Stefán Máni hefur aldrei verið tekinn í „turnatalið“ í hinni hefðbundnu og klisjulegu umræðu um íslenskar glæpasögur. Lengi var það alltaf „Arnaldur og Yrsa“, svo urðu turnarnir þrír, með Ragnar Jónasson á nýjasta horni íslenska krimmakastalans. Næstar inn líklega Lilja Sigurðardóttir og Eva Björg Ægisdóttir. Spurning líka hvort Arnaldur sé byrjaður að reisa nýjan turn, sennilega danskan og sívalan, með sögulegum skáldsögum sínum. En Stefán Máni er aldrei hafður með í þessum samkvæmisleik, þrátt fyrir langan feril, frábæra ritfærni, sterka sérstöðu, mikil afköst, og ágætisárangur.
Hitt er annað mál: Einungis hinn löngu horfni Erlendur hans Arnaldar skákar Herði Grímssyni í persónulegum vinsældum. Enda hreint ótrúlegt sköpunarverk, margslungið og mótsagnakennt. Ofurklár, drykkfelldur og alvarlega félagsfatlaður risi, með snert af skyggnigáfu sem oft kemur í góðar þarfir þegar herslumuninn vantar til að leysa gáturnar, eða stýra eftirgrennslunum í rétta átt.
Þannig er það til dæmis í nýjustu bókinni, Dauðinn einn var vitni. Sem einnig er sú nýjasta í tímalínu rauðhærða risans, en bálkurinn um hann felur í sér framvindu þó bækurnar hafi ekki verið skrifaðar í þeirri röð. Þetta er allt útskýrt í upphafi nýju bókarinnar og kemur sér vel fyrir þau sem vilja kafa í (van)þroskasögu þessa einstaka gallagrips. Fyrir þau sem eiga Harðar sögu ólesna er örugglega skemmtilegt að lesa hana í „vegferðarröð“ persónunnar, ekki síður en í ritunarröðinni.
Þegar hér er komið sögu er Hörður kominn á vísitölubrautina. Býr með ástríkri og merkilega skilningsríkri eiginkonu og kotrosknum fjögurra ára syni í fjölbýlishúsi í Grafarvoginum. Auðvitað riðar þetta samt allt til falls. Eins og er næsta viðtekið í nútímakrimmum skandinavískum.
Annað algengt einkenni á þeim er að tveimur málum vindur fram en fléttast á endanum saman. Þannig er það hér, bæði á einkalífs- og atvinnusviðinu. Við hittum „rauðhærða risann“ fyrst fyrir uppi í Borgarfirði þar sem hann er að reisa sér lítinn sumarbústað. Bókstaflega „sér“, því þessi einræni maður ætlar að halda þessu afdrepi leyndu fyrir Bíbí og Pétri litla, en sækja þangað sálarró í einsemdina þegar hvunndagsraunirnar ríða honum óvenju mikið á slig.
Annað laumuspil er líka í gangi, algengara en á endanum alvarlegra: hann pukrast með áfengi heimavið. Stefán fer gjarnan alveg að landamærum farsans með vandræðagang Harðar í samskiptum hans við samferðafólk, sérstaklega sína nánustu, og svo verður líka hér með ágætum árangri. Varla er miklu ljóstrað upp þó sagt sé frá því að a.m.k annað leyndarmálið springur í andlitið á honum áður en yfir lýkur.
Á sama tíma gerir eltihrellir vart við sig í Smáíbúðahverfinu, og torræð skilaboð berast lögreglunni í Tetrakerfinu, sem almenningur á ekki að hafa aðgang að. Enginn tekur þau alvarlega í fyrstu en gæsahúð Harðar Grímssonar er næmari en flestra og fljótlega kemur á daginn að eðlisávísun hans hefur á réttu að standa: fjöldamorð standa fyrir dyrum í Reykjavík á fyrsta illviðrisdegi ársins í nóvemberbyrjun. Nákvæmlega hvernig þetta allt tengist þremur skrítnum köllum á vélaviðgerðaverkstæði í Smiðjuhverfinu í Kópavogi kemur síðan smátt og smátt í ljós.
Þetta er harðsoðin og spennandi lesning, en virkar líka dálítið hraðsoðin. Ráðgátan um fjöldamorðingjan leysist dálítið auðveldlega, innsæi og skyggnigáfa Harðar virkar dálítið eins og svindlmiði í því prófi sem fléttugerð er. Á hinn bóginn er Stefán Máni alltaf góður í stórfelldum hamförum á borð við þær sem hér vofa yfir næstum alla bókina. Fyrir utan að vera flinkur og þrautþjálfaður raunsæishöfundur er hann óhræddur við að sviðsetja svona viðburði í íslensku samhengi. Ferð fjöldamorðingjans um gróin hverfi Reykjavíkur eru fyrir vikið merkilega sannfærandi þó svona hafi vitaskuld aldrei gerst og gerist vonandi aldrei.
Annað sem hann gerir frábærlega er að nota tónlist til áhrifsauka, og þá ekki síður að lýsa henni. Í einum af eftirminnilegustu köflum bókarinnar hlustar ein persóna hennar á kassettu með prufuupptökum kunningja síns og Stefán lýsir því sem hann heyrir þannig að það er næstum hægt að tengja rafmagnsgítar og endurskapa demóin. Annað tónlistartengt minnir líka á svartan húmor höfundarins: lagalistinn sem hljómar á X-inu, eftirlætisútvarpsstöð hins svartklædda og þungbúna Harðar, meðan atburðarásin nær hámarki, endurspeglar snilldarlega stemminguna í borg undir umsátri. „Riders on the Storm“ með Doors, „Rain when I Die“ með Alice in Chains og auðvitað R.E.M. slagarinn „It’s the End of the World as we Know It“ eru þar á meðal.
Morðinginn og baksaga hans kannski dálítið klisjuleg og hefði alveg þolað aðeins þéttari lýsingu. Þá er hér kynntur til sögunnar ansi hreint spennandi ríkislögreglustjóri með nettar fasískar tilhneigingar, en hverfur úr sögunni þegar atburðarásin fer á yfirsnúning, án þess að hafa lent í sérlega spennandi árekstrum við okkar mann, og lesandanum þykir nánast búið að lofa sér.
En þá ber að hafa í huga að þetta er bálkur sem er hvergi nærri lokið og aldei að vita hvert Stefán Máni teymir sinn tröllslega vandræðagepil á næsta ári. Lokakaflinn er fallegur, þar sem Hörður Grímsson stendur einn, merkilega sáttur, með bjarmann af brennandi brúm í baksýn. Sem er trúlega þar sem hjarta hans slær.
Þorgeir Tryggvason, desember 2024