Í bókinni Wednesday‘s Child birtu Antonia Bifulco og Patricia Moran niðurstöður rannsókna sinna um áhrif kynferðisofbeldis í æsku á þunglyndi á fullorðinsárum. Titillinn er fenginn úr enskri þjóðvísu um fæðingardaga:
Monday's child is fair of face Tuesday's child is full of grace, Wednesday's child is full of woe, Thursday's child has far to go, Friday's child is loving and giving, Saturday's child works hard for a living, But the child who is born on the Sabbath Day Is bonny and blithe and good and gay.
Samkvæmt þessu ætti aðalsöguhetja Fyrir Lísu, nýjustu skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur, í raun að vera kennd við miðvikudag; Martin Mittwoch hljómar þó ekki eins vel og Martin Montag. Hann birtist hér lesendum í annað sinn í sjálfstæðu framhaldi af skáldsögunni Jójó sem kom út fyrir síðustu jól.
Fortíð Martins hefur undið uppá sig, eins og gjarnan er þegar loks er sagt frá trámatískum atburði sem þaggaður hefur verið niður. En þá geta sprottið upp tengdar sögur úr fortíð og samtíð sem hafa áhrif á hvernig unnið er úr afleiðingum atburðarins. Að því leyti eru bækurnar tvær endurspeglun á frásagnarferlinu sem meðferð kemur oft af stað í kjölfar hörmunga í raunverunni. Það er á ýmsan máta sem verkið endurspeglar meðferð eða uppgjör eftir áfall í æsku. Eitt af frægum meðulum sálfræðinnar er samtalsmeðferðin og textinn einkennist einmitt af löngum samtölum sem Martin á við aðrar persónur, eins og ‚hinn‘ Martin, Petru konu sína, Lísu og fleiri. Samtölin snúast einatt um spennuna um hvert þau muni leiða – að segja frá eða þegja. Þessi togstreita hefur einkennt öll samskipti Martins og ýmsum spurningum er velt upp í því sambandi, til dæmis hvort að hinn viðtekni sannleikur okkar tíma, að segja frá sé alltaf betra en að þegja, sé réttmætur.
En hér er samt ítrekað að frásögnin sé frelsandi og léttir Martins er allt að því áþreifanlegur í kjölfarið. En það er ekki sama hver hlustar og viðbrögð hlustandans geta skipt sköpum. Ábyrgð þess sem hlýðir á trámatíska frásögn er því mikil, eins og ég hef rætt á öðrum stað (Ritið 2006/3). Þá er algengt minni í slíkum frásögnum hræðslan við að manni sé ekki trúað, eins og Primo Levi lýsir á áhrifamikinn hátt í helfararsögu sinni, Se questo è un uomo (Ef þetta er maður, 1947). Hann segir frá martröð sem hann fær í fangabúðunum; hann dreymir að hann sé kominn heim, sé að segja frá búðunum, en enginn hlustar. Og tilfinningin sem það hefur í för með sér er nánast óbærileg. Í Fyrir Lísu er þess konar reynslu einmitt lýst sem tvöföldu tráma – í fyrsta lagi áhrifunum sem atburðurinn sjálfur hefur og svo því að vera ekki trúað.
Eins og Jójó gerist Fyrir Lísu í Berlín og höfundurinn ferðast með okkur um einhvers konar undraveröld borgarinnar; við skreppum í japanska blómaskoðun, í snertimeðferð hjá undarlegum sálgreinanda í kirkjugarðskapellu og út að viðra hundinn á aflögðum Tempelhof-flugvelli. Ferðir persónanna um borgina eru mikilvægar í allri gerð sögunnar, húsakynni og umhverfi snar þáttur í sköpun andrúmslofts og myndrænni byggingu verksins. Eins og við er að búast af höfundi er stíllinn leikandi léttur, hreint ómótstæðilegur á köflum, Steinunn lýsir til að mynda hamingjustundum á sérlega sannfærandi og upplyftandi hátt, þó þungi áfalls og uppgjörs sé akkeri sögunnar. Slíkt samspil getur verið vandmeðfarið, að léttleikinn geri lítið úr erfiðu viðfangsefninu, en því er ekki að skipta hér. Jafnvægið er fullkomið, höfundurinn fær okkur til hlusta á Martin, fara með honum í sitt erfiða, en allt að því ævintýralega, ferðalag og með því staðfesta mikilvægi vitnisburðar hans og ekki síður mikilvægi þess að hlusta.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2012