér á vefnum.)
Ekki svo að skilja að Áslaug geti ekki sópað að sér verðlaunum, nú síðast hlaut hún Dimmalimm verðlaunin, íslensku myndskreytiverðlaunin, fyrir bók sína Nei! sagði litla skrímslið, en auk Áslaugar eru Rakel Helmsdal og Kalle Güettler höfundar sögunnar, sem kom út á fjórum tungumálum. Eins og áður segir fjallar bókin um átök í vináttu milli litla og stóra skrímslisins, en litla skrímslið vill gjarna hafa það svolítið rólegt og huggulegt og er stórhneykslað á framkomu stóra skrímslisins, sem skemmir, frekjast og stelur – hagar sér í stuttu máli einmitt eins og staðalmynd af skrímsli! Allt fer þó vel að lokum, Nei! litla skrímslisins verður til að það stóra sér að sér og þeir félagarnir skemmta sér saman sem aldrei fyrr. Áslaug myndlýsir bókina í þeim stíl sem hún er orðin kunnust fyrir, og leggur áherslu á einfaldleikann. Síðurnar eru hvítar og á þeim birtast einskonar klippimyndir og skuggamyndir, í bland við teikningar með þykkum svörtum útlínum, sem líka eru kantaðar, í stíl við klippimyndaáferðina. Sömuleiðis er hluti textans teiknaður í sama stíl, eins og til dæmis sjálft Nei!-ið. Samsetningin er sérlega vel heppnuð og bókin vel að sínum verðlaunum komin.
Eins og áður sagði var Gullfjöðrin fyrsta bók Áslaugar. Sagan er einskonar ævintýri, eins og svo margar sögur höfundar, og segir frá því að lítill gulur fugl finnur stóra gullfjöður. Hann bíður ekki boðanna, heldur grípur fjöðrina í nefið og flýgur af stað í leit að eigandanum, enda ekkert grín að tapa heilli fjöður. Á leið sinni hittir hann ýmsa fugla, en allir hafna þeir fjöðrinni, þar til loks að örþreyttur smáfuglinn finnur hinn glæsta gullfugl og kemur fjöðrinni á sinn stað.
Sagan er sögð á tvennan hátt, fyrst í myndum og svo í texta, eða fyrst með mettuðu táknkerfi og svo afmörkuðu, svo notuð séu hugtök Goodmans sem vitnað var í hér að ofan. Þetta er mjög skemmtilegur frásagnarmáti, því flestir lesendur upplifa líklega að ‚afmarkaða‘ sagan sem sögð er í lokin er all önnur en sú ‚mettaða‘ sem þeir sögðu sér sjálfir útfrá myndunum. Í myndunum koma strax fram nokkur einkenni myndmáls Áslaugar, en þar er að finna einskonar blöndu af þrykkimyndum og teikningum. Saman skapar þetta áferð klippimynda og virkar sérlega lifandi á síðunni, auk þess sem svipbrigði og hreyfingar fuglanna eru bráðskemmtileg, en þar er litli guli fuglinn með fjöðrina í fanginu aðalstjarnan.
Næsta bók Áslaugar, Fjölleikasýning Ástu (1991) er öllu hefðbundnari, bæði saga og myndir. Sagan segir frá Ástu litlu sem ákveður að lífga uppá afmælisboð með heimatilbúinni fjölleikasýningu. Sama ár kom út Stjörnusiglingin – Ævintýri Friðmundar vitavarðar sem er meira í ævintýrastílnum, en þar er sagt frá vitaverðinum Friðmundi sem uppgötvar að himintunglin eru í upplausn vegna þess að annar tvíburinn, Kastor, hefur óvart verið hrifinn á brott af halastjörnu. Svo Friðmundur siglir bát sínum uppí himinhvolfið og reddar málunum. Myndirnar minna á stíl Gullfjöðurinnar, grunnurinn er vatnslitir en ofaná þeim birtast klippimyndir og teikningar.
Á bak við hús – Vísur Önnu kom út árið 1993 og er í klippimyndastílnum með þessari sérstöku þrykkimyndaáferð sem skapar sérstaka og dálítið dularfulla stemningu. Sagan segir frá Önnu litlu sem hefur gaman af því að baka drullukökur. Í leiðinni hittum við hin ýmsu dýr garðsins, kött og mús, kónguló og snigla, flugur og bjöllur, og svo auðvitað fugl og maðk. Myndirnar eru lifandi og fallegar og stíllinn nýtur sín sérstaklega vel í myndum af dýrum og gróðri.
Anna er greinilega andlega skyld prakkaranum í Prakkarasögu (meðhöfundur Sigurborg Stefánsdóttir), en það er saga með bæði myndum og táknmáli sem lýsir bæjarferð lítils prakkara með föður sínum, sem greinilega má hafa sig allan við. Hér er klippimyndastíllinn allsráðandi sem er mjög við hæfi í ólátum prakkarans. Áslaug snýr sér svo aftur að ævintýrunum í Einu sinni var raunamæddur risi (1995) og Sex ævintýri (1998). Raunamæddi risinn er, eins og Áslaug segir sjálf, um húmorslausan risa sem leitar hláturins. Dýrin garga og gala á hann en það er ekki nokkur skepna sem hlær fyrr en hann hittir börnin. Hér birtist sá teiknistíll sem síðan hefur orðið einkennandi fyrir myndlýsingar Áslaugar, einfaldar teikningar með breiðum útlínum sem gefa myndunum einkennilega vikt á síðunum, jafnframt því að skapa næstum upphleypta áferð.
Sagan af raunamædda risanum minnir reyndar dálítið á sögu Oscars Wilde, Risinn eigingjarni, en Áslaug myndlýsti einmitt nýja íslenska þýðingu á því ævintýri (2001). Þar er líka fjallað um risa og börn, þó öllu meiri dramatík sé á ferðinni en í sögu Áslaugar. Myndirnar eru svart/hvítar sem hæfir stemningunni vel, auk þess sem stílbrögð hennar með þrykk, klipp og teikningar spila sérlega vel saman og skapa sögunni auðugt og drungalegt andrúmsloft.
Í Sex ævintýrum ræður hinsvegar gleðin og litagleðin ríkjum, en ævintýrin eru mörg hver stef við þekktar sögur. Hér blandast ljósmyndaklippur inn í fjölleikastílinn og skapar enn eitt tilbrigðið, þetta kemur sérlega vel út í sögunni um lata kokkinn, sem dæmi má taka mynd þarsem duglegi pilturinn tekur eldhúsið yfir og sker niður graslauk innanum freistandi matargnægtir.
Árið 2003 sendi Áslaug frá sér Eggið, lítið og skrýtið ævintýri um egg á ferðalagi. Sem fyrr notar Áslaug liti til að skapa andrúmsloft og hér eru ekki hefðbundnir ‚barnalitir‘ á ferðinni heldur fremur dempaðir, svona það sem litgreinendur myndu líklega kalla haustliti. Sagan lýsir því að egg fellur úr hreiðri og í fangið á villiketti. Þegar kötturinn ætlar að hremma það rúllar það í burtu og lendir í hinum ólíklegustu ævintýrum. Áslaug notar tungumálið skemmtilega og ‚egg‘ orð eru allsráðandi: eggjandi, eggsléttur og eggjun. Hér er það teiknaði stíllinn (kunnuglegur úr bláa hnettinum) sem ræður ríkjum, með þessum þykku mjúku útlínum sem skapa bæði kraft og kyrrstöðu. Í bland við teikningarnar er svo hin sérstaka þrykkáferð og klippimyndastílinn, sem birtast aðallega í bakgrunninum og allt vinnur þetta mjög skemmtilega saman.
Í fyrrnefndri grein sinni fjallar Áslaug um hlutverk og tegundir myndlýsinga. Hún skiptir hlutverkinu í þrennt:
- skreytingu (hönnun á myndrænni umgjörð, búa til myndir)
- upplýsingu (birting á frásögn, sagan sögð)
- skýringu (túlkun á hugmyndum, dýpkun á (ákveðnum) skilningi)
og segir að því fleiri þættir sem séu til staðar, því mikilvægari sé myndlýsingin. Tegundir myndabóka fyrir börn eru fimm, samkvæmt Áslaugu – með fyrirvara. Þeir eru:
- Myndasafnið: Hér er lítill sem enginn texti og myndirnar tengjast í krafti tiltekinnar hugmyndar. Dæmi: Stafrófsbækur og álíka.
- Textalausa sögubókin: Hér er saga sögð í myndum, án texta.
- Mynda- og sögubókin: Hér standa myndir og texti jafnfætis og atburðarásin er háð samspili þar á milli.
- Myndlýsta bókin: Hér getur textinn staðið án mynda, en myndirnar eru samt mikilvægar; túlkanir á persónum og atburðum til dæmis.
- Leikfangabókin: Hér flokkast myndabækur sem liftast upp og flettast sundur og saman í brotum. Áslaug kallar þetta einskonar pappírsskúlptúr og hér, sem fyrr, þurfa efniviður og brot að spila saman.
Það er áhugavert að bera þessi hlutverk og tegundir við skilgreiningu myndasöguhöfundarins Scott McCloud á mismunandi leiðum myndasöguhöfunda til að fella saman orð og myndir. McCloud skiptir samspili orða og mynda í sjö flokka:
- Orðið er ríkjandi: Hér eru myndirnar hrein myndskreyting og bæta engu við textann.
- Myndin er ríkjandi: Hér er það myndin sem er málið, orðið er bara skraut, upphrópun eða álíka.
- Orð og mynd eru jafnsterk: Hér segja orð og myndir það sama, textinn segir okkur það sem við sjáum á myndinni, og öfugt.
- Orð og mynd bæta við hvort annað: Hér bæta orðin einhverju við myndirnar eða öfugt.
- Orð og mynd eru samsíða: Hér eru sagðar tvær sögur, ein í myndum og ein í orðum.
- Orð sem mynd: Hér eru orðin hluti af myndinni, upphrópanir, minningabrot eða álíka birtast með sérstöku letri inni á myndinni en ekki í talblöðru.
- Orð og mynd eru háð hvort öðru: Hér er vægi orða og mynda jafnt, auk þess sem hvorugt má missa sín til að merkingin haldist.
Það er ljóst að það er ýmislegt líkt með þessum flokkum, annar flokkur McClouds samsvarar ‚myndasafninu‘ og ‚textalausu sögubókinni‘ hjá Áslaugu, ‚mynda- og sögubók‘ hennar myndi falla undir hvort sem er fjórða eða sjöunda flokk McClouds (sem eru í raun meinlíkir), fyrsti og þriðji flokkur McClouds eru þeir sömu og ‚myndlýsta bókin‘ hjá Áslaugu og hugsa mætti sér að ‚leikfangabókin‘ samsvari að einhverju leyti sjötta flokki, þarsem orðin verða hluti af myndinni. Hlutverkin þrjú eru líka áhugaverð í þessu sambandi. Flokkar McClouds fylgja einmitt mikilvægi þessara þriggja hlutverka myndarinnar, skreytingar (í fyrsta og þriðja flokki), upplýsingar (annar og fjórði flokkur), skýringar (fjórði og sjöundi flokkur). Fimmti flokkur McClouds, þarsem tvær sögur eru sagðar samhliða er að ég held sérstakur fyrir myndasöguna, allavega hef ég ekki séð þetta stílbragð annarsstaðar.
Sögum Áslaugar mætti síðan raða í þessa flokka, Gullfjöðrin fellur augljóslega undir ‚textalausa sögubók‘, allavega að hluta, og myndríkjandi-flokk McClounds, en aðrar bækur hennar flokkast almennt undir upplýsingu og skýringu, eða fjórða og sjöunda flokk McClouds.
En hvað þá með myndlýsingar hennar á verkum annarra? Hér sést strax vandamálið við hina þéttu eða mettuðu merkingu Goodmans, gagnstætt afmarkaðri merkingu ritmálsins; því þessi þétting og mettun er að sjálfsögðu háð þeirri þjálfun sem lesandinn hefur í myndlæsi og því vægi sem hann leggur á mynd vs. orð. Að mínu mati birtast öll þrjú hlutverk myndlýsingar í Sögunni af bláa hnettinum, og allavega tvö í risasögu Wilde og þarmeð meta hlutverk myndanna sem órjúfanlegt (sjöundi flokkur McClouds) frá textanum. Við fyrstu sýn mætti halda að myndlýsingar Áslaugar við Orm Kristínar Steinsdóttur séu fyrst og fremst skreyting, en þegar nánar er að gáð er hlutverk myndanna meira, til dæmis birtist okkur nýr og nýr ormur í formi tölustafs fyrir hvern kafla. Það mætti kannski helst flokka myndlýsingar hennar við Krakkakvæði Böðvars Guðmundssonar undir ‚skreytingu‘, því þar er almennt ekki mikla túlkun eða frekari upplýsingu að finna – þó eru á því mikilvægar undantekningar, eins og til dæmis bara kápan sjálf.
Þessar vangaveltur um mörk skreytinga í samanburði við samspil orða og mynda í myndasögum hljóta líka að kalla á frekari vangavel ur um kenningar um orð og myndir sem komið var að í upphafi. Sem bókmenntafræðingur hlýt ég að vera skeptísk á allar hugmyndir um hreinleika tungumálsins, afmarkanleika þess og merkingarkjörnun (einhliða merkingu). Ég er vissulega sammála Goodman og Mitchell um mettun og þéttingu táknheims myndarinnar, en ég get síður séð að ritaða málið þurfi að koma svona illa út úr þeim samanburði, sem afmarkanleg merking því texti á blaði – fyrir læsa – hlýtur ávallt að krefjast samskonar merkingarlegrar heildarmyndar. Þó vissulega sé, ef viðkomandi er sérlega anal, hægt að einangra einstakt, auðkennanlegt gildi, svo sem staf í stafrófi, þá hefur það ósköp lítinn tilgang, svona þegar á heildina er litið. Á sama hátt finnst mér dálítið takmarkandi að sjá textan ævinlega í hlutverki hins jarðbundna lamaða þáttar eins og í kenningu Barthes. Í flokkunarkerfi McClouds er gert ráð fyrir að myndir auðgi orðin, eða að orðin þjóni myndrænu hlutverki, og ég fæ ekki séð betur en að það sama eigi við í myndlýsingum Áslaugar Jónsdóttur. Líkt og í myndasögunni þarsem myndin er yfirleitt hið ríkjandi afl – svona á heildina litið – og textinn er örsjaldan í einhverju valdahlutverki, þá eru textar Áslaugar alls ekki stóra skrímslið í bókum hennar. Þvert á móti eru það myndirnar sem fanga athygli lesandans í bókum hennar, og það eru þær sem móta og auðga textann og draga fram í honum ýmsa merkingarauka og merkingarmöguleika.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2006
Greinar
Almenn umfjöllun
Helga Birgisdóttir: „Og þá mega stór skrímsli gráta“
Börn og menning 2011, 26. árg., 2. tbl. bls. 10-3.
Helga Margrét Ferdinandsdóttir: „Skrímslin bak við tjöldin“
Börn og menning 2011, 26. árg., 2. tbl. bls. 14-7.
Kristín Ragna Gunnarsdóttir: „Mannleg skrímsli“
Börn og menning 2011, 26. árg., 2. tbl. bls. 7-9.
Um einstök verk
Eggið
Kristín Ragna Gunnarsdóttir: „Samspil mynda og texta“
Börn og menning, 19. árg., 1. tbl. 2004, s. 6-9
Ég vil fisk!
Guðrún Lára Pétursdóttir: „Fiskisaga: ég vil fisk eftir Áslaugu Jónsdóttur“ (ritdómur)
Börn og menning 2007, 22. árg., 2. tbl. bls. 30-1.
Einu sinni var raunamæddur risi
Sonja B. Jónsdóttir: „Einu sinni var raunamæddur risi“ (ritdómur)
Vera, 14. árg., 6. tbl. 1995, s. 41
Gott kvöld
Úlfhildur Dagsdóttir: Óvæntar uppákomur í máli og myndum“ (Um nokkrar myndabækur frá árinu 2005)
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Margrét Tryggvadóttir: „Strákar í krísu“ (ritdómur)
Börn og menning, 21. árg, 1. tbl. 2006, s. 22-25
Krakkakvæði
Ingibjörg Jóhannsdóttir: „Krakkakvæði“ (ritdómur)
Börn og menning, 18. árg., 1. tbl. 2003, s. 28-29
Litla skrímslið og stóra skrímslið í leikhúsinu
Sigurður H. Pálsson: „Skrímslauppeldi“ (leikdómur)
Börn og menning 2012, 27. árg., 1. tbl. bls. 28-9.
Stjörnusigling
Margrét Gunnarsdóttir: „Fjölleikasýning Ástu og Stjörnusiglingin: ævintýri Friðmundar vitavarðar“ (ritdómur)
Vera, 11. árg., 3. tbl. 1992, s. 38.
Stór skrímsli gráta ekki
Lilja Margrét Möller: „Að þora að vera maður sjálfur“
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 3. tbl. 2007. s. 102-103
Úlfhildur Dagsdóttir: „Á ferð og flugi“ (Um nokkrar myndabækur frá árinu 2006)
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
2017 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Skrímsli í vanda
2015 – Heiðurslisti alþjóðlegu IBBY samtakanna: Skrímslakisi
2008 – Gríman, íslensku leiklistarverðlaunin: Gott kvöld (sem besta barnasýning ársins)
2006 – Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkur: Stór skrímsli gráta ekki
2005 – Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar: Gott kvöld
2005 – Dimmalimm – Íslensku myndskreytiverðlaunin: Gott kvöld
2004 – Dimmalimm – Íslensku myndskreytiverðlaunin: Nei! sagði litla skrímslið
2004 – Heiðurslisti IBBY: Fyrir myndskreytingar í Krakkakvæðum eftir Böðvar Guðmundsson
2002 – Barnabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins (ásamt Andra Snæ Magnasyni): Sagan af bláa hnettinum
2002 – Heiðurslisti IBBY: Sagan af bláa hnettinum (myndskreytingar)
2000 – Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur: Fyrir framlag til myndskreytinga í barnabókum
1999 – Viðurkenning úr Bókasafnssjóði höfunda
1993 – Viðurkenning Barnabókaráðsins, Íslandsdeildar IBBY
Tilnefningar
2021 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkur í flokki myndlýstra bóka: Sjáðu!
2021 - Fjöruverðlaunin: Sjáðu!
2017 – Astrid Lindgren verðlaunin, Astrid Lindgren Memorial Award
2013 – Verðlaun Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir: Skrímslaerjur
2010 – Norrænu leikskáldaverðlaunin: Gott kvöld (leikrit sem Áslaug byggir á samnefndri bók sinni)
2006 – Norrænu barnabókaverðlaunin: Gott kvöld (bók)
1999 – H.C. Andersen verðlaunin: Fyrir myndskreytingar í barnabókum
1999 – Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur: Sagan af bláa hnettinum (myndskreytingar)
Skrímslaveisla
Lesa meiraLitla skrímslið ætlar að halda stórkostlega veislu og bjóða til hennar útvöldum heiðursgestum. En hvað gerist þegar fínu og frægu gestirnir láta ekki sjá sig?Allt annar handleggur
Lesa meiraMyndasyrpa með 34 persónum og limrur til að túlka þær, leikmunir voru sóttir í ýmsar ruslakistur og hirslur á heimilinu.Skrímslaleikur
Lesa meiraSjáðu!
Lesa meiraSkrímsli í vanda
Lesa meiraMonstruo pequeño dice ¡no!
Lesa meiraSkrímslakisi
Lesa meiraLitla skrímslið hefur eignast kettling. Hann er ógurlega sætur og mjúkur. Litla skrímslið er alltaf með hann. En ég á engan kettling.Eg eiti Grímar
Lesa meira