Einhver sagði einhverntíma (hvorki á þessari öld né síðustu) að því betur sem hann kynntist mönnunum því vænna þætti honum um hundinn sinn. Ég hef alltaf haldið uppá þennan frasa, ekki síst fyrir það að ég er með ofnæmi fyrir hundum og er því afar illa við þá. Þetta er svo skemmtilega lúnkið, virkar voða sætt til að byrja með - frægur kall sem þykir vænt um gamalt og illa lyktandi hundkvikindi - en svo allt í einu opnast merkingin: mannkynið er vonlaust, hundurinn saklaus. Þegar ég las Frost Roy Jacobsens þá rifjaðist þessi leikflétta upp fyrir mér: því meira sem ég las af þessari skáldsögu, því vænna þótti mér um Íslendingasögurnar – sem ég hef þó hingað til ekki haft neinar sérstakar taugar til.
Sagan hefst á fæðingu aðalpersónunnar og þeirri tilvistarlegu spurningu sem faðirinn spyr þegar hann lítur niður á nýfæddan blóðugan son sinn: „Hver ertu?“ Tilvistarspurningar halda svo áfram að vera þema sögunnar, á mjög svo áberandi hátt, líkt og höfundurinn hafi ákveðið að þrátt fyrir að fyrirmyndin séu Íslendingasögurnar sé ástæðulaust að halda sig við agaðan og orðfáan stíl þeirra. Í staðinn lætur hann allt gossa og upplýsir lesandann stöðugt um hvað sé um að ske í tilfinningalífi persóna og skáldskaparlegu lífi sögunnar; besta dæmið um þetta er óskiljanlega dæmisagan um fiskana og trúna sem Gestur segir tvisvar, tveimur mismunandi mönnum, og útskýrir svo vandlega fyrir þeim.
Gestur er semsagt nafnið á aðalsöguhetjunni, fæddur fremur venjulegum bændum á Íslandi, hann er skírður Þórgestur, en missir framanaf nafninu vegna smæðar: „svo smávaxinn var hann að nafn hans var stytt um helming, héðan í frá heitir hann því ekki nema Gestur“ (7). Nafnið er því greinilega táknrænt og verður æ táknrænna eftir því sem á líður því Gestur er gestur í sögu þessa tíma, gestur í sögu átaka höfðingja og stórmenna. Atburðarásin hefst svo með því að faðir Gests skýtur skjólshúsi yfir flóttamann, honum hefnist fyrir það og er drepinn. Gestur, bráðungur, hefnir föður síns, en sá sem hann slátrar með öxi, Víga-Styrr, á mikið undir sér og því verður Gestur landflótta. Og hefst þá mikil flétta hefnda og ferðalaga um Noreg, auk átaka um guði og trú, allt endar þetta svo að sjálfsögðu í miklu stríði þar sem smámennið Gestur verður eins konar ráðgjafi mikilmennanna. Einn enn þráðurinn eru svo hæfileikar Gests, sem eru annars vegar listfengi hans við útskurð og trésmíðar, og hinsvegar lím-minni hans, en hann getur endursagt allar sögur sem hann heyrir einu sinni, bæði orðrétt og með eigin orðum. Þetta hljómar alls ekki svo illa, svona þegar ég lýsi söguþræðinum á þennan hátt, en einhvern veginn gerði sagan sig engan veginn, var í raun og veru fyrst og fremst leiðinleg. Fyrsti hlutinn er þó áberandi bestur, sagan af uppvexti Gests, af upphafi hinnar endalausu hefndarlúppu, af fyrstu árum Gests í Noregi, en meðal annars bjargar hann þar þremur ungum börnum frá því að lenda í klóm ómenna. Einnig mátti skemmta sér yfir samskiptum hans við konur, því þau minntu ánægjulega á þemu úr fornaldarsögum, af samskiptum mennskra karla og tröllkerlinga - eins og reyndar er beinlínis nefnt í sögunni. Því Gestur nýtur nokkurrar kvenhylli og tekst að geta eina tvo syni á ferðum sínum. Öllu minna gaman hafði ég af persónusköpun kvennanna, en þó þar mætti vissulega sjá ummerki kvenskörunga Íslendingasagnanna, þá eru þær yfirleitt teiknaðar mun einfaldari dráttum en karlpersónurnar.
En helsta vandamál sögunnar er það sem áður sagði, hvað hún er ofsögum sögð. Þegar Gestur hlýtur högg á bakið opnast honum sár sem ekki lokast – höggið kemur frá syni Víga-Styrrs sem eltir Gest til Noregs í hefndarskyni, árangurslaust utan höggið á öxlina. En sárið vill ekki gróa og stendur opið allan síðari hluta sögunnar; og það er ítrekað útskýrt fyrir lesandanum að þetta sé teikn hefndarinnar, hefndin er opið sár sem aldrei grær, hefndin er líka tilgangslaus því hún stendur alltaf opin og þannig áfram.
Vissulega er þeim höfundum sem velja sér Íslendingasögur að fyrirmynd ákveðin vorkunn, því ef þeir ætla sér að stæla stíl sagnanna heppnast það sjaldan vel, og tilhneigingin er einnig sú að láta þekkingu viðkomandi um tímabil og sögu njóta sín. Og vissulega er þekking Jacobsens á þessum tíma greinilega mikil og kemst ágætlega til skila í lýsingun á daglegu lífi og háttum fólks. Ég hef áður fjallað um slíkar skáldsögur (sjá grein um Vilborgu Davíðsdóttur hér á Bókmenntavefnum) og ætla ekki að endurtaka það, en get þó ekki annað en ítrekað sömu niðurstöðu og ég komst að í umfjöllun minni um kanadísku skáldsöguna Saga eftir Jeff Janoda (sjá hér á síðunni), en hún er sú að einhvern veginn virðist Íslendingasagnastælingin koma best út í þeim sögum sem eru í reyfarastíl, líkt og Saga Janoda er að mestu leyti. Sá heimspekilegi tónn sem Jacobsen slær virkar yfirborðslegur og þreytandi og dregur úr áhrifum sögunnar.
Að lokum vil ég nefna að frágangur sögunnar var með öllu óviðunandi, bæði fann ég undarlegar prentvillur („st4ór“ á s. 378), auk þess sem á stundum sló saman merkjum um óbeina og beina ræðu. Það er pirrandi að sjá slíka galla í stórri innbundinni bók og ber vitni flausturslegra vinnubragða sem eru í andstöðu við skáldverkið sjálft, en hvað annað sem segja má um skáldsögu Roy Jacobsens, Frost, þá er hún ekki unnin í flaustri.
Úlfhildur Dagsdóttir, sept. 2005