Beint í efni

Galdrar á ströndum

Galdrar á ströndum
Höfundur
Kristín Helga Gunnarsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Barnabækur
Galdrar á ströndum
Höfundur
Magnús Rafnsson
Útgefandi
Strandagaldur
Staður
Hólmavík
Ár
2003
Flokkur
Fræðibækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Systurnar Úrsúla og Messíana eiga merkilega ömmu sem heldur draugaboð á hverju ári, og býður látnum ættingjum. Eldri bróðir þeirra, Valentínus, er í hljómsveit og hann þráir að vera galdramaður, en amman, Kolfríður, segir að hæfileikarnir erfist aðeins í kvenlegg, enda klúðrar drengurinn öllum göldrum sem hann kemur nálægt. Og þetta árið þarf svo sannarlega á galdri að halda, því óboðinn gestur kemur í boðið, sending, skotta, sem drekkur ótæpilega og veldur usla á heimili gömlu konunnar. Á sama tíma tekst syni hennar, uppfinningamanninum, að selja eina af uppgötvunum sínum og fyrir peninginn kaupir hann hálfgerðan rútubíl og öll fjölskyldan leggur upp á ferð á Strandir, en þaðan eru þau mæðginin upprunninn. Fljótlega kemur í ljós að ferð ömmunnar er engin tilviljun, hún er á leið að kveða niður skottuna, og í leiðinni þjálfast systurnar í fræðunum. Og svo kemur náttúrulega ýmislegt skemmtilegt upp á leiðinni, köttur ömmunnar sýnir sig ekki einhaman og skottan skemmtir sér og sonna. Sagan heitir Strandanornir (Mál og menning 2003) og er eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Í stuttu máli sagt er bókin afbragðsskemmtileg, sagan sniðug og vel fléttuð, hæfilega óhugnanleg á köflum, en aðallega bullandi af húmor og gleði. Engir vandræðaunglingar hér eða eymdarborgin Reykjavík, og afskaplega er það nú mikill léttir að lesa annaðslagið um ungt fólk sem er bara allt í lagi með! Sérstaklega er lokakaflinn skemmtilegur, þegar fjölskyldan staldrar við í aðal galdraþorpinu, en þar svífur dálítið Harry Potterísk stemning yfir vötnum (já ég er búin að játa annarsstaðar hér á síðunni að ég er með Harry Potter á heilanum!).

Það er sérlega gaman að sjá hvernig höfundar eins og Kristín Helga og Sigrún Eldjárn vinna með þjóðsagnaarfinn og finna honum nýjan stað í barnabókum sínum. Þjóðsögurnar lifna við í höndum þeirra, taka á sig nýtt form og hljóta að vekja áhuga og forvitni lesenda á öllum aldri.

Allavega vakti þetta áhuga minn á að lesa meira um galdramenn á Ströndum og hafði einmitt undir höndum bókina til þess, Angurgapa: Um galdramál á Íslandi (Strandagaldur 2003) eftir Magnús Rafnsson. Sú bók er gefin út í tengslum við galdrasýninguna á Ströndum sem nýlega komst í fréttir, annarsvegar vegna þess að Biskup var að gagnrýna galdrakukl (Harry Potter og ill áhrif hans, einhver?) og tók nefnda sýningu sem dæmi, og hinsvegar vegna þess að Jón Jónsson, stofnandi galdrasýningarinnar var verðlaunaður sem ferðafrömuður, en sýning hans hefur vakið mikila athygli og beint ferðamannastraumnum vestur í auknum mæli. Bókin Angurgapi er síðan gefin út sem einskonar inngangsrit um galdramál á Íslandi með áherslu á Vestfirði og sautjándu öld og virkar vel sem slík. Sumir lesendur munu kannski sakna túlkana á göldrum og stöfum á borð við þá sem Matthías Viðar Sæmundsson hefur boðið uppá í sínum skrifum um galdra – en þeim er ráðlagt að skoða bara hans ágætu bækur.

Magnús Rafnsson heldur sig við söguna, ræðir skort á heimildum og réttarkerfi þessa tíma, og lýsir atburðarás galdramála, sem oft endaði hvergi, á gagnorðan og skilmerkan hátt og gaf mér heilmikla innsýn inn í þennan séríslenska heim – sem er alveg ágætlega afrekað, því ég er bara nokkuð vel lesin á þessu sviði! Magnús leggur einnig áherslu á að fjalla um fólkið sem stóð að baki göldrunum og/eða galdraofsóknunum, og ræðir flókin fjölskyldutengsl þar að lútandi. Eins og sagnfræðingi sæmir setur hann þetta allt í sögulegt samhengi og bendir á hvernig siðaskiptin og konungsbréf nokkurt hafði mikil áhrif á hvernig tekið var á málunum, og svo hvernig nýjar hugmyndir í upphafi nýrrar aldar breyttu öllu aftur. Og svo ræðir hann tengslin við þjóðtrúna og þjóðsögur og er sú úttekt ekki síst skemmtileg.

Án þess að ætla að gerast þjóðrembingsleg, þá finnst mér full ástæða til að minna á að við Íslendingar, eða jafnvel vér Íslendingar, eigum mikið af skemmtilegu dóti í okkar menningarsögu, sem hægt er að nota á margvíslegan hátt í skáldskap, eins og þær Kristín Helga og Sigrún sýna framá í bókum sínum. Einnig er vert að nefna smásagnasafnið Auga Óðins hér, en þar hafa nokkrir barnabókahöfundar skrifað smásögur útfrá Snorra Eddu og norrænu goðafræðinni. Að lokum vil ég nefna hina afbragðsgóðu nóvellu Sjóns, Skugga-Baldur, en hún er að mínu mati einfaldlega besta bókin í ár.

Verk Kristínar Helgu og Magnúsar standa fyrir tvær gerólíkar nálganir á þennan menningararf, báðar leiðirnar geta af sér fínar bækur sem óhætt er að mæla með.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2003