Serótónínendurupptökuhemlar er þriðja skáldsaga Friðgeirs Einarssonar, rithöfundar og sviðslistamanns, en hann hefur vakið athygli fyrir verk sem eru í senn yfirþyrmandi hversdagsleg og ísmeygilega fyndin. Serótónínendurupptökuhemlar eru þar engin undantekning og titillinn sjálfur er nóg til að fá mann bæði til að reka upp stór augu og flissa dálítið, enda er þetta ábyggilega mesti tungubrjótur jólabókaflóðsins 2023. Skáldsagan fjallar um Reyni, miðaldra fjölskylduföður sem rekur hjólabúð, og baráttu hans við þunglyndi. Bókin hefst á heimsókn Reynis til læknis þar sem hann fær uppáskrifuð þunglyndislyf, sena sem er einstaklega góð lýsing á íslenska heilbrigðiskerfinu. Friðgeir dregur upp sannfærandi mynd af kvíða og þunglyndishugsunum Reynis og dansar fimlega á mörkum þess að vera harmrænn og fyndinn, enda mætti hæglega lýsa verkinu sem grátbroslegu. Innri rödd Reynis, sem dúkkar reglulega upp í formi niðurrifshugsana og hrakspáa, ætti að vera mörgum sem glímt hafa við lágt sjálfsmat kunnugleg en eins óbærilegt og það hlýtur að vera að upplifa slíkt þá verður hún líka óbærilega fyndin í meðförum Friðgeirs, svo absúrd er þessi innri einræða:
Innra með Reyni kvað rödd sér hljóðs.
„Reynir“, ávarpaði hugsunin hann.
„Já,“ svaraði Reynir.
„Þú ert aumingi,“ sagði hugsunin.
„Er ég það, já?“ sagði Reynir.
„Þú ert algjör djöfulsins aumingi. Algjörlega misheppnaður.“
„Ókei,“ sagði Reynir. „Segjum það þá.“ (18)
Það er ekki laust við að lesandi fái smá samviskubit við að hlæja að aðstæðum blessaðs Reynis en Friðgeiri tekst einkar vel upp með að lýsa hvernig þunglyndi og kvíði getur í senn verið algjörlega óyfirstíganlegur og gjörsamlega ólógískur sjúkdómur.
Hið ofurraunsæja listaverk
Skáldskapur Friðgeirs Einarssonar er yfirleitt kyrfilega staðsettur í hversdeginum og eitt af höfundaeinkennum hans eru nákvæmar lýsingar á daglegu lífi sögupersónanna. Líkja mætti þessu við bókmenntalega hliðstæðu listastefnunnar ofurraunsæis (e. hyperrealism) helstu einkenni hverrar eru að skapa listaverk sem eru svo nákvæm eftirmynd frummyndarinnar að það verður ekki bara nánast ómögulegt að greina þar á milli heldur verða listaverkin allt að því ankannaleg í fastheldni sinni við hinn hlutlæga veruleika. Sem dæmi um ofurraunsæ listaverk má nefna skúlptúra bandaríska listamannsins Duane Hanson af skúringakonu við störf sín og túrista að bíða eftir flugi, auk verka ástralska listamannsins Rons Mueck sem vakið hefur athygli fyrir gríðarstóra skúlptúra þar sem sjá má til dæmis nýfætt barn í yfirstærð.
Skáldskapur Friðgeirs Einarssonar hefur svipuð áhrif og þessi ofurraunsæju listaverk. Með því að endurskapa ytri veruleikann með nákvæmni myndhöggvarans, nánar tiltekið hversdagsleikann með allri sinni lágkúru og tilbreytingarleysi, tekst höfundi að framandgera hið daglega líf og gera það sem er venjulegt aftur forvitnilegt. Friðgeir fór að ystu þolmörkum þessarar frásagnartækni í fyrstu skáldsögu sinni, Formaður húsfélagsins, sem var eiginlega svo leiðinleg að hún fór heilan hring og varð aftur skemmtileg. Í Serótónínendurupptökuhemlum virðist hann hafa fundið ákveðið jafnvægi og þótt framvindan í bókinni sé hæg og viðfangsefnið þungt þá leiðist manni aldrei lesturinn.
Sannfærandi persónusköpun
Höfundi tekst vel upp með persónusköpunina og eru Reynir, eiginkona hans Gerður, og börnin þeirra Ísak og Malla, öll áhugaverðir og margræðir karakterar sem er áhugavert að fylgjast með. Sagan er að mestu leyti sögð frá sjónarhorni Reynis en tveir kaflar eru skrifaðir frá sjónarhorni Gerðar og er kærkomið að fá einnig hennar sýn á framvinduna. Í einni kostulegri senu fer Reynir með dóttur sína Möllu út á róló og þar skína allir helstu eiginleikar skáldsögunnar í gegn; fáránleiki þunglyndisins, lúmskur húmorinn og framandgerving hversdagsleikans:
Í sandinum í botni kofans var bleik klessa, sennilega bráðnaður ís, lykt af vanillu og jarðarberjabragðefni lagði að vitum. Vætan úr jörðinni smaug gegnum fötin. Reyni varð fljótt kalt. Á einhvern hátt gerði kuldinn líðan hans bærilegri, það var þrátt fyrir allt saman skiljanlegri uppspretta vanlíðunar. Hann lagðist á magann, lét andlitið hvíla í sandinum, skalf í fyrstu en smám saman var eins og hrollurinn færi úr honum, líkaminn hætti að berjast á móti, það hægði á hjartslættinum, hugurinn róaðist.
„Þú ert maðkur,“ sagði Malla. Það var honum viss huggun að hún sætti sig við þessa stellingu. (47-48)
Reynir sjálfur er á yfirborðinu fremur óspennandi karakter, miðaldra maður sem þrátt fyrir að starfa við sína helstu ástríðu, hjólreiðar, fær litla ánægju út úr vinnunni og raunar bara lífinu almennt, sökum veikinda sinna. Lesendur fá lítið að vita um baksögu Reynis, annað en það að hann hefur alla tíð haft gaman af hjólreiðum og á að minnsta kosti einn vin, Binna, sem deilir sama áhugamáli. Engu að síður virkar Reynir vel sem sögumaður sem stafar kannski af því að hinar persónurnar eru þeim mun áhugaverðari, til dæmis eiginkona Reynis; hvatvísa leikkonan Gerður, skapstygga dóttir þeirra Malla, hinn duli Ísak; sonur Gerðar úr fyrra hjónabandi, og barnsfaðir Gerðar; ráðríki leikstjórinn Maríus. Í sögunni kemur skýrt fram hvernig þunglyndi Reynis litar öll samskipti hans við fólkið í kringum hann, eins og til dæmis þegar Reynir gerir árangurslausa tilraun til að tengjast Ísaki, stjúpsyni sínum, og spyrja hann út í skólann og fábreytt félagslíf hans.
Bókin lýsir því vel hversu einangraður Reynir er í sínum eigin huga, þunglyndið leggst yfir alla hans tilveru eins og mara sem ekkert sleppur undan, og jafnvel þótt hann geri sér grein fyrir alvarleika ástandsins getur hann ekki losað sig undan því svo auðveldlega.
Umhugsunarverður endir
Í gegnum skáldsöguna er reglulega vísað til áreksturs sem Reynir er sagður hafa lent í áður en sagan hófst sem olli því að bíll þeirra Gerðar eyðilagðist og hann sjálfur slasaðist. Friðgeir notar áreksturinn til að kynda undir spennuna og skapa dulúð en það hvernig slysið átti sér stað er ekki að fullu útskýrt fyrr en undir lok bókar og neyðast lesendur því til að geta í eyðurnar. Áreksturinn virkar í senn sem myndlíking fyrir þungyndi Reynis, botninn sem hann lenti á áður en hann ákvað að leita sér hjálpar, og sem raunveruleg ógn, áfall sem hann hefur ef til vill ekki enn unnið úr og reynir sitt besta til að ýta burt frá sér. Bílleysi Reynis er jafnframt uppspretta síendurtekinna þráhyggjuhugsana um hvort hann eigi að kaupa sér nýjan bíl sem skjóta reglulega upp kollinum nánast frá upphafi bókar og ná hápunkti í kaflanum „Góð manneskja“.
Kaflinn, sem tekur á sig form ímyndaðs samtals á milli Reynis og félaga hans Binna, kjarnar fullkomlega þær áráttukenndu kvíðahugsanir sem einkenna veikindi Reynis og það er í senn fyndið, frústrerandi og tragískt að fylgjast með honum falla ofan í hringiðu þessara hugsana. Eins og flestir sem glímt hafa við kvíða vita þá getur kvíðinn beinst að stórum jafnt sem smáum hlutum enda reynist það Reyni gjörsamlega ómögulegt að skilja kjarnann frá hisminu á þessu stigi málsins. Í huga Reynis verða því vandræðaleg samskipti hans við konu sem vildi kaupa af honum hægindastól að álíka alvarlegu atviki og foreldrafundur vegna ofbeldis sem stjúpsonur hans Ísak var beittur í skólanum. En í stað þess að Reynir leiti sér hjálpar eða stuðnings hjá vinum sínum og fjölskyldu dregur hann þá ályktun að það besta í stöðunni væri að hann myndi einfaldlega hætta að vera til. Svo litlu máli skiptir tilvera Reynis, að hans eigin mati, í hinu stóra samhengi.
Hann hefði aldrei átt að verða faðir, hugsaði Reynir. Líf hans hafði verið ein samfelld röð mistaka. Allt myndi halda áfram þó að hann væri ekki til og hefði aldrei verið til, jörðin héldi áfram að snúast, dagarnir héldu áfram að líða. Einhver annar myndi taka yfir hans verkefni. (150)
Þetta er bæði sláandi og átakanleg lýsing og Friðgeiri heppnast meistaralega vel að lýsa hinum þunglynda huga Reynis án þess þó að steypa lesendum alla leið ofan í svartnættið. Í síðasta kafla bókarinnar er þó farið að örla fyrir smá sólarglætu í tilveru Reynis. Hann er loksins búinn að festa kaup á nýjum bíl og er á leiðinni að keppa í hjólakeppni með vini sínum Binna úti á landi. En þótt kvíðanum hafi verið úthýst virðist hann ekki vera alveg horfinn, því eins og Reynir orðar það sjálfur í öðru ímynduðu samtali, þá verður lífið ekkert endilega auðveldara þótt maður læri að takast á við það. „Ef einhver segir að það verði auðveldara, lífið, þá er það ekki rétt. Ef eitthvað er verður það enn óskiljanlegra. Ég vildi bara að þú vissir þetta. En maður venst því smám saman“ (175).
Endir bókarinnar er í senn hjartnæmur og óræður og kjarnar þannig vel glímu sögupersónunnar við sjúkdóm sinn. Hugsanlega gæti þeim sem þjást af alvarlegu þunglyndi og/eða kvíða þótt bókin erfið yfirlestrar en hún er þó umhugsunarverð innsýn inn í einn útbreiddasta sjúkdóm samtímans. Bókin líður örlítið fyrir skort á prófarkalestri og sums staðar má finna hvimleiðar stafsetningarvillur sem vonandi verða lagaðar í endurprentun en á heildina litið er Serótónínendurupptökuhemlar vel skrifuð og vel uppbyggð skáldsaga og ein besta bók Friðgeirs Einarssonar.
Þorvaldur S. Helgason, desember 2023