Beint í efni

Vilborg Davíðsdóttir

Æviágrip

Vilborg Davíðsdóttir fæddist 3. september 1965 á Þingeyri við Dýrafjörð. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1984 og lagði stund á ensku við Háskóla Íslands veturinn 1985-1986. Hún lauk prófi í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands árið 1991, nam síðan þjóðfræði við sama skóla og lauk meistaraprófi 2011. Vilborg starfaði sem blaðamaður, dagskrárgerðarmaður og fréttakona á hinum ýmsu fjölmiðlum frá árinu 1985 til ársins 2000 en hefur síðan þá helgað sig ritstörfum og þýðingum.

Fyrsta bók hennar, skáldsagan Við Urðarbrunn, kom út árið 1993 og framhald hennar, Nornadómur, árið eftir. Þær gerast um aldamótin 900 og segja frá baráttu ambáttarinnar Korku Þórólfsdóttur fyrir betra lífi og fylgja henni eftir úr ánauð á Íslandi til Heiðabæjar í Danmörku og heim aftur um Suðureyjar og Orkneyjar til frelsis og landnáms á Vestfjörðum. Við Urðarbrunn hlaut verðlaun Íslandsdeildar IBBY 1994 og ári síðar fékk framhaldsbókin, Nornadómur, verðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkur. Bækurnar voru endurútgefnar árið 2001 í einni bók undir titlinum Korku saga. Þær hafa notið mikilla vinsælda og verið notaðar við kennslu í grunn- og framhaldsskólum um land allt.

Vilborg hefur síðan sent frá sér fjölda verka en hún hefur einkum sérhæft sig í skrifum sögulegra skáldsagna. Má þar nefna þríleik hennar um Auði djúpúðgu en sú fyrsta, Auður, hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2009. Áður hafði Vilborg verið tilnefnd til sömu verðlauna fyrir skáldsöguna Hrafninn sem byggir á heimildum um lífshætti inúíta og norrænna manna á Grænlandi um miðja 15. öld.

Af öðrum verkum Vilborgar má nefna bókina Ástin, drekinn og dauðinn (2015) þar sem hún fjallar um dauða og sorg og hefur bókin vakið mikla athygli. Vilborg hefur auk þess þýtt verk á íslensku og skrifað ýmsar greinar í bækur og blöð. Þar má meðal annars telja „Konurnar í Kirkjubæ og veruleiki klausturlífsins„ í bókinni Af klaustrum og kennimönnum í Skaftafellsþingi (1999) og „Elves on the Move: Midwinter Mumming and House-Visiting Traditions in Iceland„ í bókinni Masks and Mumming in the Nordic Area (2007). 

Bækur eftir Vilborgu hafa komið út í þýðingum á önnur mál. 

Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.